Norska húsið - Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla

Byrjað var að safna menningarminjum í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu árið 1956 er Ragnar Ásgeirsson fór um sveitirnar og safnaði munum, alls 500 gripum. Ragnar var þá ráðunautur Búnaðarfélags Íslands og var það í tengslum við það starf sem hann hóf að safna þjóðlegum minjum í sveitum landsins. Árið 1969 fór svo Magnús Gestsson svipaða söfnunarferð um svæðið og safnaði 500 gripum í viðbót. Magnús skráði munina 1000 og ritað formála að skránni. Magnús var frá Ormsstöðum í Dalasýslu og gerðist kennari og safnvörður í Dölum. Hann sinnti alla tíð söfnun og safnvörslu. Þetta söfnunarátak sem skilaði 1000 safngripum markar upphaf Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla en stofnárið telst vera 1956. Safnkostur var geymdur á Amtsbókasafninu í Stykkishólmi um alllangt skeið meðan beðið var eftir hentugu húsnæði. Safnkostur í heild telst nú vera um 6000 gripir, aðallega frá fyrri hluta 20. aldar. Sérstök áhersla er lögð á að safna gripum af svæði safnsins og ekki síst þeim er tengjast verslun, sjósókn og eyjabúskap. Einnig er öllu safnað er varðar Norska húsið og íbúa þess á 19. og 20. öld. Árið 1970 ákvað Sýslunefnd Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu að festa kaup á Norska húsinu í Stykkishólmi með það fyrir augum að færa húsið til upprunalegs horfs og koma þar upp byggðasafni sýslunnar. Viðgerðir á húsinu stóðu yfir í 36 ár, en Norska húsið er í sjálfu sér merkur safngripur, viðirnir fluttir tilsniðnir frá Noregi og húsið reist 1832. Það var Árni Thorlacius kaupmaður, útgerðarmaður og bóndi sem lét reisa húsið og bjó þar ásamt fjölskyldu sinni. Héraðsnefnd Snæfellinga á nú og rekur safnið. Sveitarfélögin Stykkishólmsbær, Helgafellssveit, Grundarfjarðarbær, Snæfellsbær og Eyja- og Miklaholtshreppur mynda samlag um reksturinn. Forstöðumaður var ráðinn til safnsins árið 1991. Þóra Magnúsdóttir var fyrsti forstöðumaður, þá Sigrún Ásta Jónsdóttir. Frá árinu 2001-2010 Aldís Sigurðardóttir, Sigurlína Sigurbjörnsdóttir 2010-2012, AlmaDís Kristinsdóttir gegndi starfinu frá 2012 til 2014 og frá 2014 hefur Hjördís Pálsdóttir gegnt starfinu. Heldra heimili í Stykkishólmi á 19. öld er aðalsýning hússins og var hún opnuð árið 2001. Sýningin er á miðhæðinni og sýnir heimili Árna og fjölskyldu. Byggt er á skriflegum heimildum um Norska húsið svo og öðrum heimildum frá 19. öld. Gripir á sýningunni eru að hluta til úr eigu Árna og fjölskyldu. Í risi er opin safngeymsla sem sýnir þverskurð af safnkostinum og er munum reglulega skipt út. Geymsla safnsins er utan Norska hússins. Á jarðhæð Norska hússins eru tveir sýningarsalir þar sem settar eru upp sýningar á sumrin og á aðventu. Þessar sýningar eru 3 – 8 yfir árið. Flestar byggja þær á safnkostinum, en einnig koma inn listsýningar, gjarnan tengdar sögu svæðisins, og fyrir kemur að sýningar eru fengnar að láni. Byggðasafnið starfrækir Krambúð þar sem kennir margra grasa. Auk sýninga hefur safnið kappkostað að bjóða upp á staka viðburði. Frá árinu 2005 hefur t.d. verið haldinn árlegur þjóðbúningadagur. Einnig eru haldnir markaðir í tengslum við atburði í húsinu.