LeitaVinsamlega sýnið biðlund

Um viðgerðir og endurnotkun

Vefsýning
Sýningaraðilar:
Byggðasafn Skagfirðinga

Sýningarstjóri:
Inga Katrín D. Magnúsdóttir

Birt á vef:
6.4.2020

Í nútímanum er í auknum mæli rætt um nýtingu hluta og endurvinnslu af ýmsu tagi. Við lifum í einnota samfélagi þar sem tíðkast jafnvel að nota bolla einu sinni og henda svo. Við hendum fatnaði sem komið er gat á, í stað þess að lagfæra hann. Við hendum jafnvel óskemmdum fötum, bara vegna þess að við erum leið á þeim. Verðmætamat hefur tekið gríðarlegum breytingum á síðustu áratugum.

Frá fyrri hluta 20. aldar hefur orðið mikil breyting á samfélaginu sem þróaðist úr bændasamfélagi sjálfsþurftar, í neyslumiðað iðnaðarsamfélag nútímans. Í kjölfarið bættist hagur fólks og hegðun er varðar efnismenningu breyttist með. Í samfélagi 19. aldar átti hinn almenni borgari tiltölulega fáar eignir, þeir allra fátækustu áttu varla föt til skiptanna. Eigur fólks urðu fyrir vikið mjög dýrmætar. Þegar hlutir skemmdust, var reynt að lagfæra þá. Þegar ekki var hægt að laga hluti var leitast við að nýta þá á annan hátt. Kaupstaðaferðir voru fátíðar og ekki var „skroppið í búðina“ við minnsta tilefni. Fólk þurfti því að vera nægjusamt og bjarga sér þegar það gat.

Ýmsir gripir sem söfn varðveita bera merki fortíðar sinnar og notkunar. Þeir eru misgamlir, mismikið notaðir og í ýmiskonar ásigkomulagi. Sumir gripir virðast hanga saman á lyginni einni, en það eru oft þeir gripir sem segja okkur mest um verðmætamat eigenda þeirra. Hjá Byggðasafni Skagfirðinga eru margir gripir sem sýna viðleitni fólks til að gjörnýta eigur sínar. Sumir gripir varðveita hugmyndaauðgi í viðgerðum og aðrir hugmyndaflug í nýtingarmöguleikum.

Sumir gripir, sem sjá má á þessari vefsýningu, hafa skemmst og verið viðgerðir. Þar má nefna steikarfat (BSk 1997:454) sem sennilega hefur verið soðið saman með mjólk eða álíka efni eins og stundum var gert, og fatið spengt með garnspotta og járnvír. Diskur (BSk 1997:381) hefur sömuleiðis verið spengdur eða saumaður saman með spotta og spónn (BSk 141) og sokkatré (BSk 361) hafa verið spengd með járnþynnum. Klyfberi (BSk 1997:227) hefur verið styrktur með járnspöngum og folaldaskeifu og tóbaksponta (BSk 1997:971) hefur verið styrkt með eir- og járnvír. Rokkur (BSk 771) er sennilega samsettur úr tveimur eða fleiri rokkum úr birki og eik og þannig lagfærður með varahlutum.

Aðrir gripir hafa hlotið önnur hlutverk en þeim var upphaflega ætlað, s.s. gæruhnífur (BSk 1997:150) úr ljáblaði og nálhús (BSk 1994:14) sem upphaflega var patróna (skothylki). Kertastjaki (BSk 900) var upphaflega reiðaskjöldur eða reiðakúla á söðli. Hluti af látúni reiðans hefur verið notað í stjakann sjálfan en skjöldurinn notaður sem fótur og úr varð þessi einstaki listagripur.

Sumir gripir eru búnir til úr endurnotuðum efnivið, s.s. línskápur (BSk 1991:151) sem smíðaður var úr afgangs stofupanel og langspil (BSk 2019:12) smíðað var m.a. úr viði úr bæjar- eða baðstofuþili.

Ýmislegt má læra af neysluhegðun og hugviti forfeðra og formæðra okkar og starfsfólk Byggðasafns Skagfirðinga vonar að þessi litla sýning verði ykkur til ánægju og innblásturs.