Runa

Varðveitt hjá
Listasafn Íslands
Runa er pappírsverk sem samanstendur af tuttugu og þremur lóðréttum pappírsörkum og er hver þeirra x 46 cm að stærð. Á örkunum eru handskrifuð með bleki íslensk örnefni (með lágstöfum) sem tengjast öll náttúrunni,mætti kalla þau náttúrulýsandi heiti. Nöfnin eru skrifuð í láréttum röðum og er stærðin á stöfunum og bilið milli línanna svo og orðanna eins á öllum síðunum. Verkið hefur aðeins einu sinni verið sýnt og var það á einkasýningu Kristínar í Gerðarsafni árið 1997. Þar var pappírsörkunum raðað hlið við hlið og hefur það ytra form verksins tilvísun í nafnið sjálft, en einnig og ekki síður í náttúrufyrirbærið foss. Runa er eitt af mörgum verkum Kristínar með skrifuðum texta sem hún hóf að gera um 1984. Þessi verk eru mjög ólík að stærð og efnisgerð. Í mörgum þeirra má finna íslensk örnefni sem Kristín hefur allt frá barnæsku verið mjög heilluð af og telur vera mikinn fjársjóð í íslenskri sögu og menningu.
Nafnið á verkinu, Runa, hefur tvenns konar skírskotun. Hið augljósa er nafnorðið „runa“ (röð, síbylja osfrv.), en örnefnið „Runa“ þekkir Kristín vel þar sem svo nefnist staður á Mjaðmárdal í Eyjafirði á afréttinum sem tilheyrir Munkaþverá, bænum þar sem hún fæddist og ólst upp. Á sýningunni í Gerðarsafni tileinkaði Kristín verkið minningu föður síns. Hann hét Jón Marinó Júlíusson, f. 1882, d. 1971, og var sá sem fyrstur allra vakti áhuga hennar á örnefnum. Sjálfur safnaði hann fjölda örnefna og má finna skrá frá honum á Örnefnastofnun Íslands. Eru það aðallega nöfn frá Munkaþverá og nágrenni.
Aðrar upplýsingar
Titill
Verkheiti: Runa
Ártal
= 1997
Safnnúmer
Safnnúmer A: LÍ-9185
Stærð
106 x 1032 x 0 cm
23 x ( ? x 46)
Aðfangategund
Undirskrár
Undirskrá: Aðalskrá
Gefandi
Höfundarréttur
Höfundarréttur: Myndstef
Höfundarréttur: Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá
