Selfoss

Varðveitt hjá
Byggðasafn Árnesinga
Bæjarhóllinn er ekki ýkja hár en hæstur er hann að norðanverðu undir útihúsunum, hóllinn lækkar til suðurs. Bæjarhóllinn er u.þ.b. 70 (SV-NA) x 55 (NV- SA) m í þvermál. Á bæjarhólnum vaxa tré að sunnanverðu neðan við veginn, en vegurinn liggur að austan frá Selfosskirkju og áfram vestur að íbúðarhúsi Gunnars Gunnarssonar Selfoss I. Á norðanverðum hólnum eru útihús og gömlu hús Vestur- og Austurbæjar. Á túnakorti frá 1917 eru sýnd tvö sambyggð íbúðarhús norðan við traðarendann. Vestara húsið er merkt „Íbúðarhús S.J.“ [Símons Jónssonar] en það austara „Íbúðarhús S.A.“ [Sigurgeirs Arnbjarnarsonar]. Vesturbænum tilheyrðu tvö útihús sem stóðu vestar á túninu (vestasta parti). Austurbænum (íbúðarhús S. A.) tilheyrðu þrjú útihús sunnarlega á miðpartstúninu en austan við íbúðarhúsið voru hlaða og peningahús. Engin hús eru sýnd með austasta partinum, sem er tún Norðurbæjar. Matjurtagarður Norðurbæjar lá í túni miðpartsins (Austurbæjar). (Túnakort [1920]. Selfoss (austasti partur). Túnakort [1920]. Selfoss (miðpartur). Túnakort [1920]. Selfoss (vestasti partur).) „Vestan í bæjarhólnum stendur Vesturbærinn. Norðaustur af honum á háhólnum er Austurbærinn. Nokkurn spöl landnorður frá honum var Norðurbærinn. Þar sem nú er Presthúsið sunnanvert.“ (Guðmundur Kristinsson 1991:18) „Búskap lauk þar 1907 og féllu bæjarhúsin í tóft.“ (Sunnlenskar byggðir II 1981:405) Jarðskjálftinn sem varð 16. ágúst 1784 var harðastur í Flóanum og á Selfossi og í Fagurgerði [9] féllu þrjú hús en hin löskuðust. (Sunnlenskar byggðir II 1981:365) Í jarðskjálftanum 6. september árið 1896 ,,... féll fjósið í Vesturbænum á Selfossi og öll hús í Norðurbænum og Austurbænum og fórust þar hjónin Arnbjörn Þórarinsson og Guðrún Magnúsdóttir.“ (Sunnlenskar byggðir II 1981:365) Gamlar ljósmyndir af Selfossbæjunum eru í bókinni Sunnlenskar byggðir II og er ein þeirra tekin árið 1937 af Jóni Jónssyni Þjórsárholti, ein er tekin eftir jarðskjálftana 1896 af Sigfúsi Eymundssyni. Sú síðasta er mjög óskýr en hún er af Norðurbænum. (Sunnlenskar byggðir II 1981:359, 365 og 405) Fleiri gamlar myndir eru í bókinni Saga Selfoss I. Á einni þeirra sér í Austurbæ og Norðurbæ og var hún tekin við konungskomuna 1907 [komu Friðriks konungs VIII] (Guðmundur Kristinsson 1991:89), önnur mynd í sömu bók sýnir bæ Gunnars Einarssonar, Vesturbæinn, árið 1890 (fyrir Suðurlandsskjálftann 1896) og enn önnur sýnir Selfossbæina árið 1900 (eftir Suðurlandsskjálftann 1896). (Guðmundur Kristinsson 1991:186-7) „Árið 1900 var húsum Selfossbænda þannig lýst: „Vesturbær: „Baðstofa 12x5 al, járnvarin. Tvær heyhlöður, járnklæddar, með timburstöfum 11x10 al og 10x7 al. Fjós, hesthús, fjárhús og áburðarsafnhús, öll með torfþaki en í ágætu standi. Á jarðarpartinum er vel vandað íbúðarhús 3ja ára gamalt, úr timbri, allt járnvarið 10 al. langt, 9 al. breitt, allt innréttað, málað utan og innan og vel við haldið með áföstum skúr 9x5 al., járnklæddum.““ „Austurbær: „Geymsluhús 10x 5 al. járnvarið. Fjós, hesthús og fjárhús, öll með torfþaki í góðu standi. Á jarðarpartinum er vandað íbúðarhús úr timbri, allt járnvarið 10 al. langt 9 al. breitt, málað utan og innan, 3ja ára gamalt, velviðhaldið, nú allt innréttað.““ „Á Norðurbænum var torfbaðstofa með járnþaki, þiljuð innan og með timburgólfi. Gengið inn í hana um lág bæjargöng með eldhúsi. Austan við hana var eldiviðargeymslan en að vestan var skemman. Heygarðurinn var á bak við húsin og vestur af honum var fjósið og sneri í vestur með 5-6 básum.“ (Sunnlenskar byggðir II 1981:395) Í Sögu Selfoss er húsum Selfoss lýst svo: „Vesturbærinn á Selfossi. Bæjarhúsin. Árið 1890 var elzta húsið baðstofa Gunnars Einarssonar. Hún var 4 stafgólf 7,55 metra löng og 3,15 metra breið. Veggir voru úr torfi og grjóti og gert yfir með skarsúð og torfi. Suðurstafn úr timbri með 8-rúðu glugga. Fyrir vestan hana var timburhús með reisifjöl á gafli og veggjum en litlar timburflögur skaraðar á þakið. Vestan við innganginn var stofan og geymsluloft uppi. Vestur af henni var gestastofan í skúrbyggingu. Vestastur var Reiðingskofinn úr timbri. Árið 1897 reif Símon bæ Gunnars og reisti þar nýtt íbúðarhús, sem enn stendur. Það er 6,30 m langt og 5,70 m breitt, alls 39 m2 með góðu risi. Gengið er inn að norðan og komið inn í Vesturgang. Þaðan er gengið vestur í eldhúsið. Þar er hleri í gólfi niður í vestari kjallarann. Vestur af eldhúsi er „matreiðsluherbergið,“ þar sem borðað var. Úr Vesturgangi er gengið vestur í stofu. Og vestur af henni er gestastofan, þar sem Símon geymdi bóksafn sitt. Úr eldhúsi er gengið upp á loft og komið þar upp í baðstofu. Þar var kolaofn, sem var eina upphitunin í húsinu auk eldavélarinnar. Vestur af henni eru tvö lítil súðarherbergi. … Árið 1905 var gamla baðstofan austur af íbúðarhúsinu rifin og reistur „íbúðarskúr“ áfastur húsinu, 6,00 x 4,15 m að stærð. Gangur var þangað úr Vesturgangi þvert yfir húsið með dyrum að austan. Tvö herbergi eru þar sitt hvoru megin. … Þá reisti hann [Símon] einnig dyraskúr norðan við innganginn. Var úr honum innangengt norður í hlóðaeldhúsið, sem reist var 1905. Það var 4,40 x 2,50 að stærð og var lengi notað sem eldiviðargeymsla. Útihús. Heyhlaðan var reist 1892 5 x 5 m að stærð með 1,25 m háum timburveggjum. Stafnar voru úr timbri en járn á þaki. Fjós var byggt árið 1900 í slakkanum vestur af bænum 5 x 5 m stórt úr torfi og grjóti með torfþaki. Austur af því rétt fyrir norðan bæinn var hesthúsið úr torfi og grjóti og með torfþaki fyrir þrjá hesta. Fjárhús. Ærhúsið var vestur í Koti, úr torfi og grjóti með járnþaki og sér hrútakofi, og vestast var hesthús fyrir 5-6 hesta. Þar var heyhlaða, sem tók tæpa 100 hestburði. Lambhúsið var þar sem nú er íbúðarhús Gunnars. … Sauðahús Gunnars Einarssonar voru frammi við Flóðhólsdæl. Þegar Einar, bróðir Sigríðar [Sæmundsdóttur], kom að Selfossi 1897, var það að falli komið og var endurbyggt. Björn [Björnsson] vinnumaður hlóð tóftina upp en Einar [Sæmundsson] setti þakið á.“ (Guðmundur Kristinsson 1991:187-8) „Austurbærinn á Selfossi. Bæjarhúsin: Árið 1890 var baðstofa Arnbjörns fyrir austan baðstofu Gunnars. Hún var með gömlu lagi, þykkum torf- og grjótveggjum og þykku torfi á skarsúðinni. Austur af henni var Skemman með geymslulofti. Eftir jarðskjálftana 1896 var Skemman gerð upp, þiljuð innan og sett á hana járnþak og gerð að baðstofu 7,55 x 3,5 m að stærð. Árið 1897 var reist á rústum gömlu baðstofunnar íbúðarhús úr timbri, járnvarið, af sömu stærð og gerð og Vesturbæjarhúsið, 6,30 x 5,70 m eða 37 m2 með 2,20 m lofthæð, sem enn stendur. Eldhús og borðstofa eru að norðan en 2 litlar stofur að sunnan, 11,20 m2 og 5,75 m2. Skömmu eftir aldamót [1900] var reistur áfastur dyra- og geymsluskúr, 29 m2 að stærð. Þar var inngangur af hlaðinu og gengið úr honum vestur í eldhúsið og eystri stofuna. Austan við ganginn var herbergi að sunnan en búr og geymsla að norðan. Austast var Skemman með dyrum fram á hlaðið. Útihús, Fjós var byggt árið 1900 úr torfi og grjóti og með járnþaki 25 m2. Árið 1929 var nýja fjósið byggt 8,20 x 8,80 m steinsteypt og járnþaki og áfast haughús. Þrír kofar úr torfi og grjóti voru frammmi [svo] á túni. Syðst á móti Þóristúni 9 var hesthús, miðhúsið var lambhús og nyrzt lítill fjárhúskofi.“ (Guðmundur Kristinsson 1991:195) „Norðurbærinn á Selfossi. Bæjarhúsin. Þrjár burstir voru fram á hlaðið. Í miðjunni var torfbaðstofa með járnþaki. Veggir voru úr torfi og grjóti en þiljað innan með timbri. Gengið var inn í lág og leiðinleg bæjargöng, og var eldhúsið þar í göngunum. Austan við þau var eldiviðargeymslan en fyrir vestan baðstofuna var skemman. Fjósið var fyrir aftan bæinn og snéri í vestur, fyrir 5-6 kýr. Heygarður fyrir aftan fjósið. Fyrir vestan það var kálgarður, sem Þorfinnur notaði lengi eftir að húsin voru rifin. Fjárhús var í tíð Snorra nyrzt á túninu, á árbakkanum þar sem bergið er hæst, og sést þar enn grasi gróin hæð.“ (Guðmundur Kristinsson 1991:199) Í svæðisskráningu sem unnin var af Fornleifastofnun Íslands er fjallað um Selfossbæinn: „1999: Á bæjarhólnum standa enn tvö timburhús (Austurbær og Vesturbær), bæði byggð 1897 eftir Suðurlandsskjálfta. Þau eru bæði í eyði - Vesturbærinn í meir en 30 ár en Austurbærinn í um 20 - og í mjög slæmu ásigkomulagi, nánast ónýt. Austan við Vesturbæinn er skúr, yngri en aðalhúsið, og var gólf hans tekið að síga mjög meðan búið var í bænum og er nú alveg ónýtt. Tveir kjallarar eru undir Vesturbæ … Skipt var um gler og glugga í báðum húsunum á tímum seinni heimsstyrjaldar en upprunalegur gluggaumbúnaður er enn á norðurhlið Vesturbæjar og þar eru leifar af óvenjulegri timburklæðningu, bogadregnar tré[skífur]. Húsin tvö voru byggð framan (sunnan) við torfbæinn sem hrundi 1897 - og var baðstofan á móts við sundið milli húsanna. Bak við húsin er nú sund á milli þeirra og útihúsasamstæðu sem stendur nyrst á bæjarhólnum og hefur torfbærinn verið þar. Framan við Austur- og Vesturbæ var kálgarður (sýndur á Túnakorti) og var hann við lýði fram um Seinni heimsstyrjöld. Þá voru gróðursett tré þau sem enn eru sunnan við hlaðið. Norðurbærinn stóð sér á hól norðaustan við Austurbæ og eru tæplega 100 m á milli. Þar er nú steypt íbúðarhús. OV [Orri Vésteinsson] skráði 9.11.1999 eftir frásögn Gunnars Gunnarssonar.“ (Menningarminjar í Sandvíkurhreppi:51) Vegurinn heim að Selfossbæjunum liggur að hluta yfir bæjarhólinn. Bæði Austur- og Vesturbærinn standa enn á hólnum, norðan við veginn og voru þau hús byggð árið 1897. Vesturbærinn er í mjög góðu ásigkomulagi enda nýuppgert en austurbærinn er í viðgerð [2004]. GPS: Vesturbær E401327, N383157 og Austurbær E401345, N383160.

Aðrar upplýsingar

Heimildarmaður: Gunnar Gunnarsson
Titill
Sérheiti: Selfoss
Safnnúmer
Safnnúmer B: 161794-1
Stærð
Lengd: 70 m Breidd: 55 m
Staður
Staður: Selfoss I, 800-Selfossi, Sveitarfélagið Árborg
Aðfangategund
Heimildir
Guðmundur Kristinsson. 1991. Saga Selfoss I. Frá landnámi til 1930. Selfosskaupstaður. Guðrún Alda Gísladóttir. 2002. Menningarminjar í Sandvíkurhreppi. Svæðisskráning. Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík. Sunnlenskar byggðir II. Flóinn. 1981. Ritnefnd: Oddgeir Guðjónsson, Jón Guðmundsson og Júlíus Jónsson. Páll Lýðsson bjó til prentunar. Búnaðarsamband Suðurlands, (án útgáfust.). Túnakort [1920]. Selfoss (austasti partur). Sandvíkurhreppur, Árnessýsla. Þjóðskjalasafn Íslands. Túnakort [1920]. Selfoss (miðpartur). Sandvíkurhreppur, Árnessýsla. Þjóðskjalasafn Íslands. Túnakort [1920]. Selfoss (vestasti partur). Sandvíkurhreppur, Árnessýsla. Þjóðskjalasafn Íslands.

Upprunastaður

63°56'16.0"N 21°0'48.9"W