Leita



Vinsamlega sýnið biðlund

Hver á Sarp?

Sarpur er heiti á upplýsingakerfi sem nær yfir forrit og gagnasafn þess. Sameignaraðilar Rekstrarfélags Sarps eiga hugbúnaðinn og hvert og eitt aðildarsafn gögnin sem það skráir í gagnasafnið.

Núverandi útgáfa Sarps, Sarpur 3.0, er sú þriðja í röðinni og var smíðuð í samvinnu við Ráðgjafar- og sérlausnasvið Þekkingar hf. Fyrsta útgáfa kerfisins, Sarpur 1.0, var  tekin í notkun 1998 og önnur útgáfan, Sarpur 2.0, árið 2002. Í framhaldi af því var stofnað félag um rekstur Sarps. Þjóðminjasafn Íslands smíðaði fyrstu og aðra útgáfuna í samvinnu við hugbúnaðarfyrirtækið Hugvit hf. með styrk frá Rannís úr Markáætlun um upplýsingatækni og umhverfismál.

 

Hvaða gögn eru í gagnasafninu?

Í Sarpi eru varðveittar upplýsingar um listaverk, muni, myndir, fornleifar, hús, þjóðhætti og örnefnalýsingar ásamt öðru efni. Undanfarin ár hafa þau söfn og stofnanir, sem eru aðilar að Sarpi, skráð rúmlega eina milljón færslna í gagnasafnið sem varðveitt er á svonefndum innri vef. Meirihluti þeirra er nú aðgengilegur á þessum vef, ytri vefnum. Sjá nánar flipann Tölfræði. 

Rekstrarfélag Sarps (RS)

Þann 21. júní 2002 var stofnað rekstrarfélag meðal gagnaeigenda Sarps. Megintilgangur félagsins er að annast rekstur gagnasafnsins og fara með hugverkaréttindi að hugbúnaðinum. Meginmarkmið með gagnasafni Sarps er hins vegar að varðveita heimildasöfn aðildarsafna. Í rekstri félagsins felst m.a. umsjón með eignarhaldi á gagnasafninu, veiting notendaleyfa, kennsla og ráðgjöf um notkun kerfisins, eftirlit með skráningu og viðhald á grunntöflum. Af eignarhaldi hugbúnaðar leiðir m.a. starfsemi við viðhald og þróun hans.

Stjórnun RS og aðsetur

Stjórnun félagsins er tvíþætt. Annars vegar skal félagið hafa níu manna fulltrúaráði á að skipa og hins vegar skal ráðið kjósa úr sínum hópi þriggja manna framkvæmdastjórn. Eftirtaldir aðilar sitja nú í stjórninni, 2021-2022: Ágústa Kristófersdóttir, Þjóðminjasafni Íslands, formaður, Björn Steinar Pálmason, Listasafni Íslands, gjaldkeri og Gerður Róbertsdóttir, Borgarsögusafni Reykjavíkur, ritari.

Sumarið 2013 gekk félagið frá þjónustusamningi við Landskerfi bókasafna hf. og hefur nú aðsetur á skrifstofu þess við Katrínartún 4. Markmið þjónustusamningsins eru m.a þau að stuðla að öflugri notendaþjónustu fyrir Sarp, bættu gæðaeftirliti með skráningu í Sarp og auknu aðgengi almennings að gögnum í Sarpi. Sveinbjörg Sveinsdóttir er framkvæmdastjóri RS og Vala Gunnarsdóttir er starfandi fagstjóri RS, áður hafa Sigurður Trausti Traustason og Frosti F. Jóhannsson starfað fyrir félagið.

 

Hver hefur aðgang að Sarpi?

Sarpur 3.0 samanstendur af tveimur vefum, innri og ytri vef.

 

Ytri vefurinn

Hann var opnaður almenningi 13. maí 2013 á vefslóðinni sarpur.is. Á árinu 2014 fékk Rekstrarfélag Sarps Íslensku safnaverðlaunin fyrir vefinn sarpur.is. Vert er að geta þess að vegna höfundarréttarlaga og laga um persónuvernd er ekki hægt að birta öll gögn á ytri vefnum nema að rétthafi hafi veitt til þess leyfi. Það á t.d. við um andlitsmyndir af lifandi fólki.

 

Innri vefurinn

Gerð hans lauk formlega 25. október 2012. Hann var þó tekin í notkun nokkru fyrr eða 1. apríl 2011. Innri vefurinn er annars vegar opinn gagnaeigendum sem ýmist eru með skráningarréttindi að eigin aðfangaskrám eða lesaðgang að eigin gögnum og annarra. Hins vegar geta þeir sem vinna að fræðilegum verkefnum sem byggja á upplýsingum í gagnasafninu fengið tímabundinn lesaðgang að heildarsafninu meðan á úrvinnslu gagna stendur, þ.e.a.s. ef aðgangur að upplýsingum á ytri vefnum þykir ekki fullnægjandi. Þeir sem þess óska geta sent RS tölvupóst.

 

Frekari upplýsingar um Rekstrarfélag Sarps og kerfið er hægt að finna á þjónustusíðu Rekstrarfélagsins og Landskerfis bókasafna