Laufabrauðsgerð

04.12.2020

Aðrar upplýsingar

Kyn / Fæðingarár heimildarmanns
Kona (1947)
Ártal
Sent dags: 04.12.2020
Safnnúmer
Safnnúmer B: 2020-3-57
Staður
Núverandi sveitarfélag: Kópavogsbær, Kópavogsbær
Spurningaskrá / Svör
Gerði fjölskylda þín laufabrauð á æskuárum þínum? Ef svo er, hverjir á heimilinu tóku þátt? Komu aðrir að laufabrauðsgerðinni en heimilisfólkið? Hverjir, ef svo er?
Faðir minn var Eyfirðingur og hafði alist upp við laufabrauðsgerð sem amma stýrði alla hans bernsku. Mamma ólst upp í Vestmannaeyjum og hafði ekki komið nálægt laufabrauðsgerð í sinni fjölskyldu. Pabbi gat ekki hugsað sér jól án laufabrauðs svo hún reyndi að fikra sig áfram við nýja færni í bakstri undir hans leiðsögn! Svo lengi sem ég man var laufabrauð gert fyrir jólin. Allir tóku þátt, mamma sá um hnoða deigið og fletja út (breiða út) og pabbi skar út og kenndi okkur systkinunum tæknina svo hjálpuðumst við að við að steikja eins og aldur leyfði. Stundum kom systir pabba og var með okkur í laufabrauðsgerðinni. Hún var handavinnukennari og mjög flink við útskurðinn. Hún var mjög áfram um að kökurnr væru mjög þunnar - munstrið í borðplötunni átti að sjást í gegn. Þá var líka oft fjör, sagðar sögur og mikið hlegið. Venjulega var laufabrauðið útbúið nokkru fyrir jól svona áður en aðaljólaannirnar hæfust. Það þótti jafnvel betra að laufabrauðið fengi að "ryðja" sig aðeins og væri ekki alveg nýsteikt. En eftir að við systkinin fórum að heiman í skóla var beðið eftir að við kæmum heim og þá fékk laufabrauðsgerðin að bíða fram yfir 20. des. Ég ólst upp í þorpi vestur á fjörðum og þar var mjög fátítt að gert væri laufabrauð. Vinkonur mínar í barnaskólanum voru forvitnar um hvernig það smakkaðist og hvernig það væri gert. Ég man eftir einu tilviki þar sem mín besta vinkona fékk að vera með og fá eina komu með sér heim.

Fór laufabrauðsgerð sem þú tókst þátt í eingöngu fram á heimili þínu eða á fleiri stöðum? Hvaða stöðum?
Laufabrauðsgerðin fór alltaf fram í eldhúsinu á heimilinu. Þar var matborðið og góður ylur og birta. Þar var kaffikannan, útvarpið og miðstöð heimilisins.

Hvar og hvernig kynntust foreldrar þínir þessari hefð? Nefndu einnig sveitarfélag og hvort það var í þéttbýli eða til sveita.
Pabbi ólst upp við laufabrauðsgerð á sínu bernskuheimili, fyrst í Kálfagerði í Eyjafirði og svo á Akureyri. Mamma ólst upp í Vestmannaeyjum og hafði aldrei kynnst þessari hefð fyrr en hún fór að búa með pabba.

Var laufabrauðið sem þú þekktir í æsku svipað því sem kallað er laufabrauð í dag? Ef ekki, gætir þú lýst brauðinu sem kallað var laufabrauð í þínu ungdæmi?
Laufabrauðið er í núna mínum huga alveg sams konar og það var á mínu bernskuheimili. Mín fjölskylda notar meira að segja sömu uppskriftina. Helsti munurinn er að í dag er notuð meiri plöntufeiti til steikingar og minna af tólg. Það laufabrauð sem keypt er tilbúið er bæði þykkara, vélskorið og steikt í jurtafeiti eingöngu. Ekki sama bragð. Okkur finnst betra að hafa smá tólgarbragð.

Ef að þú komst ekki að gerð laufabrauðs í æsku en tókst þátt í henni seinna á ævinni, hvaðan og hvenær kom hún inn í líf þitt?
Sjá fyrri svör!

Býrð þú til laufabrauð í dag? Gerir þú það með fleiri en einum hópi, ef svo er? Hvaða hópum?
Ég hef haldið við hefðinni á hverju ári síðan ég flutti að heiman 1969. Meira að segja þegar ég bjó í tvö ár í Svíþjóð. Þá vorum við tvær ættaðar að norðan sem gerðum nokkrar kökur með mönnum okkar. Það vantaði þá bara tólg til að hafa með jurtafeitinni til að fá "rétta" bragðið. Seinna bjó ég í tvö ár í San Diego í Kaliforníu. Þá hafði ég hugsað mér að sleppa laufabrauðinu - en við vorum í félagsskap með gömlum Vestur -Íslendingum, 3. kynslóð frá innflytjendum, sem vildi fá að kynnast laufabrauði sem ég hafði sagt þeim frá. Ég tók að mér að koma með nokkrar kökur á jólafundinn og þar með var ekki undan vikist að slá í heila uppskrift þó við fjölskyldan værum þá bara 3 í heimili. Laufabrauðið vakti mikla lukku hjá og vildu konurnar fá að vita allt um vinnuaðferðirnar. Hafði því miður ekki tíma til að vera með námskeið fyrir þær! Á fyrstu búskaparárum mínum á höfuðborgarsvæðinu gerði ég laufabrauð með föðursystrum mínum. Þær bjuggu tvær saman og buðu nánum ættingjum að vera með sér og buðu svo í hangikjötskvöldverð í lokin - það var þeirra jólaboð. Úr því varð skemmtileg hefð í nokkur ár uns þær fluttu til Akureyrar til að eyða eftirlaunaárunum þar. Eftir það hafði ég náð tökum á hefðinni og hef séð um framkvæmd og stjórnun. Uppskriftin var eiginlega alltaf sú sama með smá tilraunamennsku á milli. Yfirleitt var það með kjarnafjölskyldu minni og einnig með ýmsum ættingjum sem nutu þess að taka þátt. Stundum upp í fjórar kynslóðir saman.

Kemur þú að gerð laufabrauðs á hverju ári eða hefur þú hugsanlega tekið pásu um lengri eða skemmri tíma? Hvers vegna?
Ég man ekki til að ég hafi tekið pásu. Ég hef á einhvern hátt tekið þátt í laufabrauðsgerð frá bernsku - (3-4 ára) og fram á þennan dag. Oftast með fjölskyldu og frændfólki og þá í öllu ferlinu: hræra, hnoða, fletja (breiða út norðlenska), skera út, steikja, ganga frá í heppileg ílát, borða á aðfangadagskvöld og narta í fram eftir nóttu. Vegna góðrar aðstöðu hef ég síðustu 23 ár staðið fyrir laufabrauðsgerð, stjórnað og kennt yngri kynslóðinni svo núna er komið kröftugt lið sem kann vel alla þætti verksins og finnst það gaman. Það verður að segjast að stúlkurnar hafa meiri ánægju af þessari hefð en piltarnir mæta samt og skera út og hjálpa til við steikinguna til skiptis. Þangað til fyrir 8 árum tók móðir mín, sem bjó í sama húsi, þátt í öllu ferlinu fram að 97 ára aldri. Við vorum þá 4 kynslóðir saman og notuðum alltaf sérstakar hvítar svuntur sem hún hafði varðveitt áratugum saman. Skemmtileg hefð, ungu stúlkurnar kalla svunturnar "Downton Abbey"-svuntur. Eftir að hún féll frá höfum við aftur orðið 4 kynslóðir saman og sú yngsta (2ja ára) var strax farin að taka þátt á síðasta ári.

Er sérstakur dagur og tími tekinn frá fyrir laufabrauðið? Hvernig er hann valinn? Er gert laufabrauð á öðrum tímum árs en fyrir jólin? Ef svo er, hvenær og við hvaða tækifæri?
Við í stórfjölskyldunni erum orðin svo mörg, börn, tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn, að við verðum að skipuleggja daginn með góðum fyrirvara. Það gerum við í gegnum Facebook og veljum þá dagsetningu sem flestir komast á bilinu frá 20. nóvember -7. desember. Venjulega byrja konurnar að morgni að útbúa deigið hnoða og fletja sem mest. Eftir hádegið koma svo þeir sem geta og hefja útskurð þar sem hver lærir af öðrum. Mikið kapp er lagt á að gera fallegar kökur og velja þá sem verður efst í bunkanum á aðfangadagskvöld. Það er svo tekið undan henni svo sú fallegast er alltaf efst. Við höfum líka uppgötvað upprennandi listamenn með því að hafa smá samkeppni um flottustu kökuna, besta handbragðið, nýstárlegustu kökuna, besta frumkvæðið. Það hefur verið dómnefnd um valið. Ekki hefur verið gert laufabrauð í minni fjölskyldu á öðrum tíma árs. En ég man að mamma gerði örfáar kökur til að setja í þorrablótstrogið á 6. og 7. tug síðustu aldar.

Hvaða hugmyndir hefur þú um útbreiðslu laufabrauðs í dag? Finnst þér að hún hafi farið vaxandi eða minnkandi á síðustu 20-30 árum eða stendur hún kannski í stað?
Ég veit lítið um það en ég hef á tilfinningunni að unga fólkið hafi gaman af þessari hefð og því sé meiri áhugi á að prófa þetta. Auk þess er auðvelt að kaupa laufabrauð sem hluta af jólamáltíðinni ef fólk treystir sér ekki til að gera það sjálft. Tengdabörn mín hafa mikla ánægju af að taka þátt og eftir nokkur skipti finnst þeim þetta ómissandi þáttur þó þau hafi ekki vanist laufabrauði áður.

Hvaða áhrif hefur COVID-19 á laufabrauðsgerð þína? Koma vídeó-símtöl á netinu, eins og t.d. á Facebook, hugsanlega við sögu? Getur þú sagt frá þessu, ef svo er?
Áhrifin eru mikil - því við ákváðum í gegnum facebookhóp fjölskyldunnar að fella þessa hefð niður í ár. Við hættum ekki á neitt og svo eru tvö lítil ungbörn. Við settum upp tillögu í kring um 20. nóvember að fella hefðina niður í ár og fékk sú tillaga 100% samþykkt. En allir hugsa sér að kaupa tilbúið því þessi réttur er ómissandi á jólaborðið.

Eru einhverjir sem halda utan um daginn eða sjá til þess að nóg sé af öllum áhöldum og öðru sem til þarf? Hverjir, ef svo er?
Ég hef séð um allt utanumhald í 23 ár fram að þessu.

Búið þið til deig sjálf eða kaupið þið það tilbúið og fletjið út? Kaupið þið útflattar kökur?
Sjá texta ofar.

Hvaða korntegundir eða hugsanlega blöndu af þeim notið þið í deigið? Hvaða önnur hráefni eru notuð?
Hveiti mjólk smjör salt sykur Stundum prufum við í eina uppskrift heilhveiti eða kúmen!

Hverjir búa til deigið? Þekkist kynja- eða verkaskipting við að hnoða og fletja deigið? Segðu frá því, ef svo er.
Sjá texta ofar.

Hvaða áhöld og annan útbúnað notar þú við laufabrauðsskurðinn? Segðu frá því og hvaða hlutverki þau gegna.
Electrolux vél eða Kitchenaid vél til að hræra og hnoða deigið. Smjörpappír og viskastykki til að setja utan um deigrúllurnar til að forða því að þær þorni meðan verið er að fletja. Beittan hníf til að skera rúllurnar í hæfilegar sneiðar til að fletja. Mörg kökukefli - sum ævagömul. Kleinujárn til að skera í kringum kökuna! Ótal smáhnífa sem notaðir eru ár eftir ár. Laufabrauðsjárn - misgróft! Hringlaga trébretti - sum ævagömul. Smjörpappír til að setja á milli þegar búið er að fletja. 10 saman í bunka. Steikarpott og rafhellu - steikt í þvottahúsinu. Sérstakan tréhlemm til að slétta kökuna strax eftir steikingu. Góð loftþétt ílát til að setja kökurnar í eftir kælingu.

Eiga eldri áhöldin sér sögu? Hafa einhver þeirra t.d. erfst á milli kynslóða? Hvaða áhöld, ef svo er? Hver átti þau fyrst?
Kleinujárn sem langömmubróðir minn, Páll J. Árdal, smíðaði fyrir ömmu og hefur verið mikið notað alla tíð síðan. Laufabrauðsjárn frá föðursystrum mínum og móður minni. Vasahnífar frá pabba, afa, tengdaföður mínum o.fl. Pressuhlemmur frá tengdamömmu. Auk þess trébretti frá föðursystrum mínum. Allt frá 19. og 20. öld.

Hvaða munstur skerð þú helst út? Ber útskurðurinn eða munstrin sem þú notar einhver heiti? Hvaða heiti? Er eitthvað sem þér finnst að eigi ekki að skera út í laufabrauð? Hvað og hvers vegna, ef svo er?
Það eru orðin mjög margvísleg og frumleg munstrin en Kirkjan er alltaf vinsæl og einnig stjörnur og krossar. Upphafsstafir allra í fjölskyldunum eru hefð - allir fá köku með sínum upphafsstaf og stundum allt nafnið ef það er ekki langt! Ofurhetjutákn o.fl. sérstaklega hjá drengjunum. Engin hatursmerki eða dónaskapur - það hefur reyndar ekki reynt á það.

Hvað ræður því helst hvað þú skerð út? Skipta hefðir máli í þessu sambandi eða hvaðan færð þú hugmyndirnar? Vilt þú nostra við útskurðinn, gera flókin mynstur eða vera fljótur vegna þess að það eru margar kökur sem þarf að skera út?
Það er stundum mikið kapp um frumlegustu kökuna eða flottustu kökuna. Allt ofantalið - þegar fólk er orðið þreytt fer það að flýta sér og þá eru það þrjú samsíða strik með laufabrauðsjárninu sem fólk endar á!

Er eitthvað sem þér finnst skemmtilegra eða leiðinlegra að skera út en annað? Hvað, ef svo er? Eða er þetta kannski alveg hlutlaust?
Skemmtilegt að spreyta sig á mismunandi skurði sem táknar kertaljós o.fl.

Hvað skera aðrir út í þínum hópi? Er það á einhvern hátt frábrugðið því sem þú gerir?
Sjá texta ofar.

Hver kenndi þér að skera út? Hefur þú kennt einhverjum útskurð? Hverjum?
Pabbi og föðursystur mínar einnig dótturdóttir mín sem sýndi mér handbrögð sem hún er mjög flink í.

Hverjir sjá um að skera út? Geta allir tekið þátt, börn líka?
Allir gera eitthvað - þó það sé ekki nema ein kaka. Litlu börnin sem eru vön að föndra fá að spreyta sig. Fullorðna fólkið og stúlkurnar eru þrautseigastar.

Hvaða áhöld og annað sem til þarf er notað við steikinguna? Segðu frá þeim og hvaða hlutverki þau gegna.
Sjá ofar.

Hafa orðið einhverjar breytingar á því hvaða útbúnaður er notaður? Hvaða breytingar, ef svo er?
Hrærivélar sjá um að hræra og hnoða. Það var mikill léttir þegar þessar sterku og stóru hrærivélar komu léttu störfin. Annars allt sem fyrr.

Upp úr hverju er brauðið steikt og hve lengi? Hvað eru búnar til margar kökur? Er afskurðurinn steiktur?
Bland af jurtafeiti og tólg. Fer eftir hitanum á eldavélinni hvað langan tíma það tekur en ca. 20-30 sek. held ég, Afskurðurinn er steiktur og borðaður strax meðan klárað er að skera út.

Er laufabrauðið pressað eftir að búið er að steikja það? Með hverju er pressað? Ef að það er ekki pressað, hvað er gert við brauðið þegar það kemur upp úr pottinum?
Sjá ofar. Eldhúspappír er hafður undir þegar pressað er til að minnka fitu á kökunum en afklippurnar eru settar beint í körfu með eldhúspappír í botninum.

Segðu frá því hvernig brauðinu er pakkað inn og gengið frá því til geymslu.
Sjá ofar.

Eftir hvaða reglum er laufabrauðinu skipt á milli fólks? Hvað fá menn venjulega margar kökur í sinn hlut?
Ákveðið fyrir fram hvað hver fjölskylda vill fá og verkferlið miðast við það. Fjölskyldur eru misstórar en frá 6-40 á fjölskyldu.

Hvað tekur vinnan við laufabrauðið langan tíma, frá upphafi til enda?
Sjá ofar. Kl. 9-19 ca.

Hverjir sjá um að steikja og ganga frá kökunum? Er kynja- eða verkaskipting við þetta? Getur þú sagt frá því?
Misjafnt en aðallega eru það þeir sömu 4-5 af báðum kynjum til skiptis. Einn sem er lítið fyrir að skera vill gjarnan fletja og steikja. En reglan er að allir hafi prófað alla verkþætti þó aldurstakmark sé á steikingu. Miðast við fermingu eða þar um bil.

Laufabrauð er mest borðað um jólin, eins og allir þekkja, en hvenær er byrjað að smakka á því?
Afgangar um leið og búið er að steikja. Aðeins á Þorláksmessu um leið og búið er að sjóða hangikjötið og það þarf að smakka þetta til! Annars á aðfangadagskvöld og fram eftir nóttu við sjónvarp og bóklestur.

Með hverju þykir þér best að borða laufabrauð?
Smjöri - langbest. Með hangikjöti, rjúpum, kalkúni o.fl. Nauðsynlegt á afgangahlaðborðið á þrettándanum ef það hefur ekki klárast fyrr.

Borðar þú, eða fólk sem þú þekkir, laufabrauð með einhverju sem talist gæti óhefðbundið meðlæti? Ef svo er, hvað er hér helst um að ræða?
Nei ???

Hvernig kökur þykja ykkur bestar? Nefnið hráefni o.fl.
???

Hvað endist þinn laufabrauðsskammtur lengi? Hvað er gert við afganginn frá jólunum?
Yfir jólin, stundum fram á nýársdag eða jafnvel þrettándann.

Hvenær og hvernig er afskurðarins neytt? Hvaða heiti þekkir þú á honum?
Strax eftir steikingu er hann mjög vinsæll eins og snakk, en næstu tveir dagar á eftir í mesta lagi.

Kaupir þú tilbúið laufabrauð í búðum eða bakaríum? Frá hvaða aðila er besta brauðið að þínu mati?
Næstum aldrei - en hef smakkað mjög gott laufabrauð frá Kristjánsbakaríi á Akureyri.

Hver er tilgangur þess að búa til laufabrauð, annar en hinn praktíski svo að segja? Hvaða þýðingu hefur þessi hefð fyrir þig?
Fjölskyldusamvera, gaman að færa hefðir áfram til næstu kynslóða og sjá hvað þau kunna vel að meta það. Kveikir minningar um fortíðina, bernskuárin, fyrstu búskaparárin, árin erlendis o.s.frv. Ríkur hluti af jólahefðum og sameinar fjölskylduna um eitt verkefni.

Getur þú sagt frá laufabrauðsgerð? Þetta geta verið minningabrot, þín upplifun, hvort og með hvaða hætti hefðin hefur breyst, hvað er jákvætt, hvað er neikvætt eða annað sem kemur upp í hugann.
Sjá ofar. Margar minningar sem koma upp í hugann. Stundum vorum við allt upp í 20 saman. Svo margir af elstu kynslóðinni sem hefur verið með okkur er horfin núna á síðustu 10 árum. Það mættust 4 kynslóðir við borðstofuborðið og þeir eldri sögðu sögur og rifjuðu ýmislegt upp og þau yngri sperrtu eyrun. Tengdamóðir mín og sambýlismaður hennar voru mjög skemmtilegt fólk sem hafði frá mörgu að segja. Eldri bróðir minn og mágkona sömuleiðis. Litlu krakkarnir sem ekki höfðu úthald í laufaskurð brugðu sér frá og fóru í búninga og héldu uppi fjörinu o.s.frv. Mamma sem stóð 97 ára með kökukeflið og flatti nokkrar kökur og skemmti sér svo vel með börnunum og augu hennar ljómuðu af gleði að hafa fjölskylduna í kring um sig. Allt jákvætt við þessa hefð svo lengi sem allir eru sáttir við að taka þátt og fylgja verkefninu til enda. Nú er elsta kynslóðin horfin en ný kynslóð tekur við. Vonandi fáum við sem erum núna í elstu kynslóðinni að fylgjast með henni taka þátt í laufabrauðsdegi og læra verkþættina einn af öðrum. Það er góð tilfinning að sjá fólkið sitt fara, hvert með sitt box fullt af laufabrauði, að afloknum skemmtilegum degi.
Spurningaskrá
Aðfangategund
Efnisorð / Heiti
Efnisorð: Laufabrauðsgerð
Efnisorð:
Laufabrauð