Borgarsögusafn Reykjavíkur
Borgarsögusafn Reykjavíkur var stofnað 2014 og því tilheyra sýningarstaðirnir Árbæjarsafn, Aðalstræti, Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Sjóminjasafnið í Reykjavík og Viðey.
Hlutverk safnsins er að safna, skrásetja, varðveita og rannsaka menningaminjar sem eru einkennandi fyrir menningararf borgarinnar og miðla sögu hennar og menningu frá landnámi til samtímans. Safnið sinnir einnig minjavörslu í Reykjavík, stundar rannsóknir á byggða- og byggingasögu og heldur skrár yfir fornleifar, hús og mannvirki í borginni.
Árbæjarsafn er útisafn og auk Árbæjar eru þar til sýnis yfir 20 safnhús sem mörg hver hafa verið flutt úr miðbæ Reykjavíkur. Í Árbæjarsafni er leitast við að gefa hugmynd um húsagerðir og lifnaðarhætti í Reykjavík fyrri tíma. Í safninu er boðið upp á fjölda sýninga og viðburða.
Aðalstræti, í Aðalstræti 10 og 16 er fjallað um þróun Reykjavíkur frá landnámi til dagsins í dag. Þungamiðja þeirrar sýningar er skálarúst frá 10. öld sem grafin var upp við fornleifarannsókn við Aðalstræti árið 2001 en einnig má þar sjá niðurstöður og ýmsa muni úr öðrum rannsóknum á svæðinu. Í milligangi og í Aðalstræti 10 heldur sagan áfram, þróunin frá býli í þorp, úr bæ í borg.
Ljósmyndasafn Reykjavíkur safnar ljósmyndum og heimildum tengdum ljósmyndaiðkun atvinnu- og áhugaljósmyndara. Hluti ljósmynda Ljósmyndasafns Reykjavíkur er aðgengilegur á ljósmyndavef safnsins hér.
Sjóminjasafnið í Reykjavík, var stofnað árið 2004. Hlutverk þess er að safna, varðveita og rannsaka sjóminjar sem einkanlega hafa gildi fyrir sögu Reykjavíkur.
Viðey er sögustaður og náttúruperla. Þar er að finna mannvistarleifar allt frá landnámstíð, en einnig minjar um klaustur á 13. öld. Í Viðey standa ein elstu hús landsins, Viðeyjarkirkja og Viðeyjarstofa frá tímum Skúla Magnússonar á 18. öld. Í Viðey er einnig að finna ein merkustu listaverk borgarinnar, Áfanga Richard Serra og Friðarsúlu Yoko Ono.
Borgarsögusafn Reykjavíkur safnar munum frá Reykjavík og nágrenni, bæði lausum munum og ljósmyndum. Söfnunarstefnan tengist sýningarstefnu safnsins sem og annarri starfsemi og miðlun.
Safngripir í sviðsljósinu
Áhugaverðar vefsýningar






















