Laufabrauðsgerð

04.12.2020
In preservation at
National Museum of Iceland

Main information

Gender / Year of Submittee
Kona (1952)
Dating
Day sent: 04.12.2020
Object-related numbers
"Museumnumber b": 2020-3-43
Place
Núverandi sveitarfélag: Reykjavíkurborg, Reykjavíkurborg
Questions / Answers
Gerði fjölskylda þín laufabrauð á æskuárum þínum? Ef svo er, hverjir á heimilinu tóku þátt? Komu aðrir að laufabrauðsgerðinni en heimilisfólkið? Hverjir, ef svo er?
Já, alltaf frá því ég man fyrst eftir mér, Mamma, amma og við systur (enginn bróðir í hópnum)., engir aðrir tók þátt.

Fór laufabrauðsgerð sem þú tókst þátt í eingöngu fram á heimili þínu eða á fleiri stöðum? Hvaða stöðum?
Eingöngu heima.

Hvar og hvernig kynntust foreldrar þínir þessari hefð? Nefndu einnig sveitarfélag og hvort það var í þéttbýli eða til sveita.
Þetta var hvroki hefð hjá pabba, (Norðfirðingur) né mömmu úr ( Kjósinni). Mamma, búsett í Miðengi Grímsnesi, fór á námskeið í Húsmæðraskólann á Laugarvatni 1933 og lærði þetta þar.

Var laufabrauðið sem þú þekktir í æsku svipað því sem kallað er laufabrauð í dag? Ef ekki, gætir þú lýst brauðinu sem kallað var laufabrauð í þínu ungdæmi?
Laufabrauðið var mjög svipað, aðeins þykkara, því það var auðvitað hnoðað í höndunum.

Býrð þú til laufabrauð í dag? Gerir þú það með fleiri en einum hópi, ef svo er? Hvaða hópum?
Já, geri laufabrauð í dag. Hef skorið út með einni systur minni og börnunum okkar.

Kemur þú að gerð laufabrauðs á hverju ári eða hefur þú hugsanlega tekið pásu um lengri eða skemmri tíma? Hvers vegna?
Hef alltaf gert laufabrauð.

Er sérstakur dagur og tími tekinn frá fyrir laufabrauðið? Hvernig er hann valinn? Er gert laufabrauð á öðrum tímum árs en fyrir jólin? Ef svo er, hvenær og við hvaða tækifæri?
Enginn sérstakur dagur valinn, bara valinn dagur í desember sem hentar öllum. Aldrei gert á öðrum árstíma.

Hvaða hugmyndir hefur þú um útbreiðslu laufabrauðs í dag? Finnst þér að hún hafi farið vaxandi eða minnkandi á síðustu 20-30 árum eða stendur hún kannski í stað?
Held að hún hafi fremur aukist ef eitthvað er. Á mínum vinnustað kom fólk saman og skar út laufabrauð og sumir voru þá að gera þetta í fyrsta sinn. Ég var hins vegar aðeins áhorfandi eða skipuleggjandi því ég skar út heima með minni fjölskyldu.

Hvaða áhrif hefur COVID-19 á laufabrauðsgerð þína? Koma vídeó-símtöl á netinu, eins og t.d. á Facebook, hugsanlega við sögu? Getur þú sagt frá þessu, ef svo er?
Hópurinn er mun minni en verið hefur. Systir mín verður ekki með, ekki tengdasonur minn né tengdasynir dóttur minnar. Eftir standa 9 manns, þar af 2 börn yngri en 8 ára.

Eru einhverjir sem halda utan um daginn eða sjá til þess að nóg sé af öllum áhöldum og öðru sem til þarf? Hverjir, ef svo er?
Við systur höfðum þetta heima hjá okkur til skiptis en nú oftast hjá mér. Skipuleggjum þetta tvær saman en í ár geri ég það ein.

Búið þið til deig sjálf eða kaupið þið það tilbúið og fletjið út? Kaupið þið útflattar kökur?
Kaupum að mestu leyti útflatt deig. Hef samt flatt út smávegis undanfarin ár því mér finnst það bragðbetra.

Hvaða korntegundir eða hugsanlega blöndu af þeim notið þið í deigið? Hvaða önnur hráefni eru notuð?
Hveiti, volg mjólk,sykur, salt, lyftiduft (gerpúlver samkvæmt uppskrift mðmmu).

Hverjir búa til deigið? Þekkist kynja- eða verkaskipting við að hnoða og fletja deigið? Segðu frá því, ef svo er.
Ég geri deigið stundum með aðstoð dóttur.

Hvaða áhöld og annan útbúnað notar þú við laufabrauðsskurðinn? Segðu frá því og hvaða hlutverki þau gegna.
1.Brauðbretti á síðari árum sérútbúnar plötur úr vatnsheldum krossvið til þess að skera á. 2.Laufabrauðsjárn og hnífa, t.d.borðhnífa. 3.Sérútbúin pressa líka pottloki úr krossvið til að slétta brauðið strax eftir steikingu. 4.Eldhúsrúllu.

Eiga eldri áhöldin sér sögu? Hafa einhver þeirra t.d. erfst á milli kynslóða? Hvaða áhöld, ef svo er? Hver átti þau fyrst?
1. Krossviðarplöturnar útbúnar hér heima fyrir ca 20 árum. 2. Laufabrauðsjárnið frá mömmu, eign okkar systra. Man eftir því þegar hún fékk það fyrir kannske 40 árum 3.Pressan útbúin hér fyrir ca 20 árum.

Hvaða munstur skerð þú helst út? Ber útskurðurinn eða munstrin sem þú notar einhver heiti? Hvaða heiti? Er eitthvað sem þér finnst að eigi ekki að skera út í laufabrauð? Hvað og hvers vegna, ef svo er?
Alls konar einföld munstur. Stundum bókstafir, greinar og stjörnur. Engin heiti. Mér finnst allt leyfilegt sem fólk vill.

Hvað ræður því helst hvað þú skerð út? Skipta hefðir máli í þessu sambandi eða hvaðan færð þú hugmyndirnar? Vilt þú nostra við útskurðinn, gera flókin mynstur eða vera fljótur vegna þess að það eru margar kökur sem þarf að skera út?
Eyði yfirleitt ekki miklum tíma í hverja köku, er reyndar oft við steikarpottinn. Stel hugmyndum frá öðrum, lærði t.d. fallega stjörnu í vinnunni fyrir nokkrum árum. Engar hefðir í þessu.

Er eitthvað sem þér finnst skemmtilegra eða leiðinlegra að skera út en annað? Hvað, ef svo er? Eða er þetta kannski alveg hlutlaust?
Hlutlaust.

Hvað skera aðrir út í þínum hópi? Er það á einhvern hátt frábrugðið því sem þú gerir?
Svipað hjá flestum, sumir eru auðvitað vandvirkari en aðrir.

Hver kenndi þér að skera út? Hefur þú kennt einhverjum útskurð? Hverjum?
Lærði útskurðinn hjá mömmu og ömmu auk þess stjörnu hjá vinnufélaga. Kenndi mínum börnum og svo barnabörnum.

Hverjir sjá um að skera út? Geta allir tekið þátt, börn líka?
Allir skera út, líka börn. Karlarnir hafa þó oft reynt að koma sér undan útskurði en eru frekar til í að steikja.

Hvaða áhöld og annað sem til þarf er notað við steikinguna? Segðu frá þeim og hvaða hlutverki þau gegna.
Grunnur pottur. Gaflar 2 til að snúa kökunum. Eldhúsrúlla, pappír til að soga í sig fituna. Sérútbúinn krossviðarhlemmur til þess að pressa kökurnar..

Hafa orðið einhverjar breytingar á því hvaða útbúnaður er notaður? Hvaða breytingar, ef svo er?
Kökurnar voru ekki pressaðar eftir steikingu og ekki notaður pappír né annað til að þurrka fitu.

Upp úr hverju er brauðið steikt og hve lengi? Hvað eru búnar til margar kökur? Er afskurðurinn steiktur?
Kökurnar voru steiktar upp úr tólg á mínu æskuheimili og allra fyrstu árin að heiman fékk ég tólgarskjöld úr sveitinni og steikti upp úr tólg. Nú kaupi ég feiti oft palmin og steini eingöngu upp úr henni. Kökurnar eru steiktar þar til þær eru ljósbrúnar,ca 30 sek á hvorri hlið. Afskurður er steiktur en hann er auðvitað enginn þegar keyptar eru tilskornar kökur.

Er laufabrauðið pressað eftir að búið er að steikja það? Með hverju er pressað? Ef að það er ekki pressað, hvað er gert við brauðið þegar það kemur upp úr pottinum?
Laufabrauðið er pressað með sértilbúnum krossviðarhlemmi.

Segðu frá því hvernig brauðinu er pakkað inn og gengið frá því til geymslu.
Brauðið er sett í rúman kassa eða jafnvel geymt í stafla á disk, þarf ekki að geyma það lengi, allt búið áður en þorri hefst.

Eftir hvaða reglum er laufabrauðinu skipt á milli fólks? Hvað fá menn venjulega margar kökur í sinn hlut?
Sumar fjölskyldur koma með sínar kökur, aðrir fá með sér eins mikið og þeir vilja. Allt í bróðerni og engar ákveðnar reglur.

Hvað tekur vinnan við laufabrauðið langan tíma, frá upphafi til enda?
Um það bil 3 til 4 tíma, mismikill tími sem fer í spjall og kaffipásur.

Hverjir sjá um að steikja og ganga frá kökunum? Er kynja- eða verkaskipting við þetta? Getur þú sagt frá því?
Elsta fólkið, við systur sjáum oftast um steikingu en stundum hjálpa karlar til við það. Við systur, þær elstu í hópnum sjáum um að skipta og skipuleggja.

Laufabrauð er mest borðað um jólin, eins og allir þekkja, en hvenær er byrjað að smakka á því?
Það er byrjað strax við steikingu að smakka en þó er farið mjög sparlega í það. Laufabrauðið er fyrst og fremst borðinu á jóladag með hangikjöti og fleiru.

Með hverju þykir þér best að borða laufabrauð?
Set smjör á brauðið, best með sérsöltuðu smjöri eins og einu sinni var til og síðan er það borðað með hangikjöti.

Borðar þú, eða fólk sem þú þekkir, laufabrauð með einhverju sem talist gæti óhefðbundið meðlæti? Ef svo er, hvað er hér helst um að ræða?
Nei.

Hvernig kökur þykja ykkur bestar? Nefnið hráefni o.fl.
Þykkar hveitikökur vel saltaðar finnst mér bestar.

Hvað endist þinn laufabrauðsskammtur lengi? Hvað er gert við afganginn frá jólunum?
Laufabrauðið endist eitthvað fram í janúar, nartað er í afganginn eins og hvert annað snakk.

Hvenær og hvernig er afskurðarins neytt? Hvaða heiti þekkir þú á honum?
Afskurðurinn er borðaður með smjöri eins og snakk. Þekki engin heiti á honum.

Kaupir þú tilbúið laufabrauð í búðum eða bakaríum? Frá hvaða aðila er besta brauðið að þínu mati?
Kaupi ósteikt laufabrauð í bakaríum. Undanfarin ár hef ég keypt frá Mosfellsbakaríi. Það finnst mér best, Kristjánslaufabrauð eru líka góð.

Hver er tilgangur þess að búa til laufabrauð, annar en hinn praktíski svo að segja? Hvaða þýðingu hefur þessi hefð fyrir þig?
Halda í hefðir, og finna tækifæri fyrir fjölskyldur til að hittast. Það virðist þó vera að renna út í sandinn, yngra fólkið er ýmist upptekið eða áhugalaust nema hvort tveggja sé. Tel þó að nánasta fjölskyldan haldi saman þegar Covidtíminn er genginn yfir. Laufabrauðið sem ég hnoða sjálf er mun berta en það sem ég kaupi að mínu mati.

Getur þú sagt frá laufabrauðsgerð? Þetta geta verið minningabrot, þín upplifun, hvort og með hvaða hætti hefðin hefur breyst, hvað er jákvætt, hvað er neikvætt eða annað sem kemur upp í hugann.
Ekkert nema jákvætt,notaleg samvera með mömmu ömmu og systrum sem voru komnar heim í sveitina í jólafrí úr skólum.
Questionnaire
Keywords
Keyword: Laufabrauðsgerð
Keyword:
Laufabrauð