Reykjavík með augum biskups

   Á sýningunni Reykjavík með augum biskups eru birt 36 olíumálverk máluð af Jóni Helgasyni biskup (1866-1942) en hann hafði alla tíð mikinn áhuga á hvoru tveggja, myndlist og sögu Reykjavíkur. Málverk Jóns varpa ljósi á Reykjavík á tímum þegar bærinn var í örum vexti og og borgaralegt mannlíf í mótun. Stíll Jóns er persónulegur og hlýr og litirnir bjartir. Væntumþykja Jóns í garð bæjarins er augljós. Jón Helgason nam guðfræði í Kaupmannahöfn, var  kennari við Prestaskólann frá 1894 og síðar  forstöðumaður skólans og biskup Íslands árin 1917-1938.  Jón var einnig afkastamikill rithöfundur. Auk rita um guðfræði og kirkjusögu skrifaði hann bækur um sögu Reykjavíkur, mannlíf og menningu. Frá barnaæsku hafði Jón gaman af að teikna og á  námsárum sínum í Kaupmannahöfn sótti hann námskeið í dráttarlist auk þess að fylgjast með menningarlífinu og heimsækja söfn borgarinnar og sýningar. Alla sína starfsævi  stundaði hann myndlist og samhliða vísitasíum um landið teiknaði hann nánast allar kirkjur landsins. En Reykjavík, þróun og saga var honum einkar hugleikin og liggja eftir hann fjölmargar myndir, olíumálverk, vatnslitaverk og teikningar sem varpa áhugaverðu ljósi á þróun bæjarins frá tímum Innréttinganna til daga Jóns í bænum hans, Reykjavík. Borgarsögusafn Reykjavíkur varðveitir um 120 málverk og teikningar eftir Jón, öll með Reykjavík sem myndefni. Reykjavíkurborg keypti þessi verk af dánarbúinu árið 1945 og urðu þau eins konar stofngjöf til Skjala- og minjasafns Reykjavíkur þegar það var stofnað árið 1954. Með tilkomu Árbæjarsafns árið 1957 voru lausir munir, þar á meðal málverk og teikningar Jóns, flutt undir Árbæjarsafn, sem í dag er hluti af Borgarsögusafni.
Curator
Gerður Eygló Róbertsdóttir
Objects
36
Related Objects