Leita



Vinsamlega sýnið biðlund

Yfirlestur: Ævintýri

Sýningaraðili:
Nýlistasafnið

Sýningarstjóri:
Heiðar Kári Rannversson

Sýningartími:
19.09.2017 - 12.2017

Sýningarskrá:

myndlist í bókaformi úr safneign Nýlistasafnsins

ÆVINTÝRI

Myndlist í bókaformi er mótsagnakennt fyrirbæri: Bækur sem líta þarf á sem myndlistaverk, myndlist sem lesa þarf sem bókmenntaverk.

Bókverk krefjast óhefðbundins lesturs sem felur ekki aðeins í sér að lesa texta heldur einnig lestur á hinu sjónræna, áþreifanlega og hugmyndalega; greiningu á formi og tegund bókarinnar sjálfrar.

Á sýningunni YFIRLESTUR má sjá myndlist í bókaformi úr safneign Nýlistasafnsins en þar er að finna um 800 titla sem mynda jafnframt stærsta bókasafn slíkra verka á Íslandi.

Sýningin er í formi lesstofu þar sem gestum gefst kostur á að skoða úrval bókverka úr safneigninni, eftir íslenska og erlenda listamenn, frá sjöunda áratug síðustu aldar til dagsins í dag. Lesstofan er einnig rannsóknaraðstaða sýningarstjórans og verður einkabókasafn hans sem samanstendur af ýmsum heimildum um bókfræði og bókverk, gert aðgengilegt gestum á meðan sýningunni stendur.

Bókasafn Nýlistasafnsins er óreiðukennt en um leið einstakt safn myndlistarverka og samanstendur af „annarskonar“ bókum sem ratað hafa þangað með ýmsum leiðum á síðustu fjörutíu árum. þessi hluti safneignarinnar, rétt eins og bókverkin sjálf, krefst óhefbundins lesturs ef gera skal tilraun til að átta sig á innihaldinu. Því munu fara fram þrír þematískir yfirlestrar á bókasafninu á meðan sýningunni stendur þar sem titlum lesstofunnar verður skipt út jafnóðum.

Fyrsti yfirlestur nefndist SJÓNDEILDARHRINGUR en annar lestur ber titilinn ÆVINTÝRI og mun standa yfir frá september til desember 2017 .Þriðji og síðasti yfirlestur á bókasafni Nýlistasafnsins nefnis TILVÍSUN og mun fara fram á fyrstu mánuðum ársins 2018.

Markmið sýningarinnar er að draga fram úr bókahillum safnsins verk sem sjaldan eða aldrei hafa komið fyrir sjónir almennings og rannsaka bókina sem myndlistarmiðil í samtímanum. Form sýningarinnar sameinar rými safneignarinnar, bókasafnsins og sýningarsalarins, og vekur upp spurningar um framsetningu og miðlun á myndlist í bókaformi: bækur sem lesandi á að horfa á og list sem áhorfandi á að lesa.

Í tengslum við sýninguna fer fram dagskrá þar sem hlýða má á upplestra úr bókum lesstofunnar og taka þátt í umræðum mynd- og rithöfunda um bókaformið.

Viðburðirnir verða nánar auglýstir síðar.

Sýningin er hluti af yfirstandandi rannsókn á íslenskum bókverkum en stefnt er að því að gefa út bók um efnið á árinu 2018.

Sýningarstjóri: Heiðar Kári Rannversson

Rannsóknin hlaut styrk úr Myndlistarsjóði og Safnasjóði.

/