Laufabrauðsgerð

04.12.2020

Aðrar upplýsingar

Kyn / Fæðingarár heimildarmanns
Kynsegin (1997)
Ártal
Sent dags: 04.12.2020
Safnnúmer
Safnnúmer B: 2020-3-83
Staður
Núverandi sveitarfélag: Reykjavíkurborg, Reykjavíkurborg
Spurningaskrá / Svör
Gerði fjölskylda þín laufabrauð á æskuárum þínum? Ef svo er, hverjir á heimilinu tóku þátt? Komu aðrir að laufabrauðsgerðinni en heimilisfólkið? Hverjir, ef svo er?
Ég ólst upp við að á aðventunni var alltaf gert laufabrauð á mínu heimili. Við gerðum það venjulega um miðja aðventuna, svona í kringum 12 desember, við vorum búin að skreyta þannig að allt var jólalegt í eldhúsinu og settum á þægilega jólatónlist. Allir tóku þátt, ég, yngri bróðir minn, pabbi og mamma og móðurafi minn lengi vel. Móðuramma mín tók aldrei þátt, ég man ekki hvort að hún kom samt í heimsókn eða ekki, en ég man eftir því að afi hafi keyrt heim í sveit frá Akureyri þar sem þau áttu heima til að skera út. Við keyptum alltaf laufabrauð frá sama aðilanum, manni sem afi hafði skipt við þegar hann rak verslun á Siglufirði og eftir að hann sjálfur hætti að kaupa laufabrauð hélt mamma áfram að kaupa af þessum sama aðila, alveg þangað til að hann hætti að selja.

Fór laufabrauðsgerð sem þú tókst þátt í eingöngu fram á heimili þínu eða á fleiri stöðum? Hvaða stöðum?
Meðan ég var í grunnskóla var alltaf skorið laufabrauð þar. Ég var í mjög litlum skóla, við vorum sirka 40 í öllum tíu bekkjunum, og það voru alltaf haldin litlu-jól í síðustu vikunni fyrir jólafrí. Þá voru vinnustofur í skólanum, tónlist og fleira og alltaf skorið út laufabrauð í matsalnum. Matsalurinn var skreyttur, það voru jólalög í hátalara og allir sátu með sínum bekk og umsjónarkennara að skera út. Við höfðum líka flest gert skurðbretti og lítinn hníf í smíðum þegar við vorum í öðrum bekk held ég, þannig að flestir komu með það í skólann, því þetta var sérstaklega gert til að skera út laufabrauð. Ég á mitt bretti ennþá, fimmtán árum seinna og notaði það einungis til að skera út í mörg ár. Eitt árið kom ég með laufabrauðs járn í skólann til að skera út með, en þá fékk ég að heyra það að þetta væri ekki í boði, ég gæti skorið út með járninu heima hjá mér, en í skólanum átti að skera út með hníf.

Hvar og hvernig kynntust foreldrar þínir þessari hefð? Nefndu einnig sveitarfélag og hvort það var í þéttbýli eða til sveita.
Ég veit ekki nákvæmlega hvernig pabbi kynntist þessari hefð, en ég held að hann hafi skorið út laufabrauð með sínum foreldrum í Reykjadal í Þingeyjarsýslu (sveit) þegar hann var ungur, með hníf. Mamma hins vegar ólst upp á Siglufirði í bænum og skar alltaf út með pabba sínum með laufabrauðsjárni. Mamma hennar sá um að steikja brauðin en afi um að skera, ég veit ekki hvort það hafi verið svona verkskipt hjá föðurfjölskyldunni.

Var laufabrauðið sem þú þekktir í æsku svipað því sem kallað er laufabrauð í dag? Ef ekki, gætir þú lýst brauðinu sem kallað var laufabrauð í þínu ungdæmi?
Já það var í raun alveg eins, ég ólst upp við hvítt laufabrauð (ekki með neinum fræjum eða neinu auka í) sem var skorið út í. Hins vegar ólst ég upp við að móðurafi minn setti alltaf smjör á laufabrauðið, sem ég apaði upp með honum, en ég veit ekki hvort margir gera það.

Býrð þú til laufabrauð í dag? Gerir þú það með fleiri en einum hópi, ef svo er? Hvaða hópum?
Ég bý ekki til laufabrauð í dag, ég flutti úr sveitinni í Reykjadal suður í höfuðborgina þegar ég var tvítug og hef eytt aðventunni í borginni síðustu tvö ár og hef ekki komist nógu snemma heim í sveit til að ná í laufabrauðið. Ef ég væri hins vegar í sveitinni þegar ætti að fara að skera myndi ég taka þátt, en þetta er ekki nógu mikilvæg hefð fyrir minni fjölskyldu að ég keyri sérstaklega norður til að taka þátt. Ég hef ekki skorið brauð hér fyrir sunnan, aðalega vegna þess að ég myndi ekki nenna því ein og það er mjög mikið mál að steikja það, þannig að ég hef ekki lagt í það, þar sem ég fer yfirleitt norður um jólin hvort sem er.

Kemur þú að gerð laufabrauðs á hverju ári eða hefur þú hugsanlega tekið pásu um lengri eða skemmri tíma? Hvers vegna?
Ég tek þátt í laufabrauðsskurði ef ég er í sveitinni hjá mömmu og pabba þegar það á að skera, en ég sækist ekki beint í þetta.

Er sérstakur dagur og tími tekinn frá fyrir laufabrauðið? Hvernig er hann valinn? Er gert laufabrauð á öðrum tímum árs en fyrir jólin? Ef svo er, hvenær og við hvaða tækifæri?
Við höfum bara gert laufabrauð fyrir jólin, einhvern tíman á aðventunni. Það er enginn sérstakur dagur fyrir þetta, bara þegar við höfum tíma í rauninni. Við borðum laufabrauðið heldur ekki fyrr en í fyrsta lagi á þorláksmessu, þannig að það er eini tímaramminn.

Hvaða hugmyndir hefur þú um útbreiðslu laufabrauðs í dag? Finnst þér að hún hafi farið vaxandi eða minnkandi á síðustu 20-30 árum eða stendur hún kannski í stað?
Mér finnst eins og heimaútskorið laufabrauð sé meira í sveitunum, einungis vegna þess að ég ýminda mér að fólk sem býr í fjölbýli eða blokkum nenni ekki að standa í að steikja brauðið, vegna vesens, svipað og með skötuna, þó að lyktin af brauðinu sé alls ekki eins og af skötunni. Einnig hef ég séð að það er svo mikið af tilbúnu laufabrauði selt í búðum hér fyrir sunnan, en ég tók ekki eftir því þegar ég var yngri fyrir norðan.

Hvaða áhrif hefur COVID-19 á laufabrauðsgerð þína? Koma vídeó-símtöl á netinu, eins og t.d. á Facebook, hugsanlega við sögu? Getur þú sagt frá þessu, ef svo er?
COVID-19 hefur í raun engin áhrif á laufabrauðsgerð mína, þar sem ég hefði ekki tekið þátt í laufabrauðs gerð hvort sem er.

Eru einhverjir sem halda utan um daginn eða sjá til þess að nóg sé af öllum áhöldum og öðru sem til þarf? Hverjir, ef svo er?
Mamma hefur séð um að allt sé tilbúið fyrir útskurðinn, og afi (pabbi hennar) sá lengi um að kaupa brauðið meðan hann hafði heilsu til.

Búið þið til deig sjálf eða kaupið þið það tilbúið og fletjið út? Kaupið þið útflattar kökur?
Við kaupum alltaf útflattar kökur, lengi vel frá sama manninum sem afi hafði skipt við í mörg mörg ár áður.

Hvaða korntegundir eða hugsanlega blöndu af þeim notið þið í deigið? Hvaða önnur hráefni eru notuð?
Við kaupum aldrei brauð með korni, bara hreint hvítt brauð.

Hvaða áhöld og annan útbúnað notar þú við laufabrauðsskurðinn? Segðu frá því og hvaða hlutverki þau gegna.
Við erum með nokkra hnífa og eitt laufabrauðshjól. Hnífarnir eru svona skurðhnífar sem eru með fínt blað og auðvelt að nota en laufabrauðshjólið er vinsælast á heimilinu. Maður þarf ekki að skera út með því eða bretta upp á kökuna heldur rúllar maður því beint á kökuna, nógu fast til að mynstrið komi í gegn en ekki of fast til að kakan festist við (og það þarf að snúa rétt, það er gott að nota afskorningana í að prófa það) og þá kemur þetta klassíska laufabrauðsmynstur sem þarf svo bara að fletta upp.

Eiga eldri áhöldin sér sögu? Hafa einhver þeirra t.d. erfst á milli kynslóða? Hvaða áhöld, ef svo er? Hver átti þau fyrst?
Laufabrauðshjólið okkar er frekar gamalt, ég held að það komi frá móðurafa mínum, en ég veit ekki hvort að það sé eldra en það (hann var fæddur 1927). Hnífarnir koma og fara, en ég held að það séu ennþá til hnífar og bretti sem ég og bróðir minn gerðum í smíðum í grunnskóla, þó að þau séu ekki endilega í notkun lengur.

Hvaða munstur skerð þú helst út? Ber útskurðurinn eða munstrin sem þú notar einhver heiti? Hvaða heiti? Er eitthvað sem þér finnst að eigi ekki að skera út í laufabrauð? Hvað og hvers vegna, ef svo er?
Ég sker oftast út með laufabrauðshjólinu, þetta klassíska laufabrauðsmunstur. Stundum sker ég aðeins meira út og geri þá tvo skurði langsum (mjög stutta) og tengi þá með skurði þversum þannig að lítil ræma sé laus á brauðinu. Ég sný aðeins upp á hana til að gera svona "twist" og "loka" svo ræmunni aftur með því að klessa ræmunni niður. Ég veit ekki hvort að þetta heiti eitthvað. Mamma gerir stundum litlar stjörnur og fleira dútl, en ég hef aldrei haft þolinmæðina í það.

Hvað ræður því helst hvað þú skerð út? Skipta hefðir máli í þessu sambandi eða hvaðan færð þú hugmyndirnar? Vilt þú nostra við útskurðinn, gera flókin mynstur eða vera fljótur vegna þess að það eru margar kökur sem þarf að skera út?
Mér finnst mjög mikilvægt að það séu nokkrar kökur með klassísku munstri þannig að það séu þrjár ræmur, tvær langar yfir kökuna og ein styttri í miðjunni á brauðinu. Einnig að það séu nokkrar kökur með klassísku mynstri þannig að átta tiltölulegar stuttar ræmur myndi hring, þannig að það sé hringur í miðjunni sem er ekki útskorinn, heldur mynda ræmurnar hann. Þegar ég sker laufabrauð byrja ég á nokkrum svona kökum, svo sé ég til hversu mikið ég nenni að dútla við restina. Mér finnst þessar kökur vera mjög klassískar kökur og finnst mjög mikilvægt að hafa nokkrar svona.

Er eitthvað sem þér finnst skemmtilegra eða leiðinlegra að skera út en annað? Hvað, ef svo er? Eða er þetta kannski alveg hlutlaust?
Mér finnast þessi klassísku munstur skemmtilegust, aðallega vegna þess að ég nenni ekki þessu flóknu mynstrum.

Hvað skera aðrir út í þínum hópi? Er það á einhvern hátt frábrugðið því sem þú gerir?
Mamma og bróðir minn nenna frekar að gera flóknari mynstur, þau skera út stjörnur og fleira, ég held að mamma hafi einhvern tíman reynt að gera kirkju og fleira.

Hver kenndi þér að skera út? Hefur þú kennt einhverjum útskurð? Hverjum?
Mamma og afi minn sáu um að kenna okkur, og svo kennararnir í skólunum þegar var skorið út þar.

Hverjir sjá um að skera út? Geta allir tekið þátt, börn líka?
Allir sem vilja taka þátt, ég man eftir því að hafa tekið þátt sem krakki, þá held ég með leiðsögn afa. Bróðir minn var ekki mikið fyrir þetta þegar hann var yngri, en hann þurfti alltaf að taka aðeins þátt. Pabbi er ekki mikið fyrir þetta, en hann sker aðeins út og er þá frekar bara á vappinu í kringum okkur til að fá samveruna, þó að hann sé ekki mikið fyrir því að skera út.

Hvaða áhöld og annað sem til þarf er notað við steikinguna? Segðu frá þeim og hvaða hlutverki þau gegna.
Það er sérstakur pottur sem er notaður við að steikja. Hann er stór og eldgamall, svartur og appelsínugulur. Við erum svo heppin að vera með gott eldhús í vinnunni mömmu og pabba (á gistihúsi) þannig að við steikjum alltaf þar, vegna lyktarinnar af tólginu og plássinu. Pabbi sér venjulega um að steikja, setja kökurnar í og taka þær uppúr. Ég held að hann noti bara eitthvað í það, svo erum við með nóg af eldhúspappír til að pressa brauðin.

Hafa orðið einhverjar breytingar á því hvaða útbúnaður er notaður? Hvaða breytingar, ef svo er?
Nei ég man ekki eftir því, við erum alltaf með þennan sama gamla pott og nóg af eldhúspappír.

Upp úr hverju er brauðið steikt og hve lengi? Hvað eru búnar til margar kökur? Er afskurðurinn steiktur?
Ég held að við séum með tólg eða einhverja steikingarfitu og kókosolíu, en ég þori ekki að staðfesta það. Við skerum að ég held út sirka 50 kökur, en ég er heldur ekki viss með það. Við steikjum afskurðinn, til að testa hitann á feitinu og til að geta smakkað smá meðan við erum að steikja.

Er laufabrauðið pressað eftir að búið er að steikja það? Með hverju er pressað? Ef að það er ekki pressað, hvað er gert við brauðið þegar það kemur upp úr pottinum?
Já við pressum það alltaf með eldhúspappírnum, til að ná afgangs fitu úr og til að þurrka það.

Segðu frá því hvernig brauðinu er pakkað inn og gengið frá því til geymslu.
Við setjum það í kassa, ekki í stafla heldur röðum við því með bökunarpappír.

Eftir hvaða reglum er laufabrauðinu skipt á milli fólks? Hvað fá menn venjulega margar kökur í sinn hlut?
Við skiptum kökunum venjulega ekki, en ef einhver er spenntur fyrir því að skera þá tökum við tillit til þess og leyfum þeim að hafa nóg af kökum til að skera.

Hvað tekur vinnan við laufabrauðið langan tíma, frá upphafi til enda?
Í minningunni tók þetta allan daginn, en ég held að við höfum tekið svona þrjá fjóra tíma í þetta með steikingunni.

Hverjir sjá um að steikja og ganga frá kökunum? Er kynja- eða verkaskipting við þetta? Getur þú sagt frá því?
Mamma og pabbi sáu alltaf um að steikja og ganga frá, en ég hjálpaði til við að pressa eftir að ég varð aðeins eldri (svona eftir 16 ára). Pabbi sá venjulega um að steikja og mamma um að pressa, en við mamma höfum líka séð alveg um þetta bara tvær, þá steikti hún og ég pressaði.

Laufabrauð er mest borðað um jólin, eins og allir þekkja, en hvenær er byrjað að smakka á því?
Við rétt smökkum afskorninginn meðan við erum að steikja, og tökum kannski tvær kökur í eldhúsið þegar þær eru nýsteiktar, en annars er brauðið geymt fram að þorláksmessu og síðan borðað fram yfir áramót.

Með hverju þykir þér best að borða laufabrauð?
Ég borða það annað hvort eintómt eða með slatta af smjöri.

Borðar þú, eða fólk sem þú þekkir, laufabrauð með einhverju sem talist gæti óhefðbundið meðlæti? Ef svo er, hvað er hér helst um að ræða?
Ömmu minni fannst alltaf svo skrítið að afi hafi viljað smjör á laufabrauðið, en við mamma öpuðum þetta eftir honum. Aðrir á heimilinu gera þetta ekki og finnst þetta furðulegt.

Hvað endist þinn laufabrauðsskammtur lengi? Hvað er gert við afganginn frá jólunum?
Laufabrauðskammturinn endist venjulega rétt fram yfir áramót, við borðum þetta bara þangað til að það klárast.

Hvenær og hvernig er afskurðarins neytt? Hvaða heiti þekkir þú á honum?
Afskurðurinn er borðaður meðan við erum að steikja, ég þekki bara orðið afskurður um þetta.

Kaupir þú tilbúið laufabrauð í búðum eða bakaríum? Frá hvaða aðila er besta brauðið að þínu mati?
Ég hef einu sinni keypt tilbúið laufabrauð, það var þegar ég hélt lítið jólaboð fyrir erlenda skiptinema í íbúðinni minni á stúdentagörðunum. Ég var með mjög hefðbundinn íslenskan jólamat og fannst mjög mikilvægt að hafa laufabrauð, þó að ég hafi sagt þeim að þetta væri ekki eins gott og það sem væri heima hjá mér.

Hver er tilgangur þess að búa til laufabrauð, annar en hinn praktíski svo að segja? Hvaða þýðingu hefur þessi hefð fyrir þig?
Mér finnst þetta mikilvæg hefð, fyrir mér er þetta svipað og kerti og spil (sem er hefð sem ég held einnig í), þetta er gömul hefð og tengir mig við forfeður mína sem borðuðu svipað brauð fyrir mörgum mörgum árum.

Getur þú sagt frá laufabrauðsgerð? Þetta geta verið minningabrot, þín upplifun, hvort og með hvaða hætti hefðin hefur breyst, hvað er jákvætt, hvað er neikvætt eða annað sem kemur upp í hugann.
Mér finnst þetta mjög góð og jákvæð hefð, þetta er samverustund fyrir fjölskylduna, að skera út brauðin og fyrir mér tengi ég þetta mikið við afa minn sem gerði sér spes ferð frá Akureyri bara til að skera út með okkur. Eftir að hann varð eldri biðum við með að skera út fyrr en afi og amma gátu komið til okkar (voru hjá okkur frá sirka 21. des og fram yfir áramót öll jól) til að afi gæti skorið með, þó að hann væri níræður og blindur vildi hann samt allavega sitja með okkur.
Spurningaskrá
Aðfangategund
Efnisorð / Heiti
Efnisorð: Laufabrauðsgerð
Efnisorð:
Laufabrauð