Listasafn Íslands

Listasafn Íslands var stofnað í október 1884 í Kaupmannahöfn af Birni Bjarnarsyni, síðar sýslumanni. Stofn safnsins voru gjafir listamanna, einkum danskra. Listasafnið var sjálfstæð stofnun frá 1884 til 1916 er Alþingi ákvað að gera það að deild í Þjóðminjasafni Íslands. Með lögum um Menntamálaráð 1928 var safnið síðan sett beint undir stjórn ráðsins. Verk safnsins voru til sýnis í Alþingishúsinu frá 1885 til 1950 þegar það fluttist í safnahúsið við Suðurgötu sem það deildi með Þjóðminjasafni Íslands. Listasafnið var formlega opnað þar 1951 og hlaut fullt sjálfstæði að lögum árið 1961. Árið 1987 fluttist safnið að Fríkirkjuvegi 7. Aðalbyggingin var reist sem íshús árið 1916 eftir uppdráttum Guðjóns Samúelssonar en nýbyggingin er verk Garðars Halldórssonar, húsameistara ríkisins. Listasafn Íslands er þjóðlistasafn og leggur megináherslu á list frá lokum 19. aldar til samtímans, íslenska og erlenda. Það á merkasta safn íslenskra verka hér á landi eftir alla helstu myndlistarmenn þjóðarinnar. Það hefur einnig að geyma safn erlendra verka eftir heimskunna listamenn. Listasafni Íslands varðveitir tæplega 16.000 listaverk og bætist stöðugt við safneignina. Safnið kaupir einkum ný verk innlendra listamanna sem endurspegla strauma og stefnur í íslenskri myndlist. Fjöldi listamanna og annarra einstaklinga hefur einnig fært safninu gjafir og metur safnið mikils þann velvilja sem því hefur verið sýndur með þessum hætti. Listasafn Íslands heldur að staðaldri fjölbreyttar sýningar sem endurspegla listaverkaeign þess. Auk þess efnir það árlega til víðtækra sérsýninga á verkum íslenskra sem erlendra listamanna. Í tengslum við þær eru gefin út ítarleg og vönduð rit. Í safnbyggingunum að Fríkirkjuvegi 7 eru fjórir sýningarsalir á þremur hæðum, safnbúð og kaffihús. Listaverkstæði er á annarri hæðinni þar sem fjöldi námskeiða er í boði fyrir börn. Í Safnahúsinu við Hverfisgötu 15 er fastasýning úr safneign Listasafns Íslands á öllum fjórum hæðum hússins, salur fyrir viðburði og fundarherbergi. Í skrifstofubyggingunni að Laufásvegi 12 er heimilda- og ljósmyndasafn og forvörsludeild.
Safngripir í sviðsljósinu

Áhugaverðar vefsýningar