Laufabrauðsgerð

04.12.2020
In preservation at
National Museum of Iceland

Main information

Gender / Year of Submittee
Kona (1951)
Dating
Day sent: 04.12.2020
Object-related numbers
"Museumnumber b": 2020-3-127
Place
Núverandi sveitarfélag: Akureyrarbær, Akureyrarbær
Questions / Answers
Gerði fjölskylda þín laufabrauð á æskuárum þínum? Ef svo er, hverjir á heimilinu tóku þátt? Komu aðrir að laufabrauðsgerðinni en heimilisfólkið? Hverjir, ef svo er?
Ólst upp við laufabrauðsgerð frá fæðingu. Stóratburður árlega hjá móðurömmu minni úr Eyjafirði. Stórfjölskyldan kom saman um miðjan desember ásamt nánustu vinum að morgni laugardags. Yfirleitt 20 til 25 manns, amma, báðar dætur hennar, tengdasynir, öll barnabörnin sex, tengdaforeldrar yngri dóttur hennar, fyrrverandi ráðskona ömmu ásamt manni sínum og syni, ömmusystir með manni sínum og þremur dætrum og oft ýmsir tilfallandi vinir. Þannig var þetta þar til amma missti heilsuna um 1980. Þá skiptist fjölskyldan upp í tvennt enda fjölskyldan sístækkandi. Mamma tók við okkar hluta en hún var eldri dóttirin. Við systkinin vorum fjögur og makar okkar og ört fjölgandi barnabörn og alltaf tveir til fjórir vinir. Oftast 15 til 20 manns. Þannig var þetta fram 1997, þá var komið að okkur systkinunum. Við fluttum sitt í hvora áttina, ein fjölskylda til Kanada, ein í Njarðvík, þriðja í Kópavog og ég og mín fjölskylda til Akureyrar. Núorðið koma systur mínar tvær saman með sínum fjölskyldum á höfuðborgarsvæðinu, bróðir minn með sinni fjölskyldu í Kanada og við hér norðanlands. Hóparnir eru yfirleitt 12 til 15 manns. Konurnar sjá alltaf um skipulag og stjórnun en núorðið sjá karlmennirnir um að fletja út. Aðrir skera út og fletta, yngstu börnin pikka kökurnar.

Fór laufabrauðsgerð sem þú tókst þátt í eingöngu fram á heimili þínu eða á fleiri stöðum? Hvaða stöðum?
Alltaf á heimili elstu húsmóður.

Hvar og hvernig kynntust foreldrar þínir þessari hefð? Nefndu einnig sveitarfélag og hvort það var í þéttbýli eða til sveita.
Ævaforn hefð sem hefur alltaf verið til. Heyrði sögur allt frá langalangömmum mínum í Eyfirska legg fjölskyldu minnar. Móðuramma mín fædd 1903 fremst í Eyjafirði. Gríðarlega sterkur kvenleggur sem hefur flutt hefðina milli kynslóða. Amma flytur suður upp úr 1920 og heldur í stjórnartaumana fram yfir 1980. Síðan deilist fjölskyldan upp eins og áður segir. Allir afkomendur nú í þéttbýli.

Var laufabrauðið sem þú þekktir í æsku svipað því sem kallað er laufabrauð í dag? Ef ekki, gætir þú lýst brauðinu sem kallað var laufabrauð í þínu ungdæmi?
Sama uppskriftin hefur verið notuð í gegnum margar kynslóðir. Efni fer eftir aðstæðum á hverjum tíma. Þó veit ég að ekki var settur sykur í deigið fyrr en um 1880. Þá bættist 1 msk sykur á hvert kg hveitis eða mjöli eins sagt var í minni fjölskyldu. Langalangamma mín fór í vist um tíma úr á Akureyri og lærði þar að nota sykur. M.a. lærði hún að búa til sultu og þótti það mikið bruðl með sykur í Saurbæjarhreppi.

Ef að þú komst ekki að gerð laufabrauðs í æsku en tókst þátt í henni seinna á ævinni, hvaðan og hvenær kom hún inn í líf þitt?
Alltaf verið. Þekki ekki annað.

Býrð þú til laufabrauð í dag? Gerir þú það með fleiri en einum hópi, ef svo er? Hvaða hópum?
Ekki síðustu þrjú árin vegna heilsuleysis. Kaupi annað hvort tilbúið eða útflatt til skurðar. Systkini halda enn í hefðina. Fjölskylda mín eru færri en 10 hér norðanlands.

Kemur þú að gerð laufabrauðs á hverju ári eða hefur þú hugsanlega tekið pásu um lengri eða skemmri tíma? Hvers vegna?
Sjá síðasta svar.

Er sérstakur dagur og tími tekinn frá fyrir laufabrauðið? Hvernig er hann valinn? Er gert laufabrauð á öðrum tímum árs en fyrir jólin? Ef svo er, hvenær og við hvaða tækifæri?
Yfirleitt um miðjan desember.

Hvaða hugmyndir hefur þú um útbreiðslu laufabrauðs í dag? Finnst þér að hún hafi farið vaxandi eða minnkandi á síðustu 20-30 árum eða stendur hún kannski í stað?
Verulega vaxandi sunnanlands. Þegar ég var innan við tvítugt þótti þessi hefð okkar sérstök innan okkar umgangshópa.

Hvaða áhrif hefur COVID-19 á laufabrauðsgerð þína? Koma vídeó-símtöl á netinu, eins og t.d. á Facebook, hugsanlega við sögu? Getur þú sagt frá þessu, ef svo er?
Fellur niður í ár í mínum systkinahópi í fyrsta skipti.

Eru einhverjir sem halda utan um daginn eða sjá til þess að nóg sé af öllum áhöldum og öðru sem til þarf? Hverjir, ef svo er?
Sú húsmóðir sem sér um skipulag dagsins, yfirleitt sú elsta í hópnum.

Búið þið til deig sjálf eða kaupið þið það tilbúið og fletjið út? Kaupið þið útflattar kökur?
Venjulega gert frá grunni, en kemur þó fyrir síðustu árin að deig sé keypt útflatt.

Hvaða korntegundir eða hugsanlega blöndu af þeim notið þið í deigið? Hvaða önnur hráefni eru notuð?
Yfirleitt bökunarhveiti. Mjólk, smjör, sykur og lyftiduft eða hjartarsalt.

Hverjir búa til deigið? Þekkist kynja- eða verkaskipting við að hnoða og fletja deigið? Segðu frá því, ef svo er.
Yfirleitt elsta konan lagar deigið. Áður fyrr sáu 3 til 4 konur um að fletja út deigið en upp úr 1980 tóku karlarnir við keflunum enda erfitt að fletja út "heitt" deig.

Hvaða áhöld og annan útbúnað notar þú við laufabrauðsskurðinn? Segðu frá því og hvaða hlutverki þau gegna.
Vasahnífar, kleinujárn, lítil skurðarbretti. Frá 1975 bættust við laufabrauðsjárn.

Eiga eldri áhöldin sér sögu? Hafa einhver þeirra t.d. erfst á milli kynslóða? Hvaða áhöld, ef svo er? Hver átti þau fyrst?
Til er kleinujárn frá langömmu minni, en posinn með vasahnífum og járnum gengur til elstu dóttur í fjölskyldunni á hverjum tíma. Núna í minni eigu.

Hvaða munstur skerð þú helst út? Ber útskurðurinn eða munstrin sem þú notar einhver heiti? Hvaða heiti? Er eitthvað sem þér finnst að eigi ekki að skera út í laufabrauð? Hvað og hvers vegna, ef svo er?
Algengast eru þrjár línur. Alltaf eru skornir upphafsstafir allra í fjölskyldunni og mörg okkar nota það til merkja diskana á jóladag þegar hangikjöt er borðað. Sumir handskera nokkrar kökur með erfiðum mynstrum eða svokallaðar skrautkökur. Þekki ekki heiti.

Hvað ræður því helst hvað þú skerð út? Skipta hefðir máli í þessu sambandi eða hvaðan færð þú hugmyndirnar? Vilt þú nostra við útskurðinn, gera flókin mynstur eða vera fljótur vegna þess að það eru margar kökur sem þarf að skera út?
Ég nota alls konar munstur og ég nostra við að handskera nokkrar kökur á gamla mátann. Þær kökur notum við upp á punt og þær borðaðar síðast.

Er eitthvað sem þér finnst skemmtilegra eða leiðinlegra að skera út en annað? Hvað, ef svo er? Eða er þetta kannski alveg hlutlaust?
Hlutlaust enda yfirleitt svo mikið af kökum að hraði skiptir máli.

Hvað skera aðrir út í þínum hópi? Er það á einhvern hátt frábrugðið því sem þú gerir?
Við skerum öll svipað en ég er sú eina sem handsker.

Hver kenndi þér að skera út? Hefur þú kennt einhverjum útskurð? Hverjum?
Eldra fólkið í fjölskyldunni. Ég hef kennt yngra fólkinu.

Hverjir sjá um að skera út? Geta allir tekið þátt, börn líka?
Hér áður skar fullorðna fólkið út en um fermingu fékk maður að byrja að skera. Á aldrinum 8 til 14 flettum við kökunum. Yngsta kynslóðin sá um að pikka. Allt mjög formfast hver gerði hvað. Önnur kynslóð fékk að sækja og fara með kökur úr og í skurð og steikingu enda kúnst að læra hvernig rakastig á að vera á kökum fyrir skurð. Sama gilti um að fletja út en það fékk maður að læra um 18 ára aldurinn.

Hvaða áhöld og annað sem til þarf er notað við steikinguna? Segðu frá þeim og hvaða hlutverki þau gegna.
Stór pottur með góðu loki, stór gaffall og flatur potthlemmur eða laufabrauðshlemmur. Gott lok innan handar því laufabrauðsfeitin er heitari en kleinufeiti og því nauðsynlegt að vera snöggur að grípa lokið og setja á pottinn ef það fór að rjúka of mikið úr feitinni. Gaffallinn var notaður til að snúa kökunni í pottinum og hlemmurinn er lagður smá stund á heita kökuna þegar hún kemur úr pottinum. Ekki hægt að gera ef kakan nær að kólna því þá brotnar hún.

Hafa orðið einhverjar breytingar á því hvaða útbúnaður er notaður? Hvaða breytingar, ef svo er?
Engar.

Upp úr hverju er brauðið steikt og hve lengi? Hvað eru búnar til margar kökur? Er afskurðurinn steiktur?
Tólg áður fyrr, upp úr 1970 var farið að blanda plöntufeiti eða pálmann út í. Núorðið notuð Kristjánsdóttir frá Kristjárnsbakaríinu á Akureyri. Fjöldi fer eftir hversu margar fjölskyldur eru að störfum en miðað er við 20 til 30 á fjölskyldu. Þó fer fjöldinn fer aldrei undir 50 í heimabakstri. Allur afskurður er steiktur og haft með fjölskylduhátíð í lok laufabrauðsdags. Í minni fjölskyldu var alltaf steikt soðið brauð fyrst.

Er laufabrauðið pressað eftir að búið er að steikja það? Með hverju er pressað? Ef að það er ekki pressað, hvað er gert við brauðið þegar það kemur upp úr pottinum?
Pressað með sléttu pottloki eða laufabrauðshlemmi. Kökum staflað 15 í saman um leið og þær kólna.

Segðu frá því hvernig brauðinu er pakkað inn og gengið frá því til geymslu.
Sett í kökubox . Í botninn og efst er settur smjörpappír. Geymt helst í svalara lagi. Afslurðir og soðið brauð borðað strax og næstu daga.

Eftir hvaða reglum er laufabrauðinu skipt á milli fólks? Hvað fá menn venjulega margar kökur í sinn hlut?
20 til 30 á fjölskyldu.

Hvað tekur vinnan við laufabrauðið langan tíma, frá upphafi til enda?
Byrjað að morgni eða undir hádegi og miðað við að steikingu sé lokið fyrir kvöldið. Um leið er soðið hangikjöt sem allir borða saman í lok dags.

Hverjir sjá um að steikja og ganga frá kökunum? Er kynja- eða verkaskipting við þetta? Getur þú sagt frá því?
Aðalhúsfreyjan og allir hjálpast. Engin verkaskipting eða eftir kyni.

Laufabrauð er mest borðað um jólin, eins og allir þekkja, en hvenær er byrjað að smakka á því?
Aðfangadagskvöld er fyrsti skammtur settur á disk og síðan fyllt á eftir þörfum og allir mega brjóta sér bita en bannað að liggja í því. Áætlað er að skammturinn dugi fram yfir áramót.

Með hverju þykir þér best að borða laufabrauð?
Hangikjöt.

Borðar þú, eða fólk sem þú þekkir, laufabrauð með einhverju sem talist gæti óhefðbundið meðlæti? Ef svo er, hvað er hér helst um að ræða?
Þekki ekki til þess.

Hvernig kökur þykja ykkur bestar? Nefnið hráefni o.fl.
Venjulegar hveitikökur.

Hvað endist þinn laufabrauðsskammtur lengi? Hvað er gert við afganginn frá jólunum?
Fram yfir áramót.

Hvenær og hvernig er afskurðarins neytt? Hvaða heiti þekkir þú á honum?
Strax og næstu daga.

Kaupir þú tilbúið laufabrauð í búðum eða bakaríum? Frá hvaða aðila er besta brauðið að þínu mati?
Já og það er best frá Axelsbakaríi á Akureyri.

Hver er tilgangur þess að búa til laufabrauð, annar en hinn praktíski svo að segja? Hvaða þýðingu hefur þessi hefð fyrir þig?
Skemmtilegasta jólahátíðin þar sem allir hittast með óformlegum hætti.

Getur þú sagt frá laufabrauðsgerð? Þetta geta verið minningabrot, þín upplifun, hvort og með hvaða hætti hefðin hefur breyst, hvað er jákvætt, hvað er neikvætt eða annað sem kemur upp í hugann.
Mér finnst alltaf vera gleðilegt andrúmsloft. Allt í föstum skorðum en hefur þó orðið frjálslegra með árunum. Ég finn þó að ég hef ekki borið sögurnar áfram í sama mæli og áður. Mér finnst skemmtilegast þegar ég lít til baka hversu miklu og sterku hlutverki konurnar í fjölskyldunni hafa gegnt í  að viðhalda hefðinni. Þetta var líka sá þáttur í jólaundirbúninginn sem allir karlarnir tóku þátt í. Oft skáru þeir listilega flottar kökur. Oft var talað um að langafi minn í móðurætt hefi gert afburða flottar kökur. Við þetta tækifæri rifjuðu menn upp alls konar minningar um jólin og sögur um ættingja og vini. Þetta stækkaði veröldina og styrkti tengslin í fjölskyldunni.
Questionnaire
Keywords
Keyword: Laufabrauðsgerð
Keyword:
Laufabrauð