Leita



Vinsamlega sýnið biðlund

Fjársjóður þjóðar. Valin verk úr safneign

Sýningaraðili:
Listasafn Íslands

Sýningarstjóri:
Birta Guðlaug Guðjónsdóttir

Sýningartími:
07.04.2017 - 31.12.2019

Í fórum Listasafns Íslands eru á tólfta þúsund verka af ýmsum gerðum, frá ýmsum löndum og ýmsum tímum. Á sýningunni Fjársjóður þjóðar er dágott úrval verka úr þessari safneign, sem gefur yfirlit yfir þróun myndlistar á Íslandi frá öndverðri nítjándu öld til okkar daga. Sýningin dregur fram, með aðstoð um áttatíu listaverka, fjölbreytni þeirra miðla og stílbrigða sem einkenna þessa stuttu en viðburðaríku sögu. Fyrstu áratugina byggðist safneign Listasafns Íslands einvörðungu upp á gjöfum, málverkum eftir höfðinglega erlenda listamenn, einkum danska og norræna, en upp úr þarsíðustu aldamótum urðu listaverk eftir Íslendinga æ meira áberandi. Núna er aðeins um tíundi hluti listaverkaeignar safnsins erlendur þó svo að enn séu ögn fleiri erlendir en íslenskir listamenn höfundar verka í Listasafni Íslands.

Þá má þakka rausnarskap ýmissa einstaklinga, listamanna og annarra, hversu hratt listaverkaeign safnsins jókst á síðustu öld. Margir frumherjar íslenskrar myndlistar arfleiddu þjóðina að verkum sínum en upp úr miðri öldinni óx innkaupasjóður Listasafns Íslands og við það stækkaði safneignin ört. Frá fínlegum teikningum Helga Sigurðssonar (1815–1888) af skáldinu Jónasi Hallgrímssyni (1807–1845) á dánarbeði til viðkvæmra samsetninga Margrétar H. Blöndal (1970–) úr fundnu efni er langur vegur og merkilegur. 

/