Laufabrauð

04.12.2020
In preservation at
National Museum of Iceland

Main information

Gender / Year of Submittee
Kona (1965)
Dating
Day sent: 04.12.2020
Object-related numbers
"Museumnumber b": 2020-3-53
Place
Núverandi sveitarfélag: Reykjavíkurborg, Reykjavíkurborg
Questions / Answers
Gerði fjölskylda þín laufabrauð á æskuárum þínum? Ef svo er, hverjir á heimilinu tóku þátt? Komu aðrir að laufabrauðsgerðinni en heimilisfólkið? Hverjir, ef svo er?
Nei það var aldrei gert laufabrauð á mínu heimili.

Ef að þú komst ekki að gerð laufabrauðs í æsku en tókst þátt í henni seinna á ævinni, hvaðan og hvenær kom hún inn í líf þitt?
Eins og áður sagði ólst ég ekki upp við laufabrauðsgerð en þegar ég kynntist eiginmanni mínum fyrir 34 árum síðan kynntist ég laufabrauði og laufabrauðsgerð, heldur betur. Tengdaforeldrar mínir voru fæddir og uppaldir á Akureyri og nágrenni og þaðan kom þeirra siður. Þegar ég kom til skjalanna 1986 og á árunum þar um kring voru þau hætt að búa sjálf til kökurnar en keyptu tilbúnar ósteiktar og skáru út með myndarbrag og steiktu. Mér fannst þetta frábært og lærði af þeim allt hvað þessu viðkom. Þau keyptu oftast kökur frá Kristjáns bakarí á Akureyri. Fyrsta sunnudag í aðventu eða um það bil var sest niður með laufabrauðið, jólatónlist, laufabrauðshjól og hnífa og hver og einn reyndi eftir bestu getu að leika listir sínar á brauðunum.

Býrð þú til laufabrauð í dag? Gerir þú það með fleiri en einum hópi, ef svo er? Hvaða hópum?
Já á hverju ári kaupi ég ósteikt laufabrauð og sker út og steiki. Þá höfum við fjölskyldan mín: maki, börn, tengdabörn, eftir því hver er heima á hverjum tíma sest niður og haft þetta hátíðlega stund og huggulega samveru. Hlustum á jólalög af cd diskum eða spotify og rifjum upp gamla tíma með tengdaforeldrum mínum.

Kemur þú að gerð laufabrauðs á hverju ári eða hefur þú hugsanlega tekið pásu um lengri eða skemmri tíma? Hvers vegna?
Nei alla daga síðan ég fór sjálf að búa hef ég gert laufabrauð að undanskildum árum sem ég hef haldið jól með tengdaforeldrum mínum og þá hef ég tekið þátt í laufabrauðsgerð með þeim á þeirra heimilli.

Er sérstakur dagur og tími tekinn frá fyrir laufabrauðið? Hvernig er hann valinn? Er gert laufabrauð á öðrum tímum árs en fyrir jólin? Ef svo er, hvenær og við hvaða tækifæri?
Fyrsti eða annar sunnudagur í aðventu hefur oftast verið fyrir valinu eða kvöldstund sem allir erum heima á hverjum tíma. Aðalatriðið er og var að sem flestir fjölskyldumeðlimir séu heima. Hef einungis gert laufabrauð á aðventunni en geymt kökur fram á páska ef eitthvað hefur verið eftir og borðað annað hvort á þorranum eða á páskum.

Hvaða hugmyndir hefur þú um útbreiðslu laufabrauðs í dag? Finnst þér að hún hafi farið vaxandi eða minnkandi á síðustu 20-30 árum eða stendur hún kannski í stað?
Held að hún standi í stað.

Hvaða áhrif hefur COVID-19 á laufabrauðsgerð þína? Koma vídeó-símtöl á netinu, eins og t.d. á Facebook, hugsanlega við sögu? Getur þú sagt frá þessu, ef svo er?
Já líklega verðum við hjónin bara tvö að skera út þetta árið. Börnin eru flogin úr hreiðrinu og búa á Akureyri og við munum taka þau með í verkið með því að stilla videó á messenger og spila jólalög eins og venjulega.

Eru einhverjir sem halda utan um daginn eða sjá til þess að nóg sé af öllum áhöldum og öðru sem til þarf? Hverjir, ef svo er?
Já ég geri það alla jafna og á áhöldin og geymi.

Búið þið til deig sjálf eða kaupið þið það tilbúið og fletjið út? Kaupið þið útflattar kökur?
Kaupi tilbúið deig sem er útflatt, bara eftir að skera og steikja.

Hverjir búa til deigið? Þekkist kynja- eða verkaskipting við að hnoða og fletja deigið? Segðu frá því, ef svo er.
Keypti núna kökur útflattar frá Hagabakarí.

Hvaða áhöld og annan útbúnað notar þú við laufabrauðsskurðinn? Segðu frá því og hvaða hlutverki þau gegna.
Laufabrauðshjól, hnífa og hnífa með oddi. Tengdaforeldrar mínir gáfu okkur laufabrauðshjól á fyrstu árum búskapar okkar og hef ég notað það allar götur síðan. Allir skera og bretta í sundur munstrin að vild.

Eiga eldri áhöldin sér sögu? Hafa einhver þeirra t.d. erfst á milli kynslóða? Hvaða áhöld, ef svo er? Hver átti þau fyrst?
Já ég fékk mitt í jólagjöf frá tengdaforeldrum mínum fyrir ca 25 árum síðan og það mun ganga til barna minna eftir okkar dag.

Hvaða munstur skerð þú helst út? Ber útskurðurinn eða munstrin sem þú notar einhver heiti? Hvaða heiti? Er eitthvað sem þér finnst að eigi ekki að skera út í laufabrauð? Hvað og hvers vegna, ef svo er?
Stafi, jólatré, snúninga, munstur eða bara hvað sem er.

Hvað ræður því helst hvað þú skerð út? Skipta hefðir máli í þessu sambandi eða hvaðan færð þú hugmyndirnar? Vilt þú nostra við útskurðinn, gera flókin mynstur eða vera fljótur vegna þess að það eru margar kökur sem þarf að skera út?
Það sem ræður skurðinum er líklega stemmningin á hverjum tíma. Ef allir eru mjög vel stemmdir þá verður skurðurinn miklu fallegri og meiri natni er lögð í hann. En ef fólk er þreytt og illa upplagt vill skurðurinn verða frekar einsleitur og lítt vandaður.

Er eitthvað sem þér finnst skemmtilegra eða leiðinlegra að skera út en annað? Hvað, ef svo er? Eða er þetta kannski alveg hlutlaust?
Skemmtilegast finnst mér að bretta í sundur skurð eftir laufabrauðshjólið frekar en skera með hníf.

Hvað skera aðrir út í þínum hópi? Er það á einhvern hátt frábrugðið því sem þú gerir?
Allt mögulegt, frekar er það þannig að erfitt er að fá alla til að vanda sig.

Hver kenndi þér að skera út? Hefur þú kennt einhverjum útskurð? Hverjum?
Tengdamamma og maðurinn minn kenndu mér og ég kenndi mínum börnum.

Hverjir sjá um að skera út? Geta allir tekið þátt, börn líka?
Allir sem vilja, verkaskipting ekki heilög. Hver gerir það sem hann vill.

Hvaða áhöld og annað sem til þarf er notað við steikinguna? Segðu frá þeim og hvaða hlutverki þau gegna.
Nota kleinu-steikarpottinn minn við að steikja laufabrauðið. Aðal málið er að steikja fyrst laufabrauðið í nýrri feiti og síðan seinna má steikja kleinurnar í sömu feiti. Það geri ég til þess að ekkert sót sé búið að safnast upp í feitinni og kökurnar verði ljósar og fallegar. Ég á spaða með stóru sigti á endanum sem ég nota til að veiða brauðin uppúr feitinni og/eða bara tvo gaffla.

Hafa orðið einhverjar breytingar á því hvaða útbúnaður er notaður? Hvaða breytingar, ef svo er?
Potturinn er sá sami en nýverið fór ég að reyna mig áfram með að pressa kökurnar eftir steikingu til að gera þær sléttari og fallegri.

Upp úr hverju er brauðið steikt og hve lengi? Hvað eru búnar til margar kökur? Er afskurðurinn steiktur?
Steikarfeiti frá Kristjáns-bakarí eða frá Kjarnafæði. 20 til 40 kökur. Enginn afskurður þar sem hann fylgir ekki með frá framleiðanda.

Er laufabrauðið pressað eftir að búið er að steikja það? Með hverju er pressað? Ef að það er ekki pressað, hvað er gert við brauðið þegar það kemur upp úr pottinum?
Nýfarin að pressa það með trébretti. Raða því á borð með eldhúsbréfi á og stafla síðan þegar það er orðið kalt.

Segðu frá því hvernig brauðinu er pakkað inn og gengið frá því til geymslu.
Geymi það í Machintosh dollum sem eru nægilega stór. Set smjörpappír í botninn og ofan á.

Eftir hvaða reglum er laufabrauðinu skipt á milli fólks? Hvað fá menn venjulega margar kökur í sinn hlut?
Bara eins og þau vilja.

Hvað tekur vinnan við laufabrauðið langan tíma, frá upphafi til enda?
1 klst að skera og ca. 1 klst að steikja.

Hverjir sjá um að steikja og ganga frá kökunum? Er kynja- eða verkaskipting við þetta? Getur þú sagt frá því?
Ég steiki og geng frá oft daginn eftir að skorið var. Einhvern veginn hefur það lent á mér að steikja en maðurinn minn hefur líka gert það ef hann hefur verið heima þegar það er steikt. Ekki beinlínis verkaskipt eftir kynjum heldur frekar tilviljanakennt og eftir aðstæðum.

Laufabrauð er mest borðað um jólin, eins og allir þekkja, en hvenær er byrjað að smakka á því?
Eftir steikingu.

Með hverju þykir þér best að borða laufabrauð?
Hangikjöti og smjöri.

Borðar þú, eða fólk sem þú þekkir, laufabrauð með einhverju sem talist gæti óhefðbundið meðlæti? Ef svo er, hvað er hér helst um að ræða?
Veit ekki til þess.

Hvernig kökur þykja ykkur bestar? Nefnið hráefni o.fl.
Hveitikökur venjulegar.

Hvað endist þinn laufabrauðsskammtur lengi? Hvað er gert við afganginn frá jólunum?
Vel fram yfir áramót og oft fram á þorrann og borðað þá á bóndadaginn og ef ennþá er til þá, þá á páskum með hangikjöti þá.

Hvenær og hvernig er afskurðarins neytt? Hvaða heiti þekkir þú á honum?
Enginn afskurður af keyptum kökum lengur.

Kaupir þú tilbúið laufabrauð í búðum eða bakaríum? Frá hvaða aðila er besta brauðið að þínu mati?
Keypti í bakaríi núna Hagabakarí en næstum alltaf keypt frá Kristjáns bakarí Akureyri en eftir að Gæðabakstur keypti reksturinn versnuðu kökurnar og þess vegna er ég að skipta um aðila.

Hver er tilgangur þess að búa til laufabrauð, annar en hinn praktíski svo að segja? Hvaða þýðingu hefur þessi hefð fyrir þig?
Finna fyrir jólaandanum og taka frá fjölskyldustund, hlusta á jólalög og skapa hefð. Mér finnst hún mjög mikilvæg þessi hefð.
Questionnaire
Keywords
Keyword: Laufabrauð
Keyword:
Laufabrauðsgerð