Laufabrauðsgerð

04.12.2020
In preservation at
National Museum of Iceland

Main information

Gender / Year of Submittee
Kona (1951)
Dating
Day sent: 04.12.2020
Object-related numbers
"Museumnumber b": 2020-3-55
Place
Núverandi sveitarfélag: Reykjavíkurborg, Reykjavíkurborg
Questions / Answers
Gerði fjölskylda þín laufabrauð á æskuárum þínum? Ef svo er, hverjir á heimilinu tóku þátt? Komu aðrir að laufabrauðsgerðinni en heimilisfólkið? Hverjir, ef svo er?
Ég ólst upp á Dalvík og þar eru engin jól án laufabrauðs . Jólaundirbúningurinn hófst með laufabrauðsbakstrinum og það voru steiktar margar kökur! allir tóku þátt og allur dagurinn fór í þetta. Mamma byrjaði snemma morguns að laga deigið og svo var farið að fletja út. Heima hjá mér var til stórt og mikið kökukefli sem pabba áskotnaðist að því mig minnir frá breskum togara. Þetta risakefli var eingöngu notað við laufabrauðsbaksturinn, enda var erfitt að fletja út og víða var það karlmannsverk. Mamma var allt í öllu og flatti mest allt út, en þó held ég að stóri bróðir minn hafi aðstoðað eitthvað við það, en mamma sá alfarið um steikinguna. Við krakkarnir sáum um að breiða hvít lök á rúm og dívana, því útflattar kökurnar voru lagðar þar á og svo annað lag yfir. þetta var gert til að kökurnar þornuðu ekki því þá var vont að skera þær fallega út. Þegar ég fór sjálf að gera laufabrauð notaði ég "laka-aðferðina" í mörg ár áður en ég áttaði mig á tilganginum og fór að nota plastið sem auðvitað var ekki til þegar ég var barn! Allir - nema mamma - skáru svo út og var keppni um hver átti fallegustu kökuna. Þrír móðurbræður mínir bjuggu í sömu götu og við og fórum við krakkarnir á öllum heimilum á milli til að aðstoða við útskurðinn, enda tók sinn tíma að skera úr a.m.k. 200 kökur á hverjum stað. Afi minn og amma bjuggu ásamt fjórða móðurbróður mínum rétt ofan við þorpið og þar fórum við líka í laufabrauð! Sérstök hefð er í minni fjölsyldu sem er að mála á kökur. Síðustu 10-20 kökurnar eru teknar frá og þegar öllum úrskurði er lokið, fá börnin að setjast við borðið og mála á kökur og hafa mörg listaverkin orðið til þar! Notaður er matarlitur, en þessar kökur voru/eru ekki borðaðar, heldur eru þær hengdar upp sem jólaskraut. Þetta hefur eflaust verið gert til að fyrirbyggja að krakkarnir væru að þvælast fyrir við steikinguna. Máluðu kökurnar voru svo steiktar þegar búið var að steikja allar hinar kökurnar og liturinn helst alveg í steikingunni. Að lokum er utanafskurðurinn steiktur og borinn fram með heitu súkkulaði. Mig minnir að það hafi líka verið búið að sjóða smakk af jólahangikjötinu, enda var dagur að kvöldi kominn og fólk orðið svangt!

Fór laufabrauðsgerð sem þú tókst þátt í eingöngu fram á heimili þínu eða á fleiri stöðum? Hvaða stöðum?
Eins og kom fram hér að ofan, fór ég með mitt bretti og minn hníf á milli heimila móðurbræðra minna til að aðstoða við útskurðinn.

Hvar og hvernig kynntust foreldrar þínir þessari hefð? Nefndu einnig sveitarfélag og hvort það var í þéttbýli eða til sveita.
Foreldrar mínir ólust upp á Dalvík og hafa bæði þekkt laufabrauðshefðina frá blautu barnsbeini.

Var laufabrauðið sem þú þekktir í æsku svipað því sem kallað er laufabrauð í dag? Ef ekki, gætir þú lýst brauðinu sem kallað var laufabrauð í þínu ungdæmi?
Mikill metnaður var í laufabrauðsútskurðinum og voru að sjálfsögðu bara notaðir hnífar. Ég eignaðist laufabrauðsjárn 1980, þá fór að halla undan fæti í metnaðinum, útskurðurinn varð allur grófari og ekki eins fjölbreyttur. Móðurbræður mínir voru allir mjög listfengnir og nutu sín í laufabrauðsútskurðinum og málningunni sem þeir tóku alltaf þátt í og þessi skemmtilega hefð er komin frá einum þeirra: hann hét Sigurjón Páll Guðlaugsson og var bóndi í Miðkoti fyrir ofan Dalvík. Palli, eins og hann var alltaf kallaður var fæddur 1910, hann lést 1997. Palli skar einstaklega fallega út, laufin voru lítil og nett og kakan þakin mynstrum og orðum. Í dag sér maður laufabrauð sem bara hefur verið rúllað yfir með járninu og laufin ekki brett upp. Það er ekki almennilegt laufabrauð!

Ef að þú komst ekki að gerð laufabrauðs í æsku en tókst þátt í henni seinna á ævinni, hvaðan og hvenær kom hún inn í líf þitt?
Sem barn tók ég auðvitað alltaf þátt í laufabrauðsbakstrinum og þegar ég fór sjálf að búa fór ég í hlutverk móður minnar og hafði yfirumsjón með ferlinu :-) Ég bjó erlendis í fjölda ára, en gerði alltaf laufabrauð. Að halda jól án laufabrauðs er óhugsandi!

Býrð þú til laufabrauð í dag? Gerir þú það með fleiri en einum hópi, ef svo er? Hvaða hópum?
Núna geri ég laufabrauð með systur minni og/eða frændfólki. Laufabrauðsbakstur er félagsleg athöfn og í mínum huga fráleitt að vera einn í bakstrinum!

Kemur þú að gerð laufabrauðs á hverju ári eða hefur þú hugsanlega tekið pásu um lengri eða skemmri tíma? Hvers vegna?
Ég man ekki eftir ári þar sem ég hef ekki tekið þátt í laufabrauðsbakstri.

Er sérstakur dagur og tími tekinn frá fyrir laufabrauðið? Hvernig er hann valinn? Er gert laufabrauð á öðrum tímum árs en fyrir jólin? Ef svo er, hvenær og við hvaða tækifæri?
Það "má" fara að huga að laufabrauðsbakstri eftir 20 nóvember og það eru alltaf helgarnar sem verða fyrir valinu um tímasetninguna. Ég hef aldrei gert laufabrauð á öðrum tímum, en ég man eftir að það voru geymdar nokkrar kökur til að eiga með þorramatnum.

Hvaða hugmyndir hefur þú um útbreiðslu laufabrauðs í dag? Finnst þér að hún hafi farið vaxandi eða minnkandi á síðustu 20-30 árum eða stendur hún kannski í stað?
Laufabrauðið er orðið miklu algengara og ekki lengur bundið við vissa staði á landinu. Bæði hefur fólk flutt milli staða, en laufabrauðið er líka svo gott með jólamatnum! Kannske fer þetta minnkandi aftur núna þegar búið er að bannfæra allt sem inniheldur hveiti :-)

Hvaða áhrif hefur COVID-19 á laufabrauðsgerð þína? Koma vídeó-símtöl á netinu, eins og t.d. á Facebook, hugsanlega við sögu? Getur þú sagt frá þessu, ef svo er?
Það er búið að aflýsa árlegu laufabrauðs-samsæti hjá systurdóttur minni sem ég hef tekið þátt í undanfarin ár. það hefur ekkert verið talað um að færa þetta yfir á netið, en ég og systir mín höfum talað um að skera og steikja nokkrar kökur. Ekkert er samt ákveðið og þetta verður öðruvísi eins og allt annað þessi jólin.

Eru einhverjir sem halda utan um daginn eða sjá til þess að nóg sé af öllum áhöldum og öðru sem til þarf? Hverjir, ef svo er?
Húsmóðirin hefur ábyrð á öllu ferlinu, þar með talið öllum tækjum og tólum, en við erum líka alin upp við að sjá um sitt bretti og sinn hníf! En svo verður að viðurkennast að húsfeður eru komnir sterkt inn í ferlið, m.a. steikinguna.

Búið þið til deig sjálf eða kaupið þið það tilbúið og fletjið út? Kaupið þið útflattar kökur?
Deigið var alltaf lagað heima hér áður fyrr, í nokkur ár sá bakari fyrir norðan um að laga deig og fletja út eftir uppskrift sem honum var sent. þessu er lokið núna, en hann selur samt útflattar kökur sem eru alveg ágætar. Ég flet ekki lengur út, en þekki til á mörgum heimilum þar sem allt er gert frá grunni og hefur hver fjölskylda sína uppskrift sem hefur gengið á milli kynslóða.

Hvaða korntegundir eða hugsanlega blöndu af þeim notið þið í deigið? Hvaða önnur hráefni eru notuð?
Aðallega hvítt hveiti, en það er gott að hafa smá heilhveiti í. Kökurnar verða reyndar ekki eins fallegar.

Hverjir búa til deigið? Þekkist kynja- eða verkaskipting við að hnoða og fletja deigið? Segðu frá því, ef svo er.
Klár kynjaskipti, sjá fyrri svör.

Hvaða áhöld og annan útbúnað notar þú við laufabrauðsskurðinn? Segðu frá því og hvaða hlutverki þau gegna.
Trébretti og lítill, beittur hnífur. Og svo þegar kemur að málningunni þá er það margir litir af matarlit og litlir penslar. (Þegar ég var barn voru eldspýtur notaðar til að mála með!).

Eiga eldri áhöldin sér sögu? Hafa einhver þeirra t.d. erfst á milli kynslóða? Hvaða áhöld, ef svo er? Hver átti þau fyrst?
Litlir vasahnífar hafa verið vinsælir og ég man eftir slíkum gersemum sem passað var vel upp á. Nú er ofgnótt af hnífum eins og öðru í okkar samfélagi. Eftir að farið var að pressa laufabrauðið eftir steikinguna var farið að gera sérstaka hringlaga tréplatta með haldi. Þetta er víða til núna. Sjálf hef ég alltaf notað potthlemm.

Hvaða munstur skerð þú helst út? Ber útskurðurinn eða munstrin sem þú notar einhver heiti? Hvaða heiti? Er eitthvað sem þér finnst að eigi ekki að skera út í laufabrauð? Hvað og hvers vegna, ef svo er?
Jólatré, stjarna og bókstafir eru vinsælustu formin hjá minni fjölskyldu. Heita ekkert sérstakt. það má aldrei skera eitthvað ljótt í laufabrauð, það væri helgispjöll!

Hvað ræður því helst hvað þú skerð út? Skipta hefðir máli í þessu sambandi eða hvaðan færð þú hugmyndirnar? Vilt þú nostra við útskurðinn, gera flókin mynstur eða vera fljótur vegna þess að það eru margar kökur sem þarf að skera út?
Ég er sjálf ekkert voða listræn og rubba útskurðinum af :-) Ýmsir í fjölskyldu minni gera aftur á móti fallegan útskurð, ma. sonur minn sem velur að skera út með hníf eins og í gamla daga frekar en að nota járnið.

Er eitthvað sem þér finnst skemmtilegra eða leiðinlegra að skera út en annað? Hvað, ef svo er? Eða er þetta kannski alveg hlutlaust?
Mér finnst alltaf gaman að gera mismunandi jólatré :-)

Hvað skera aðrir út í þínum hópi? Er það á einhvern hátt frábrugðið því sem þú gerir?
margir vanda sig meira en ég!

Hver kenndi þér að skera út? Hefur þú kennt einhverjum útskurð? Hverjum?
Móðurbóðir minn og afi minn kenndu mér að skera út. Ég hef kennt börnum mínum og barnabörnum.

Hverjir sjá um að skera út? Geta allir tekið þátt, börn líka?
Allir fá að skera, æfing skapar meistarann!

Hvaða áhöld og annað sem til þarf er notað við steikinguna? Segðu frá þeim og hvaða hlutverki þau gegna.
Djúpan pott - þá slettist feitin síður út. Stóran steikargaffal til að stinga í kökuna. Fiskispaða til að nota við að steikja utanafskurðinn. Ofnskúffu, slétt pottlok eða bretti og helling af eldhúsrúllu til að slétta kökuna og pressa mestu feitina úr henni.

Hafa orðið einhverjar breytingar á því hvaða útbúnaður er notaður? Hvaða breytingar, ef svo er?
Það er þá helst þessi tréplatti til að pressa.

Upp úr hverju er brauðið steikt og hve lengi? Hvað eru búnar til margar kökur? Er afskurðurinn steiktur?
Í gamla daga var notaður tólgur, en núna er það steikingarfeiti. Fjöldinn fer orðið eftir fjölskyldustærð og núna er svo margt annað til að hafa með mat að það þarf ekki svo margar kökur Ef maður kaupir útflattar kökur vantar alveg utanafskurðinn sem er náttúrulega algjört sælgæti, enda er hann mikið steiktur og er eins og snakk!

Er laufabrauðið pressað eftir að búið er að steikja það? Með hverju er pressað? Ef að það er ekki pressað, hvað er gert við brauðið þegar það kemur upp úr pottinum?
Sjá fyrri svör.

Segðu frá því hvernig brauðinu er pakkað inn og gengið frá því til geymslu.
Það verður að gera þetta rétt, laufabrauðið dregur í sig lykt frá umhverfinu, td. ef það er geymt nálgæt sterkum mat. (eða í nýmáluðu herbergi!) Best er að pakka laufabrauði í pappír eða álbauk. Ef í plast getur það orðið mjúkt.

Eftir hvaða reglum er laufabrauðinu skipt á milli fólks? Hvað fá menn venjulega margar kökur í sinn hlut?
Fer algjörlega eftir fjölskyldustærð.

Hvað tekur vinnan við laufabrauðið langan tíma, frá upphafi til enda?
Nú orðið nokkra klukkutíma, áður fyrr allan daginn. Sjá fyrri svör.

Hverjir sjá um að steikja og ganga frá kökunum? Er kynja- eða verkaskipting við þetta? Getur þú sagt frá því?
Húsmóðirin eða sá sem er ábyrgur fyrir ferlinu.

Laufabrauð er mest borðað um jólin, eins og allir þekkja, en hvenær er byrjað að smakka á því?
Áður fyrr fékk maður ekki köku fyrr en á aðfangadag. Nún fá kökurnar að standa frammi til að smakka á þegar fólki langar í.

Með hverju þykir þér best að borða laufabrauð?
Hangikjötinu! En líka bara sem snakk.

Borðar þú, eða fólk sem þú þekkir, laufabrauð með einhverju sem talist gæti óhefðbundið meðlæti? Ef svo er, hvað er hér helst um að ræða?
Ég hef aldrei vanist neinu á laufabrauðið, en hef heyrt um að fólk noti smjör og jafnvel kanel á brauðið.

Hvernig kökur þykja ykkur bestar? Nefnið hráefni o.fl.
Hveiti með smá heilhveiti. Og auðvitað kúmen sem soðið er í mjólkinni og sigtað frá.

Hvað endist þinn laufabrauðsskammtur lengi? Hvað er gert við afganginn frá jólunum?
Núna er aldrei afgangur af laufabrauðinu! Áður fyrr voru nokkrar kökur geymdar til þorrans.

Hvenær og hvernig er afskurðarins neytt? Hvaða heiti þekkir þú á honum?
Utanafskurður - borðað strax eftir steikingu.

Kaupir þú tilbúið laufabrauð í búðum eða bakaríum? Frá hvaða aðila er besta brauðið að þínu mati?
Nei, hef aldrei gert það.

Hver er tilgangur þess að búa til laufabrauð, annar en hinn praktíski svo að segja? Hvaða þýðingu hefur þessi hefð fyrir þig?
Laufabrauðsbaksturinn markar upphaf jólaundirbúningsins og er í mínum huga hátíðleg. Þá er spiluð jólamúsík, fólk situr saman og spjallar og nýtur samvistanna. Falleg fjölskylduhefð.

Getur þú sagt frá laufabrauðsgerð? Þetta geta verið minningabrot, þín upplifun, hvort og með hvaða hætti hefðin hefur breyst, hvað er jákvætt, hvað er neikvætt eða annað sem kemur upp í hugann.
Aldrei neitt neikvætt við laufabrauðsbaksturinn! Minningarnar skrifaði ég í fyrsta svarinu.
Questionnaire
Giver
Keywords
Keyword: Laufabrauðsgerð
Keyword:
Laufabrauð