Leita



Vinsamlega sýnið biðlund

Stofngjöf Listasafns Íslands

Vefsýning
Sýningaraðili:
Listasafn Íslands

Sýningarstjórar:
Steinar Örn Atlason
Dagný Heiðdal

Birt á vef:
23.2.2015

Stofngjöfin spannar langt tímabil og eru elstu verkin frá fjórða áratug 19. aldarinnar en þau yngstu frá um 1890. Flest verkin eru dönsk að uppruna og gefa þau breiða en nokkuð hefðbundna mynd af danskri myndlist frá þessum tíma. Eftir mikinn uppgang danskrar myndlistar fram undir miðja öldina, tók við einangrun og stöðnun í dönsku menningarlífi. Nokkrir listamannanna hafa verið valdir vegna tengsla þeirra við Ísland. Listamenn eins og Christian Blache, F. Th. Kloss, Emanuel Larsen og August Schiøtt máluðu íslenskt landslag. En einnig eru í stofngjöfinni verk eftir listamenn sem eru þekktir í danskri listasögu eins og P.S. Krøyer, Önnu og Michael Ancher og bræðurna Joakim og Niels Skovgaard. En einnig er eftirtektarvert hverja vantar, t.d. er ekkert verk eftir Vilhelm Hammershøi. Stíllinn er hefðbundinn enda teljast flestir listamannanna til hinnar akademísku hefðar, nokkrir eru beint afsprengi gullaldar danskrar myndlistar um miðja öldina, eins og Balsgaard og Julius Exner, á meðan aðrir sýna áhrif franskrar raunsæisstefnu níunda áratugarins, eins og P.S. Krøyer. Í stofngjöfinni eru aftur á móti engin verk sem vísa fram á veginn til næstu aldar með verkum í stíl sálfræðilegrar raunsæisstefnu eða impressjónisma. Algengasta myndefnið er danskt landslag; skógar þess og sléttur. Þá eru verk sem sýna nánasta umhverfi listamannsins, rómantískar raunsæismyndir frá fjarlægum slóðum og mannamyndir.

- Textinn er fenginn úr: Bera Nordal, Stofngjöf Listasafns Íslands, Reykjavík 1994, bls. 16-17.

/