Laufabrauð

04.12.2020
In preservation at
National Museum of Iceland

Main information

Gender / Year of Submittee
Kona (1956)
Dating
Day sent: 04.12.2020
Object-related numbers
"Museumnumber b": 2020-3-129
Place
Núverandi sveitarfélag: Reykjavíkurborg, Reykjavíkurborg
Questions / Answers
Gerði fjölskylda þín laufabrauð á æskuárum þínum? Ef svo er, hverjir á heimilinu tóku þátt? Komu aðrir að laufabrauðsgerðinni en heimilisfólkið? Hverjir, ef svo er?
Frá því ég var svona 12-14 ára gömul, upp úr 1970, gerði mamma laufabrauð. Fyrst var það bara mamma og við systkinin. Síðan jókst þetta og varð alveg ómissandi partur af jólaundirbúningnum.

Fór laufabrauðsgerð sem þú tókst þátt í eingöngu fram á heimili þínu eða á fleiri stöðum? Hvaða stöðum?
Bara heima.

Hvar og hvernig kynntust foreldrar þínir þessari hefð? Nefndu einnig sveitarfélag og hvort það var í þéttbýli eða til sveita.
Við bjuggum í Hafnarfirði þegar bróðir minn ca 9-10 ára kynntist þessu heima hjá vini sínum sem var ættaður að norðan og mamma gerði þetta fyrir hann. Hún gerði þetta ein fyrst, svo fórum við systkinin að taka þátt í skurðinum og síðar varð það fljótlega mitt hlutverk að steikja. Mamma ættuð að vestan/sunnan, alin upp í REY. Pabbi af sveitabæ á Kjalarnesi voru ekki alin upp við þetta. En laufabrauðið sló í gegn og varð fjölskyldusiður.

Var laufabrauðið sem þú þekktir í æsku svipað því sem kallað er laufabrauð í dag? Ef ekki, gætir þú lýst brauðinu sem kallað var laufabrauð í þínu ungdæmi?
Já þetta er svipað. Mamma fékk uppskriftina frá húsmæðrakennara, Sólveigu (Olllí) sem var Hafnfirðingur. Það var reyndar með heilhveiti líka, meira en í keyptum kökum. Afskurðurinn var steiktur síðast og borðar fram á jólum eins og hver vildi. Sem var hellingur, það voru steiktar kannski 100 eða fl. kökur. Eftir að mamma dó 2001, tók ég að mér EINU sinni að gera eins og hún, að hnoða og fletja út fyrir stórfjölskylduna og hafa tilbúið til skurðar. Ég var með vöðvabólgu í marga daga á eftir, þvílíkt púl. Síðan hef ég keypt kökur tilbúnar til útskurðar frá ömmubakstri. Við krakkarnir söltuðum gjarna partana/afskurðin líkt og popp og borðuðum sem snakk. Amma mín vestfirðingur, fædd 1911 fannst frekar lítið til þessa norðlenska kex koma í fyrstu, en fínt þegar búið var að krydda það upp og bragðbæta með chile eða hvítlauk.

Ef að þú komst ekki að gerð laufabrauðs í æsku en tókst þátt í henni seinna á ævinni, hvaðan og hvenær kom hún inn í líf þitt?
Frá því ég var unglingur.

Býrð þú til laufabrauð í dag? Gerir þú það með fleiri en einum hópi, ef svo er? Hvaða hópum?
Já en bara heima, barnabarnið of ungt og og sonurinn upptekinn við annað og nærfjölskyldan sem var í þessu með mér áður, er ekki á landinu eða látið.

Kemur þú að gerð laufabrauðs á hverju ári eða hefur þú hugsanlega tekið pásu um lengri eða skemmri tíma? Hvers vegna?
Á hverju ári nema það verður pása í ár þar sem ég verð út á sjó nema rétt aðfangadag.

Er sérstakur dagur og tími tekinn frá fyrir laufabrauðið? Hvernig er hann valinn? Er gert laufabrauð á öðrum tímum árs en fyrir jólin? Ef svo er, hvenær og við hvaða tækifæri?
Alltaf á aðventunni, bara þegar vont var veður svo maður nyti þess að vera heima í hugguleitum en tapaði sem sagt ekki skíða- eða skautafæri.

Hvaða hugmyndir hefur þú um útbreiðslu laufabrauðs í dag? Finnst þér að hún hafi farið vaxandi eða minnkandi á síðustu 20-30 árum eða stendur hún kannski í stað?
Veit ekki, en mér finnst fleiri kaupa tilbúið laufabrauð, sem mér finnst ekki eins bragðgott. Skrítið kannski, að mér finnst ekki jafngott bragð af þeim sem eru keyptar steiktar eins og þeim sem ég steiki heima jafnvel þó það sé væntanlega sama uppskriftin "Ömmubakstur". Svo finnst mér þær norðlensku KK bakarí fullsætar.

Hvaða áhrif hefur COVID-19 á laufabrauðsgerð þína? Koma vídeó-símtöl á netinu, eins og t.d. á Facebook, hugsanlega við sögu? Getur þú sagt frá þessu, ef svo er?
Engin áhrif.

Eru einhverjir sem halda utan um daginn eða sjá til þess að nóg sé af öllum áhöldum og öðru sem til þarf? Hverjir, ef svo er?
Ég sjálf.

Búið þið til deig sjálf eða kaupið þið það tilbúið og fletjið út? Kaupið þið útflattar kökur?
Kaupi útflattar.

Hvaða korntegundir eða hugsanlega blöndu af þeim notið þið í deigið? Hvaða önnur hráefni eru notuð?
Þessar keyptu eru bara hveitikökur, fínt eða gróft. örlítið salt. mjólk og vatn. Það var meira heilhveiti í heimgerða deiginu áður. Stundum líka kúmen.

Hverjir búa til deigið? Þekkist kynja- eða verkaskipting við að hnoða og fletja deigið? Segðu frá því, ef svo er.
Húsmóðirin , mamma og síðar ég búa til deigið, hnoða fysrst með hrærivél og síðan í höndum, og fletja. Karlanir og strákar skera. Konurnar steikja og karlarnir kannski handlangara, taka sjóðheitar kökurnar setja á þær eldhúsbréf og þerra undir smá pressu til að gera þær sléttari svo þær staflist betur í kökuboxið. Reyndar hef ég keypt þær tilbúnar útflattar á síðari árum.

Hvaða áhöld og annan útbúnað notar þú við laufabrauðsskurðinn? Segðu frá því og hvaða hlutverki þau gegna.
Beitta hnífa, laufabrauðsjárn og stundum svona krem/ rjómasprautustúta til að gera sá munstur.

Eiga eldri áhöldin sér sögu? Hafa einhver þeirra t.d. erfst á milli kynslóða? Hvaða áhöld, ef svo er? Hver átti þau fyrst?
Fékk laufabrauðsjárnið að gjöf frá systur minni fyrir 40 árum, sem keypti það af þeim sem renndi það úr kopar. Það var einhver á Dalvík eða Árskógströnd sem renndi það held ég.

Hvaða munstur skerð þú helst út? Ber útskurðurinn eða munstrin sem þú notar einhver heiti? Hvaða heiti? Er eitthvað sem þér finnst að eigi ekki að skera út í laufabrauð? Hvað og hvers vegna, ef svo er?
Bara eitthvað út og suður. Sól, stjörnu, hring upphafstafi, jól, renndur eða jólagrein.

Hvað ræður því helst hvað þú skerð út? Skipta hefðir máli í þessu sambandi eða hvaðan færð þú hugmyndirnar? Vilt þú nostra við útskurðinn, gera flókin mynstur eða vera fljótur vegna þess að það eru margar kökur sem þarf að skera út?
Ef ég hef félagsskap og tíma þá er gaman að nostra við útskurðinn. Hafi ég það ekki, þá bara hespa ég þetta af á sem fljótasta máta, þetta er allt borðað hvort eð er.

Er eitthvað sem þér finnst skemmtilegra eða leiðinlegra að skera út en annað? Hvað, ef svo er? Eða er þetta kannski alveg hlutlaust?
já alveg hlutlaust.

Hvað skera aðrir út í þínum hópi? Er það á einhvern hátt frábrugðið því sem þú gerir?
Allir með sinn háttinn á.

Hver kenndi þér að skera út? Hefur þú kennt einhverjum útskurð? Hverjum?
Enginn. Já ég hef kennt syninum þetta og frændsystkinum.

Hverjir sjá um að skera út? Geta allir tekið þátt, börn líka?
Allir og ekki síst börn.

Hvaða áhöld og annað sem til þarf er notað við steikinguna? Segðu frá þeim og hvaða hlutverki þau gegna.
Nota alltaf sama emelerað pottjárnspott frá langömmu minni,hann er a.m.k. 70 ára gamall. Appelsínugulur að utan og guleitur að innan. frekar víður miðað við hæð. Kökurnar rúmast vel í honum. Síðan nota ég gjarnan grill eða fiskitengur til að fiska kökurnar upp og færa yfir á bréf til þerris.Létt brauðbretti sett á heita kökuna til að slétta úr þeim.

Hafa orðið einhverjar breytingar á því hvaða útbúnaður er notaður? Hvaða breytingar, ef svo er?
Sami pottur alla tíð, líka notaður til að steikja kleinur, sjóða saltkjöt og baunir, súpukjöt og svo rjúpur steiktar og soðnar. Tangir til að snúa kökunum í feitinni og taka uppúr hafa breyst með árunum.

Upp úr hverju er brauðið steikt og hve lengi? Hvað eru búnar til margar kökur? Er afskurðurinn steiktur?
Hvítri steikingarfeiti og olíu bara svona ca eitthvað. 20-100 kökur. Afskurðurinn er steiktur ef ekki er keyptar útflattar kökur. Steikingin tekur örskotstund, hafa þær gyltar, ekki og hvítar eða brúnar í gegn.

Er laufabrauðið pressað eftir að búið er að steikja það? Með hverju er pressað? Ef að það er ekki pressað, hvað er gert við brauðið þegar það kemur upp úr pottinum?
Já alltaf pressað með brauðbretti.

Segðu frá því hvernig brauðinu er pakkað inn og gengið frá því til geymslu.
Sett í kökubox eða stórt makinstosh blikkbox.

Eftir hvaða reglum er laufabrauðinu skipt á milli fólks? Hvað fá menn venjulega margar kökur í sinn hlut?
Engar reglur bara eins og hver vill.

Hvað tekur vinnan við laufabrauðið langan tíma, frá upphafi til enda?
Allt frá heilum eftirmiðdegi niður í 2-3 klst.

Hverjir sjá um að steikja og ganga frá kökunum? Er kynja- eða verkaskipting við þetta? Getur þú sagt frá því?
Fullorðnir steikja oftast kvk.

Laufabrauð er mest borðað um jólin, eins og allir þekkja, en hvenær er byrjað að smakka á því?
Þegar búið er að steikja fyrstu kökurnar. Aldrei fyrr en á aðventu.

Með hverju þykir þér best að borða laufabrauð?
Hangikjöti.

Borðar þú, eða fólk sem þú þekkir, laufabrauð með einhverju sem talist gæti óhefðbundið meðlæti? Ef svo er, hvað er hér helst um að ræða?
Já ég geri það og amma og ömmusystur mínar notuðu gjarnan laufabrauð eins og kartöfluflögur eða skrúfur með ídýfum, krydduð sýrðum rjóma. Set gjarnan mexikanska salsasósu og bræddan ost á.

Hvernig kökur þykja ykkur bestar? Nefnið hráefni o.fl.
Ósætar, með heilhveiti, mjólk og örlítið salt.

Hvað endist þinn laufabrauðsskammtur lengi? Hvað er gert við afganginn frá jólunum?
Misjafnt frá ári til árs. Fóðra þresti og aðra smáfugla á öllu sem þeir vilja.

Hvenær og hvernig er afskurðarins neytt? Hvaða heiti þekkir þú á honum?
Partar voru borðaðir eins og hver vildi fram að jólum. Fallegustu kökurnar voru geymdar fram að jólum.

Kaupir þú tilbúið laufabrauð í búðum eða bakaríum? Frá hvaða aðila er besta brauðið að þínu mati?
Nei ekki steikt laufabrauð.

Hver er tilgangur þess að búa til laufabrauð, annar en hinn praktíski svo að segja? Hvaða þýðingu hefur þessi hefð fyrir þig?
Íslenskur jólasiður, skemmtileg samverustund. Minnast úrræðagóðar formæðra og feðra sem gerðu sem mest úr nánast engu.

Getur þú sagt frá laufabrauðsgerð? Þetta geta verið minningabrot, þín upplifun, hvort og með hvaða hætti hefðin hefur breyst, hvað er jákvætt, hvað er neikvætt eða annað sem kemur upp í hugann.
Bestu minningarnar eru notaleg nærvera fjölskyldunnar við eldhúsborðið við að skera og lágvær jólamúsík í bakgrunninn. Eftir að hangikjöt (alltaf frampartur af fullorðnu) er soðið á eftir skötunni á Þollák þá er kjötið sett í gamalt trog og nokkur laufabrauð við hliðina svo hver sem vill getur nartað í það.
Questionnaire
Keywords
Keyword: Laufabrauð
Keyword:
Laufabrauðsgerð