Stafaklútar

Stafaklútar eru lítil taustykki með útsaumuðum bókstöfum, oftast öllu stafrófinu. Tölustafir eru einnig algengir á klútunum sem og litlar myndir og munstur, og á mörgum þeirra má sjá fangamörk eiganda eða nafn og ártal. Gerð stafaklúta var æfing í útsaumi en einnig varð klúturinn persónuleg fyrirmynd við útsaum í stað bókar. Stafaklútar hafa verið þekktir í nágrannalöndum okkar um aldir, voru upphaflega sýnishornaklútar kvenna en urðu síðan fastur liður í hannyrðakennslu í skólum. Borgarsögusafn Reykjavikur varðveitir um þrjátíu stafa- og prufuklúta. Hér eru sýndir þeir klútar sem eru saumaðir með krosssaum og líklegast allir saumaðir af börnum. Stafaklútarnir eru misstórir og og töluvert misjafnir að gerð en hlutverk þeirra virðist ætíð það sama, æfing í útsaumi og eigulegur leiðarvísir við að merkja sér nytjahluti eins og sængurfatnað og handklæði. Stafaklútur saumaður í æsku gat því fylgt eigandanum gegnum lífið. Vitað er að sumir þessara klúta voru saumaðir heima en aðrir í skóla. Auk þess voru stafaklútar notaðir af handavinnukennurum í skólum sem fyrirmynd í stað munsturbóka. Einn af áhugaverðari klútum í varðveislu Borgarsögusafns er saumaður af Bjarna Þorlákssyni Johnson árið 1886. Stafaklútur Bjarna er merkileg heimild. Í fyrsta lagi er hann saumaður af strák, auk þess sem hann er elsti stafaklúturinn í vörslu safnsins. Þá tengist klútur Bjarna einnig  húsinu Lækjargötu 4 sem nú er í Árbæjarsafni. Bjarni Þorláksson (1878-1935), síðar sýslumaður Dalamanna, var sonur Ingibjargar Bjarnadóttur (1850-1930) kaupkonu og Þorláks Ó. Johnson (1813-1917) kaupmanns í Reykjavík. Þau hjónin bjuggu í húsinu Lækjargötu 4 en faðir Ingibjargar, Bjarni á Esjubergi hafði keypt húsið árið 1874. Ingibjörg stofnaði síðar, eftir 1892, hannyrðaverslun í húsinu undir eigin nafni, Verzlun Ingibjargar Johnsen. Líklega hefur Bjarni saumað stafaklútinn heima, eflaust undir handleiðslu móður sinnar, því formleg handavinnukennsla barna í Reykjavík hófst ekki fyrr en árið 1901. Ef skoðaðar eru færslur á sarpur.is um stafaklúta kemur í ljós að Bjarni er ekki eini strákurinn sem saumaði út. Í Safnhúsi Borgarfjarðar er varðveittur stafaklútur saumaður af Hannesi Jónssyni, Stóra Ási, safnnúmer 3075.  Einnig er varðveittur stafaklútur í Heimilisiðnaðarsafninu, safnnúmer HIS-306, sem Jóhann Sverrir Kristófersson saumaði 1931, þá 10 ára, „Saumaði hann að ósk móður sinnar, Dómhildar Jóhannsdóttur.“ Eins má finna frásagnir í Þjóðháttasafni Þjóðminjasafnsins um stráka sem fengu að læra að sauma út með systrum sínum. Borgarsögusafn Reykjavíkur varðveitir merkilegt safn textíla sem tengist skólahandavinnu. Þar er meginuppistaðan afrakstur söfnunar, greiningar og skráningar þeirra Sigrúnar Guðmundsdóttur fyrrverandi lektors í HÍ og Sigrúnar L. Baldvinsdóttur fyrrverandi handavinnukennara. Þær nöfnur áttu frumkvæðið að markvissri söfnun þessara muna í samráði við Borgarsögusafn. Stafaklútur Bjarna kom einmitt inn í þeirri söfnun auk fleiri áhugaverðra muna sem eru nú aðgengilegir í Sarpi og geta nú lagt grunn að frekari rannsóknum.
Sýningarstjóri
Gerður Eygló Róbertsdóttir
Aðföng
16
Aðföng á sýningu