LeitaVinsamlega sýnið biðlund

GILDI: 40 ár frá stofnun Hafnarborgar

Sýningaraðilar:
Hafnarborg

Sýningarstjóri:
Hólmar Hólm Guðjónsson

Sýningartími:
19.10.2023 - 30.12.2023

Hvert safn endurspeglar gildi þess sem safnar. Á þetta jafnt við um einkasafn eða opinbera stofnun með langa sögu. Safnið endurspeglar það sem skiptir hvern þann máli sem lagði grunn að því – af eigin áhuga og áræðni, af innri þörf eða tilviljun.

Þegar safn kemur í hlut samfélagsins má svo segja að það eignist eigið líf en það segir að sama skapi fjöldamargt um það samfélag sem það tilheyrir og vex í takt við. Um tíðaranda og breytilegan smekk fólks, um efnisnotkun og áherslur, um hugmyndir og hugsjónir.

Þá býður sýningin gestum að hugleiða þróun safnsins og safnkostsins í menningarumhverfi áranna eftir efnahagshrunið 2008 og fram til dagsins í dag, þegar við sjáum ýmis svipuð teikn á lofti og greina mátti þá – tákn um þenslu og þrengingar – sem kunna aftur að vekja upp spurningar um gildi lista og menningar fyrir samfélagið í heild, ekki síður en komandi kynslóðir.