Laufabrauð

04.12.2020

Aðrar upplýsingar

Kyn / Fæðingarár heimildarmanns
Kona (1983)
Ártal
Sent dags: 04.12.2020
Safnnúmer
Safnnúmer B: 2020-3-118
Staður
Núverandi sveitarfélag: Hafnarfjarðarkaupstaður, Hafnarfjarðarkaupstaður
Spurningaskrá / Svör
Gerði fjölskylda þín laufabrauð á æskuárum þínum? Ef svo er, hverjir á heimilinu tóku þátt? Komu aðrir að laufabrauðsgerðinni en heimilisfólkið? Hverjir, ef svo er?
Já, við konurnar í fjölskyldunni skárum út laufabrauð. Ég, mamma, systir mín og ýmsar frænkur í móðurættinni.

Fór laufabrauðsgerð sem þú tókst þátt í eingöngu fram á heimili þínu eða á fleiri stöðum? Hvaða stöðum?
Fór nokkrum sinnum fram á heimili frænku minnar, Unnar Eyfells sem bjó við Selvogsgrunn, 104 Rvk.

Hvar og hvernig kynntust foreldrar þínir þessari hefð? Nefndu einnig sveitarfélag og hvort það var í þéttbýli eða til sveita.
Ég held að mamma hafi bara kynnst þessu hér í RVK í gegnum móðurætt sína.

Var laufabrauðið sem þú þekktir í æsku svipað því sem kallað er laufabrauð í dag? Ef ekki, gætir þú lýst brauðinu sem kallað var laufabrauð í þínu ungdæmi?
Já það er eins. Mamma notast við uppskrift sem hún fékk frá einhverri frænkunni eða mömmu sinni. Þetta eru grófari kökur en þessar hefðbundu þar sem þessar sem við gerum innihalda hveiti, rúgmjöl og heilhveiti.

Ef að þú komst ekki að gerð laufabrauðs í æsku en tókst þátt í henni seinna á ævinni, hvaðan og hvenær kom hún inn í líf þitt?
Á ekki við.

Býrð þú til laufabrauð í dag? Gerir þú það með fleiri en einum hópi, ef svo er? Hvaða hópum?
Já við skerum út í dag en nú hefur hefðin færst yfir á mitt heimili, þ.e. laufabrauðs partíið er haldið heima hjá mér - þar sem ég er í stærsta húsinu og ábyrgðin á þessum viðburði hefur færst yfir á mig, sem er mjög gaman en það bara gerðist á einhvern óútskýrðan hátt :) Held að þetta sé venjan í móðurfjölskyldunni, þ.e. að gera eina af yngri konunum að "alpha" í þessari hefð svo hún lifi örugglega áfram.

Kemur þú að gerð laufabrauðs á hverju ári eða hefur þú hugsanlega tekið pásu um lengri eða skemmri tíma? Hvers vegna?
Þetta hefur verið á hverju ári nema þegar veikindi hafa staðið því í vegi.

Er sérstakur dagur og tími tekinn frá fyrir laufabrauðið? Hvernig er hann valinn? Er gert laufabrauð á öðrum tímum árs en fyrir jólin? Ef svo er, hvenær og við hvaða tækifæri?
Ákjósanlegast er að gera þetta á laugardeginum fyrir fyrsta í aðventu svo hægt sé að bjóða uppá þetta með hangikjötinu daginn eftir. Það hefur ekki alltaf tekist (auk þess sem hangikjöts hefðin hefur aðeins skolast til v. háþrýstings tiltekinna þátttakenda) en lykilatriði er að þetta fari fram á laugardegi svo hægt sé að gera sér glaðan dag og hvíla sig daginn eftir. Þessu fylgir alls ekkert "djamm" en gömlu fá sherrí og svo erum við með veitingar. Það þarf að taka til eftir svona dag og í raun skúra allt húsið og lofta vel út (vegna steikingarinnar). Ég sé orðið um að fletja út deigið og það eru meiriháttar átök að ná því réttu, þ.e. þannig að kökurnar séu mjög þunnar. Ég finn fyrir þessum "æfingum" næstu daga á eftir :)

Hvaða hugmyndir hefur þú um útbreiðslu laufabrauðs í dag? Finnst þér að hún hafi farið vaxandi eða minnkandi á síðustu 20-30 árum eða stendur hún kannski í stað?
Ég er ansi hrædd um að þetta hafi farið minnkandi. Þó velti ég því fyrir mér hvort þetta sé á uppleið aftur. Mér þykir þetta hafa verið á á nokkrum heimilium í ár sem ég þekki til.

Hvaða áhrif hefur COVID-19 á laufabrauðsgerð þína? Koma vídeó-símtöl á netinu, eins og t.d. á Facebook, hugsanlega við sögu? Getur þú sagt frá þessu, ef svo er?
Áhrifin eru í raun bara þau að við þurftum að hugsa um fjölda þátttakenda, annað ekki. Við erum aldrei mjög margar þannig að þetta var ekki vandamál í ár. Okkur fannst þetta ekki hafa nein áhrif á okkur.

Eru einhverjir sem halda utan um daginn eða sjá til þess að nóg sé af öllum áhöldum og öðru sem til þarf? Hverjir, ef svo er?
Mamma er með uppskriftina í sinni handskrifuðu uppskriftabók. Hún ræðir þetta við mig (sem húsráðanda) um hvað þurfi að útvega. Við finnum til það sem þarf í sameiningu. Frænkurnar eiga sín járn og þetta er allt notað í sameiningu hér. Mamma á tiltekinn disk sem er "akkúrat rétta stærðin" fyrir kökunar. Hann er semsgat lagður á deigið og kökur skornar eftir honum, með heilögu kleinujárni sem gengið hefur kvenna á milli - það virðist vera mjög gamalt.... spurning að koma því á safnið... :)

Búið þið til deig sjálf eða kaupið þið það tilbúið og fletjið út? Kaupið þið útflattar kökur?
Við búum til deigið. Það samanstendur af hveiti, heilhveiti og rúgmjöli. Mamma hefur verið að fletja þetta út með kökukefli og skera út kökur sbr. spurningu hér að ofan, en núna er búið að koma þessu yfir á mig. Eða ég semsagt tók þetta að mér vegna þess að ég er með yngri kropp en hinar og þetta er erfiðisvinna skal ég segja ykkur! Tvíburasystir mín vill ekki þetta deig svo það eru líka keyptar tilbúnar kökur frá Kristjáni eða öðrum aðila. Þetta er svo skorið út hér og fær sömu meðhöndlun og okkar kökur.

Hvaða korntegundir eða hugsanlega blöndu af þeim notið þið í deigið? Hvaða önnur hráefni eru notuð?
Hveiti, heilhveiti og rúgmjöl.

Hverjir búa til deigið? Þekkist kynja- eða verkaskipting við að hnoða og fletja deigið? Segðu frá því, ef svo er.
Já, semsagt sjá spurningu hér að ofan. Mamma hefur verið í þessu en nú er ég tekin við - það þýðir þó ekki að móðir mín hafi stigið til hliðar... Hún vaktar það sem ég geri eins og haukur en hún "er samt alls ekki stjórnsöm" :) Hún er eðli máls samkvæmt bara að tryggja að ég geri þetta rétt því hefð er hefð og við viljum vanda okkur.

Hvaða áhöld og annan útbúnað notar þú við laufabrauðsskurðinn? Segðu frá því og hvaða hlutverki þau gegna.
Laufabrauðsjárn sem mamma á og frænka mín. Svo notuð við litla beitta hnífa til að lyfta upp skurðinum og fella niður. Gaffla notum við svo til að stinga kökurnar áður en þær eru steiktar (til að koma í veg fyrir stórar loftbólur).

Eiga eldri áhöldin sér sögu? Hafa einhver þeirra t.d. erfst á milli kynslóða? Hvaða áhöld, ef svo er? Hver átti þau fyrst?
Já það er þarna tiltekið kleinujárn (sem notað er til að skera deigið) og það virðist vera nánast forsögulegt... Held að það komi frá einhverri formóðurinni.

Hvaða munstur skerð þú helst út? Ber útskurðurinn eða munstrin sem þú notar einhver heiti? Hvaða heiti? Er eitthvað sem þér finnst að eigi ekki að skera út í laufabrauð? Hvað og hvers vegna, ef svo er?
Mér finnst fallegast þegar kökurnar eru skornar sem mest en við notum járnin, erum ekki að skera "fríhendis". Við erum með gamlar fyrirmyndir sem við byrjum á því að styðjast við, svo þegar líður á daginn þá fara konur jafnvel að prófa að búa til ný mynstur.

Hvað ræður því helst hvað þú skerð út? Skipta hefðir máli í þessu sambandi eða hvaðan færð þú hugmyndirnar? Vilt þú nostra við útskurðinn, gera flókin mynstur eða vera fljótur vegna þess að það eru margar kökur sem þarf að skera út?
Í upphafi dags þá er maður svolítið að koma sér í gang, um miðbik dags þá er sjálfsöryggið komið og flóknari mynstur sjást. Undir lok dags þegar þreytan er farin að segja til sín er þetta svolítið "jæja, klárum þetta"

Er eitthvað sem þér finnst skemmtilegra eða leiðinlegra að skera út en annað? Hvað, ef svo er? Eða er þetta kannski alveg hlutlaust?
Allt mjög skemmtilegt.

Hvað skera aðrir út í þínum hópi? Er það á einhvern hátt frábrugðið því sem þú gerir?
Nei við erum allar með járnin og skerum út ýmislegt með þeim.

Hver kenndi þér að skera út? Hefur þú kennt einhverjum útskurð? Hverjum?
Mamma mín. Já litlu frænkum mínum og syni mínum.

Hverjir sjá um að skera út? Geta allir tekið þátt, börn líka?
Sonur minn (9 ára) fékk að vera með í ár. Hann óskaði eftir því að fá að skera út tvær kökur - svo þetta er ekki alveg bundið við eingöngu konur. Hættan er samt svolítið sú að ef við hleyptum karlmönnum að þessu þá verði þeirra vinna "svo merkileg" hahaha Það er líka stundum verið að ryfja upp gamlar kjaftasögur úr fjölskyldunni (svona skemmtilegar) og þessar gömlu frænkur myndu ekki segja orð ef það væri karlmaður við borðið. Börn mega endilega taka þátt og þau eru hvött til þess en við þrýstum ekki á þau. Vitum að við náum þeim í laufabrauðsnetið á síðari stigum :)

Hvaða áhöld og annað sem til þarf er notað við steikinguna? Segðu frá þeim og hvaða hlutverki þau gegna.
Svartur stór pottur, gafflar til að þrýsta kökum í olíuna, þungt trébretti til að pressa þær eftir steikingu og töng til að færa þær af pressunarsvæði á þurrkunarsvæði.

Hafa orðið einhverjar breytingar á því hvaða útbúnaður er notaður? Hvaða breytingar, ef svo er?
Nei engar!

Upp úr hverju er brauðið steikt og hve lengi? Hvað eru búnar til margar kökur? Er afskurðurinn steiktur?
Jurtaolíu þar til þær hafa náð þeim lit sem hver og ein vill. Sumar vilja meira steiktar kökur en aðrar. Afskurðurinn er skorinn út og steiktur. Hann fá einhverjir "óæðri" að smakka en hann er oft borðaður á meðan verið er að steikja fínu kökurnar.

Er laufabrauðið pressað eftir að búið er að steikja það? Með hverju er pressað? Ef að það er ekki pressað, hvað er gert við brauðið þegar það kemur upp úr pottinum?
Já pressað með þungu trébretti sem ég þarf að leggjast ofan á (skv. móður minni) svo þær verði sléttar.

Segðu frá því hvernig brauðinu er pakkað inn og gengið frá því til geymslu.
Eftir steikingu stendur það uppá rönd. Eftir að það hefur kólnað er því pakkað í smjörpappír í álbox.

Eftir hvaða reglum er laufabrauðinu skipt á milli fólks? Hvað fá menn venjulega margar kökur í sinn hlut?
Það fer eftir fjölda þátttakenda og hvað við fáum margar kökur (fáum vanalega 40 kökur úr einfaldri uppskrift og eitthvað af afskurði). Við skerum líka út tilbúnar hvítar kökur. Þessu er skipt bróðurlega á milli þátttakenda en þó er það þannig að þessar gömlu vilja bara fáar kökur - enda ekki með marga í heimili að eigin sögn. Þær borða þetta líka hjá dætrum sínum svo þær fá í raun tvöfaldan skammt :) Systir mín sem er illa við okkar eigið deig (finnst þær of grófar og kallar þær "brunarústir") fær því engar grófar. Hún fær því fleiri hvítar en við hinar. Svo vill mamma engar hvítar þannig að hún fær aðeins fleiri grófar. Þær eru semsagt í einhverjum metingi með þetta mál og þær sitja ekki á skoðunum sínum.

Hvað tekur vinnan við laufabrauðið langan tíma, frá upphafi til enda?
Dagurinn á undan fer í almennan undirbúning hússins. Kaupa veitingar, sherrí, efni í deigið, tilbúnar kökur fyrir systur mína, Nóa konfekt og fl. Laugardagurinn (skurðdagur) er undirlagður. Raða þarf upp góðum stólum fyrir gömlurnar, finna til nógu mörg bretti, hnífa, raða konfekti í skál, fægja silfur staupin o.fl. Skurðurinn tekur u.þ.b. 4-5 kls. og þá er steikning eftir.

Hverjir sjá um að steikja og ganga frá kökunum? Er kynja- eða verkaskipting við þetta? Getur þú sagt frá því?
Mamma hefur verið alpha í steikingu en þetta er að færast frá henni yfir á okkur sem eru yngri. Hún víkur samt ekki frá pottinum á meðan verið er að steikja grófu kökurnar... Henni er meira sama um þessar aðkeyptu.

Laufabrauð er mest borðað um jólin, eins og allir þekkja, en hvenær er byrjað að smakka á því?
Um leið og það er tilbúið og búið að kólna nóg svo hægt sé að smakka.

Með hverju þykir þér best að borða laufabrauð?
Í sannleika sagt er ég ekki mikið fyrir að borða þetta. Mér finnst þetta samt óaðskiljanleg hefð frá jólunum og ég býð gestum uppá þetta. Það er hefð hjá okkur að bjóða uppá þetta með hangikjötinu sem hefur verið á boðstólum 1. í aðventu (2. ef hitt gekk ekki upp). Mér finnst stundum gott að fá mér nokkra bita með íslensku smjöri.

Borðar þú, eða fólk sem þú þekkir, laufabrauð með einhverju sem talist gæti óhefðbundið meðlæti? Ef svo er, hvað er hér helst um að ræða?
Nei ég þekki ekki til þess.

Hvernig kökur þykja ykkur bestar? Nefnið hráefni o.fl.
Þessar grófu sem við gerum (uppskrift frá móðurætt) vísa í fyrri svör.

Hvað endist þinn laufabrauðsskammtur lengi? Hvað er gert við afganginn frá jólunum?
Minn skammtur endist vel og ekki segja móður minni en stundum endar þetta ofan í smáfuglum eftir jólin.

Hvenær og hvernig er afskurðarins neytt? Hvaða heiti þekkir þú á honum?
Afskurður er orðið sem við notum og hann má borða "frjálst" þ.e. þegar fólk vill. Ég tek það reyndar fram að ef einhver myndi koma og byrja að raða honum í sig, eins og hverju öðru Maarud snakki, þá yrði gripið í taumana. Þetta er ekki snakk og það á að bera virðingu fyrir allri vinnu kvennanna sem fór í alla þessa vinnu! (Þetta er raundæmi og það var karlmaður sem kom í lok dags að sækja eina gömluna og hélt að honum færi fjálst að raða þessum afskurði í sig. Ég tek það samt fram að við skerum hann út líka og höfum hann eins fallegan og kostur er. Það er því argasti dónaskapur að ætla að gleypa hann í sig bara af því að þetta er "afskurður".

Kaupir þú tilbúið laufabrauð í búðum eða bakaríum? Frá hvaða aðila er besta brauðið að þínu mati?
Við kaupum frá Kristjáni og Ömmu bakstri held ég. Systir mín vill þetta og ég held að hún velji bara "einhverjar" hvítar.

Hver er tilgangur þess að búa til laufabrauð, annar en hinn praktíski svo að segja? Hvaða þýðingu hefur þessi hefð fyrir þig?
Mér þykir þetta mjög mikilvæg hefð. Þetta er eini tíminn í desember sem er heilagur, þ.e. þessu má ekki breyta! Frænkurnar hittast og eiga góðan dag saman. Nú eru sumar orðnar ansi gamlar og lúnar og þær hafa ofboðslega gaman af því að hittast allar og halda þessu áfram. Þær eru líka að segja okkur sögur um liðna tíma - og kenna okkur ný orð! Í ár lærði ég t.d. orðið "mannegal" sem var notað í setningunni "hún var náttúrulega alveg mannegal á þessum árum" - það þýðir að tiltekin kona hafi verið mjög hrifin af mörgum karlmönnum á tiltekum tíma. Það var mikið hlegið og samveran er mjög dýrmæt.

Getur þú sagt frá laufabrauðsgerð? Þetta geta verið minningabrot, þín upplifun, hvort og með hvaða hætti hefðin hefur breyst, hvað er jákvætt, hvað er neikvætt eða annað sem kemur upp í hugann.
Ég man eftir að hafa verið að gera þetta síðan ég var lítið barn. Eitt sinn fórum við í skólann og gerðum þetta með samnemendum okkar. Það var ágætt en ekki nærri eins skemmtilegt og í frænkupartíunum.
Spurningaskrá
Aðfangategund
Efnisorð / Heiti
Efnisorð: Laufabrauð
Efnisorð:
Laufabrauðsgerð