Laufabrauðsgerð

04.12.2020
In preservation at
National Museum of Iceland

Main information

Gender / Year of Submittee
Kona (1973)
Dating
Day sent: 04.12.2020
Object-related numbers
"Museumnumber b": 2020-3-95
Place
Núverandi sveitarfélag: Reykjavíkurborg, Reykjavíkurborg
Questions / Answers
Gerði fjölskylda þín laufabrauð á æskuárum þínum? Ef svo er, hverjir á heimilinu tóku þátt? Komu aðrir að laufabrauðsgerðinni en heimilisfólkið? Hverjir, ef svo er?
Já það var alltaf gert laufabrauð hjá móðurfjölskyldunni minni. Amma og systur hennar gerðu þetta saman ásamt börnum sínum og barnabörnum.

Fór laufabrauðsgerð sem þú tókst þátt í eingöngu fram á heimili þínu eða á fleiri stöðum? Hvaða stöðum?
Alltaf heima hjá móðurömmu minni.

Hvar og hvernig kynntust foreldrar þínir þessari hefð? Nefndu einnig sveitarfélag og hvort það var í þéttbýli eða til sveita.
Amma er frá Akureyri og þar var laufabrauðsgerð á hennar æskuheimili.

Var laufabrauðið sem þú þekktir í æsku svipað því sem kallað er laufabrauð í dag? Ef ekki, gætir þú lýst brauðinu sem kallað var laufabrauð í þínu ungdæmi?
Já það er eins. Ég nota sömu uppskrift og amma notaði.

Býrð þú til laufabrauð í dag? Gerir þú það með fleiri en einum hópi, ef svo er? Hvaða hópum?
Já ég geri laufabrauð í dag með minni fjölskyldu, móður minni og bræðrum og fjölskyldum þeirra. Einnig kemur bróðir mömmu og sambýliskona hans. Í ár kom svo föðursystir mín líka í fyrsta skipti.

Kemur þú að gerð laufabrauðs á hverju ári eða hefur þú hugsanlega tekið pásu um lengri eða skemmri tíma? Hvers vegna?
Já ég geri laufabrauð á hverju ári.

Er sérstakur dagur og tími tekinn frá fyrir laufabrauðið? Hvernig er hann valinn? Er gert laufabrauð á öðrum tímum árs en fyrir jólin? Ef svo er, hvenær og við hvaða tækifæri?
Ég geri laufabrauð alltaf helgina fyrir fyrsta í aðventu og markar það svona upphafið að jólaundirbúningum hjá okkur. Nei ég geri ekki laufabrauð á öðrum tíma en fyrir jólin.

Hvaða hugmyndir hefur þú um útbreiðslu laufabrauðs í dag? Finnst þér að hún hafi farið vaxandi eða minnkandi á síðustu 20-30 árum eða stendur hún kannski í stað?
Ef eitthvað er þá finnst mér hún hafa farið vaxandi en ég geri mér samt kannski ekki alveg grein fyrir því.

Hvaða áhrif hefur COVID-19 á laufabrauðsgerð þína? Koma vídeó-símtöl á netinu, eins og t.d. á Facebook, hugsanlega við sögu? Getur þú sagt frá þessu, ef svo er?
Get ekki sagt að COVID-19 hafi haft mikil áhrif á okkur þar sem við vorum innan fjöldatakmarkana þannig að við þurftum ekki að grípa til annarra ráðstafana.

Eru einhverjir sem halda utan um daginn eða sjá til þess að nóg sé af öllum áhöldum og öðru sem til þarf? Hverjir, ef svo er?
Ég held utanum að allt sé til staðar.

Búið þið til deig sjálf eða kaupið þið það tilbúið og fletjið út? Kaupið þið útflattar kökur?
Ég geri deigið sjálf.

Hvaða korntegundir eða hugsanlega blöndu af þeim notið þið í deigið? Hvaða önnur hráefni eru notuð?
Oftast nota ég pillsbury's best hveiti, mjólk, smjör, sykur, lyftiduft og smá salt.

Hverjir búa til deigið? Þekkist kynja- eða verkaskipting við að hnoða og fletja deigið? Segðu frá því, ef svo er.
Ég geri deigið og flet út ásamt manninum mínum og aðrir skera.

Hvaða áhöld og annan útbúnað notar þú við laufabrauðsskurðinn? Segðu frá því og hvaða hlutverki þau gegna.
Kökukefli til að fletja út. Lítinn disk til að skera stærð kökunnar, kleinujárn til að skera eftir disknum. Set síðan kökuna á bökunarpappír sem er sirka jafn stór og kakan. Síðan er laufabrauðsjárn notað til að skera mynstrið út og beittur hnífur notaður til að lyfta og móta skrautið á kökunum.

Eiga eldri áhöldin sér sögu? Hafa einhver þeirra t.d. erfst á milli kynslóða? Hvaða áhöld, ef svo er? Hver átti þau fyrst?
Ég á bara eitt laufabrauðsjárn sem er frá ömmu minni en ekki veit ég hvar hún fékk það. Ég á tvö kleinujárn, annað fékk ég einnig frá ömmu minni en hitt fengum við frá móðurömmu mannsins míns. Ekki veit ég heldur hver átti kleinujárnin á undan ömmunum.

Hvaða munstur skerð þú helst út? Ber útskurðurinn eða munstrin sem þú notar einhver heiti? Hvaða heiti? Er eitthvað sem þér finnst að eigi ekki að skera út í laufabrauð? Hvað og hvers vegna, ef svo er?
Ég sé eingöngu um að fletja út en aðrir um að skera út og þar þá listrænir tilburðir hvers og eins að njóta sín. Þannig að það er ekki hægt að segja að það sé einhver hefð eða eitthvað ákveðið munstur sem er notað og allir fá bara að gera það sem þeir vilja og þannig séð allt leyft.

Hvað ræður því helst hvað þú skerð út? Skipta hefðir máli í þessu sambandi eða hvaðan færð þú hugmyndirnar? Vilt þú nostra við útskurðinn, gera flókin mynstur eða vera fljótur vegna þess að það eru margar kökur sem þarf að skera út?
Þau sem skera út hjá okkur nostra mismikið við hverja köku, stundum eru þetta bara einföld munstur en svo koma flóknari munstur inn á milli en oftast eru þau frekar einföld þar sem það eru margar kökur sem þarf að skera út.

Er eitthvað sem þér finnst skemmtilegra eða leiðinlegra að skera út en annað? Hvað, ef svo er? Eða er þetta kannski alveg hlutlaust?
Þegar ég var yngri og skar út þá fannst mér skemmtilegt að skera út mjóar lengur og snúa uppá.

Hvað skera aðrir út í þínum hópi? Er það á einhvern hátt frábrugðið því sem þú gerir?
þeir sem skera út gera bara það sem þeim dettur í hug en einna helst eru þetta einföld munstur.

Hver kenndi þér að skera út? Hefur þú kennt einhverjum útskurð? Hverjum?
Mamma mín og móðuramma.

Hverjir sjá um að skera út? Geta allir tekið þátt, börn líka?
Allir sem vilja, fullorðnir og börn, þó börnin hafa ekki alveg þolimæði til að sitja lengi við.

Hvaða áhöld og annað sem til þarf er notað við steikinguna? Segðu frá þeim og hvaða hlutverki þau gegna.
Ég nota stóran pott og blanda saman olíu og palamín dúpsteikingarfeiti til helminga. Síðan er ég oftast með hitamæli ofan í olíunni til að hún verði ekki of heit. Síðan nota ég tvo gafla til að steikja kökurnar og fiskispaða til að steikja afskurðinn.

Hafa orðið einhverjar breytingar á því hvaða útbúnaður er notaður? Hvaða breytingar, ef svo er?
Nei nota sama laufabrauðsjárnið og kleinujárnið. Önnur áhöld eins og pottur, kökukefli, hnífar og diskur eru ekki þau sömu en að svipuðum toga og hefur alltaf verið notað.

Upp úr hverju er brauðið steikt og hve lengi? Hvað eru búnar til margar kökur? Er afskurðurinn steiktur?
Það er steikt upp úr palamín djúpsteikingarolíu og isio4 olíu til helminga. Þær eru steiktar í nokkrar mín, fer eftir litnum á þeim. Já afskurðurinn er steiktur. Oftast gerum við svona í kringum 80-90 kökur.

Er laufabrauðið pressað eftir að búið er að steikja það? Með hverju er pressað? Ef að það er ekki pressað, hvað er gert við brauðið þegar það kemur upp úr pottinum?
Já laufabrauðið er pressað með léttu brauðbretti og eldhúspappír er hafður á milli.

Segðu frá því hvernig brauðinu er pakkað inn og gengið frá því til geymslu.
Það er geymt inni í skáp á brauðbrettum.

Eftir hvaða reglum er laufabrauðinu skipt á milli fólks? Hvað fá menn venjulega margar kökur í sinn hlut?
Nei ekki þannig. Ef fólk vill hafa með sér heim þá tekur það bara nokkrar annars erum við öll saman á jóladag heima hjá foreldrum mínum og borðum hangikjöt og laufabrauð.

Hvað tekur vinnan við laufabrauðið langan tíma, frá upphafi til enda?
Byrjum í kringum 10:00 um morgunn og erum búinn milli 16:00 og 17:00.

Hverjir sjá um að steikja og ganga frá kökunum? Er kynja- eða verkaskipting við þetta? Getur þú sagt frá því?
Ég steiki og oftast er einn með til að pressa. Kökunum er raðað á bretti jafnóðum og látin kólna þannig. Síðan eru þau sett upp í skáp nokkrum dögum seinna.
Questionnaire
Keywords
Keyword: Laufabrauðsgerð
Keyword:
Laufabrauð