Laufabrauðsgerð

04.12.2020
In preservation at
National Museum of Iceland

Main information

Gender / Year of Submittee
Kona (1953)
Dating
Day sent: 04.12.2020
Object-related numbers
"Museumnumber b": 2020-3-56
Place
Núverandi sveitarfélag: Reykjavíkurborg, Reykjavíkurborg
Questions / Answers
Gerði fjölskylda þín laufabrauð á æskuárum þínum? Ef svo er, hverjir á heimilinu tóku þátt? Komu aðrir að laufabrauðsgerðinni en heimilisfólkið? Hverjir, ef svo er?
Heima norður á Siglufirði var laufabrauð alltaf gert fyrir jólin. Mamma var ættuð út Svarfaðardal, pabbi af Ströndum Allir á heimilinu tóku þátt i að skera út. Aðallega var það hlutverk móður minnar að búa til deigið og fletja út þó eldri börnin hafi hjálpað við að fletja út. Það var erfitt því það átti að vera "hægt að lesa á bók" í gegnum nægjanlega vel útflatta kökuna.

Fór laufabrauðsgerð sem þú tókst þátt í eingöngu fram á heimili þínu eða á fleiri stöðum? Hvaða stöðum?
Já, eingöngu á mínu æskuheimili en ég gerði síðan laufabrauð þegar ég var flutt að heiman og hafði stofnað heimili sjálf. Við systur vorum saman í þessari hefð og börn okkar tóku þátt i að skera út. Þeirri hefð hefur verið viðhaldið.

Hvar og hvernig kynntust foreldrar þínir þessari hefð? Nefndu einnig sveitarfélag og hvort það var í þéttbýli eða til sveita.
Móðir mín er úr Svarfaðardal v. Eyjafjörð Pabbi frá Hólum í Steingrímsfirði á Ströndum. Þau bjuggu lengst af á Siglufirði og þar í bænum var sterk hefð fyrir laufabrauðsgerð.

Var laufabrauðið sem þú þekktir í æsku svipað því sem kallað er laufabrauð í dag? Ef ekki, gætir þú lýst brauðinu sem kallað var laufabrauð í þínu ungdæmi?
Já það laufabrauð sem var búið til á mínu æskuheimili er einsog það sem er til í dag að útliti, kringlóttar kökur, kanturinn skorinn með munstruðu járni, nettir vel beittir hnífar notaðir við munstur útskurð, oftast góðir vasahnífar.

Býrð þú til laufabrauð í dag? Gerir þú það með fleiri en einum hópi, ef svo er? Hvaða hópum?
Við systur höfum haldið í þá hefð að koma saman og skera út með börnum og nú líka barnabörnum.

Kemur þú að gerð laufabrauðs á hverju ári eða hefur þú hugsanlega tekið pásu um lengri eða skemmri tíma? Hvers vegna?
Eg er hætt að gera deigið sjálf. Satt best að segja hætti eg því eftir bakuppskurð og langvarandi bakvandamála í kjölfarið þegar eg fann og áttaði mig hversu gríðarlega erfitt var að standa svona og fletja út sem er mikil áreynsla !

Er sérstakur dagur og tími tekinn frá fyrir laufabrauðið? Hvernig er hann valinn? Er gert laufabrauð á öðrum tímum árs en fyrir jólin? Ef svo er, hvenær og við hvaða tækifæri?
Einhver sunnudagur i Aðventu var venjulega fyrir valinu. Hann var valinn þannig að sem flestir, sem ætluðu að gera laufabrauðið saman, kæmust. Nei, þekki ekki að laufabrauð se gert á öðrum árstíma. Venjan var hinsvegar að geyma kökur fram á Þorrann.

Hvaða hugmyndir hefur þú um útbreiðslu laufabrauðs í dag? Finnst þér að hún hafi farið vaxandi eða minnkandi á síðustu 20-30 árum eða stendur hún kannski í stað?
Veit ekki - en finnst þetta mjög víða vera hefð að koma saman og skera út og steikja. Hugsa að þetta sé sjaldgæfara nú en fyrr þ.e.a.s að gera deigið sjálfur eftir að hægt var að kaupa tilbúnar hráar kökur. Þó hafa fleiri sem ég þekki hætt að gera sjálf og keypt tilbúnar steiktar kökur. Það spilar líka inní að í nútímalegum húsum/ íbúðum eru eldhús i opnu rými og ekki talið æskilegt að steikja heima. Þeir sem hafa bílskúr steikja gjarnan þar.

Hvaða áhrif hefur COVID-19 á laufabrauðsgerð þína? Koma vídeó-símtöl á netinu, eins og t.d. á Facebook, hugsanlega við sögu? Getur þú sagt frá þessu, ef svo er?
Í Covid hefur sá hópur sem nær utanum mig og 1 systur, börn okkar og barnabörn ákveðið að koma ekki saman. Nei, ekki komið til tals sú hugmynd að vera með þetta á netinu.

Eru einhverjir sem halda utan um daginn eða sjá til þess að nóg sé af öllum áhöldum og öðru sem til þarf? Hverjir, ef svo er?
Sá aðili sem hýsir samkomuna hefur gjarnan verið með veitingar/hressingu handa hópnum. Hver hefur komið með sínar kökur, bretti og hnífa.

Búið þið til deig sjálf eða kaupið þið það tilbúið og fletjið út? Kaupið þið útflattar kökur?
Kaupum útflattar kökur.

Hvaða korntegundir eða hugsanlega blöndu af þeim notið þið í deigið? Hvaða önnur hráefni eru notuð?
Hvítt hveiti, salt, vatn 3/4, rjómi 1/4, lyftiduft, örlítill sykur.

Hverjir búa til deigið? Þekkist kynja- eða verkaskipting við að hnoða og fletja deigið? Segðu frá því, ef svo er.
Mamma sá alfarið um að búa til deigið. Við börnin, systkinin, hjálpuðum til að fletja út en það var mikil vinna eins og ég lýsti áður. Aðallega sá mamma um það og ég heyrði hana tala um hvað þetta væri erfitt og ég sá að það reyndi mikið á Man eftir pabba grípa inní við að fletja út.

Hvaða áhöld og annan útbúnað notar þú við laufabrauðsskurðinn? Segðu frá því og hvaða hlutverki þau gegna.
Bretti sem undirlag, smjörpappír milli hverrar köku, litlir vasahnífar voru bestir en síðar komu til sögunnar laufabrauðsjárnin. Ég notaði líka skurðstofuhníf sem ég fékk á spítalanum þar sem ég vann og hann var sá allra besti ! Hnífsoddurinn var síðan notaður til að pikka göt yfir alla kökuna fyrir steikinguna.

Eiga eldri áhöldin sér sögu? Hafa einhver þeirra t.d. erfst á milli kynslóða? Hvaða áhöld, ef svo er? Hver átti þau fyrst?
Ég á lítinn vasahníf frá föðursystur minni f. 1911 (Hólar í Steingrímsfirði) sem er enn í notkun.

Hvaða munstur skerð þú helst út? Ber útskurðurinn eða munstrin sem þú notar einhver heiti? Hvaða heiti? Er eitthvað sem þér finnst að eigi ekki að skera út í laufabrauð? Hvað og hvers vegna, ef svo er?
Heima á Siglufirði var pabbi útskurðarmeistarinn. Hann hafði afskaplega fallega rithönd, fyrir utan að hann var afburða skrautskrifari. Man ekki eftir neinum heitum á útskurðinum. Við gjarnan gerðum okkar upphafsstafi og það var mjög vinsælt. Þannig þekktum við okkar köku. Kirkjuturn, kerti, kross, hring eða krans, o.s.frv. eitthvað sem var jólalegt. Svo var venjan að gera 3 kökur og hengja upp í glugga, "J" - "Ó" - "L" Aldrei kom til tals að það væri eitthvað sem EKKI væri við hæfi að setja á kökuna.

Hvað ræður því helst hvað þú skerð út? Skipta hefðir máli í þessu sambandi eða hvaðan færð þú hugmyndirnar? Vilt þú nostra við útskurðinn, gera flókin mynstur eða vera fljótur vegna þess að það eru margar kökur sem þarf að skera út?
Ég hafði gaman að reyna mig. Eg varð skrautskrifari eins og pabbi og oft reyndi ég að gera eitthvað "flókið" Stundum tókst það en stundum ekki. Verst var ef deigið var farið að þorna þá var mjög erfitt að vanda sig og gera eitthvað fíngert. Svo þegar fór að líða á var maður farinn að flýta sér og gera eitthvað fljótlegt.

Er eitthvað sem þér finnst skemmtilegra eða leiðinlegra að skera út en annað? Hvað, ef svo er? Eða er þetta kannski alveg hlutlaust?
Mér fannst alltaf gaman að byrja á að allir fengu sinn upphafsstaf i nafni sinu. Sú hefð hefur gengið milli kynslóða. Síðan koma jólalegri munstur, "J-Ó-L" og allskonar kirkjutengt, jafnvel hús. Þetta gekk aðallega útá beinar línur.

Hvað skera aðrir út í þínum hópi? Er það á einhvern hátt frábrugðið því sem þú gerir?
Já, en það tengist því að flestir vilja laufabrauðsjárnin en ég nota bara vasahnífinn. Þannig eru flestir með einfaldar og beinar línur. Þó er með útsjónarsemi hægt að beita járninu af mikilli fimi og gera bogalínur.

Hver kenndi þér að skera út? Hefur þú kennt einhverjum útskurð? Hverjum?
Mamma og pabbi. Ja, börnum mínum og barnabörnum.

Hverjir sjá um að skera út? Geta allir tekið þátt, börn líka?
Já, allir geta gert eitthvað. Litlu börnin, alveg niður í 2ja ára, hafa fengið laufabrauðsjárnin og rúllað þá bara eitthvað yfir kökuna. Þau endast auðvitað ekki lengi við þetta en finnst steikt brauðið þó mjög gott.

Hvaða áhöld og annað sem til þarf er notað við steikinguna? Segðu frá þeim og hvaða hlutverki þau gegna.
Djúpur pottur Fiskispaði Stór kjötgaffall. Feitin þarf að vera mjög heit. Brauðið rétt fer ofaní svo bregður maður fiskispaðanum undir, snýr henni við, pikkar m.gafflinum til að halda henni aðeins niðri og grípur svo undir m.spaðanum og gafflinum að ofan, lætur feitina drjúpa af, skellir kökunni ofan á pappír (eldhúsrúllu) og pressar með sléttu loki.

Hafa orðið einhverjar breytingar á því hvaða útbúnaður er notaður? Hvaða breytingar, ef svo er?
Ekki hjá mér eða mínu fólki. Það sem er breytt er að auðvitað voru engar eldhúsrúllur til hér í "den" en þá var notað viskastykki. Þó voru  kökurnar ALDREI pressaðar í mínu ungdæmi. Það er SEINNI TÍMA SIÐUR.

Upp úr hverju er brauðið steikt og hve lengi? Hvað eru búnar til margar kökur? Er afskurðurinn steiktur?
Tólg eingöngu hér áður Nú tólg og Palmín (jurtafeiti) til helminga. Steikingin i vel heitri feiti er bara ca. 20 sekúndur hvor hlið ef það nær þá þeim tíma. Maður horfir meira á lit kökunnar og hún dökknar eftir að hún er tekin uppúr, þ.e. hitinn heldur áfram að "steikja" hana Afskurðurinn var alltaf steiktur heima á Sigló. Hann máttum við borða fyrir jólin. Heima voru þetta milli 100 og 150 kökur enda mannmargt heimili.

Er laufabrauðið pressað eftir að búið er að steikja það? Með hverju er pressað? Ef að það er ekki pressað, hvað er gert við brauðið þegar það kemur upp úr pottinum?
Það var ALDREI pressað hér áður og þá sett á viskustykki. Um 1980 bjuggu börnin til í smíðavinnu í Barnaskóla sérstaka Laufabrauðspressu. Þá bjuggum við, ég og börnin mín á Húsavík. Þetta var alveg nýtt fyrir mér.

Segðu frá því hvernig brauðinu er pakkað inn og gengið frá því til geymslu.
Það var sett í Macintosh dollu heima á Sigló. Bróðir minn var í millilandasiglingum og við áttum 5 kg dollur sem hentuðu fullkomlega.!

Eftir hvaða reglum er laufabrauðinu skipt á milli fólks? Hvað fá menn venjulega margar kökur í sinn hlut?
Ég man ekki eftir neinum reglum frá minu æskuheimili. Við máttum fá "okkar" kökur, okkar bókstaf og þær sem við höfðum skorið út.

Hvað tekur vinnan við laufabrauðið langan tíma, frá upphafi til enda?
Með deiggerð, fletja út, útskurði, steikingu eins og var heima í kringum 1960 þá tók þetta a.m.k. 3 daga. Einn dagur í að búa til deigið, gjarnan kvöldið áður..annar í að fletja út og svo skurður og steiking sem tók nánast heilan dag. Því var þetta gert um helgi svo flestir gætu verið með.

Hverjir sjá um að steikja og ganga frá kökunum? Er kynja- eða verkaskipting við þetta? Getur þú sagt frá því?
Mamma steikti alltaf. Man þó eftir pabba vera á vappi líka í kringum það. Held að það hafi þó verið ríkjandi á heimili pabba (f. 1907) að allir, karlar og konur, hafi tekið þátt, sérstaklega í útskurðinum..enda allir með listræna rithönd og mikið handverksfólk. Mamma missti föður sinn ung (bjuggu þá í Vestmannaeyjum) en amma flutti til móður sinnar aftur norður í Eyjafjörð (1927) Þar var sterk hefð f. Laufabrauði á því heimili alla tíð.

Laufabrauð er mest borðað um jólin, eins og allir þekkja, en hvenær er byrjað að smakka á því?
Strax þegar það hefur verið búið til. Það var alltaf venjan að fá sér strax eftir steikinguna. Síðan var því pakkað saman og geymt til jóla.

Með hverju þykir þér best að borða laufabrauð?
Ávaxtasalati og hangikjöti.

Borðar þú, eða fólk sem þú þekkir, laufabrauð með einhverju sem talist gæti óhefðbundið meðlæti? Ef svo er, hvað er hér helst um að ræða?
Mér dettur bara pabbi í hug. Hann smurði það með smjöri! Veit ekki hvort það er hefðbundið eða ekki. En bara sá hann gera þetta.

Hvernig kökur þykja ykkur bestar? Nefnið hráefni o.fl.
Þessar venjulegu..þ.e a.s. úr hvítu hveiti. Hef smakkað úr heilhveiti en það er ekki ALVÖRU...??

Hvað endist þinn laufabrauðsskammtur lengi? Hvað er gert við afganginn frá jólunum?
Hann endist yfir jólin. Ekki lengur. Geri fáar kökur núna, eða um 20 stk. og það var kannski áður fyrr í kringum 1980-1990 að við áttum afgang á þrettándanum þegar við höfðum hangikjöt og Laufabrauð með því eins og ég var vön úr æsku.

Hvenær og hvernig er afskurðarins neytt? Hvaða heiti þekkir þú á honum?
Bara sem snakk, jafnvel milli mála einsog narti sem mátti ganga í. Eina nafnið sem ég þekki var "Afskurður" og það átti líka við um lagkökurnar. Til aðgreiningar var það "Laufabrauðsafskurður" og "tertuafskurður"

Kaupir þú tilbúið laufabrauð í búðum eða bakaríum? Frá hvaða aðila er besta brauðið að þínu mati?
Kristjáns bakarí.

Hver er tilgangur þess að búa til laufabrauð, annar en hinn praktíski svo að segja? Hvaða þýðingu hefur þessi hefð fyrir þig?
Þetta er eins og annað sem maður elst uppvið. Hefðir skapa samveru, þessi hefð er einstök og ómissandi bæði fyrir fallegar og dýrmætar minningar og samveru. Svo er Laufabrauð svo gott og óhugsandi að halda jól án þess.

Getur þú sagt frá laufabrauðsgerð? Þetta geta verið minningabrot, þín upplifun, hvort og með hvaða hætti hefðin hefur breyst, hvað er jákvætt, hvað er neikvætt eða annað sem kemur upp í hugann.
Allir á heimilinu tóku þátt i að skera út. Aðallega var það hlutverk móður minnar að búa til deigið og fletja út þó eldri börnin hafi hjálpað við að fletja út. Það var erfitt því það átti að vera "hægt að lesa á bók" í gegnum nægjanlega vel útflatta kökuna. Mest man ég þó eftir eftirvæntingunni sem lá í loftinu og hversu mamma var lúin. Hún bakaði allt saumaði öll sparifötin á okkur líka. Svo var desember annríkur hjá pabba líka. Hann var kennari og skrautritari og skrifaði á margar bækur f.fólk fyrir jólin.
Questionnaire
Keywords
Keyword: Laufabrauðsgerð
Keyword:
Laufabrauð