Leita



Vinsamlega sýnið biðlund

Ganýmedes eftir Bertel Thorvaldsen. Kjörgripur úr fórum Listasafns Íslands

Vefsýning
Sýningaraðilar:
Listasafn Íslands

Sýningarstjóri:
Dagný Heiðdal

Birt á vef:
15.7.2019


Einn af kjörgripum Listasafns Íslands er höggmyndin Ganýmedes eftir Bertel Thorvaldsen (1770–1844). Thorvaldsen, sem var af íslenskum ættum,  var einn þekktasti listamaður Evrópu um sína daga og talinn einn helsti fulltrúi nýklassíska stílsins í höggmyndalist. Frummyndina að Ganýmedes gerði Thorvaldsen í Róm árið 1804 og er marmaramyndin sem nú er sýnd í Safnahúsinu við Hverfisgötu, meðal elstu verka í safneign Listasafns Íslands og eina höggmyndin sem safnið á eftir Thorvaldsen. Eins og í mörgum verka sinna sækir Thorvaldsen innblástur til klassískrar myndlistar Forn-Grikkja bæði hvað varðar myndefni og útfærslu. Bikarinn og vínkannan eru til tákns um persónuna og söguna sem býr að baki höggmyndinni, og höfuðfatið vísar til þess að Ganýmedes var að uppruna Tróverji frá Frýgíu, líkt og sagt er frá í Ilíonskviðu Hómers. Seifur var haldinn mörgum mannlegum tilfinningum, þar á meðal hreifst hann af fegurð ungra manna. Það gerðist þegar hann sá eða frétti af Ganýmedesi og svo mikil var þrá Seifs að hafa Ganýmedes hjá sér að hann lét örn – ef til vill var það Seifur sjálfur í arnarlíki eins og Óvíð segir í Ummyndunum – stela honum og færa sér upp á Ólympsfjall. Þar veitti Seifur honum eilífa æsku og það hlutverk að skenkja guðunum vín. Thorvaldsen sýnir Ganýmedes þar sem hann réttir fram bikarinn til guðanna á Ólympsfjalli og verkið er ekki aðeins til marks um nýklassískt viðfangsefni, heldur og þau einkenni myndhöggvarans og nýklassíkurinnar að halda fast í og líkja eftir fegurðarímynd forngrískrar höggmyndalistar, sem Johann Joachim Winckelmann lýsti sem „göfugum einfaldleika og rólegri tign“ í ritinu Gedanken über die Nachahmung der griechischen Werke in der Malerei und Bildhauerkunst (1755).

Verkið var upphaflega þannig tilkomið að Írína Vorontsova, rússnesk greifafrú, pantaði fimm höggmyndir hjá Thorvaldsen í Róm veturinn 1803–1804 og átti efni þeirra að vera úr grískri goðafræði, þar á meðal sögunum um Bakkus og Ganýmedes, líkt og fram kemur í samningi þeirra á milli frá febrúar 1804. Höggmyndir Thorvaldsens af Ganýmedesi eru til í tveimur útgáfum, fyrir utan þá gerð sem er að finna í safneign Listasafns Íslands; í annarri lyftir Ganýmedes upp vínkönnunni og hellir úr henni í bikarinn en í hinni lýtur Ganýmedes niður að erni Seifs og færir honum að drekka. Þar að auki eru til nokkrar lágmyndir og teikningar af Ganýmedesi sem Thorvaldsen gerði. Verkið sem hér er sýnt var í eigu Thorvaldsenssafnsins í Kaupmannahöfn og stóð ófullgert í vinnustofu Thorvaldsens þegar hann lést, en síðar var lokið við að höggva myndina í marmara fyrir safn hans. Thorvaldsenssafnið seldi þessa mynd þegar það eignaðist aðra eftirmynd árið 1922 og gaf Johan Hansen, aðalræðismaður í Kaupmannahöfn, Listasafni Íslands höggmyndina árið 1927.