Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar

Ísland er svo keramískt

Sýningaraðili:
Hönnunarsafn Íslands

Sýningarstjóri:
Auður Harpa Þórsdóttir

Sýningartími:
09.01.2016 - 28.02.2016

Steinunn Marteinsdóttir er einstakur leirlistamaður í íslenskri hönnunar- og listasögu. Hún hefur á 55 ára ferli skapað afar persónulegan stíl með verkum sínum sem hún hefur mótað og unnið með krefjandi hætti. Steinunn hefur aldrei numið staðar í sinni vinnu. Afköstin hafa verið mikil og sköpunarþátturinn oft á tíðum dirfskufullur. Sé horft yfir feril hennar á þessum tímamótum má líkja honum við endalausa könnunarferð, þar sem öllu því sem má líkja við vanafestu og stöðnun er storkað.

Strax á fyrstu einkasýningu Steinunnar árið 1975 var ljóst að hún er hamhleypa til verka. Nokkur hundruð keramikverk fylltu sal Kjarvalsstaða enda hafði undirbúningur staðið lengi. Steinunn hafði þá kennt leirmótun og brennslu á fjölda námskeiða og hlotið þar aðra skólun en innan þeirrar rótgrónu kennslu sem hún naut í leirlistadeildinni í Hochschüle für Bildende Künste í Vestur-Berlín. Það hefur líklegast haft töluverð áhrif á þá fjölbreytni og þá öru þróun sem einkennir vinnu Steinunnar þegar yfir er horft, að hún fór að sinna svo snemma á ferlinum óskum og þörfum nemenda. Með þeim prófaði hún möguleika ólíkrar tækni sem leirmótunin og brennslan býður upp á í sínum margskipta ferli.

Rauði þráðurinn í verkum Steinunnar hefur alla tíð vaxið af ákveðinni rót. Á sýningunni 1975 á Kjarvalsstöðum markaði Steinunn þau þáttaskil í íslenskri leirlistasögu að sýna íslenskt landslag á afgerandi hátt með stórum og smáum skúlptúrvösum. Esjustef og jökulstef þar sem Snæfellsjökullinn er túlkaður í margbreytilegri mynd eru lykilverk á ferli Steinunnar og þau gáfu undir eins til kynna frumlega afstöðu til þeirrar hefðar sem þá hafði verið ríkjandi í íslenskri leirlist. Með þessum verkum hófst nýr kafli innan íslenskrar lista- og hönnunarsögu þegar hún færði náttúruna sem myndmál hins tvívíða flatar í þrívíða vasa, bæði sem form en einnig í skreyti.

Vasarnir eru áberandi þáttur í sköpunarverki Steinunnar en aðrir gripir svo sem skálar, diskar, vín-, kaffi- og testell hafa alla tíð verið viðfangsefni hennar. Í vösunum er einstaklega kröftug formtúlkun sem oft nálgast skúlptúríska eiginleika. Steinunn hefur þó aldrei leyft sér að fara yfir í hreinan skúlptúr þó að mörg verka hennar feli í sér flókna tækni við mótun og brennslu sem leikmenn geta sjaldnast getið í. Veggverkin koma úr óvæntri átt, hvort sem þar eru náttúruvísanir í mótun lands eða bein framsetning á landslagi. Veggverkin hafa einnig átt þátt í að marka sérstöðu Steinunnar sem leirlistamanns.

Ísland er svo keramískt var svar Steinunnar við spurningu blaðamanns fyrir nokkrum áratugum. Sú staðreynd hefur lítið breyst og við erum reglulega minnt á þá ólgu og krafta sem undir okkur krauma. Verk Steinunnar í sínum fjölbreytileika þarfnast varla sérstakra skýringa með orðum. Þau standa sterkog óstudd og eru til vitnis um glæsilegt lífsstarf leirlistamanns sem spannar allt litrófið í sínu fagi og hefur leitað leiða til að fara í nýjar áttir, og jafnvel breyta óvænt um stefnu.