LeitaVinsamlega sýnið biðlund

Grafíkverk eftir Edvard Munch í Listasafni Íslands

Vefsýning
Sýningaraðili:
Listasafn Íslands

Sýningarstjóri:
Steinar Örn Atlason

Birt á vef:
4.9.2015

Edvard Munch var ekki einungis frábær málari heldur var hann einnig einn fremsti grafíklistamaður allra tíma.

Munch bjó í Berlín þegar hann steig fyrstu spor sín í grafíkinni. Það var töluverður áhugi fyrir grafík meðal myndlistarmanna í Evrópu á þessum tíma og margt bendir til þess að Munch hafi m.a. séð í grafíkinni möguleika á að koma list sinni á framfæri við miklu stærri hóp en þann sem að jafnaði kom á málverkasýningar. Það sem styrkir þessa skoðun er margítrekuð viðleitni Munchs til að lengja opnunartíma sýninga sinna fram á kvöld og um helgar til að vinnandi fólk gæti einnig notið þeirra.

Seint á árinu 1894 skrifaði Munch í bréfi til vinar síns að hann væri byrjaður að fást við grafík. Í fyrstu myndunum var um að ræða endurtekningar á myndefni frá málverkum hans, gerðar með þurrnál. Átta af þessum myndum voru gefnar út árið eftir í sérstakri möppu, eins og þá tíðkaðist. Þennan sama vetur byrjaði Munch einnig að fást við steinprent og þegar fyrstu myndirnar komu fyrir almenningsaugu var þar m.a. að finna eldra myndefni eins og til dæmis Ópið, Madonna og Blóðsugan en málverk með þeim titlum eru meðal frægustu verka Munchs.

Munch flutti til Parísar í febrúar 1896 og sama ár sýndi hann 12 málverk og 40 grafíkmyndir í Salon de l‘Art Nouveau. Þetta var fyrsta stóra sýning hans á grafíkverkum en næstu tuttugu árin var grafíkin mjög veigamikill þáttur í listsköpun hans. Fyrsta grafíksýning Munchs var haldin árið 1900 og urðu þær fjöldamargar eftir það.

Þýski listfræðingurinn Julius Meier-Graefe var vinur og stuðningsmaður Munchs og gaf út fyrstu grafíkmöppu hans. Hann taldi að í svart-hvítum ætingum væri meiri ró og kyrrð en í málverkunum og þar nyti myndefnið sín betur. Þessi skoðun Meier-Graefe kom þó ekki í veg fyrir að Munch reyndi fyrir sér með lit í grafíkinni. Hann handlitaði nokkur verk, gerði tilraunir með mismunandi pappír og mörg verk voru þrykkt á litaðan pappír. Það kom því af sjálfu sér að hann gerði litprentuð verk og þá lá tréristan beinust við. Margir listamenn höfðu notað tréristuna við litprentaða grafík og japanska tréristutæknin var vel þekkt. Til að þrykkja marga liti varð samkvæmt henni að gera eina plötu fyrir hvern lit og þá mátti engu skeika ef liturinn átti ekki að lenda á röngum stað. Það sem einkennir tréristur Munch var að myndirnar lágu alltaf samsíða æðunum í viðnum og hann notaði oftast gegnsæja vatnsliti, sem gáfu myndunum japanskt yfirbragð og undirstrikaði vægi æðanna í viðnum. Það átti ekki vel við skapferli Munchs að gera litprent á hefðbundinn hátt með mörgum plötum. Í stað þess þróaði hann nýja aðferð, sem fólst í því að saga tréplöturnar í marga búta, setja lit á hvern fyrir sig og raða þeim síðan saman eins og pússluspili undir þrykk. Plöturnar voru gjarnan sagaðar eftir útlínum í verkunum og bilin á milli bútanna komu þá fram eins og hvítar línur. Þessa aðferð þróaði Munch á margvíslegan hátt og tókst að skapa ótrúlega fjölbreytni í lit með örfáum prentplötum. Í nokkrum myndum sínum notaði hann bæði tréristur og steinprent og nýtti sér möguleika grafíktækninnar til hins ítrasta.

Munch vann koparstungur fram til ársins 1915 og svo virðist sem hann hafi á tímabili notað koparplöturnar eins og skissublokk. Teikningin er frískleg og allt að því tilviljunarkennd stundum og margar skemmtilegustu andlitsmyndirnar eru þannig gerðar. Síðar á ævinni hætti Munch að vinna beint á stein eða koparplötur og lét gera steinprent eftir teikningunum. Á öðrum og þriðja áratugnum gerir Munch einkum tréristur og hefur þær til mótvægis við málverkin.

Á löngum ferli sínum gerði Edvard Munch um það bil 800 grafíkverk. Mörg þessara verka voru þrykkt í aðeins örfáum eintökum meðan önnur eru til í hundruðum eða jafnvel þúsundum eintaka. Munch setti engin númer á blöðin og þrykkti hverja mynd eins oft og hann taldi sig þurfa. Stundum gerði hann breytingar á plötunum fyrir seinni þrykk og í öðrum tilvikum bjó hann til nýjar þrykkplötur með eldra myndefni og þá óhjákvæmilega með einhverjum breytingum.

Grafíkmyndir Munchs eru víða til og í mörgum eintökum og það má því með sanni segja að honum hafi orðið að þeirri ósk sinni að verk hans kæmust fyrir augu sem flestra.

- Textinn er fenginn úr sýningarskránni: Edvard Munch. Grafíksýning í Listasafni Íslands 8. febrúar – 8. mars 1992.

/