LeitaVinsamlega sýnið biðlund
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar

Ámundi:

Sýningaraðili:
Hönnunarsafn Íslands

Sýningartími:
11.03.2015 - 31.05.2015

Verk Ámunda eru mörg hver margslungið sjónrænt táknmál. Upplifunarþátturinn í verkum hans er stór og í þeim felast leiðir til ákalls, til margræðrar túlkunar en síðast en ekki síst felst í þeim krafa, um frjálsa leið. Ýmsar þversagnir einkenna vinnu Ámunda. Krafan um frjálsa leið rímar til að mynda ekki alltaf við staðsetningu hönnuðarins, með viðskiptavininn sér við hlið og óskir komandi þaðan.

Ámundi er fæddur árið 1959 og er af kynslóð grafískra hönnuða sem vann bæði fyrir og eftir eina mestu tæknibyltingu sinnar greinar, innkomu tölvunnar og grafískra forrita og stafrænnar þróunar í prentun. Með þessari byltingu færðist aukinn hraði í vinnu grafískra hönnuða og starfssvið þeirra stækkaði einnig inn í heim hverskonar tölvugrafíkur. Hvert sem við lítum í dag, sjáum við verk sem grafískir hönnuðir hafa unnið. Grafísk hönnun er stærsta hönnunargreinin á Íslandi og sú grein sem er í hvað mestum tengslum við alþjóðlegt umhverfi. Fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök, hverju nafni sem þau nefnast leita til grafískra hönnuða. Verkefnin eru stór og smá en ávallt er sú krafa uppi að skila ,,tímamótavinnu“, því sem tekið verður eftir: Merkinu sem munað verður eftir, auglýsingunni sem grípur hvern þann sem lítur, slagorðið sem slær í gegn, litnum sem lýsir okkur, bókinni sem allir vilja fletta, endalaust.  

Í þessu samhengi hefur Ámundi lýst sjálfum sér sem kamelljóni; hans helsta verkfæri er næmni sem hann býr yfir til að hlusta á óskir og samsama sig verkefni sínu hverju sinni. Með þessari persónulegu nánd, fléttar Ámundi inn listrænni sköpun sem er einna mest áberandi þátturinn í fjölda verkefna hans. Stíllinn í verkum hans er gjarnan staðsettur örlítið til hliðar við það sem er meðtekið, eða er tíska líðandi stundar. Í þessu felst þó sú þversögn að verk Ámunda eru ávallt hluti síns tíma, bara aðeins á skjön við helstu tískusveiflur. Ámundi fer sínar eigin leiðir í leit að innblæstri, vinna hans færist inn í annað samhengi. Í þessu felst töluverð yfirlega yfir hverju verkefni sem gjarnan veldur annarri niðurstöðu en sterkustu straumar tímans færa okkur. Andleg málefni eru hluti af lífsstíl Ámunda og í leit sinni að fyrirmyndum hefur hann sérstaklega lagt sig eftir að horfa til einstaklinga sem geta brotið eigin mörk. Flest látum við sýnilega og ósýnilega þröskulda stöðva leið okkar til ýmissa átta og þá er brunnurinn sjaldnast ausinn.

Áhrifavaldar Ámunda hafa verið listamenn, hönnuðir og andlegir leiðtogar. En ekki skyldi vanmeta þátt amerískrar sjónvarpsmenningar sem Ámundi kynntist í gegnum kanasjónvarpið á sínum tíma. Ameríski stíllinn frá 6. og 7. áratugnum birtist okkur til að mynda í mörgum veggspjöldum Ámunda, val lita eða uppsetning kallast á við tíma ameríska draumsins og myndmálið vísar gjarnan til teiknimynda. Áhrifarík samsuðan í verkum Ámunda verða þó á engan hátt skýrð út frá einum stíl eða með vísan í eina átt. Sjálfur gantast Ámundi með barrokkið sem höfundarmerki; þessi skreytiárátta hans og daður við að brjóta upp viðtekin mörk og venjur, sem hann gerir eflaust með glotti.

Einn helsti áhrifavaldur Ámunda er myndlistarmaðurinn Marcel Duchamp. Ámundi hreifst af tengingu Duchamps við alkemíu og dulræna speki og við skoðun á verkum hans opnuðust Ámunda dyr að hinu óræða og tenginguna við fegurð þess óræða. Það að taka hlutina úr samhengi og færa þá inn í annað samhengi er ein af aðferðunum sem Ámundi hefur tileinkað sér. Hann varð einnig, líkt og margir íslenskir listamenn, fyrir djúpstæðum áhrifum af verkum og aðferðum Dieter Roth, en Ámundi var einn af BrunaBB-liðum snemma á 9. áratug síðustu aldar. Dieter opnaði augu margra fyrir endalausum möguleikum til sköpunar. Að sama skapi nefnir Ámundi Andy Warhol sem áhrifavald og ekki síst samtímamann sinn, grafíska hönnuðinn Neville Brody sem lék sér að því að brjóta upp nánast heilagt staðsetta hönnun módernismans og tók þátt í að færa samtímann í grafískri hönnun, gegnum dyragætt póst-módernismans.

Verk Ámunda sjást víða í umhverfi okkar. Þau eru mörg hver áberandi hvort sem þar er um að ræða bækur sem hann hefur sett upp og hannað eða firmamerki og auglýsingaherferðir stórfyrirtækja. Framlag Ámunda til íslensks sjónmenntaarfs er viðamikið.  Samstarf hans við marga af okkar þekktustu myndlistar- og tónlistarmenn hefur ekki fyrr en nú verið sett fram þannig að við förum að gæta að þeim sköpunarmætti sem grafíski hönnuðurinn býr yfir, því sýningar á grafískum hönnuðum hafa til þessa verið harla fáar. Á sýningunni er aðeins lítið brot af þeim verkefnum sem Ámundi hefur unnið á 30 ára ferli. Sumt náði aldrei hylli viðskiptavinarins, en var valið á sýninguna undir formerkjum þess sköpunarkrafts sem einkennir alla vinnu Ámunda, hina eilífu leit.

 

Harpa Þórsdóttir

 

Ámundi Sigurðsson

 

Fæddist í Reykjavík 5.9. 1959.

 

1980 Lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund.

 

1985 Vann á auglýsingastofunni SM.

 

1986-1990 Vann á nokkrum auglýsingastofum, tók þátt í að stofna auglýsingastofuna Kátu maskínuna 1987.

 

1990 Fékk inngöngu á þriðja ár í Ontario College of Art & Design í Toronto, Kanada.

 

1992 Lauk námi frá OCA&D.

 

1992 Vann á Stöð 2 næsta eina og hálfa árið. Var einnig á Stöð 2 þegar hún var stofnuð (1986).

 

1993 Vann á auglýsingastofunni Góðu fólki.

 

1995 Tók þátt í að stofna auglýsingastofuna Hið opinbera!

 

 2002-2007 Vann hjá Góðu fólki.

 

2007 janúar, fór að vinna sjálfstætt sem grafískur hönnuður.

 

Hefur unnið við stundakennslu í grafískri hönnun í Listaháskóla Íslands.