Laufabrauð

04.12.2020

Aðrar upplýsingar

Kyn / Fæðingarár heimildarmanns
Kona (1963)
Ártal
Sent dags: 04.12.2020
Safnnúmer
Safnnúmer B: 2020-3-76
Staður
Núverandi sveitarfélag: Reykjavíkurborg, Reykjavíkurborg
Spurningaskrá / Svör
Gerði fjölskylda þín laufabrauð á æskuárum þínum? Ef svo er, hverjir á heimilinu tóku þátt? Komu aðrir að laufabrauðsgerðinni en heimilisfólkið? Hverjir, ef svo er?
Ég ólst upp í Hrunamannahreppi í Árnessýslu og kynntist ekki laufabrauðsgerð. Ég held að ég hafi ekki smakkað það fyrr en ég var orðin fullorðin. Hins vegar þóttu flatkökur ómissandi hluti af jólunum.

Hvar og hvernig kynntust foreldrar þínir þessari hefð? Nefndu einnig sveitarfélag og hvort það var í þéttbýli eða til sveita.
Foreldrar mínir voru bæði úr Hrunamannahreppi og foreldrar þeirra ólust einnig þar upp. Þau eins og ég voru því laufabrauðslausir Sunnlendingar.

Var laufabrauðið sem þú þekktir í æsku svipað því sem kallað er laufabrauð í dag? Ef ekki, gætir þú lýst brauðinu sem kallað var laufabrauð í þínu ungdæmi?
Mér finnst eins og ég hafi varla séð laufabrauð í æsku, hvað þá annað.

Ef að þú komst ekki að gerð laufabrauðs í æsku en tókst þátt í henni seinna á ævinni, hvaðan og hvenær kom hún inn í líf þitt?
Já, ég lærði að skera út laufabrauð hjá tengdamóður minni sem ólst upp í Reykjavík en er ættuð af Vatnsnesi.

Býrð þú til laufabrauð í dag? Gerir þú það með fleiri en einum hópi, ef svo er? Hvaða hópum?
Nei, en maðurinn minn og börnin fara til tengdamóður minnar að skera út og steikja laufabrauð.

Kemur þú að gerð laufabrauðs á hverju ári eða hefur þú hugsanlega tekið pásu um lengri eða skemmri tíma? Hvers vegna?
Ég held að ég sé í eilífðarpásu. Eftir þátttöku í nokkur ár komst ég að þeirri niðurstöðu að mér þætti þetta ekkert skemmtilegt og væri ekki hluti af minni jólahefð.

Hvaða hugmyndir hefur þú um útbreiðslu laufabrauðs í dag? Finnst þér að hún hafi farið vaxandi eða minnkandi á síðustu 20-30 árum eða stendur hún kannski í stað?
Mér finnst hún fara vaxandi. Mig grunar að í minni gömlu heimasveit sé þetta víða orðinn siður en hafi ekki verið.

Laufabrauð er mest borðað um jólin, eins og allir þekkja, en hvenær er byrjað að smakka á því?
Við byrjum að borða laufabrauðið strax og fólkið mitt er búið að búa það til en spörum það frekar en hitt fram að jólum.

Með hverju þykir þér best að borða laufabrauð?
Við borðum það líklega helst með reyktu lambakjöti, bæði hefðbundnu hangikjöti og léttreyktum lambahrygg sem er jólamaturinn okkar.

Hvað endist þinn laufabrauðsskammtur lengi? Hvað er gert við afganginn frá jólunum?
Við klárum birgðarnar oftast í janúar.

Kaupir þú tilbúið laufabrauð í búðum eða bakaríum? Frá hvaða aðila er besta brauðið að þínu mati?
Nei, en við kaupum útflattar kökur í matvöruverslunum.

Hver er tilgangur þess að búa til laufabrauð, annar en hinn praktíski svo að segja? Hvaða þýðingu hefur þessi hefð fyrir þig?
Mér „tókst ekki“ að gera þetta að minni hefð.
Spurningaskrá
Aðfangategund
Efnisorð / Heiti
Efnisorð: Laufabrauð
Efnisorð:
Laufabrauðsgerð