LeitaVinsamlega sýnið biðlund

Joan Jonas. Reanimation Detail 2010, 2012

Sýningaraðili:
Listasafn Íslands

Sýningarstjóri:
Birta Guðlaug Guðjónsdóttir

Sýningartími:
26.10.2016 - 26.02.2017

Joan Jonas (f. 1936) er frumkvöðull á sviði vídeó- og gjörningalistar og einn þekktasti myndlistarmaður samtímans. Hún starfar enn ötullega að sköpun nýrra verka, nú um fimmtíu árum eftir að hún hóf að sýna verk sín í heimaborg sinni New York í Bandaríkjunum. Hún hefur haft víðtæk áhrif á samferðamenn sína, verk hennar hafa verið sýnd í helstu listasöfnum heims og hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna fyrir verk sín. Hún starfar sem prófessor við MIT; Massachussets Institute of Technology, og hefur kennt þar frá árinu 1998. Joan Jonas var fulltrúi Bandaríkjanna á Feneyjatvíæringnum árið 2015.

Joan Jonas kom til Íslands á níunda áratug liðinnar aldar og skilaði áhrifunum af þeirri heimsókn í verkinu Volcano Saga , frásagnarmyndbandi þar sem Tilda Swinton fer með hlutverk Guðrúnar Ósvífursdóttur í heitri laug umluktri hrjóstrugu eldfjallalandslagi. Þessi nána vísun í Laxdælu  og drauma Guðrúnar, sem rekur sig eftir verkinu eins og rauður þráður, var forleikur að frekari verkum Jonas byggum á íslenskum bókmenntum, fornum og nýjum. Verk hennar Reanimation,  sem sýnt er í Listasafni Íslands, er sprottið af lestri hennar á Kristnihaldi undir Jökli  eftir Halldór Laxness, örstuttri tilvísun skáldsins í Eyrbyggju , lagðri í munn sögumanni og fjallar um það þegar Þórgunna gengur aftur og finnur mjölið í búrinu til að baka brauð ofan í svanga líkflutningamenn sína.

Joan Jonas er meðal þeirra listamanna sem fyrstir tóku vídeóvélina í sína þágu. Hún kynntist hinni nýju tækni í Japan árið 1970, þegar fyrstu handhægu upptökuvélarnar voru nýkomnar á markað. Hún hafði þá stundað höggmyndalist í nokkur ár, danslist hjá danshöfundunum Trishu Brown og Yvonne Reiner auk gjörninga, sem hún sviðsetti með margháttaðri notkun spegla sem brjóta upp einhliða skynheim áhorfandans og beina athygli hans í margar áttir samtímis. Grundvöllur Jonas hefur ætíð verið einfaldur þótt útkoman sé margslungin og marglaga. Meðan hún skundar um myrkvað sviðið sem hún byggir gjarnan upp með tjaldi fyrir vídeóvörpun, teiknar myndir beint á vegg, fremur ýmis hljóð með bjöllum, pappírsskrjáfi eða ásláttarbrestum, líður verkið áfram eins og fljót sem kvíslast að ósi. Áhorfandinn þarf að hafa sig allan við til að fylgjast með atburðarásinni sem á sér stað víðsvegar um sviðið. 

Í Reanimation, líkt og svo mörgum öðrum verkum Jonas sem byggð eru á bókmenntum, goðsögum og munnmælum, kemur fram glöggur skilningur hennar á smáatriðum sögulegrar framvindu. Hún dregur athygli áhorfandans að stuttu innskoti í frásögninni og bregður með því ljósi á heilan heim hugmynda og hugrenninga sem oftar en ekki lúta að brýnustu málefnum tilverunnar. Það er ekki að ófyrirsynju að sú tætta frásögn og moð skírskotana sem birtist í Kristnihaldi Laxness skuli verða Jonas fóður í fleiri en einu verki. Hún er í hlutverki þularins, töframannsins og spákonunnar sem sýnir okkur að endurlífgun, uppvakning og afturganga eru endurspeglun á hringrás tilverunnar. Að Laxness skuli varpa ljósi á þessa merkilegu uppvakningu í Eyrbyggju  telur Jonas vera til marks um skýra afstöðu skáldsins til náttúrunnar. Hún undirstrikar skilning hans á tilverunni með því að benda á kaflann um býfluguna og fífilinn, ilmanina sem heillar skordýrið og breytir því í burðardýr fyrir tilviljanakennt frjómagn, mögulega á enda veraldar.         

Íslandstengd verk Joan Jonas eru nú sýnd í fyrsta sinn á Íslandi. Verkið Reanimation er sýnt í Listasafni Íslands og verkið Volcano Saga er sýnt í Listasafninu á Akureyri.

Sýningarnar eru unnar í samstarfi Listasafns Íslands og Listasafnsins á Akureyri.

Sérstakir styrktaraðilar eru safnaráð og sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi.