Leita



Vinsamlega sýnið biðlund

Valtýr Pétursson í safneign Listasafns Íslands

Vefsýning
Sýningaraðili:
Listasafn Íslands

Sýningarstjóri:
Dagný Heiðdal

Birt á vef:
23.9.2016

Valtýr Pétursson (1919-1988) var í hópi þeirra listamanna sem settu svip á eftirstríðsárin á Íslandi. Valtýr var meðal brautryðjenda abstraktlistar hér á landi, afkastamikill listmálari, gagnrýnandi og virkur þátttakandi í félagsstarfi myndlistarmanna.

1919–1945. UPPHAFIÐ.

Til eru nokkur æskuverk eftir Valtý og eru þau elstu ársett 1932. Valtýr hóf listnám árið 1934 í teikniskóla Björns Björnssonar (1886–1939) í Reykjavík. Teiknitímana sótti hann fram á mitt ár 1936 er hann gerðist sjómaður í fullu starfi. Teikningar frá þessum tíma eru til að byrja með nostursamlega unnar en fljótlega fer að bera á meira öryggi í efnistökum og teikningin verður meira leikandi. Myndefnið er fjölbreytt: skip á hafi úti og við bryggju, landslag og mannverur, og í sumum verkum sést að kúbískir og fantasíukenndir þættir í verkum Jóhannesar S. Kjarvals (1885–1972) eru Valtý hugleiknir. Skip á fjarlægum höfum taka að birtast á teiknipappír Valtýs eftir að hann ræður sig til sjós, en engar slíkar teikningar ársettar eftir 1937 eru varðveittar. Valtýr Pétursson ákvað að feta listabrautina þegar hann sá verk eftir Van Gogh í New York árið 1944. Þá var hann við verslunarnám í Bandaríkjunum og stuttu síðar hóf hann nám í einkaskóla listmálarans Hymans Bloom (1913–2009) í Boston. Hjá Hyman Bloom kynntist Valtýr dulhyggju og trúarheimspeki og má sjá áhrif frá symbólisma, eða táknsæi Blooms, í verkum Valtýs. Einnig má álykta að leiðsögn Blooms hafi átt þátt í að leggja grunninn að því sem varð helsti styrkleiki Valtýs sem listmálara: næmri litameðferð. Ætingar Valtýs og blekteikningar frá þessum árum sýna að hann náði góðu valdi á spunakenndri, fígúratífri teikningu. Þessar myndir Valtýs, sem virðast byggja á persónulegu táknmáli, bera jafnframt keim af hinu gróteska og er karikatúrinn oft skammt undan.

1945–1949. MYNDRÆNAR RANNSÓKNIR

Þegar Valtýr kom heim að námi loknu, síðla árs 1945, þróaði hann áfram fígúratíft, táknrænt myndmál. Meðal annars myndskreytti hann þrjár ljóðabækur eftir Stein Steinar, samtals 133 teikningar, og vonaðist til útgáfu, en af henni varð ekki. Í málverkum, teikningum og vaxlitaskissum Valtýs frá þessum tíma koma fyrir fjölbreytt viðfangsefni eins og bátar og skip, landslag, uppstillingar og stundum fólk, allt viðfangsefni sem hann fæst við allan sinn feril. Brátt fór einnig að gæta áhrifa frá abstraktlistinni í verkum Valtýs eins og hjá fleiri ungum listamönnum í Reykjavík í kjölfar tímamótasýningar Svavars Guðnasonar (1909–1988) í Listamannaskálanum í ágúst 1945. Í september 1947 héldu ungir og framsæknir myndlistarmenn fyrstu Septembersýninguna í Listamannaskálanum við Kirkjustræti í Reykjavík. Valtýr tók virkan þátt í undirbúningi sýningarinnar og sýndi tólf verk sem eru á mörkum súrrealisma og abstraksjónar. Sýningin þótti um margt nýstárleg og er talin marka upphaf framúrstefnunnar í íslenskri myndlist. Önnur Septembersýningin var haldin í Listamannaskálanum 1948 og sýndi Valtýr verk þar sem sjá má þekkjanlegar en stílfærðar fyrirmyndir í anda síðkúbisma.

1949–1951. MYNDRÆNAR RANNSÓKNIR

Í upphafi árs 1949 hélt Valtýr til náms í Flórens, ferðaðist um Ítalíu og settist svo að í París í lok árs. Myndrænar rannsóknir Valtýs í París og eftir dvölina þar endurspegla þróun, þar sem eitt leiðir af öðru. Í fjölda verka sem Valtýr vann á árunum 1949–1951 sjást ótal tilbrigði við sama stef: skip við bryggju eða á hafi úti. Svipað myndefni sést í fjölda annarra málverka frá sama tíma. Í mismunandi „kompósisjónum“ prófar Valtýr sig markvisst áfram með stærð litaflata, stefnu lína og áhrif lita og reynir þar á lestur áhorfandans hvað snertir skírskotanir til hafnarlífs og landslags. Samhliða olíumyndum vinnur Valtýr fjölda skissa með bleki og vatnslitum, bæði skipastúdíur og geómetrískar línuteikningar. Valtýr hélt sína fyrstu einkasýningu í Reykjavík í Listamannaskálanum í mars 1951. Verkin eru mjög fjölbreytt, bæði abstrakt og fígúratíf, en meðal verka á sýningunni var málverkið Á vinnustofunni frá 1951 sem sýnir mótíf sem Valtýr fékkst einnig við löngu síðar, undir lok ævinnar. Í forgrunni sést uppstilling hluta á borði og þar fyrir aftan er abstraktmálverk á trönum listamannsins. Óhlutbundinn veruleiki myndarinnar á trönunum teygir sig út fyrir ramma hennar og út í myndrýmið allt: veggir og gluggi verða geómetrískir fletir sem skapa dýpt og kallast á við aðra fleti og geómetrísk form stólsins, borðsins, hlutanna og lögun „myndarinnar“ í myndinni – og vitaskuld einnig ferningslögun verksins sjálfs. Það er sem Valtýr bregði þarna á leik í heimspekilegri íhugun um eðli mynda og tengsl þeirra við ytri veruleika.  

1951–1956. GEÓMETRÍSK ABSTRAKTLIST.

Þriðja Septembersýningin var haldin í Listamannaskálanum 1951. Þar sýndi Valtýr níu málverk, meðal annars konkretverkið Á svörtum grunni sem hann málaði í upphafi árs. Var Valtýr þar með fyrstur Íslendinga til að sýna hrein geómetrísk abstraktverk í takt við það sem þá var efst á baugi í París. Á fjórðu og síðustu Septembersýningunni 1952 var Valtýr formaður sýningarnefndar og skrifaði formála í sýningarskrá. Í nóvember 1952 hélt Valtýr einkasýningu í Listvinasalnum við Freyjugötu þar sem hann sýndi 42 nýjar gvassmyndir og í mars 1956 hélt hann einkasýningu í Listamannaskálanum þar sem hann sýndi samtals 71 verk, olíumálverk, lakkmálverk, gvassmyndir og klippimyndir. Sýningin fékk jákvæða gagnrýni og þótti áhrifa frá náttúrunni gæta meira í litameðferð en í fyrri verkum. Í verkum sínum frá þessu tímabili vinnur Valtýr með skýrt afmarkaða, geómetríska fleti, slétta áferð og fáa liti – en heldur sig þó ekki við frumlitina eins og ströngustu boðberar konkretlistarinnar kváðu á um. Litanotkun Valtýs er ávallt persónuleg og þegar litið er yfir þann mikla fjölda verka sem hann vann á tímabilinu (og raunar allan feril sinn), þá vekur dirfska hans í litasamsetningum sérstaka athygli. Tilfinning hans fyrir gráskala er næm og í verkum hans koma bleikir, fjólubláir, ljósbláir, gulbrúnir, grænir, sterkrauðir litir, að ógleymdum svörtum, gjarnan við sögu, stundum allir í einni og sömu myndinni. Geómetrísk málverk Valtýs byggja á kerfisbundinni rannsókn á myndrænum möguleikum. Hið sama má segja um fjölda gvassmynda, teikninga, samklippiverka og dúkristna hans frá þessum tíma. Í öllum þessum verkum býr einnig sterk sköpunarnautn og hugmyndaríkur leikur með hrynjandi, spennu, þenslu og dýpt. Að baki býr einnig athugun Valtýs á hlutveruleikanum og sambandi hans við heim myndarinnar. Segl, bátar og sjór eru, þegar vel er að gáð, einnig undirliggjandi þemu í óhlutbundnum verkum þar sem áherslan er lögð á „sjálfstæðan“ veruleika hins formræna samspils á myndfletinum.

1957–1968. MÓSAÍK OG ÓHEFT TJÁNING

Veturinn 1956–1957 lærði Valtýr mósaíkgerð hjá Gino Severini (1883-1966) í París, en Valtýr taldi þessa aldagömlu aðferð eiga vel við geómetríska myndbyggingu í óhlutbundnum verkum. Valtýr sýndi meðal annars mósaíkverk á stórri einkasýningu í Listamannaskálanum 1960 og hlaut lof gagnrýnenda fyrir mósaíkverkin sem voru 42 talsins. Var þess m.a. getið í dómum að með þessari „nýsköpun“ hafi Valtýr vakið athygli á litauðgi íslenska steinaríkisins en í mósaíkverk sín nýtti Valtýr t.d. fjörugrjót, hraungrýti, líparít, kvars, hrafntinnu og silfurberg. Mósaíkverk Valtýs hafa verið álitin „persónulegasta framlag hans til abstraktlistarinnar“ og er það ekki síst vegna sérstæðrar efnisnotkunar hans. Mósaíkverk Valtýs áttu sér hliðstæður í öðrum verkum, bæði hvað varðar myndefni og formgerð og má sjá víxlverkun milli mósaíkverkanna og fjölda gvass,- vatnslita- og olíumynda frá þessum tíma þar sem túlkun birtu með litum, gagnsæi og hreyfing er höfð að leiðarljósi. Á sýningunni í Listamannaskálanum 1960 sýndi Valtýr, samhliða mósaíkverkunum, málverk sem voru lausari í formi en áður og þau túlkuðu náttúrustemningu eða hughrif sem sprottin voru af náttúruupplifun. Í byrjun sjöunda áratugarins hófst blómaskeið ljóðrænnar tjáningar í listsköpun Valtýs. Mýktin flæðir inn í verkin með frjálslegri pensilskrift og lausbeislaðri formgerð. Skil milli óhlutbundinnar túlkunar og hlutbundinnar verða jafnframt óljósari. Í abstraktformgerð verka eins og Dökkir litir (1963) gætir sterkra náttúruáhrifa og mörg verka hans frá þessum árum bera heiti sem vísa beint í náttúruna. Litagleði, ljóðræn efnistök og aukið frelsi listamannsins einkenna verkin á einkasýningu Valtýs í Listamannaskálanum í nóvember 1962. Sýningin fékk góðar undirtektir og þóttu ljóðræn efnistökin henta Valtý vel. Það sama átti við einkasýningu hans í Unuhúsi í Reykjavík sumarið 1966.

1968–1975. NÁTTÚRUHRIF

Í tilefni einkasýningar í Listamannaskálanum í maí 1968 sagði Valtýr að nú væri hann búinn að losa sig við kreddur og að verkin væru „sambland af naturalisma og abstraktion“. Undir lok sjöunda áratugarins einkennast verk Valtýs af frjálslegri sveiflu í anda tassisma sem m.a. má sjá í syrpu blekteikninga. Í stærri málverkum skilar sveiflan sér í breiðum, kröftugum pensilstrokum og þar nýtur sín einnig þroskuð tilfinning Valtýs fyrir litum, ekki síst þegar hann lætur reyna á þanþol þeirra og styrk. Í málverkinu Hafbliki, frá 1971, nær Valtýr fram sterkum áhrifum með djörfu samspili andstæðra lita: Blátt, óreglulegt stjörnulaga form birtist hægra megin eins og leiftursýn og rýfur breiða, rauðgula línu sem sker myndflötinn lóðrétt. Bleikir og rauðir litir auka á tjáningarhita verksins og í því býr náttúrutilvísun eins og nafnið ber með sér. Í september 1973 hélt Valtýr einkasýningu í Norræna húsinu í Reykjavík þar sem hann sýndi 84 verk máluð 1969?1973. Í viðtali sagði Valtýr: „Myndirnar eru fígúratífari en áður, ef svo mætti að orði komast. Ég reyni að ná fram andrúmsloftinu í hlutunum sem ég mála. Einnig er mikil breyting í litameðferð, aðrir litatónar en áður, og ég er mjög litaglaður, stundum einum of.“ Meðal verka á sýningunni eru áhrifaríkar, abstrakt náttúrustemningar. „Ef ég ætti að defínera sjálfan mig þá myndi ég kalla mig rómantískan expressíónista,“ segir Valtýr um verk sín og bætir við að verkin séu nú „eins konar meðalvegur milli hins fígúratífa og non-fígúratífa. Öll myndlist er abstrakt og öll myndlist er fígúratíf. Þetta er allt samofið.“ Smám saman verður þó fígúratíft myndefni meira áberandi í verkum Valtýs, ekki síst bátamyndir.

1975–1988. ENDURLIT

Á seinni hluta áttunda áratugarins og á þeim níunda einkenndist sýningarhald og listsköpun Valtýs að mörgu leyti af endurliti þar sem hann horfir um öxl til eldri myndlistar og eigin verka. Í maí 1975 hélt Valtýr til dæmis sýningu á Loftinu við Skólavörðustíg, þar sem hann sýndi myndir frá Septembersýningum 1947–1948 og vorið 1984 var haldin sýning á gvassmyndum Valtýs frá 1951–1957 í Listmunahúsinu. Í nýjum verkum er myndefni úr nánasta umhverfi Valtýs áberandi, einkum uppstillingar, bátamyndir og landslag. Sumarið 1976 hélt hann til dæmis einkasýningu undir heitinu Bátar og blóm, á Loftinu, þar sem hann sýndi 43 verk, pastel-, krítar- og gvassmyndir. Að eigin sögn er þetta fyrsta fígúratífa sýningin sem hann heldur. Á árlegum sumarsýningum sínum í Þrastalundi við Sogið frá 1974 til 1987 sýndi Valtýr smærri fígúratíf verk þar sem myndefnið var einkum frá sjávarsíðunni, landslag og uppstillingar. Sama myndefni var einnig áberandi í verkum Valtýs á árlegum sýningum Septem-hópsins í Reykjavík á sama tímabili, en Valtýr var einn af hvatamönnum Septem-sýninganna þar sem listamenn er flestir tóku þátt í Septembersýningunum 1947–1952 sýndu saman. Á sýningunni Frá liðnum árum í Galleríi íslensk list á Vesturgötunni árið 1985 leit Valtýr til listasögunnar í verkum sínum og má þar sjá skírskotanir til verka Henris Matisse (1869–1954), Georges Braque (1882–1963), Jóns Stefánssonar (1881–1962) og fleiri listamanna. Í mars 1986 hélt Valtýr stóra einkasýningu á Kjarvalsstöðum og sýndi þar 84 ný verk, landslagsmyndir, uppstillingar, hafnar- og bæjarlífsmyndir, auk mynda af vinnustofu sinni. Þessar myndir Valtýs hafa kímið yfirbragð, ef ekki vott af karikatúr af því tagi sem einkenndi fyrstu myndverkin sem hann vann á námsárunum í Bandaríkjunum. Þær minna á rætur hans í fígúratífu myndmáli og gefa vísbendingar um opinn hug Valtýs gagnvart straumum samtímans: póstmódernískum tilvísunum til fortíðar og kímni sem tekur sig mátulega hátíðlega.

VEFSÝNING

Valtýr lét eftir sig fjölmörg málverk og pappírsverk, bæði í opinberum söfnum og einkaeigu, sem gefa innsýn í áhugaverðan feril þar sem fengist er við grunnþætti málverksins. Fjölmörg tilbrigði við ólík stef sýna athyglisverða þróun listamanns sem var óhræddur að takast á við mismunandi miðla, stíla og stefnur. Til að halda ævistarfi Valtýs til haga var Listaverkasafn Valtýr Péturssonar stofnað árið 2011. Meginuppistaða listaverkasafnsins er málverk og fjölbreytt pappírsverk eftir Valtý, auk listaverka eftir aðra listamenn, sem voru í eigu ekkju Valtýs, Herdísar Vigfúsdóttur. Auk þess geymir listaverkasafnið veglegt safn heimilda sem tengjast Valtý og veita innsýn í samtíma hans, ævi og störf. Listaverkin sem sjá má á þessari vefsýningu eru öll úr safneign Listasafns Íslands, alls 24 verk.


Höfundar texta: Anna Jóhannsdóttir og Dagný Heiðdal