Þjóðminjasafn Íslands
Þjóðminjasafn Íslands er eitt þriggja höfuðsafna á Íslandi, ásamt Listasafni Íslands og Náttúruminjasafni Íslands. Höfuðsöfn eru í eigu ríkisins og eru miðstöðvar safnastarfsemi hvert á sínu sviði. Þau eru öðrum söfnum til ráðgjafar og ber að stuðla að samvinnu safna og samræmdri safnastefnu. Þjóðminjasafn Íslands er byggðarsöfnum og öðrum minjasöfnum til ráðgjafar og stuðlar að samvinnu og samræmdri stefnu á sviði þjóðminjavörslunnar.
Þjóðminjasafni Íslands er lögum samkvæmt ætlað að vera miðstöð þjóðminjavörslu. Safninu er ætlað að stunda rannsóknir á menningarsögulegum minjum ásamt því að miðla þekkingu á menningararfi þjóðarinnar, innan lands og utan.
Minjar í vörslu safnsins eru allt frá þjóðháttum, húsbúnaði, fatnaði, listgripum, kirkjugripum, verkfærum og atvinnuminjum, til húsasafnsins sem telur 43 hús vítt og breitt um landið. Á vegum safnsins starfa sérfræðingar í fjölmörgum greinum, s.s. forvörslu, fornleifafræði, byggingarsögu, þjóðháttafræði, sagnfræði og listfræði. Hlutverk Þjóðminjasafns Íslands og byggðasafna er að safna, skrásetja, varðveita, forverja og rannsaka minjar, svo sem forngripi, kirkjugripi, listmuni, nytjahluti, svo og myndir, hljóðritanir og skráðar heimildir um þjóðhætti og kynna þær, innan lands og utan. Til slíkra minja geta einnig talist hús sem hafa sérstakt gildi að mati þjóðminjavarðar.
Safngripir í sviðsljósinu
Áhugaverðar vefsýningar









