Laufabrauð

04.12.2020
In preservation at
National Museum of Iceland

Main information

Gender / Year of Submittee
Kona (1970)
Dating
Day sent: 04.12.2020
Object-related numbers
"Museumnumber b": 2020-3-51
Place
Núverandi sveitarfélag: Reykjavíkurborg, Reykjavíkurborg
Questions / Answers
Gerði fjölskylda þín laufabrauð á æskuárum þínum? Ef svo er, hverjir á heimilinu tóku þátt? Komu aðrir að laufabrauðsgerðinni en heimilisfólkið? Hverjir, ef svo er?
1. Já, laufabrauðsgerð var fastur liður á aðventunni öll mín æskuár, og er enn. 2. Allir á mínu heimili tóku þá. 3. Já. 4. Föðurafi minn og -amma, langafi minn í föðurætt (sem bjó heima hjá afa og ömmu), föðurbróðir minn, kona hans og þeirra börn. Af og til komu aðrir ættingjar úr föðurfjölskyldunni við og skáru líka.

Fór laufabrauðsgerð sem þú tókst þátt í eingöngu fram á heimili þínu eða á fleiri stöðum? Hvaða stöðum?
Á æskuárum mínum fór laufabrauðsgerðin alltaf fram annars staðar en á heimili mínu. Laufabrauðið var skorið og steikt heima hjá föðurafa mínum og ömmu.

Hvar og hvernig kynntust foreldrar þínir þessari hefð? Nefndu einnig sveitarfélag og hvort það var í þéttbýli eða til sveita.
1. Faðir minn kynntist hefðinni sem barn og móðir mín kynntist henni í gegnum han og tengdafólkið sitt. 2. Föðurfólkið mitt er upprunalega frá Skagafirði, en afi og amma, ásamt langafa mínum, fluttu til Reykjavíkur þegar faðir minn og bróðir hans voru á barnsaldri og bjuggu þar alla tíð síðan. Afi bjó að ég held lengst af á Sauðárkrólki, en amma bjó bæði á Kúskerpi og í Ábæ (ef ég man rétt). Afi og amma hófu svo sinn búskap á Sauðárkróki en flutti svo til Reykjavíkur.

Var laufabrauðið sem þú þekktir í æsku svipað því sem kallað er laufabrauð í dag? Ef ekki, gætir þú lýst brauðinu sem kallað var laufabrauð í þínu ungdæmi?
1. Já, það var mjög svipað.

Ef að þú komst ekki að gerð laufabrauðs í æsku en tókst þátt í henni seinna á ævinni, hvaðan og hvenær kom hún inn í líf þitt?
Á ekki við.

Býrð þú til laufabrauð í dag? Gerir þú það með fleiri en einum hópi, ef svo er? Hvaða hópum?
1. Já, ég geri það. 2. Nei, við gerum þetta alltaf í sama hópnum. 3. Laufabrauðshópurinn erum við systkinin fjögur, mamma (foreldrar mínir skildu fyrir löngu og faðir minn er látinn), börnin okkar systkinanna og nú í seinni tíð börn þeirra sumra (ég er yngst af fjórum, elsti bróðirinn er fæddur árið 1957 og á orðið fjögur barnabörn og sá næstelsti á tvö barnabörn), svo þetta eru fjórar kynslóðir). Stundum hafa vinir okkar systkinanna eða aðrir úr stórfjölskyldunni litið inn og skorið með en það er ekki föst regla á því. Þetta er fyrst og fremst fjölskylduviðburður.

Kemur þú að gerð laufabrauðs á hverju ári eða hefur þú hugsanlega tekið pásu um lengri eða skemmri tíma? Hvers vegna?
1. Laufabrauðsgerðin var fastur liður í aðventunni öll mín æskuár og fram á unglingsár, en eftir það varð þetta aðeins stopulla. 2. Ástæðan er einkum skilnaður foreldra minna þegar ég var unglingur, þá riðlaðist hefðin. Seinna fórum við að gera þetta heima hjá mömmu og þá við systkinin, en þá var föðurafi minn látinn og föðuramma mín orðin sjúklingur og gat ekki verið með. Þetta var nokkuð föst hefð í nokkur ár, en svo fórum við systkinin eins og gengur að vera lengri og skemmri tíma erlendis við nám og það var eins og það þyrftu allir að vera með til að þetta væri að virka! Síðustu tíu árin eða svo höfum við systkinin svo hist ásamt mömmu, oftast heima hjá okkur hjónunum, og skorið og steikt.

Er sérstakur dagur og tími tekinn frá fyrir laufabrauðið? Hvernig er hann valinn? Er gert laufabrauð á öðrum tímum árs en fyrir jólin? Ef svo er, hvenær og við hvaða tækifæri?
1. Við erum ekki með fastan dag, en reynum oftast að hittast um eða rétt fyrir miðjan desember. 2. helgin í desember er algengasti tíminn. 2. Þar sem ég hef verið "gestgjafi" laufabrauðsskurðarins síðustu árin bý ég yfirleitt til könnun í Facebook-hóp okkar systkinanna og afkomenda og legg til 3-4 daga sem koma til greina. Markmiðið er að sem allar flestir geti komist á þeim degi sem valinn er, en það eru alltaf einhverjir unglingar í prófum eða að vinna, svo það er yfirleitt alltaf einhver sem verður að segja pass, eða kemur ekki fyrr en líður á daginn. Við veljum þá daginn sem flestir merkja við að henti. 3. Nei, við gerum þetta bara fyrir jólin.

Hvaða hugmyndir hefur þú um útbreiðslu laufabrauðs í dag? Finnst þér að hún hafi farið vaxandi eða minnkandi á síðustu 20-30 árum eða stendur hún kannski í stað?
1. Þegar ég var barn þekkti nánast enginn í Reykjavík til laufabrauðs og þessi hefð í minni fjölskyldu tengdist algerlega uppruna föðurfjölskyldu minnar. Ég man eftir að hafa sagt frá þessu í skólanum og það var ekki einn krakki sem vissi hvað laufabrauð var (það hefur þá verið seint á áttunda áratugnum) og ég kom einhvern tíma með nokkrar kökur í skólann og krökkunum fannst þetta mjög framandi. 2. Mér finnst útbreiðslan hafa verið mjög mikil síðustu áratugina, frá því að nánast enginn kannaðist við hefðina eða fyrirbærið (eins og ég lýsti í sp. 1) upp í að allir vita hvað laufabrauð er, langflestir hafa smakkað og mjög margir prófað að skera það og steikja, líka fólk sem hefur engin átthagatengsl við þá landshluta sem hefðin kemur upprunalega frá. Mín tilfinning er að þetta hafi breyst mikið þegar jólahlaðborð komust í tísku á veitingastöðum og á vegum vinnustaða, því þá hafi laufabrauð farið að sjást þar. Núna er laufabrauðsskurður t.d. fastur liður hjá mörgum foreldrafélögum grunnskóla.

Hvaða áhrif hefur COVID-19 á laufabrauðsgerð þína? Koma vídeó-símtöl á netinu, eins og t.d. á Facebook, hugsanlega við sögu? Getur þú sagt frá þessu, ef svo er?
1. Vegna COVID verður ekki stórfjölskylduskurður í ár, og krökkunum finnst það mjög súrt, en skilja auðvitað ástæðuna. Við hér á heimilinu munum skera og steikja fyrir okkur sjálf og svo eitthvað til að fara með til mömmu, sem er á hjúkrunarheimili. Í venjulegum laufabrauðsskurðarhittingi mæta aldrei færri en 20 og mest næstum 30 og það er því sjálfhætt við það. Ég veit ekki hvort hin systkini mín munu gera laufabrauð með sínu heimilisfólki, við höfum ekkert rætt það. En ég get ekki hugsað mér laufabrauðslaus jól :) 2. Nei, það hefur ekkert komið til tals að breyta þessu í neins konar FaceTime viðburð eða nota aðra fjarhittingstækni. Það er enginn spenntur fyrir því. Þetta verður bara svona í ár, eins og margt annað er öðruvísi í ár.
Questionnaire
Keywords
Keyword: Laufabrauð
Keyword:
Laufabrauðsgerð