Leita



Vinsamlega sýnið biðlund

Spegilmyndir Ásgríms Jónssonar

Vefsýning
Sýningaraðili:
Listasafn Íslands

Sýningarstjóri:
Rakel Pétursdóttir

Birt á vef:
4.11.2015

Í safneign Listasafns Íslands er að finna 29 verk eftir Ásgrím Jónsson með heitinu Sjálfsmynd en þá eru ótaldar þær sjálfsmyndir sem er að finna í skissubókum listamannsins. Á vefsýningunni Spegilmyndir Ásgríms Jónssonar eru allar þær 29 myndir sem listamaðurinn málaði af sjálfum sér. Aðalsteinn Ingólfsson hefur sagt að flestar „sjálfsmyndir íslenskra myndlistarmanna, eins og raunar starfsbræðra þeirra í öðrum vestrænum löndum, snúast auðvitað um sjálft andlitið; eru tilraunir til að komast til botns í eigin persónuleika, tilfinningalífi og hæfileikum, skrásetningar á tímanum eins og hann birtist í hverri nýrri hrukku, áleitnar spurningar um takmark og tilgang sjálfsins“ (Íslensk portrett á tuttugustu öld, Hafnarborg, 1996, bls. 47). Og þannig eru sjálfsmyndir Ásgríms vissulega. Rúmlega tvítugur endurskapar Ásgrímur ásjónu sína með olíulitum á striga þar sem hann horfir rannsakandi á sjálfan sig í speglinum og greinir eigin tilfinningar. Það á einnig við um þær óvægnu myndir sem sami maður, þá á áttræðisaldri, dregur upp í einni hendingu með vatnslitum, túsk og blýanti. Hvort sem listamaðurinn nýtir fyrirmyndina til markvissrar sjálfsskoðunar eða í þeim tilgangi að gera djarfar tilraunir á sviði myndlistar eru þægindin augljós, þar sem fyrirmyndin er ávallt til staðar.

/