Laufabrauðsgerð

04.12.2020

Aðrar upplýsingar

Kyn / Fæðingarár heimildarmanns
Kona (1963)
Ártal
Sent dags: 04.12.2020
Safnnúmer
Safnnúmer B: 2020-3-81
Staður
Núverandi sveitarfélag: Kópavogsbær, Kópavogsbær
Spurningaskrá / Svör
Gerði fjölskylda þín laufabrauð á æskuárum þínum? Ef svo er, hverjir á heimilinu tóku þátt? Komu aðrir að laufabrauðsgerðinni en heimilisfólkið? Hverjir, ef svo er?
Já, allt heimilisfólk tók þátt og amk 2-3 aðrar fjölskyldur. Það voru nágranna fjölskyldur.

Fór laufabrauðsgerð sem þú tókst þátt í eingöngu fram á heimili þínu eða á fleiri stöðum? Hvaða stöðum?
Eingöngu á heimili okkar.

Hvar og hvernig kynntust foreldrar þínir þessari hefð? Nefndu einnig sveitarfélag og hvort það var í þéttbýli eða til sveita.
Á bernskuheimilum sínum, Gunnarsstöðum í Þistilfirði og Syðra-Lóni á Langanesi.

Var laufabrauðið sem þú þekktir í æsku svipað því sem kallað er laufabrauð í dag? Ef ekki, gætir þú lýst brauðinu sem kallað var laufabrauð í þínu ungdæmi?
Já, en það var alltaf rúgmjölsblandað laufabrauðið hjá okkur.

Býrð þú til laufabrauð í dag? Gerir þú það með fleiri en einum hópi, ef svo er? Hvaða hópum?
Já, geri það með uppeldis systur og hennar fjölskyldu.

Kemur þú að gerð laufabrauðs á hverju ári eða hefur þú hugsanlega tekið pásu um lengri eða skemmri tíma? Hvers vegna?
Aldrei tekið pásu.

Er sérstakur dagur og tími tekinn frá fyrir laufabrauðið? Hvernig er hann valinn? Er gert laufabrauð á öðrum tímum árs en fyrir jólin? Ef svo er, hvenær og við hvaða tækifæri?
Nei, engin hefð í því en þó alltaf reynt að vera fljótlega í upphafi aðventu.

Hvaða hugmyndir hefur þú um útbreiðslu laufabrauðs í dag? Finnst þér að hún hafi farið vaxandi eða minnkandi á síðustu 20-30 árum eða stendur hún kannski í stað?
Mér finnst þessi hefð hverfandi.

Hvaða áhrif hefur COVID-19 á laufabrauðsgerð þína? Koma vídeó-símtöl á netinu, eins og t.d. á Facebook, hugsanlega við sögu? Getur þú sagt frá þessu, ef svo er?
Í ár gerði ég laufabrauðið ein.

Eru einhverjir sem halda utan um daginn eða sjá til þess að nóg sé af öllum áhöldum og öðru sem til þarf? Hverjir, ef svo er?
Húsfreyja heldur utanum allt skipulag.

Búið þið til deig sjálf eða kaupið þið það tilbúið og fletjið út? Kaupið þið útflattar kökur?
Búum sjálf til deig og fletjum út. Uppskrift úr fjölskyldunni.

Hvaða korntegundir eða hugsanlega blöndu af þeim notið þið í deigið? Hvaða önnur hráefni eru notuð?
Hveiti, rúgmjöl, smjör, mjólk, sykur, salt, hjartarsalt, egg.

Hverjir búa til deigið? Þekkist kynja- eða verkaskipting við að hnoða og fletja deigið? Segðu frá því, ef svo er.
Húsfreyja (húsfreyjur) búa til deig og breiða út.

Hvaða áhöld og annan útbúnað notar þú við laufabrauðsskurðinn? Segðu frá því og hvaða hlutverki þau gegna.
Nota eingöngu vasahníf.

Hvaða áhöld og annað sem til þarf er notað við steikinguna? Segðu frá þeim og hvaða hlutverki þau gegna.
Notaður er gaffall, gataspaði, laufabrauðshlemmur til að pressa kökurnar eftir steikingu.

Hafa orðið einhverjar breytingar á því hvaða útbúnaður er notaður? Hvaða breytingar, ef svo er?
Nei.

Upp úr hverju er brauðið steikt og hve lengi? Hvað eru búnar til margar kökur? Er afskurðurinn steiktur?
Steikt úr plöntufeiti. Búnar til ca 50 kökur á fjölskyldu. Afskurður steiktur.

Er laufabrauðið pressað eftir að búið er að steikja það? Með hverju er pressað? Ef að það er ekki pressað, hvað er gert við brauðið þegar það kemur upp úr pottinum?
Já, pressað með laufabrauðshlemmi, eldhúsbréf sett á milli Hlemms og köku.

Segðu frá því hvernig brauðinu er pakkað inn og gengið frá því til geymslu.
Sett í pappakassa, smjörpappír undir og yfir. Geymt á köldum og þurrum stað.

Laufabrauð er mest borðað um jólin, eins og allir þekkja, en hvenær er byrjað að smakka á því?
Þorláksmessu.

Með hverju þykir þér best að borða laufabrauð?
Smjöri og þunnt sneiddu hangikjöti. Einnig gott með mysingi.

Hvað endist þinn laufabrauðsskammtur lengi? Hvað er gert við afganginn frá jólunum?
Klárast yfirleitt um þrettándann. Ef eitthvað verður eftir eftir það er restin kláruð á bóndadag.

Hvenær og hvernig er afskurðarins neytt? Hvaða heiti þekkir þú á honum?
Borðaður strax eftir steikingu.

Hver er tilgangur þess að búa til laufabrauð, annar en hinn praktíski svo að segja? Hvaða þýðingu hefur þessi hefð fyrir þig?
Halda í gamlar hefðir, svo er þetta svo gott.
Spurningaskrá
Aðfangategund
Efnisorð / Heiti
Efnisorð: Laufabrauðsgerð
Efnisorð:
Laufabrauð