Byggðasafnið Skógum
Byggðasafn Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga var stofnað 1. desember 1949. Safnið, sem í daglegu tali er nefnt Skógasafn, skiptist í byggðasafn, húsasafn og samgöngusafn. Skógasafn er í eigu héraðsnefnda Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Safnið er rekið sem sjálfstæð stofnun með eigin fjárhag en stjórn þess er skipuð af héraðsnefndum sýslnanna sem er ábyrg fyrir rekstri þess. Héraðsskjalasafn Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga er jafnframt til húsa í aðalbyggingu Skógasafns. Forstöðumaður ásamt safnstjórn sem skipuð er fimm mönnum fara með yfirstjórn safnsins. Stofnun byggðasafns Rangárvallasýslu var fyrst rædd á sýslufundi árið 1945. Séra Jón M. Guðjónsson sýslunefndarmaður Vestur-Eyjafjalla bar fram tillögu um að efnt skyldi til byggðasafns sýslunnar og var það samþykkt. Í fyrstu stjórn safnsins voru Guðmundur Erlendsson hreppstjóri á Núpi, formaður, Ísak Eiríksson útibússtjóri Kf. Rangæinga á Rauðalæk og Þórður Tómasson í Vallnatúni. Þórður hafði áður byrjað söfnun muna í smáum stíl og nú hóf hann skipulega söfnun um austurhluta Rangárþings en Ísak Eiríksson safnaði munum í vestanverðri sýslunni. Þórður Tómasson sá um safnið í byrjun og var ráðinn sem safnvörður Byggðasafnsins árið 1959. Fyrstu árin var safnið til húsa í Skógaskóla og var sett upp sumarsýning á safnmunum í einni af kennslustofum skólans.
Fyrsta safnhúsið var byggt 1954-1955 og var þá sett upp fyrsta fastasýning safnsins sem stóð lítið breytt til ársins 1974 þegar ný sýningarskemma var reist austan við gamla safnhúsið. Árið 1995 var vígt nýtt safnhús sem er aðalbygging safnsins. Þar er að finna eina yfirgripsmestu sýningu á menningararfi þjóðarinnar á síðustu öldum hinnar gömlu bændamenningar, s.s. atvinnutæki til lands og sjávar, hannyrðir og handverk ýmiss konar, búninga, vefnað, tóvinnu og verkfæri. Í kjallara er að finna náttúrugripasafn, gjöf Andrésar Valberg til safnsins, og Þorsteinsstofu, sýningu um Þorstein Erlingsson skáld, sem sett var upp í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands og er eign þess. Húsasafn Skógasafns reis á árunum 1968 til 2001. Alls eru 12 endurbyggð hús, torfhús og timburhús frá 19. og 20. öld, auk Skógakirkju. Þessi hús eru verðugir fulltrúar gömlu bændamenningarinnar og hafa öll mikið varðveislugildi. Í þeim geta safngestir um ókomin ár séð þær aðstæður sem þjóðin bjó við á liðnum tímum. Árið 2002 var tekið í notkun 1510 m2 sýningarhús fyrir samgöngu- og tækniminjar. Samgöngusafnið hýsir sýninguna Samgöngur á Íslandi sem fjallar um samgöngur á 19. og 20. öld. Þar er einnig til sýnis vegminjar frá Vegagerðinni, fjarskiptasafn Sigurðar Harðarsonar og sýning Landsbjargar um björgunarsveitirnar í landinu ásamt mörgu öðru. Sýningin er samstarfsverkefni Skógasafns, Þjóðminjasafns, Vegagerðarinnar, Íslandspósts, Rarik og Landsbjargar undir stjórn Skógasafns og rekin af því. Í húsinu eru einnig safnverslun og kaffitería. Helsti hvatamaður að þessu verki var Sverrir Magnússon, þáverandi framkvæmdastjóri safnsins. Fljótlega eftir tilkomu Samgöngusafnsins í Skógum var byrjað að notast við nafnið Skógasafn sem yfirheiti yfir alla safnheildina sem risið hafði í Skógum. Þann 1. september 2017 var nýtt móttökuhús vígt í Skógasafni með stórbættri aðstöðu fyrir gesti og starfsfólk, nýjum snyrtingum og rúmgóðri afgreiðslu. Arkitektarnir Stefán Örn Stefánsson og Grétar Markússon teiknuðu húsið, sem er viðbygging við gamla safnhúsið. Jafnframt var gamla safnhúsið frá 1955 gert upp og gömlu móttökunni breytt í sýningarrými og nýjar sýningar settar þar upp. Þórður Tómasson stóð vaktina á safninu í rúm 60 ár var einn helsti sérfræðingur landsins í þjóðlegum fræðum. Söfnun hans á fornmunum og fræðaskrif hans hefur verið ómetanlegt innlegg fyrir íslenska þjóðmenningu. Vafalaust hefði dýrmæt þekking farið forgörðum ef ekki væri fyrir elju Þórðar í söfnun og fræðimennsku. Eftir Þórð liggja mörg rit um þjóðfræði og sagnfræði í bókum, ýmsum tímaritum og blöðum. Þann 17. júní 1997 var Þórður gerður að heiðursdoktor við heimspekideild Háskóla Íslands (dr. phil. hon.) fyrir vel unnin störf í þágu rannsókna fyrir almenning. Þórður Tómasson lést 27. janúar árið 2022.





