Laufabrauð

04.12.2020

Aðrar upplýsingar

Kyn / Fæðingarár heimildarmanns
Kona (1960)
Ártal
Sent dags: 04.12.2020
Safnnúmer
Safnnúmer B: 2020-3-30
Staður
Núverandi sveitarfélag: Dalvíkurbyggð, Dalvíkurbyggð
Spurningaskrá / Svör
Gerði fjölskylda þín laufabrauð á æskuárum þínum? Ef svo er, hverjir á heimilinu tóku þátt? Komu aðrir að laufabrauðsgerðinni en heimilisfólkið? Hverjir, ef svo er?
Laufabrauð var alltaf gert á minu heimili. Allt gert frá grunni, flatt út, skorið og steikt. Allir á heimilinu tóku þátt og afi og amma og bræður mömmu komu líka. Það fór heill dagur í þetta og matur saman um kvöldið. Amk 300 kökur steiktar, stundum meira. Amma og afi fengu kökur líka. Afskurðurinn var steiktur og var veisla hjá okkur krökkunum að borða með mjólk.

Fór laufabrauðsgerð sem þú tókst þátt í eingöngu fram á heimili þínu eða á fleiri stöðum? Hvaða stöðum?
Bara heima og mamma var verkstjórinn.

Hvar og hvernig kynntust foreldrar þínir þessari hefð? Nefndu einnig sveitarfélag og hvort það var í þéttbýli eða til sveita.
Mamma og pabbi voru bæði alin upp við laufabrauð. Mamma er úr Svarfaðardal og pabbi úr Skíðadal. Afarnir mínir báðir voru útskurðarsnillingar. Skáru alls konar munstur og myndir út með vasahnífunum sínum.

Var laufabrauðið sem þú þekktir í æsku svipað því sem kallað er laufabrauð í dag? Ef ekki, gætir þú lýst brauðinu sem kallað var laufabrauð í þínu ungdæmi?
Já, ég geri eins laufabrauð og mamma og amma gerðu. Munurinn í dag er meira í útskurðinum. útskurðarjárnin eru bara að koma eftir 1970. Reyndar er gamla aðferðin að koma aftur hjá unga fólkinu, þe að skera sjálfur munstrið.

Ef að þú komst ekki að gerð laufabrauðs í æsku en tókst þátt í henni seinna á ævinni, hvaðan og hvenær kom hún inn í líf þitt?
Alltaf gert laufabrauð og geri enn.

Býrð þú til laufabrauð í dag? Gerir þú það með fleiri en einum hópi, ef svo er? Hvaða hópum?
Já geri það. Nú er ég tekin við hlutverkinu hennar mömmu en hún kemur og sker. Öll fjölskyldan tekur þátt. Gaman að geta þess að frændi minn flutti til norður Noregs fyrir 40 árum. Það gékk ekki alveg að senda laufabrauð milli landa svo hann fékk uppskriftina og konan hans gerði deigið. Fjölskyldan sá um að skera á gamla mátann og baka. Dætur hans eru komnar með sínar fjölskyldur í dag og þær halda í þessa hefð, koma saman fyrir jólin og gera laufabrauð.

Kemur þú að gerð laufabrauðs á hverju ári eða hefur þú hugsanlega tekið pásu um lengri eða skemmri tíma? Hvers vegna?
Alltaf laufabrauðsgerð á hverju ári.

Er sérstakur dagur og tími tekinn frá fyrir laufabrauðið? Hvernig er hann valinn? Er gert laufabrauð á öðrum tímum árs en fyrir jólin? Ef svo er, hvenær og við hvaða tækifæri?
Sérstakur dagur er fyrir laufabrauðsgerðina. Hann er ákveðin í samráði við fjölskylduna. Stundum miðast hann við hvenær börn sem eru komin í framhaldsskóla komast heim. Seinni árin höfum við reynt að hafa hann í nóvember.

Hvaða hugmyndir hefur þú um útbreiðslu laufabrauðs í dag? Finnst þér að hún hafi farið vaxandi eða minnkandi á síðustu 20-30 árum eða stendur hún kannski í stað?
Hér á norðurlandi held ég að hún,sé svipuð, við erum flest alin upp við þessa hefð og höldum henni.

Hvaða áhrif hefur COVID-19 á laufabrauðsgerð þína? Koma vídeó-símtöl á netinu, eins og t.d. á Facebook, hugsanlega við sögu? Getur þú sagt frá þessu, ef svo er?
Það hafði reyndar áhrif í ár. Partur af fjölskyldunni sem býr á suðurlandi, kom ekki, var í videosambandi og fengu laufabrauðskökur sendar suður.

Eru einhverjir sem halda utan um daginn eða sjá til þess að nóg sé af öllum áhöldum og öðru sem til þarf? Hverjir, ef svo er?
Já ég, húsmóðirin.

Búið þið til deig sjálf eða kaupið þið það tilbúið og fletjið út? Kaupið þið útflattar kökur?
Áður fyrr var deigið alltaf gert heima. Á tímabili buðu bakaríin upp á að þú gast komið með deigið og þeir flatt út fyrir okkur, eða þeir gerðu deigið eftir okkar uppskrift og flöttu út. En það er ekki hægt lengur og eftir það geri ég bara deigið sjálf heima.

Hvaða korntegundir eða hugsanlega blöndu af þeim notið þið í deigið? Hvaða önnur hráefni eru notuð?
Hveiti. Hjartarsalt, salt, kúmen, mjólk, sykur.

Hverjir búa til deigið? Þekkist kynja- eða verkaskipting við að hnoða og fletja deigið? Segðu frá því, ef svo er.
Það er örugglega misjafnt eftir heimilum. Hjá mér sér konan um deigið en karlmennirnir mest um að fletja út. Jafnt milli kynja í steikingunni.

Hvaða áhöld og annan útbúnað notar þú við laufabrauðsskurðinn? Segðu frá því og hvaða hlutverki þau gegna.
Hnífar td vasahnífar. Best að sé smá oddur á þeim. Bretti til aðskera á. Laufabrauðsjárn til að skera munstrið. Laufabrauðsjárnið mitt kemur frá mömmu minni, það er smiðað af Jóni Björnssyni á Dalvík. Kleinujárn ( lika smiðað af Jóni ) til að skera kökurnar í upphafi, þegar flatt er út og kakan mótuð. Hlemmur til að pressa kökuna eftir steikingu, ná fitunni úr og gera hana beina.

Eiga eldri áhöldin sér sögu? Hafa einhver þeirra t.d. erfst á milli kynslóða? Hvaða áhöld, ef svo er? Hver átti þau fyrst?
Já mörg þeirra. Flestir hnífarnir eru eingöngu notaðir í laufabrauðsgerðina. Þau koma öll frá mömmu og sum komu áður frá ömmu. Kleinujárnið kemur frá móðurömmu minni. Nokkrir vasahnífar eru líka frá afa og ömmu. Hlemmurinn til að pressa kökuna eftir steikingu gerði maðurinn minn eftir hlemmi sem langamma mín átti og var orðin illa farin.

Hvaða munstur skerð þú helst út? Ber útskurðurinn eða munstrin sem þú notar einhver heiti? Hvaða heiti? Er eitthvað sem þér finnst að eigi ekki að skera út í laufabrauð? Hvað og hvers vegna, ef svo er?
Yfirleitt svipað. Stafir heimilismanna, jólatré og munstur mynduð af strikum. Man ekki eftir neinum nöfnum. Kökur sem eru með handskornu munstri eru alls konar, mest samdar á staðnum. Amk 1 kirkja. Man aldrei eftir að eitthvað hafi komið upp sem passaði ekki á laufabrauð.

Hvað ræður því helst hvað þú skerð út? Skipta hefðir máli í þessu sambandi eða hvaðan færð þú hugmyndirnar? Vilt þú nostra við útskurðinn, gera flókin mynstur eða vera fljótur vegna þess að það eru margar kökur sem þarf að skera út?
Hefðir og svo bara hvað kemur upp í hugann. Það er alltaf nostrað við útskurðinn, ekki rubbað af.

Er eitthvað sem þér finnst skemmtilegra eða leiðinlegra að skera út en annað? Hvað, ef svo er? Eða er þetta kannski alveg hlutlaust?
Það er bara alltaf gaman að gera laufabrauð.

Hvað skera aðrir út í þínum hópi? Er það á einhvern hátt frábrugðið því sem þú gerir?
Sennilega svipað þó hver geri eftir sínu höfði. En það er alveg samkeppni.

Hver kenndi þér að skera út? Hefur þú kennt einhverjum útskurð? Hverjum?
Pabbi og afi. Ég hef kennt mínum yngri systkinum, börnum og systkinabörnum, líka skiptinema sem var einu sinni hér.

Hverjir sjá um að skera út? Geta allir tekið þátt, börn líka?
Allir sem etu ekki fastir í að fletja út eða eitthvað og endilega að láta börnin byrja sem fyrst.

Hvaða áhöld og annað sem til þarf er notað við steikinguna? Segðu frá þeim og hvaða hlutverki þau gegna.
Steikingapottur og spaði til að velta kökunum og veiða uppúr, hlemmur til að pressa kökuna strax eftir steikingu.

Hafa orðið einhverjar breytingar á því hvaða útbúnaður er notaður? Hvaða breytingar, ef svo er?
Nei ekki á meðan ég hef gert það.

Upp úr hverju er brauðið steikt og hve lengi? Hvað eru búnar til margar kökur? Er afskurðurinn steiktur?
Feiti. Ca 200 kökur gerðar venjulega, fer eftir hve margir taka þátt og vilja kökur. Afskurðurinn er steiktur.

Er laufabrauðið pressað eftir að búið er að steikja það? Með hverju er pressað? Ef að það er ekki pressað, hvað er gert við brauðið þegar það kemur upp úr pottinum?
Já alltaf pressað svo kökurnar verði sléttar og fínar. Ef einhver kaka er ekki pressuð þá er hún tekin í smakk á eftir.

Segðu frá því hvernig brauðinu er pakkað inn og gengið frá því til geymslu.
Kökunum er raðað á smjörpappír á meðan þær eru að taka sig. Svo er þeim staflað í kassa og smjörpappir settur utan með, undir og yfir. Kassinn er svo geymdur í búri eða svölum stað.

Eftir hvaða reglum er laufabrauðinu skipt á milli fólks? Hvað fá menn venjulega margar kökur í sinn hlut?
Fer eftir fjölskyldustærð eða hvað hver vill fá mikið og er ákveðið í upphafi.

Hvað tekur vinnan við laufabrauðið langan tíma, frá upphafi til enda?
Það fer alveg heill dagur í stússið og stundum fram á kvöld ef gerðar eru 300 kökur.

Hverjir sjá um að steikja og ganga frá kökunum? Er kynja- eða verkaskipting við þetta? Getur þú sagt frá því?
Í dag er ekki kynjaskipting en það er verkaskipting. 2 eru við steikinguna og einn amk sér um að ganga frá kökum og koma með til steikingar.

Laufabrauð er mest borðað um jólin, eins og allir þekkja, en hvenær er byrjað að smakka á því?
Smökkun hefst fljótlega og alltaf er eitthvað borðað á aðventunni. Mest þó um jólin og er alltaf laufabrauð á diski svo fólk geti fengið sér bita.

Með hverju þykir þér best að borða laufabrauð?
Með hangikjöti og stundum lika kartöflumús en líka bara eitt og sér. Man eftir að sumir settu smjör í gamla daga en það tíðkast ekki á mínu heimili í dag.

Borðar þú, eða fólk sem þú þekkir, laufabrauð með einhverju sem talist gæti óhefðbundið meðlæti? Ef svo er, hvað er hér helst um að ræða?
Man ekki eftir því.

Hvernig kökur þykja ykkur bestar? Nefnið hráefni o.fl.
Er alltaf bara með eina gerð og hún er best, þarf bara að vera nóg kúmen.

Hvað endist þinn laufabrauðsskammtur lengi? Hvað er gert við afganginn frá jólunum?
Ef það er afgangur þá er hann borðaður í janúar.

Hvenær og hvernig er afskurðarins neytt? Hvaða heiti þekkir þú á honum?
Strax eftir steikingu og næsta dag. Alltaf búin þá. Man bara eftir afskurði sem nafn.

Kaupir þú tilbúið laufabrauð í búðum eða bakaríum? Frá hvaða aðila er besta brauðið að þínu mati?
Hef gert það en ekki mikið.

Hver er tilgangur þess að búa til laufabrauð, annar en hinn praktíski svo að segja? Hvaða þýðingu hefur þessi hefð fyrir þig?
Þetta hefur mikla þýðingu er svo stór partur af hefðinni og jólunum.

Getur þú sagt frá laufabrauðsgerð? Þetta geta verið minningabrot, þín upplifun, hvort og með hvaða hætti hefðin hefur breyst, hvað er jákvætt, hvað er neikvætt eða annað sem kemur upp í hugann.
Þetta er frábær fjölskyldusamvera og fyrsti jólaandinn kemur í laufabrauðsgerðinni. Gleði og gaman, allir saman. Alltaf eitthvað gott að borða líka. Bara jakvæðni fylgir þessu.
Spurningaskrá
Aðfangategund
Efnisorð / Heiti
Efnisorð: Laufabrauð
Efnisorð:
Laufabrauðsgerð