Leita



Vinsamlega sýnið biðlund

„Komdu og skoðaðu´í kistuna mína"

Vefsýning
Sýningaraðili:
Byggðasafn Skagfirðinga

Sýningarstjóri:
Inga Katrín D. Magnúsdóttir

Birt á vef:
29.6.2018

Kistan hefur löngum verið talin eitt mikilvægasta húsgagn fyrri tíma. Út frá fjölda þeirra og gerð hefur mátt mæla velmegun manna og ríkidæmi. Þær voru yfirleitt geir- eða trénegldar með flötu eða kúptu loki, einfaldar að gerð og lögun eða listilega skreyttar, annað hvort með útskurði eða málun. Í sumum kistum var handraði, lítið hólf við annan endann, ýmist með loki eða án. Í handraða voru smáleg verðmæti geymd. Einnig var stundum hólf í loki kista, og var þar hægt að geyma bréf og annað lítillegt.

 

Heimildir eru heldur fáorðar um kistur og útlit þeirra, en úr eignaskrám má lesa hin margvíslegu not sem menn höfðu af þeim. Þær gátu verið ýmiskonar og í þeim geymdu menn fatnað, borð- og sængurbúnað, silfurmuni og aðrar gersemar, matvæli, bréf og bækur. Kistur drógu oft nafn sitt af því hlutverki sem þær gegndu og innihaldi, s.s. skreiðarstokkur, smjörkista, eggjakista, áklæðastokkur, bóka- eða bréfakista og ullarbyrða. Búrkistur (kistur sem notaðar voru undir matvæli) voru iðulega fremur einfaldar, einlitar eða ómálaðar. Fatakistur og kistur sem annars voru til einkanota voru oft málaðar; einlitar eða fagurlega skreyttar. Einnig voru kistur notaðar til að flytja varning milli staða, ýmist bornar á baki eða hengdar á hesta. Slíkar kistur voru kallaðar sviptikistur (sviftikistur) eða koffort. Sviptikistur og koffort voru oft máluð en yfirleitt óskreytt og lok þeirra voru flöt. Þau mátti jafnframt nota sem bekki til að sitja á. Sviptikistur voru stundum með skábrík á göflum sem á var hringlaga gat eða með járnhönkum (burðarhringjum) til að hengja þær á reiðbúnað hesta (klakka á klyfberum). Sjókoffort og póstkoffort draga heiti sín af hlutverkum sínum eins og annars konar kistur.

 

Litlar kistur kölluðust kistlar og voru þeir notaðir til að geyma smáa persónulega hluti og verðmæti. Oft var hægt að læsa kistum og kistlum ef engum var ætlað að komast í innihaldið öðrum en eigandanum sjálfum.

 

Sum önnur húsgögn drógu nöfn sín af kistuheitinu. Þar má t.d. nefna þilkistur og dragkistur. Þilkistur voru litlarskúffur" sem hengdar voru á þil. Í þeim var hægt að geyma alls kyns smálegt sem notað var hversdags, s.s. hnífa, nálar og fleira. Dragkista er það sem við köllum kommóða í daglegu tali, en nafnið vísar til þess að „kistan" (skúffurnar) er dregin fram.

 

Kistur, koffort og kistlar sem hér eru til sýnis eru varðveitt hjá Byggðasafni Skagfirðinga

(Áhugasamir geta nálgast frekari upplýsingar um kistur í bókunum Hlutavelta tímans; Híbýlahættir á miðöldum, eða í Riti Byggðasafns Skagfirðinga 2, ÞRIF OG ÞVOTTAR í torfbæjum.)