Aníta Hirlekar fatahönnuður
Bjarni Viðar Sigurðsson keramiker
Helga Ragnhildur Mogensen skartgripahönnuður
Samhljómur þriggja hönnuða á HönnunarMars 2016
Helga Ragnhildur Mogensen skartgripahönnuður, Bjarni Viðar Sigurðsson keramiker og Aníta Hirlekar fatahönnuður hafa vakið verðskuldaða athygli á síðustu misserum fyrir verk sín. Hönnuðurnir eiga það sameiginlegt að fara sínar eigin leiðir til að kanna til hlítar takmörk efnisins sem þau vinna með og er niðurstaðan oft mjög kröftug þar sem yfirborð og áferð er í aðalhlutverki.
Í tilefni af HönnunarMars verður opnuð sýning á nýjum verkum þeirra og gefst því tækifæri til að sjá hönnuði úr ólíkum greinum teflt saman á spennandi hátt.
Í verkum Helgu kemur fram kraftur þess hljóða og smáa. Minningar og íhugun bindast efni og formi svo úr verður mjög persónuleg túlkun í skartgripum hennar. Bjarni er hins vegar þekktur fyrir að ráðast gegn fyrirframgefnum reglum um notkun glerunga með stanslausum tilraunum á ólíkum samsetningum til að ná fram því óvænta. Með fatnaði sínum skapar Aníta óreiðukennda áferð ýmist með handbróderingu eða gefur efninu lausan tauminn og nýtir til þess áhrifaríkar litasamsetningar.
Aníta Hirlekar er fædd árið 1986. Hún lauk námi frá Central Saint Martins í London árið 2014.
Helga Ragnhildur er fædd árið 1980. Hún lauk námi frá Edinburgh College of Art árið 2007.
Bjarni Viðar Sigurðsson er fæddur árið 1960. Hann útskrifaðist frá Århus Kunstakademiet árið 2000.
Helga Ragnhildur Mogensen (f. 1980)
Innávið, 2015-2016
Silfur (925S), rekaviður, akrýllitir
Í látleysi liggja þeir, skartgripir Helgu, og virðast kalla eftir því að vera teknir upp og stroknir aðeins, eða vigtaðir með léttri handarhreyfingu. Lykillinn að verkum Helgu er að leita að því sem ekki sést við fyrstu sýn því Helga vinnur skartgripi sína af mikilli næmni og leitar stöðugt innávið, við gerð þeirra.
Rekaviður norðan af Ströndum er ríkjandi efni í skartgripum Helgu. Mikilvægi rekaviðarins er þó ekki bundið sjálfu efninu sem slíku, því einu máli skiptir hver viðartegundin er. Það er frekar sá óræði uppruni og sú tilviljun að efnið hafi rekið á ákveðinn stað, í ákveðnar fjörur, því þangað leitar hugur Helgu. Þar liggur hráviði sem búið er að tapa ýmsum eiginleikum sínum á reki í hafróti og eftir straumum á milli landa.
Sjálf hefur hún lýst ferilnum við gerð verkanna sem flæðiskenndum og að hún hafi meðal annars með vinnu sinni komið orku í efni. Sú orka sem Helga setur í efnið er umbreytingin sem hún áskapar hverjum hlut. Þessir margræðu fletir, sumir litríkir en aðrir fölir og kannski eilítið feysknir, skornir beint eða á ská marka nýtt upphaf og vísa í allar áttir.
Harpa Þórsdóttir
Bjarni Viðar Sigurðsson (f. 1965)
Hringvasar, 2016
Steinleir
Það má segja að Bjarni skeri sig úr hópi íslenskra leirlistamanna. Sjálfur vill hann kalla sig keramiker og án þess að hér sé farið út í smásmugulegar skilgreiningar á heitum innan sérsviða, þá býr leirlistin yfir svo mörgum mismunandi hliðum sem byggjast á ólíkri tækni og aðferðum, að fjölbreytnin innan hóps leirlistamanna er mikil.
Sérstaða verka Bjarna og um leið hans helsta einkenni sem keramiker, er sú gríðarlega tilraunakennda vinna með glerunga sem knýr hann áfram. Tilraunir hans ná þó aðeins upp að vissu marki. Allt vinnuferlið er samviskusamlega skráð og uppskriftir eru því fyrir hendi ef skal endurtaka leikinn. Og leikur er þetta. Leikgleðin virðist einkenna vinnuferil hans.
Ólíkt mörgum leirlistamönnum, þá nálgast Bjarni sína ögurstund léttur í spori og fullur eftirvæntingar. Það er sú stund þegar ofninn er opnaður að loknum brennsluferlinum. Hún reynist mörgum leirlistamanninum þung, því brennslan setur lokapunktinn, er hið óvænta útspil sem enginn fær ráðið. En sjálfur segir Bjarni að þegar hann opnar ofninn að lokinni brensnlu, endurlifi hann spennu barnæskunnar þegar gjafapakkar voru opnaðir. Bjarni vinnur aðeins með tiltekinn fjölda forma hverju sinni og nær því nánast að steypa í akkorði. Sköpunargáfu hans eru lítil takmörk sett og einstætt formskyn er hluti kröftugrar heildar þegar horft er yfir verk Bjarna. Hinn listræni þáttur, með sínum óvæntu endalokum, tekur við eftir hrábrennsluna. Það er þegar hlutirnir eru glerjaðir. Það er sú töfrastund sem Bjarni alkemisti á með verkum sínum.
Harpa Þórsdóttir
Aníta Hirlekar (f. 1986)
Haust/Vetur 2014
Ull, bómull, pallíettur o.fl.
og
Vor/Sumar 2016
Ull, polyesterþræðir, flauel, bómull, pallíettur, tjull
Hver einasta flík Anítu Hirlekar felur í sér fjölda vinnustunda eins og við er að búast. Það sem þarf hins vegar að undirstrika þegar fatnaður hennar er skoðaður, er að einkennandi fyrir vinnu Anítu er ,,uppbygging“ efnisins, rétt eins og leirlistamaðurinn eða myndhöggvarinn byggir upp verk sín og ,,hleður upp“. Því ætti öllum að vera það ljóst að hver einasti sentimetri í fatnaði hennar er handverk. Aníta býr til efnið. Byggir það sem dæmi upp á tjulli. Leggur þæfða ull yfir eða silkibúta, bróderar með ýmsum þráðum eða saumar í, svo smátt og smátt verður til fylling, sjálft efnið, og það ekki svo flatt. Í handverki Anítu felst iðja, natni, nákvæmni, þolinmæði og hugsun. Með öðrum orðum: Tími og ört vaxandi þekking við hvert verkefni.
Að framansögðu er vísun til myndhöggvarans hreint ekki fráleit þegar horft er til Anítu. Sniðin hennar eru gjarnan skúlptúrísk. Þau taka sitt eigið form en fylgja ekki endilega líkamanum. Þetta á bæði við um fyrri línu Anítu sem hún sýnir hér og nýjasta kögurfatnaðinn, þar sem sniðin byggja á hreyfingu og skapa kröftug optísk áhrif með hjálp litasamsetningar.
Aðspurð hefur Aníta lagt áherslu á það að handverkið skiptir hana miklu máli. Þannig megi gjarnan túlka gróf útsaumsporin í fyrri línu hennar sem óð til textílvinnu og handverks fyrri tíðar. Hún sækir gjarnan til listasögunnar, til dæmis með skírskotun til abstraktsjónar, sem hverjum má vera ljóst sem skoðar fatnað Anítu, að er gjöfulur brunnur að ausa úr.
Harpa Þórsdóttir