Söðuláklæði i vörslu Borgarsögusafns
Söðuláklæði eru skreytt klæði sem upphaflega voru sett í söðla kvenna til prýði og gagns, en einnig notuð og gerð til að skreyta híbýli. Klæðin voru ýmist glitofin eða glitsaumuð, yfirleitt um 150 x 100 sm að stærð. Einkenni þessara klæða eru jurta- og blómamunstur í fögrum litum á dökkum grunni.
Árin 2018 og 2019 var unnið að verkefninu: Söðuláklæði á Borgarsögusafni Reykjavíkur, með styrkjum frá safnasjóði. Verkefnið var unnið í samstarfi safnsins og Þórdísar Önnu Baldursdóttur, forvarðar. Verkefnið fól í sér ástandskönnun, samanburð á munstrum, forvörslu og pökkun 22 söðuláklæða, frá 19. öld, sem varðveitt eru á Borgarsögusafni.
Rannsókn á ástandi áklæðanna sýndi að mörg þeirra voru mjög slitin þegar þau komu á safnið. Ákveðið var að fjarlægja, að hluta, gamlar viðgerðir og viðbætur sem gerðar voru eftir að áklæðin komu til varðveislu á safni og sýna því ekki merki um notkun eða sögu fyrir þann tíma.
Munstur söðulákæðanna eru mjög fjölbreytt og ekkert þeirra alveg eins. Flokka má munsturgerðir í þrjú grunnmunstur. Algengastar eru ýmsar gerðir af munstri sem sýnir mjög stór klukkulaga blóm, það prýðir átta klæði á Borgarsögusafninu og má einnig finna víða á öðrum söfnum hérlendis.
Forvarsla söðuláklæðanna miðaðist við langtímavarðveislu, þau voru hreinsuð og þeim pakkað í viðeigandi sýrufríar umbúðir. Samhliða þessu rannsóknarferli Þórdísar voru klæðin ljósmynduð og skráningar í gagnagrunni uppfærðar.
Curator
Þórdís Anna Baldursdóttir
Gerður Eygló Róbertsdóttir
Objects
22
Related Objects












