Laufabrauðsgerð

04.12.2020
In preservation at
National Museum of Iceland

Main information

Gender / Year of Submittee
Kona (1961)
Dating
Day sent: 04.12.2020
Object-related numbers
"Museumnumber b": 2020-3-119
Place
Núverandi sveitarfélag: Kópavogsbær, Kópavogsbær
Questions / Answers
Gerði fjölskylda þín laufabrauð á æskuárum þínum? Ef svo er, hverjir á heimilinu tóku þátt? Komu aðrir að laufabrauðsgerðinni en heimilisfólkið? Hverjir, ef svo er?
Alla mína barnæsku voru laufabrauð skorin fyrir jólin, enda mamma alin upp á vestfjörðum. Öll fjölskyldan - foreldrar og börn - tóku þátt, og stundum komu frændsystkin líka. Við erum 5 börnin, svo það var afkastað fleiri tugum brauða. Eiginlega allir nota skurðstofuhnífa og skera út frjálsri hendi. Það er til eitt laufabrauðsjárn í ættinni, en sumir snerta ekki við því og telja það helgispjöll að nota þau. Pabbi - mjög laghentur - útbjó nokkur létt, kringlótt skurðbretti sem eru eingöngu notuð fyrir laufabrauðin. Klipptur var smjörpappír í passlegar stærðir til að leggja á milli brauðanna fyrir bakstur, og skipti fjöldi þeirra mörgum tugum. Þessi smjörpappír var svo geymdur milli ára.

Fór laufabrauðsgerð sem þú tókst þátt í eingöngu fram á heimili þínu eða á fleiri stöðum? Hvaða stöðum?
Laufabrauðsgerðin var alltaf á heimili foreldra minna (fædd 1934) þangað til þau fluttu í þjónustuíbúð, þá tók eitt systkina minna við hefðinni og heldur það á heimili sínu fyrir alla.

Hvar og hvernig kynntust foreldrar þínir þessari hefð? Nefndu einnig sveitarfélag og hvort það var í þéttbýli eða til sveita.
Mamma er alin upp við þessa hefð, bjó í Saurbæ á Rauðasandi.

Var laufabrauðið sem þú þekktir í æsku svipað því sem kallað er laufabrauð í dag? Ef ekki, gætir þú lýst brauðinu sem kallað var laufabrauð í þínu ungdæmi?
Við fjölskyldan notum enn uppskriftina frá mömmu, sem fékk hana hjá fjölskyldu sinni í Saurbæ á Rauðasandi. Enginn vill breyta hefðinni.

Ef að þú komst ekki að gerð laufabrauðs í æsku en tókst þátt í henni seinna á ævinni, hvaðan og hvenær kom hún inn í líf þitt?
Frá því ég man eftir mér.

Býrð þú til laufabrauð í dag? Gerir þú það með fleiri en einum hópi, ef svo er? Hvaða hópum?
Við gerum enn laufabrauð fyrir hver jól, nema jólin 2020 vegna Covid fjöldatakmarkana. Foreldrar, systkin og einstaka náinn ættingi eru þátttakendur.

Kemur þú að gerð laufabrauðs á hverju ári eða hefur þú hugsanlega tekið pásu um lengri eða skemmri tíma? Hvers vegna?
Árlega nema Covid árið 2020. Þetta er orðin heilög hefð hjá okkur og nú taka börnin okkar fullan þátt, svo það eru 3 kynslóðir sem skera.

Er sérstakur dagur og tími tekinn frá fyrir laufabrauðið? Hvernig er hann valinn? Er gert laufabrauð á öðrum tímum árs en fyrir jólin? Ef svo er, hvenær og við hvaða tækifæri?
Valinn er dagur á aðventunni og hist eftir vinnu einhvern virkan dag og skorið fram á kvöld. Enginn vill fara heim fyrr en búið er að steikja og gæða sér á "skönkunum" (afskurðinum). Helst á hann að vera volgur ennþá. Allir taka heim með sér laufabrauð, en misjafnt er hvort fólk tekur bara "sín" laufabrauð eða tekur bara hvað sem er. Sumir merkja laufabrauðin sín með litlum kantskurði, sértaklega þeir sem leggja mestan metnað í skurðinn. Eiginlega allir nota skurðstofuhnífa og skera út frjálsri hendi. Það er til eitt laufabrauðsjárn í ættinni, en sumir snerta ekki við því og telja það helgispjöll að nota þau. Brauðin eru steikt í Palmín olíu. Þegar brauðin eru tekin uppúr pottinum eru þau lögð á bunka af gömlum dagblöðum, og þrýst laust á með sléttu pottloki til að slétta brauðið.

Hvaða hugmyndir hefur þú um útbreiðslu laufabrauðs í dag? Finnst þér að hún hafi farið vaxandi eða minnkandi á síðustu 20-30 árum eða stendur hún kannski í stað?
Mér finnst mikill áhugi og metnaður fyrir laufabrauðsgerð í minni fjölskyldu og hjá einstaka vinum sem voru alin upp við þau. Veit ekki hvort nýjir aðilar hafa tekið upp siðinn ef þau voru ekki alin upp við það.

Hvaða áhrif hefur COVID-19 á laufabrauðsgerð þína? Koma vídeó-símtöl á netinu, eins og t.d. á Facebook, hugsanlega við sögu? Getur þú sagt frá þessu, ef svo er?
Þar sem laufabrauðsgerð er svo mikil vinna og þrifin eftir steikinguna, þá var ákveðið að sleppa því í ár frekar en að hver fjölskylda gerði sín brauð heima við með Teams eða Zoom streymi.

Eru einhverjir sem halda utan um daginn eða sjá til þess að nóg sé af öllum áhöldum og öðru sem til þarf? Hverjir, ef svo er?
Mamma og pabbi héldu utan um val á dagsetningu og öll áhöld, þar til við börnin tókum við. Þá tók systir mín að sér að hafa þetta heima hjá sér, og velur daginn. Brettin og hnífarnir eru geymdir hjá systur minni á milli ára.

Búið þið til deig sjálf eða kaupið þið það tilbúið og fletjið út? Kaupið þið útflattar kökur?
Við blöndum deigið sjálf og myndum aldrei líta það sömu augum að kaupa tilbúið deig.

Hvaða korntegundir eða hugsanlega blöndu af þeim notið þið í deigið? Hvaða önnur hráefni eru notuð?
Pillsbury hveiti í gegnum tíðina.

Hverjir búa til deigið? Þekkist kynja- eða verkaskipting við að hnoða og fletja deigið? Segðu frá því, ef svo er.
Einn bræðra minna sér um að blanda og hnoða deigið heima hjá systur minni og við skerum svo öll. Áður fyrr sá mamma um að blanda og hnoða deigið. Engin sérstök kynjaskipting, þetta bara þróaðist svona.

Hvaða áhöld og annan útbúnað notar þú við laufabrauðsskurðinn? Segðu frá því og hvaða hlutverki þau gegna.
Eiginlega allir nota skurðstofuhnífa (kaupum í apótekum, en upphaflega koma það til vegna þess að mamma er lyfjafræðingur og keypti svona hnífa) og skera út frjálsri hendi. Það er til eitt laufabrauðsjárn í ættinni, en sumir snerta ekki við því og telja það helgispjöll að nota þau.

Eiga eldri áhöldin sér sögu? Hafa einhver þeirra t.d. erfst á milli kynslóða? Hvaða áhöld, ef svo er? Hver átti þau fyrst?
við notum skurðbretti sem pabbi útbjó fyrir ca 40 árum. Þau eru létt og kringlótt og eru bara notuð í laufabrauðin, geymd á ákveðnum stað á milli ára.

Hvaða munstur skerð þú helst út? Ber útskurðurinn eða munstrin sem þú notar einhver heiti? Hvaða heiti? Er eitthvað sem þér finnst að eigi ekki að skera út í laufabrauð? Hvað og hvers vegna, ef svo er?
Yfirleitt handskorið eftir frjálsri aðferð. Engin sérstök heiti á munstri. Mikið keppnisskap í fjölskyldunni og metnaður lagður í fegurð skurðarins hjá hverjum og einum. Þó er engin formlega keppni eða nein verðlaun fyrir fallegasta brauðið.

Hvað ræður því helst hvað þú skerð út? Skipta hefðir máli í þessu sambandi eða hvaðan færð þú hugmyndirnar? Vilt þú nostra við útskurðinn, gera flókin mynstur eða vera fljótur vegna þess að það eru margar kökur sem þarf að skera út?
Frekar nostrað en flýtt sér. Ekkert sérstakt munstur, en oft eitthvað í ætt við stjörnur .

Er eitthvað sem þér finnst skemmtilegra eða leiðinlegra að skera út en annað? Hvað, ef svo er? Eða er þetta kannski alveg hlutlaust?
Alltaf gaman að prófa ný munstur, allt jafn skemmtilegt.

Hvað skera aðrir út í þínum hópi? Er það á einhvern hátt frábrugðið því sem þú gerir?
Sumir reyna að skera út eins og hinir ef vel tekst til með munstur.

Hver kenndi þér að skera út? Hefur þú kennt einhverjum útskurð? Hverjum?
Mamma - og ég hef kennt minni dóttur. Maðurinn minn hefur lítinn áhuga, kemur frá Suðurlandi.

Hverjir sjá um að skera út? Geta allir tekið þátt, börn líka?
Allir fá að skera út, börnin byrja með einu rúllunni sem er til mjög ung, en fá að nota skurðstofuhnífa um tíu ára aldurinn.

Hvaða áhöld og annað sem til þarf er notað við steikinguna? Segðu frá þeim og hvaða hlutverki þau gegna.
Mamma á djúpsteikingarpott sem er alltaf notaður. Hann er stór og svo til eingöngu notaður fyrir laufabrauð. Slétt pottlok er notað til að slétta brauðin þegar þau koma uppúr feitinni. Feitin er Palmín. Dagblöð lögð á borð og kökurnar látnar jafna sig á þeim. Fjölskyldumeðlimir mæta sumir með kökubox til að taka brauðin heim í, aðrir taka þau bara í poka.

Hafa orðið einhverjar breytingar á því hvaða útbúnaður er notaður? Hvaða breytingar, ef svo er?
Sömu áhöld frá því ég man eftir mér. Er að verða sextug.

Upp úr hverju er brauðið steikt og hve lengi? Hvað eru búnar til margar kökur? Er afskurðurinn steiktur?
Palmín feiti - algjörlega heilagt að ekkert annað sé notað. Um það bil 150 kökur, sem skiptast á milli 6 fjölskyldna. (pabbi, mamma og 5 börn með barnabörn).

Er laufabrauðið pressað eftir að búið er að steikja það? Með hverju er pressað? Ef að það er ekki pressað, hvað er gert við brauðið þegar það kemur upp úr pottinum?
Pressað mjúklega niður strax og kemur úr pottinum, með sléttu pottloki.

Segðu frá því hvernig brauðinu er pakkað inn og gengið frá því til geymslu.
Kökubox hjá flestum, annars pakkað í poka.

Eftir hvaða reglum er laufabrauðinu skipt á milli fólks? Hvað fá menn venjulega margar kökur í sinn hlut?
um 25 brauð á hverja fjölskyldu. Oft reynir maður að taka heim "sín" brauð ef maður þekkir þau úr. Sumir eru mjög metnaðarfullir og merkja sín brauð með einhverju merki á kantinum, öðrum er sama.

Hvað tekur vinnan við laufabrauðið langan tíma, frá upphafi til enda?
frá ca 5 í eftirmiðdaginn og oftast búið milli 21 og 22.

Hverjir sjá um að steikja og ganga frá kökunum? Er kynja- eða verkaskipting við þetta? Getur þú sagt frá því?
Bróðir minn sem blandar og hnoðar steikir oft, en ekki alveg heilagt. Stundum steikja systir mín og mágur, sem eru húsráðendur þar sem laufabrauðskvöldið fer fram.

Laufabrauð er mest borðað um jólin, eins og allir þekkja, en hvenær er byrjað að smakka á því?
Helst borðað með hangikjöti á jóladag, en er samt maulað alla aðventuna og ef það er afgangur, þá er það borðað fram undir áramót. Oftast klárast þau fyrir áramót, en einstaka sinnum gleymast brauð og finnast svo að ári þegar boxið er tekið fram.

Með hverju þykir þér best að borða laufabrauð?
Ómissandi með hangikjöti og uppstúf. Amma mín og bróðir minn áttu afmæli á jóladag og það er mikil hefð fyrir jólaboði fjölskyldunnar á jóladag, þar sem var hangikjöt, uppstúf, kartöflur, grænar baunir og rauðkál. Stórir staflar af laufabrauði fylgdu alltaf með.

Borðar þú, eða fólk sem þú þekkir, laufabrauð með einhverju sem talist gæti óhefðbundið meðlæti? Ef svo er, hvað er hér helst um að ræða?
Ég fæ mér stundum laufabrauðsbrot með mygluostum. Enginn annar á heimilinu gerir það.

Hvernig kökur þykja ykkur bestar? Nefnið hráefni o.fl.
Með 100% hveiti. Einstaka sinnum hafa brauðin verið blönduð með heilhveiti en mér finnst það síðra. Laufabrauð þarf ekkert að vera hollt, maður borðar það svo sjaldan.

Hvað endist þinn laufabrauðsskammtur lengi? Hvað er gert við afganginn frá jólunum?
Oftast búið um áramót. Ég maula þetta sem snakk eftir áramót ef afgangur.

Hvenær og hvernig er afskurðarins neytt? Hvaða heiti þekkir þú á honum?
Kvöldið sem brauðin eru skorin og steikt. Alltaf borðuð heit eða volg. Kallað "skankar".

Kaupir þú tilbúið laufabrauð í búðum eða bakaríum? Frá hvaða aðila er besta brauðið að þínu mati?
Aldrei - lít ekki við þeim og hef ekki smakkað.

Hver er tilgangur þess að búa til laufabrauð, annar en hinn praktíski svo að segja? Hvaða þýðingu hefur þessi hefð fyrir þig?
Yndisleg samverustund með fjölskyldunni, þar sem kynslóðir sameinast í skemmtilegu verkefni. Gaman að sjá framfarir í skurðinum hjá börnunum á milli ára. Eina samverustund stórfjölskyldunnar í aðdraganda jóla (þ.e. 3 kynslóðir) en svo er hist aftur á jóladag og þá borðað hangikjöt og að sjálfsögðu laufabrauð með.

Getur þú sagt frá laufabrauðsgerð? Þetta geta verið minningabrot, þín upplifun, hvort og með hvaða hætti hefðin hefur breyst, hvað er jákvætt, hvað er neikvætt eða annað sem kemur upp í hugann.
Sjá næsta svar fyrir ofan.
Questionnaire
Keywords
Keyword: Laufabrauðsgerð
Keyword:
Laufabrauð