Laufabrauð

04.12.2020
In preservation at
National Museum of Iceland

Main information

Gender / Year of Submittee
Kona (1957)
Dating
Day sent: 04.12.2020
Object-related numbers
"Museumnumber b": 2020-3-82
Place
Núverandi sveitarfélag: Reykjavíkurborg, Reykjavíkurborg
Questions / Answers
Gerði fjölskylda þín laufabrauð á æskuárum þínum? Ef svo er, hverjir á heimilinu tóku þátt? Komu aðrir að laufabrauðsgerðinni en heimilisfólkið? Hverjir, ef svo er?
Já, það var alltaf gert laufabrauð heima. Allir á heimilinu tóku þátt og ég held að þetta hafi verið eina matreiðslutengda verkið sem karlmennirnir snertu á þegar ég var lítil (auðvitað að frátalinni reykingu, söltun og þess háttar). Það var eingöngu heimilsfólkið sem tók þátt í laufabrauðsgerðinni.

Fór laufabrauðsgerð sem þú tókst þátt í eingöngu fram á heimili þínu eða á fleiri stöðum? Hvaða stöðum?
Bara heima. Ég man ekki eftir að hafa heyrt af því þegar ég var barn að nokkurs staðar hafi verið komið saman til að gera laufabrauðið, nema kannski ef fólk af nágrannabæjum sló sér saman. Seinna vissi ég þó að nemendur í barnaskólanum gerðu laufabrauð saman.

Hvar og hvernig kynntust foreldrar þínir þessari hefð? Nefndu einnig sveitarfélag og hvort það var í þéttbýli eða til sveita.
Þau voru bæði alin upp í sveit í Skagafirði og vöndust laufabrauðsgerð frá blautu barnsbeini.

Var laufabrauðið sem þú þekktir í æsku svipað því sem kallað er laufabrauð í dag? Ef ekki, gætir þú lýst brauðinu sem kallað var laufabrauð í þínu ungdæmi?
Já, við notum ennþá gömlu uppskriftina hennar mömmu, nema hvað það var örlítill sykur í deiginu sem við erum vön að sleppa núna. Að öðru leyti er það gert nákvæmlega eins nema hvað hún steikti alltaf upp úr tólg en við notum steikingarfeiti, stundum blandaða tólg. Brauðið var eingöngu gert úr hveiti, man ekki eftir annars konar laufabrauði þar sem ég fékk það þegar ég var barn þótt það hafi sjálfsagt verið sumstaðar.

Býrð þú til laufabrauð í dag? Gerir þú það með fleiri en einum hópi, ef svo er? Hvaða hópum?
Við systkinin og okkar fjölskyldur komum saman árlega og gerum laufabrauð alveg frá grunni. Allir taka þátt, frá 2-3 ára börnum og upp úr. Ég geri það ekki með neinum öðrum og myndi held ég ekki hafa áhuga á því - nema í ár reikna ég reyndar með að gera laufabrauðið eingöngu með mínum afkomendum vegna covid, stórfjölskyldan er líklega orðin of stór til að óhætt sé að koma saman.

Kemur þú að gerð laufabrauðs á hverju ári eða hefur þú hugsanlega tekið pásu um lengri eða skemmri tíma? Hvers vegna?
Í nokkur ár eftir að við systkinin vorum öll löngu flutt að heiman og hætt að fara norður um jólin gerðu foreldrar mínir laufabrauðið tvö ein og komu svo með það suður til okkar en svo tókum við af skarið og sögðum þeim að sleppa því, við vildum miklu heldur fá þau aðeins fyrr suður til að gera þetta með okkur. Mamma hafði yfirumsjón með verkinu og sá um steikinguna fyrstu árin en svo tókum við systurnar við.

Er sérstakur dagur og tími tekinn frá fyrir laufabrauðið? Hvernig er hann valinn? Er gert laufabrauð á öðrum tímum árs en fyrir jólin? Ef svo er, hvenær og við hvaða tækifæri?
Í minni fjölskyldu hefur þetta alltaf verið gert rétt fyrir jólin, fyrstu árin biðum við eftir að foreldrar okkar kæmu suður til að vera með og á seinni árum hafa einhver úr stórfjölskyldunni alltaf verið búsett eða í námi erlendis og þá hefur verið beðið eftir að þau kæmu heim í jólafrí svo að þau gætu verið með. Ég hef einstöku sinnum gert laufabrauð á öðrum árstímum en þá hefur það verið smáskammtur, sérstaklega fyrir útlendinga sem eru hér að kynna sér íslenskar matarhefðir.

Hvaða hugmyndir hefur þú um útbreiðslu laufabrauðs í dag? Finnst þér að hún hafi farið vaxandi eða minnkandi á síðustu 20-30 árum eða stendur hún kannski í stað?
Laufabrauð er í sjálfu sér býsna útbreitt en ég held kannski að laufabrauðsgerð hafi dregist saman, allavega að laufabrauð sé gert frá grunni. Margir kaupa deigið tilbúið eða kökurnar útflattar til að skera þær eða bara verksmiðjuframleitt laufabrauð sem búið er að steikja - ég á bágt með að sjá tilganginn með því vegna þess að laufabrauðsgerð og -skurður er í mínum huga fyrst og fremst félagsleg athöfn (og ekkert varið í þetta verksmiðjuframleidda).

Hvaða áhrif hefur COVID-19 á laufabrauðsgerð þína? Koma vídeó-símtöl á netinu, eins og t.d. á Facebook, hugsanlega við sögu? Getur þú sagt frá þessu, ef svo er?
Líklega verður stórfjölskyldan ekki saman í þessu í ár en við gerum örugglega laufabrauð í minni einingum. Höfum einmitt verið að velta fyrir okkur zoom-laufabrauðsgerð, enda er systir mín og þrjár systurdætur erlendis - sín í hverju landi - og komast ekki heim í laufabrauðsgerðina. En við erum ekki farin að móta þetta ennþá og vitum ekki hversu vel þetta er framkvæmanlegt.

Eru einhverjir sem halda utan um daginn eða sjá til þess að nóg sé af öllum áhöldum og öðru sem til þarf? Hverjir, ef svo er?
Við systurnar höfum gert það og svo hefur hver komið með sín bretti, laufabrauðsjárn og hnífa. Þetta var alltaf heima hjá mér en svo flutti ég í íbúð sem hentaði ekki fyrir laufabrauðsgerð (engin aðstaða fyrir útskurð í eldhúsinu) og eftir það höfum við verið hjá systur minni og mági, sem hafa séð um það sem til þarf (hráefni í deig, steikingarfeiti, bakka, bökunarpappír).

Búið þið til deig sjálf eða kaupið þið það tilbúið og fletjið út? Kaupið þið útflattar kökur?
Við gerum deigið alltaf sjálf og kaupum aldrei útflattar kökur. Það dytti engu okkar í hug, þó ekki væri nema af því að þá félli ekki til neinn afskurður (skufsur, eins og það kallast hjá okkur). Steikingin endar alltaf á því að skufsurnar eru steiktar og borðaðar heitar og eftir þeim er beðið með mikilli tilhlökkun.

Hvaða korntegundir eða hugsanlega blöndu af þeim notið þið í deigið? Hvaða önnur hráefni eru notuð?
Hvítt hveiti, lyftiduft, salt, smjör, ylvolg eða snarpheit mjólk. Við notuðum áður örlítinn sykur en erum hætt því. Þetta er gamla uppskriftin hennar mömmu, hugsanlega komin frá langömmu en hefur a.m.k. verið notuð frá því um 1950. (Uppskrift mömmu, minnkuð um helming, er reyndar núna á netinu undir heitinu Paul Hollywood´s Leaf Bread, hann hnuplaði uppskriftinni úr einni af bókunum mínum til að nota í The Great British Bake-Off).

Hverjir búa til deigið? Þekkist kynja- eða verkaskipting við að hnoða og fletja deigið? Segðu frá því, ef svo er.
Systir mín gerir það venjulega af því að þetta er hennar eldhús (ég gerði það áður og þar áður sá mamma um það). Hrærivélin sér um hnoðunina en svo sjá 2-3 af okkur systkinunum um að fletja út og skiptumst stundum á. Bróðir minn er þó fremstur í flokki í flatningunni og fer sjaldan í útskurðinn.

Hvaða áhöld og annan útbúnað notar þú við laufabrauðsskurðinn? Segðu frá því og hvaða hlutverki þau gegna.
Við erum með 2-3 laufabrauðsjárn, misstór, og notum svo líka litla, beitta hnífa því að við sem eldri erum ólumst upp við að handskera allt laufabrauð og gerum það jöfnum höndum. Svo þarf auðvitað hnífa líka við að fletta upp laufunum, hvort sem þau eru handskorin eða gerð með járni. Svo þarf auðvitað nóg af brettum en þau geta verið með öllu móti.

Eiga eldri áhöldin sér sögu? Hafa einhver þeirra t.d. erfst á milli kynslóða? Hvaða áhöld, ef svo er? Hver átti þau fyrst?
Við erum með gamla laufabrauðsjárnið hennar mömmu, sem er að vísu aðeins farið að sljóvgast, en hún eignaðist það reyndar ekki fyrr en við vorum öll flutt að heiman svo að við vöndumst því ekki í bernsku.

Hvaða munstur skerð þú helst út? Ber útskurðurinn eða munstrin sem þú notar einhver heiti? Hvaða heiti? Er eitthvað sem þér finnst að eigi ekki að skera út í laufabrauð? Hvað og hvers vegna, ef svo er?
Kerti með grenigreinum, jólatré, upphafsstafi (ég sker t.d. alltaf 1-2 N, sem er minn stafur), sól, andlit ... Þessi mynstur heita ekkert sérstakt í minni fjölskyldu svo ég muni. - Það á náttúrlega ekki að skera neitt sem er með mjög stórum götum eða löngum óslitnum skurðum, það aflagast svo í steikingunni, en það er eitthvað sem allir krakkar og unglingar í minni fjölskyldu gera einhverntíma og læra svo af reynslunni að gengur ekki upp.

Hvað ræður því helst hvað þú skerð út? Skipta hefðir máli í þessu sambandi eða hvaðan færð þú hugmyndirnar? Vilt þú nostra við útskurðinn, gera flókin mynstur eða vera fljótur vegna þess að það eru margar kökur sem þarf að skera út?
Ég veit ekki alveg hvað ræður því, bara hvað mér dettur í hug þegar ég horfi á kökuna ... Stundum eitthvað alveg hefðbundið, stundum fæ ég nýja hugmynd, stundum rifjast upp eitthvað gamalt sem ég hef ekki skorið í mörg ár. Hvort ég nostra við skurðinn fer dálítið eftir því hvað flatningin gengur vel, ef eru margir að fletja út safnast stundum upp kökur og þá gerir maður kannski eitthvað frekar fljótlegt (þó aldrei svo að laufabrauðsjárninu sé bara rennt eftir kökunni og laufunum ekki brett upp) en ef fletjararnir eru ekki að standa sig og margir í útskurðinum er allt í lagi að dunda sér við að skera flókin mynstur.

Er eitthvað sem þér finnst skemmtilegra eða leiðinlegra að skera út en annað? Hvað, ef svo er? Eða er þetta kannski alveg hlutlaust?
Til hvers ætti maður svo sem að vera að skera út leiðinleg mynstur?

Hvað skera aðrir út í þínum hópi? Er það á einhvern hátt frábrugðið því sem þú gerir?
Það hefur hver sinn stíl og oft gaman að sjá hvað tengdabörn og aðrir sem ekki eru aldir upp við laufabrauðsskurð - eða hafa aðrar fjölskylduhefðir - gera við sínar kökur. Mágur minn, sem er stærðfræðingur, hefur til dæmis skorið út pí með laufabrauðsjárni og ég hef sýnt myndir af pí-kökunum hans í erlendum mataráhugahópum á Facebook við mikinn fögnuð tækninörda.

Hver kenndi þér að skera út? Hefur þú kennt einhverjum útskurð? Hverjum?
Ég hef skorið út laufabrauð frá því áður en ég man eftir en það hefur líklega verið mamma. Eða kannski frekar afi og bræður hans því að mamma hefur haft nóg að gera við að fletja út og steikja. Ég hef leiðbeint börnum og barnabörnum og hjálpað þeim yngstu við fyrstu kökurnar en annars lærir maður bara af reynslunni og af því að horfa á aðra.

Hverjir sjá um að skera út? Geta allir tekið þátt, börn líka?
Allir sem vilja, þótt sumir séu frekar í flatningunni. Í okkar fjölskyldu fá smábörnin að vera með og eru hvött til að gera köku eða kökur - með góðri hjálp - sem þau geta svo eignað sér.

Hvaða áhöld og annað sem til þarf er notað við steikinguna? Segðu frá þeim og hvaða hlutverki þau gegna.
Hæfilega stór og djúpur pottur, tveir gafflar til að snúa kökunum og lyfta þeim upp úr, dagblöð til að láta renna af kökunum. Við notum aldrei hlemm eða annað til að slétta kökurnar, við viljum hafa þær ósléttar og með loftbólum, finnst þær bragðbetri þannig.

Hafa orðið einhverjar breytingar á því hvaða útbúnaður er notaður? Hvaða breytingar, ef svo er?
Í rauninni ekki, nema hvað það var steikt á kolaeldavél fyrst þegar ég man eftir.

Upp úr hverju er brauðið steikt og hve lengi? Hvað eru búnar til margar kökur? Er afskurðurinn steiktur?
Núna steikjum við úr steikingarfeiti, líklega frá Kristjánsbakaríi, og ég hef stundum blandað hana með tólg. Ég hef aldrei tekið tímann á steikingunni en hann er mjög stuttur, enda eru kökurnar þunnar og hitinn frekar hár. Við erum vön að gera 110-120 kökur. Afskurðurinn, sem við köllum skufsur eins og við ólumst upp við, er alltaf steiktur um leið og búið er að steikja laufabrauðið og borðaður heitur af mikilli lyst.

Er laufabrauðið pressað eftir að búið er að steikja það? Með hverju er pressað? Ef að það er ekki pressað, hvað er gert við brauðið þegar það kemur upp úr pottinum?
Nei, við pressum aldrei, ólumst ekki upp við það og þykir það verra. Brauðið er sett á dagblöð og látið renna af því í nokkrar mínútur og svo er því staflað upp jafnóðum - 10 kökur í stafla. Þar sem það er ekki pressað er það dálítið óslétt og með miklu af loftbólum svo að loft leikur vel um kökurnar, bæði á meðan þær kólna alveg og á eftir.

Segðu frá því hvernig brauðinu er pakkað inn og gengið frá því til geymslu.
Tíu köku staflarnir eru settir á pappadiska og svo í plastpoka þegar kökurnar eru orðnar kaldar en þess gætt að loka þeim ekki þétt. Þar sem við gerum laufabrauðið alltaf skömmu fyrir jól þarf ekkert að hafa áhyggjur af geymslunni.

Eftir hvaða reglum er laufabrauðinu skipt á milli fólks? Hvað fá menn venjulega margar kökur í sinn hlut?
20 kökur á stærri heimili, 10 á þau minni (aðeins breytilegt til og frá).

Hvað tekur vinnan við laufabrauðið langan tíma, frá upphafi til enda?
Kannski 5-6 klukkutíma en hluti af því er matarhlé því að þegar skurðinum er lokið setjumst við niður yfir súpu og brauði og alls konar snarli áður en hafist er handa við steikinguna.

Hverjir sjá um að steikja og ganga frá kökunum? Er kynja- eða verkaskipting við þetta? Getur þú sagt frá því?
Við systurnar höfum gert það, skipst á að steikja og ganga frá, en karlmennirnir hafa svo sem gripið í það líka.

Laufabrauð er mest borðað um jólin, eins og allir þekkja, en hvenær er byrjað að smakka á því?
Á mínu heimili er það aldrei gert fyrr en á jóladag. Þ.e. að frátöldum skufsunum (afskurðinum).

Með hverju þykir þér best að borða laufabrauð?
Hangikjöti, ekki spurning. Ég vil hafa smjör með en það á að vera kalt í bitum, ekki smurt á brauðið. Börnin mín vilja aftur á móti lint smjör og smyrja því á brauðið svo að ég set alltaf bæði hart og lint smjör á borðið. Svo borða ég laufabrauð oft eintómt, sleppi öllu smjöri og öðru. Það er þó aðallega þegar kökunar hafa brotnað smátt.

Borðar þú, eða fólk sem þú þekkir, laufabrauð með einhverju sem talist gæti óhefðbundið meðlæti? Ef svo er, hvað er hér helst um að ræða?
Hjá systur minni er laufabrauð stundum borðað með indverskum mat, eins og poppadums. Það er fínt en sjálf er ég ekki ævintýragjarnari en svo að ég hef stundum magál með - það er þó varla óhefðbundið - og þá kannski smávegis döðlusíróp eða granateplasíróp.

Hvernig kökur þykja ykkur bestar? Nefnið hráefni o.fl.
Kökurnar hennar mömmu, sem eru bara venjulegar hveitikökur eins og ég hef áður sagt.

Hvað endist þinn laufabrauðsskammtur lengi? Hvað er gert við afganginn frá jólunum?
Mögulega fram á nýársdag. Sem þýðir að það verður enginn afgangur.

Hvenær og hvernig er afskurðarins neytt? Hvaða heiti þekkir þú á honum?
Skufsur, þær eru étnar upp til agna strax um kvöldið og ná yfirleitt ekki að kólna.

Kaupir þú tilbúið laufabrauð í búðum eða bakaríum? Frá hvaða aðila er besta brauðið að þínu mati?
Aldrei og hef þar af leiðandi ekki hugmynd. Ég hef samt oft smakkað verksmiðjusteikt laufabrauð á jóla- og þorrahlaðborðum en sneiði alltaf hjá því nú orðið.

Hver er tilgangur þess að búa til laufabrauð, annar en hinn praktíski svo að segja? Hvaða þýðingu hefur þessi hefð fyrir þig?
Fyrir mig er hlutverk laufabrauðsgerðar ekki síst félagslegt. Það er ekki eitthvað sem maður gerir einn (nema tilneyddur), heldur tilefni til að koma saman, gera eitthvað saman - öll fjölskyldan, allir aldurshópar - eða koma saman í stærri hóp, sem samfélag, viðhalda og deila hefðum, rifja upp minningar, upplifa samveru. Ég hef t.d. séð lýsingar af elliheimilum þar sem heimilismenn setjast niður fyrir jólin og skera út laufabrauð og þá eru kannski einhverjir sem hafa ekki komið nálægt laufabrauðsgerð áratugum saman en upplifa bernskuminningar á ný í gegnum laufabrauðsskurðinn. - Ég skrifaði reyndar fyrir allmörgum árum grein um þetta í tímaritið Moving Wor(l)ds, hún heitir Making Leaf Bread: the bread that makes you belong. Fyrir mér persónulega er laufabrauðsgerðin einmitt þetta - samvera, samvinna - og tækifæri til að flytja hefðir áfram til yngri kynslóða og gera afkomendurna að þátttakendum í þeim.

Getur þú sagt frá laufabrauðsgerð? Þetta geta verið minningabrot, þín upplifun, hvort og með hvaða hætti hefðin hefur breyst, hvað er jákvætt, hvað er neikvætt eða annað sem kemur upp í hugann.
Ég held ég sé búin að koma því til skila. - Langar þó til að nefna það, þótt ekki sé spurt um það, að ég vandist því aldrei að laufabrauðskökur væru notaðar sem jólaskreyting, hengdar út í glugga eða jafnvel á jólatréð, og man ekkert eftir að það væri gert en skilst þó að nágrannakona okkar á Sauðárkróki hafi alltaf hengt laufaköku út í eldhúsgluggann hjá sér þótt það færi gjörsamlega framhjá mér. En þetta hefur kannski verið algengt því að ég sé að í erlendum bókum þar sem minnst er á laufabrauð er oft talað um það sem hefðbundna íslenska jólaskreytingu og jafnvel talað eins og það sé helsta hlutverk þess.
Questionnaire
Keywords
Keyword: Laufabrauð
Keyword:
Laufabrauðsgerð