Laufabrauð

04.12.2020

Aðrar upplýsingar

Kyn / Fæðingarár heimildarmanns
Karl (1949)
Ártal
Sent dags: 04.12.2020
Safnnúmer
Safnnúmer B: 2020-3-11
Staður
Núverandi sveitarfélag: Reykjavíkurborg, Reykjavíkurborg
Spurningaskrá / Svör
Gerði fjölskylda þín laufabrauð á æskuárum þínum? Ef svo er, hverjir á heimilinu tóku þátt? Komu aðrir að laufabrauðsgerðinni en heimilisfólkið? Hverjir, ef svo er?
Nei. Á Tannstöðum í Hrútafirði tíðkaðist ekki laufabrauð og ég er nokkuð viss um að laufabrauð var heldur ekki gert á öðrum bæjum þar um slóðir.

Fór laufabrauðsgerð sem þú tókst þátt í eingöngu fram á heimili þínu eða á fleiri stöðum? Hvaða stöðum?
Ég kynntist laufabrauði upp úr tvítugu í Eyjafirði, þar sem það þótti ómissandi á jólum.

Hvar og hvernig kynntust foreldrar þínir þessari hefð? Nefndu einnig sveitarfélag og hvort það var í þéttbýli eða til sveita.
Foreldrar mínir voru Húnvetningar og ég heyrði hvorugt þeirra nokkurn tíma nefna laufabrauð, a.m.k. ekki þannig að þau hefðu kynnst því eða vanist. Föðuramma mín var af Ströndum og hafði verið vinnukona á Ísafirði og ég þykist því nokkuð viss um að laufabrauð hafi hvorki tíðkast þar né í Árneshreppi. Mamma var frá Syðra-Tungukoti (nú Brúarhlíð) í Blöndudal, en var á aldrinum 5-10 ára í fóstri hjá föðursystur sinni í Hofstaðaseli í Skagafirði. Hefði hún á öðrum hvorum staðnum vanist laufabrauði, þykir mér trúlegt að hún hefði tekið siðinn með sér.

Ef að þú komst ekki að gerð laufabrauðs í æsku en tókst þátt í henni seinna á ævinni, hvaðan og hvenær kom hún inn í líf þitt?
Ég kynntist laufabrauði og laufabrauðsgerð fyrst fyrir jólin 1970 á Skipalóni í Glæsibæjarhreppi í Eyjafirði, þá kominn í sambúð með einni heimasætunni. Ég var svo sem ekki yfir mig áhugasamur, en var auðvitað skikkaður til að skera út eins og aðrir. Þar var reyndar til svonefnt laufabrauðsjárn og það var notað á flestar kökurnar, en alls ekki allar. Snorri bóndi held ég að hafi aldrei snert "þann fjanda", heldur notaði vasahnífinn sinn og mig minnir að flestir hafi skorið a.m.k. nokkrar kökur með hníf. Það var partur af ævintýrinu að geta þekkt "sínar kökur" og skapað sem frumlegust mynstur. Ég var á þessum tíma orðinn 21 árs og sennilega of fullorðinn til að þessi partur af jólastemmningunni næði tökum á mér. Eins og svo margt annað fannst mér laufabrauðið best meðan það var enn heitt. Þegar kom að því að borða það með hangiketinu fannst mér það fremur bragðdauft og ekki bæta miklu við matarnautnina.

Býrð þú til laufabrauð í dag? Gerir þú það með fleiri en einum hópi, ef svo er? Hvaða hópum?
Ég hef, að mig minnir, ekki gert laufabrauð síðan þetta var, en af einhverjum ástæðum oftast keypt laufabrauð fyrir jólin. Það er aftur á móti misjafnt hvort maður man eftir að setja það á borðið. Mér er engin eftirsjá að því. Miklu fremur að mér sé eftirsjá að því að hafa ekki kynnst því fyrr en raunin varð og náð þessari tengingu, sem virðist svo sterk hjá því fólki, sem ólst upp við laufabrauð. Útskurðurinn er svo mikil félagsathöfn og sennilega mun meira virði en átið.

Er sérstakur dagur og tími tekinn frá fyrir laufabrauðið? Hvernig er hann valinn? Er gert laufabrauð á öðrum tímum árs en fyrir jólin? Ef svo er, hvenær og við hvaða tækifæri?
Þessi spurning vekur athygli. Dettur virkilega einhverjum í hug að gera laufabrauð á öðrum árstíma en fyrir jólin? Þótt mér sé persónulega nokkuð sama um laufabrauðið, þykir mér þetta nánast óhugsandi. Akkúrat í ár hefði kannski verið athugandi að fylgja fordæmi Kastrós og fresta jólunum, og þá auðvitað laufabrauðsgerðinni um leið. En annars ...???

Hvaða hugmyndir hefur þú um útbreiðslu laufabrauðs í dag? Finnst þér að hún hafi farið vaxandi eða minnkandi á síðustu 20-30 árum eða stendur hún kannski í stað?
Ég hef svo sem enga hugmynd um það. Nú virðist þetta fyrir löngu alsiða og hefur vafalaust að hluta gerst fyrir tilstuðlan bakara og kaupmanna, en laufabrauðsbakstur barst líka hingað suður með Eyfirðingum og sjálfsagt Þingeyingum. Mín tilfinning er sú að þetta sé löngu orðin hefð og vegna þess hve félagslegi þátturinn er sterkur (fólk safnast saman til að skera út), er þetta ein þeirra hefða sem virðist líklegri til að styrkjast en láta undan síga. Þetta er þó auðvitað hrein ágiskun.

Hvaða áhrif hefur COVID-19 á laufabrauðsgerð þína? Koma vídeó-símtöl á netinu, eins og t.d. á Facebook, hugsanlega við sögu? Getur þú sagt frá þessu, ef svo er?
Kófið hefur engin áhrif á þessu heimili. Kona mín er írsk og hún hefur svo sem veifað íslensku laufabrauði framan í þá ættingja sína sem komið hafa í heimsókn. Oftar en einu sinni hefur ósnortin, aðkeypt pakkning þá verið dregin fram úr skápnum.

Hver kenndi þér að skera út? Hefur þú kennt einhverjum útskurð? Hverjum?
Þetta var nú sosum ekki mikið að læra. Það beitti í rauninni hver sínu hugarflugi. Þessi ár sem ég var fyrir norðan, man ég að ég lagði hugann iðulega í bleyti við útskurðinn og reyndi að finna einhver nýstárleg form.

Hverjir sjá um að skera út? Geta allir tekið þátt, börn líka?
Já, það var hiklaust meginatriði að börn fengju að spreyta sig. Þeim yngstu hjálpaði maður og mér er minnisstætt að þau voru látin festa útlit sinnar köku í minni áður en hún fór í pottinn. Og sú hamingjutilfinning sem fylgdi því að þekkja sína köku eða kökur, var auðvitað áberandi langmest hjá þeim yngstu. Almennt var talsvert lagt upp úr því að hver fengi sitt, þegar að því kom að troða gúmmilaðinu upp í sig. Kökurnar sem skornar voru með járninu flokkuðust hins vegar sem almenningseign.

Hvaða áhöld og annað sem til þarf er notað við steikinguna? Segðu frá þeim og hvaða hlutverki þau gegna.
Hér kann ég lítið frá að segja. Kökukefli, vasahnífar, laufabrauðsjárn og pottur. Það var mikið lagt upp úr því að fletja kökurnar sem þynnstar og vanar konur höfðu ótrúlegt lag á því. Karlmönnum var minnir mig leyfilegt að spreyta sig, en það minnir mig að kvenfólkið hafi aðallega gert til að vekja dálítinn aðhlátur.

Upp úr hverju er brauðið steikt og hve lengi? Hvað eru búnar til margar kökur? Er afskurðurinn steiktur?
Ég man óljóst eftir einhverjum umræðum um hvort betra væri að steikja í olíu eða tólg, en sú minning er sem sagt óljós.

Er laufabrauðið pressað eftir að búið er að steikja það? Með hverju er pressað? Ef að það er ekki pressað, hvað er gert við brauðið þegar það kemur upp úr pottinum?
Mig minnir þvert á móti að ekki mætti koma við kökurnar þegar þær komu upp úr pottinum, enda voru þær brothættar og stökkar, en ef eitthvað misfórst og kakan t.d. brotnaði var hún snarlega étin, enda óhæf á jólaborðið.

Segðu frá því hvernig brauðinu er pakkað inn og gengið frá því til geymslu.
Þetta man ég hreint ekki.

Eftir hvaða reglum er laufabrauðinu skipt á milli fólks? Hvað fá menn venjulega margar kökur í sinn hlut?
Það var ævinlega nóg, eina reglan var sú að það átti hver það sem skar - og það sem skorið var með járninu var almannaeign.

Hvað tekur vinnan við laufabrauðið langan tíma, frá upphafi til enda?
Mig minnir að þetta hafi tekið drjúgan dagpart. Þó ekki byrjað fyrr en eftir hádegismat og alltaf búið vel fyrir kvöldmat.

Hverjir sjá um að steikja og ganga frá kökunum? Er kynja- eða verkaskipting við þetta? Getur þú sagt frá því?
Mig minnir að það þætti kúnst að steikja. En mínar minningar eru sem sagt hálfrar aldar gamlar.

Laufabrauð er mest borðað um jólin, eins og allir þekkja, en hvenær er byrjað að smakka á því?
Ef ég man rétt gilti það sama um laufabrauð og annan bakstur. Það fengu allir aðeins að smakka meðan þetta stóð yfir, en svo var harðbannað að snert fram á aðfangadagskvöld. Svo kláraðist þetta bara smám saman. Entist samt yfirleitt í nokkra daga minnir mig. Laufabrauðið var alltaf ríflegt.

Með hverju þykir þér best að borða laufabrauð?
Ef ég man eftir að taka laufabrauðið fram, ét ég sosum eina köku með hangiketinu - ekki öðru.

Hvenær og hvernig er afskurðarins neytt? Hvaða heiti þekkir þú á honum?
Afskurðurinn hvarf að mig minnir jafnóðum og hann kom úr pottinum.

Kaupir þú tilbúið laufabrauð í búðum eða bakaríum? Frá hvaða aðila er besta brauðið að þínu mati?
Ég kaupi yfirleitt minnstu og/eða ódýrustu pakkninguna. Hef aldrei velt fyrir mér neinum mun á bökurum.

Hver er tilgangur þess að búa til laufabrauð, annar en hinn praktíski svo að segja? Hvaða þýðingu hefur þessi hefð fyrir þig?
Eins og fyrr var sagt held ég að félagslegi þátturinn hafi í rauninni verið mikilvægastur. Sjálfum hefur mér aldrei þótt laufabrauðið sjálft tiltakanlega ómissandi, en ég geri hiklaust ráð fyrir því að fólki sem ólst upp laufabrauð á jólum þættu ómerkileg jól án laufabrauðs.

Getur þú sagt frá laufabrauðsgerð? Þetta geta verið minningabrot, þín upplifun, hvort og með hvaða hætti hefðin hefur breyst, hvað er jákvætt, hvað er neikvætt eða annað sem kemur upp í hugann.
Hér mætti segja ýmislegt - en því miður ekkert umfram það sem þegar hefur verið talið :)
Spurningaskrá
Aðfangategund
Efnisorð / Heiti
Efnisorð: Laufabrauð
Efnisorð:
Laufabrauðsgerð