Leita



Vinsamlega sýnið biðlund

Gott hús er gestum heill

Vefsýning
Sýningaraðili:
Þjóðminjasafn Íslands

Sýningarstjóri:
Sigurlaug Jóna Hannesdóttir

Birt á vef:
13.4.2015

Þegar sperrur hafa verið reistar er algengur siður að haldið sé svokallað reisugildi. Ekki er ólíklegt að siðurinn hafi borist hingað til lands frá Norðurlöndunum þar sem sterk hefð er fyrir slíkum hátíðahöldum. Í Danmörku má til að mynda finna heimildir um reisugildi í tengslum við nýbyggingu við Kaupmannahafnarháskóla frá árinu 1543. Samkvæmt orðabók Háskóla Íslands er elsta ritaða heimild um reisugildi á Íslandi frá síðari hluta 19. aldar og er hana að finna í Dægradvöl Benedikts Gröndals. Þar segir hann frá að reisugildi hafi verið haldið þann 16. júlí 1881 til að fagna byggingu íbúðarhúss hans sjálfs og konu hans. Ekki eru frekari lýsingar á því hvernig reisugildið hafi farið fram og út frá því mætti draga þá ályktun að siðurinn hafi verið all þekktur á þessum tíma. Upphaflega var reisugildi haldið til að fæla frá slæma anda og um leið tryggja að gæfa myndi fylgja byggingunni, en í seinni tíð hefur það einkum verið til að fagna og þakka þeim sem að verkinu hafa komið.

 

Í safneign Ljósmyndasafns Íslands má finna myndir sem sýna reisugildi hér á landi og er hluti þeirra birtur hér. Elsta myndin er trúlega mynd Sigfúsar Eymundssonar sem sýnir reisugildi Landsbankahússins að Austurstræti 11, en það var reist á árunum 1898-1899. Á flestum myndanna eru einhverskonar hátíðartákn. Á þremur myndanna, sem jafnframt eru með þeim elstu, sjást kransar eða skrautlengjur, ásamt fánum. Á yngri myndunum er enga kransa að sjá og ætla má að notkun þeirra hafi lagst af hér á landi fljótlega upp úr aldamótum og látið nægja að skjóta upp fánum. Myndirnar eru einkum teknar á höfuðborgarsvæðinu og sýna reisugildi ýmissa bygginga, allt frá íbúarhúsnæði til stórra bygginga. En á sýningunni er einnig að finna myndir teknar í Laxárdal, þar sem verið er að reisa íbúðarhús, á Siglufirði þar sem Hótel Hvanneyri er í byggingu og frá Álftárabkka á Mýrum en þar er hlaða að rísa.