Þjóðháttadeild Þjóðminjasafns Íslands
56. Spurningaskrá
Reykjavík , júní 1983
LIFNAÐARHÆTTIR Í ÞÉTTBÝLI
V. Dagamunur og félagslíf
Nokkrar ábendingar til heimildarmanna
Með þessari spurningaskrá er ætlunin að afla upplýsinga um félagslíf í víðri merkingu svo sem merkisdaga, árstíðabundnar hátíðir, skemmtanir, áhugamannafélög og trúarlíf. Einkum er miðað við tímabilið fyrir seinna stríð, en ekkert mælir á móti því að geta um yngri fyrirbæri, ekki síst þau sem verið hafa skamma hríð í tísku.
Ganga má út frá því sem vísu að heimildarmenn þekki best það sem varðar þá sjálfa og þeirra nánustu í þessum efnum. Þannig má t.d. gera ráð fyrir að heimildarmenn kunni best að segja frá merkisdögum á sinni eigin ævi, barna sinna og foreldra og er því eðlilegast að miða svörin við það. Sömuleiðis er sjálfsagt fyrir heimildarmenn að miða frásögn sína af hinum ýmsu árstíðabundnu siðum að jafnaði við uppvaxtar- og fullorðinsheimili þeirra sjálfra. Í þessu sambandi er mikilvægt að fá fram samanburð á báðum þessum heimilum vegna þeirra miklu breytinga, sem víðast hvar hafa orðið á fyrri hluta þessarar aldrar.
Þegar heimildarmaður svarar skránni, er ástæðulaust fyrir hann að fylgja nákvæmlega þeirri númeraröð og spurningum sem þar koma fram, ef honum finnst það vera til óþæginda. Hins vegar æskjum við þess að hann svari efnislega sem flestum spurninganna. Ef heimildarmaður kann að segja frá einhverju sem við höfum gleymt að spyrja um (sem vafalaust er ýmislegt) er hann vitaskuld beðinn að segja frá öllu slíku.
Ef heimildarmaður leitar upplýsinga hjá öðrum um einhver atriði, er mikilvægt að þess sé séstaklega getið og þá hver átti í hlut.
Gert er ráð fyrir, að heimildarmenn svari á meðfylgjandi pappír. Ef hann skyldi ekki nægja, má heimildarmaður hafa samband við þjóðháttadeild og við munum senda meiri pappír um hæl. En auðvitað má hann skrifa á eiginn pappír ef hann vill það heldur. Heimildarmanni er í sjálfsvald sett hvort hann handskrifar eða vélritar svör sín. Hvort skriftin er “rétt” eða “röng”, “falleg” eða “ljót” skiptir okkur engu máli. Efnið er aðalatriðið.
Ef heimildarmaður treystir sér ekki til að skrifa svörin sjálfur, þætti okkur vænt um, ef hann gæti fengið einhvern sér til aðstoðar. Þá er æskilegt að fram komi hver skráði frásögnina.
Ef heimildarmaður hefur aðgang að upptökutæki og vill fremur tala svör sín inn á það, höfum við síður en svo á móti því og sendum með ánægju spólur, ef þess er óskað.
Ef heimildarmaður óskar þess, að nafns hans verði ekki getið, ef til greina kæmi, að frásögn hans yrði notuð opinberlega, t.d. í prentuðu máli, er ekki annað en að taka það fram, og við munum að sjálfsögðu fara eftir því.
Ef heimildarmaður á teikningar og myndir sem varða það efni, sem spurt er um í þessari skrá, væri vel þegið að fá þær lánaðar til eftirtöku. Einnig væri gott að fá vitneskju um hvar ýmsir munir, sem kunna að eiga heima á safni, eru niður komnir.
Sé það eitthvað, sem heimildarmaður er í vafa um, er honum velkomið að hafa samaband við Þjóðháttadeild.
Heimilisfang og símanúmer er:
Þjóðminjasafn Íslands, við Suðurgötu,
Reykjavík.
Sími 5518050.
Með bestu kveðju,
Frosti Jóhannsson
Árni Björnsson
.
V. Dagamunur og félagslíf
A. Merkisdagar
- Skírn
1.1 Segðu frá því hvernig skírn fór yfirleitt fram í þínu minni. Voru börn t.d. skírð í kirkju eða heimahúsi? Voru börn skírð í sérstökum skírnarfötum (kjól, húfu t.d.)? Hvenær fara þessir hlutir að tíðkast? Hver var oftast guðfaðir og guðmóðir barnanna? Töldu þau sig hafa einhverjar skyldur gagnvart þeim? Var haldin skírnarveisla? Hvar? Hverjum var einkum boðið til hennar? Hvað var veitt í mat og drykk? Hvers konar gjafir voru gefnar?
1.2 Ef fólk lét ekki skíra börn sín, hver skyldi hafa verið helsta ástæða þess? Hvernig var slíkt litið af presti, ættmennum og öðrum?
2. Afmælisdagar
2.1 Var að jafnaði haldið upp á afmæli barna og unglinga? Var því hætt við vissan aldur? Hvers vegna var því þá hætt? Hverjum var einkum boðið til slíkra afmæla? Hvað var veitt í mat og drykk? Hvað var helst til skemmtunar? Hvers konar gjafir voru einkum gefnar?
2.2 Hvaða afmæli fullorðinna var einkum haldið upp á? Hverjum var til þeirra boðið? Hvað var veitt í mat og drykk? Hvað var til skemmtunar? Hvers konar gjafir voru einkum gefnar?
- Ferming
3.1. Segðu frá því hvernig ferming fór fram. Hvernig var fermingarundirbúningi háttað? Hvers konar fötum voru börn fermd í? Hvenær fara fermingarkyrtlar að tíðkast? Voru haldnar fermingarveislur? Hvar? Herjum var einkum boðið til þeirra? Hvað var veitt í mat og drykk? Hvers konar gjafir voru einkum gefnar? Hvenær fara fermingarskeyti að tíðkast? Kom fyrir að ekki væri haldin fermingarveisla, þó að barnið væri fermt? Í hvaða tilvikum helst?
3.2. Var um einhvern mun að ræða á þinni eigin fermingu og fermingu barna þinna? Segðu frá því í hverju munurinn var helst fólginn?
3.3. Ef fólk lét ekki ferma börn sín, hver skyldi hafa verið helsta ástæða þess? Hvernig var slíkt litið af presti, ættmennum og öðrum?
3.4. Hvaða breytingar áttu sér einkum stað í lífi unglinga samfara fermingunni? Var t.d. fermdum unglingum fremur treyst fyrir vissum störfum, en öðrum? Hvaða störfum einkum? Voru gerðar meiri kröfur til þerra? Hækkaði kaup þeirra við fermingu? Varð einhver breyting á klæðaburði þeirra?
- Próf
4.1 Minnist heimildarmaður, að hann eða börn hans hafi haldið sérstaklega upp á skólaslit eða próf sem lokið var? Segðu frá því hvernig haldið var upp á slíkt. Hvað var boðið í mat og drykk? Voru gefnar gjafir? Hvers konar?
- Trúlofun
5.1 Segðu frá því hvernig ungmenni yfirleitt opinberuðu trúlofun sína á því tímabili sem þú miðar frásögn þína við. Voru trúlofunarhringar sjálfsagðir? Hvernig voru þeir útvegaðir og hvaðan? Voru þeir alltaf úr gulli? Var leitast við að setja þá upp við sérstök tækifæri? Var haldið sérstakt samkvæmi af því tilefni? Hverjum var boðið í það?
5.2 Ef um einhvern mun var að ræða á þinni eigin trúlofun og barna þinna, segðu þá frá því eftir því sem unnt er.
5.3 Var aðdragandi trúlofunar lengri fyrrum en síðar varð? Kynntist fólk t.d. betur áður en það setti upp hringana en nú gerist?
5.4 Hvað var talinn hæfilegur tími frá trúlofun til giftingar? Hversu mikil frávik gátu orðið? Kom fyrir, að trúlofun væri látin nægja alla ævi?
5.5 Tíðkaðist í þínu minni, að lýst væri með hjónaefnum? Hvers konar fyrirkomulag var á því?
- Gifting
6.1 Segðu frá því hvernig hjónavígsla fór fram. Var t.d. gift í kirkju, heimahúsi, hjá sýslumanni eða bæjarfógeta? Voru borgaralegar giftingar algengar (án prests)? Hvernig var sætaskipan háttað í kirkjunni, ef gifting fór þar fram? Hvernig voru brúðhjónin klædd?
6.2 Var haldin veisla að giftingu lokinni? Hvar? Hver hélt hana? Hverjum var einkum boðið til hennar? Hvað var veitt í mat og drykk? Var eitthvað sérstakt til skemmtunar? Hvers konar gjafir voru gefnar? Hvenær fara heillaóskaskeyti að tíðkast? Hvaða vikudaga fóru giftingar einkum fram? Var gifting látin tengjast öðrum merkisdögum?
6.3 Ef um einhvern mun var að ræða á þinni eigin giftingu og barna þinna, segðu þá frá því eftir því sem unnt er.
6.4 Ef fólk gifti sig ekki, hver skyldi hafa verið helsta ástæða þess? Hvernig var slíkt litið af presti, ættmennum og öðrum?
6.5 Hélt fólk upp á silfur- og gullbrúðkaup o.s.frv.? Hvenær manstu fyrst eftir slíku?
- Andlát og útför
7.1 Ef fólk dó í heimahúsum, hvernig var frá líkinu gengið og hvar var það lagt? Hvað stóð líkið yfirleitt lengi uppi, áður en jarðsett var? Tíðkaðist að vakað væri yfir hinum látna? Segðu frá öllu sem þú manst um það og frá þeim siðum og trú er því tengjast.
7.2 Lýstu því hvernig kistulagning fór fram. Hver smíðaði kistuna? Hvernig leit hún út? Hvernig var hún t.d. á litinn? Hvenær manstu fyrst eftir blómum og krönsum á líkkistum?
7.3 Tíðkuðust húskveðjur? Hjá hverjum einkum? Hvernig fóru þær fram? Hefur dregið úr þeim? Hvers vegna? Hvernig var líkið flutt frá heimili/sjúkrahúsi til kirkju?
7.4 Voru yfirleitt haldnar ræður yfir þeim sem jarðsungnir voru? Manstu eftir jarðarför án líkræðu? Kom fyrir að líkræðan væri haldin við gröfina eða eftir jarðsetningu?
7.5 Hvernig voru kirkjugestir klæddir við útförina? Var það t.d. almenn regla að fólk klæddist dökkleitum fötum? Voru yfirleitt aðrir en kunningjar og vandamenn við jarðarfarir?
7.6 Voru yfirleitt haldnar erfisdrykkjur að jarðaför lokinni? Hvernig og hvar fóru slíkar veislur fram? Voru þá haldnar ræður eða sungið? Hvað var veitt í mat og drykk?
7.7 Í hvaða tilfellum tíðkaðist ekki erfisdrykkja? T.d. þegar börn og ungt fólk dó?
7.8 Þóttu legsteinar sjálfsagðir? Hver var algengasta gerð þeirra? Þekktust grafhýsi og hjá hverjum?
7.9 Hvenær fer það að tíðkast að grafskraut sé lagt á leiði? Um hvers konar skraut var einkum að ræða? Hvenær koma t.d. blóm og kransar? Hvenær er byrjað að setja kerti og rafljós á grafir? Hverjir byrjuðu á þessum sið? Hvaða daga ársins var leiðið einkum skreytt? Hvers vegna einmitt þá?
B. Árstíðabundnar hátíðir
- Hvenær og hvar manstu fyrst eftir þorrablóti? Hvernig fór það fram? Hvað var til matar og drykkjar og annarrar skemmtunar?
- Kannast heimildarmaður við þá venju að fagna endurkomu sólarinnar með tilhaldi svo sem kaffi og pönnukökum? Hvenær manstu fyrst eftir því? Tók fólk sig stundum saman um þetta í þorpinu eða bænum sem heimildarmaður miðar frásögn sína við?
- Segðu frá því hvernig haldið var upp á bolludag, sprengidag og öskudag á þínu uppvaxtar- og fullorðinsheimili. Var flengt með vendi? Hvernig var hann útbúinn? Hverjir flengdu hvern? Var farið með eitthvað um leið? Hvað? Voru bakaðar bollur eða þær keyptar? Hvernig bollur? Hvað var borðað á sprengidag?
Voru öskupokar hengdir á fólk? Hverja einkum? Hvernig brást fólk við því? Hvernig litu pokarnir út?
- Manstu eftir göngum, grímubúningum, sníkjuferðum, kattarslag eða öðru tilstandi barna á einhverjum þessara daga? Hvenær fyrst? Hvenær varð öskudagur frídagur í skólum?
- Minnist heimildarmaður þess að menn væru látnir hlaupa 1. apríl? Hvernig voru menn oftast gabbaðir? Nefndu dæmi.
- Segðu frá því hvernig haldið var upp á páskana á uppvaxtar- og fullorðinsheimili þínu (skírdag, föstudaginn langa og páskadagana). Var almennt frí frá vinnu þessa daga? Hvað gerðu menn sér til dægrarstyttingar? Hvað var til matar og drykkjar um þessa hátíðisdaga hvern um sig?
- Hvenær fara páskaegg að tíðkast á þeim stað, sem þú miðar frásögn þína við? Hver innleiddi þau og hvernig voru þau? Kannastu við nokkrar venjur varðandi hænuegg eða önnur fuglaegg um páskana, t.d. skreytt hænuegg?
- Segðu frá því hvernig haldið var upp á sumardaginn fyrsta. Var yfirleitt frí frá vinnu og úr skólum þennan dag? Hvað gerði fólk sér einkum til skemmtunar? Hvað var haft í mat og drykk? Voru gefnar sumargjafir? Hvers konar? Hver gaf hverjum? Manstu eftir útihátíðum og barnaskemmtunum á þessum degi og hvenær fyrst? Hefur átt sér stað einhver breyting í þessum efnum gegnum tíðina? Hvað helst?
- Hvernig hélt fólk upp á 1. maí, ef um það var að ræða? Var yfirleitt frí frá vinnu þennan dag? Hvernig varði fólk þá þessum degi? Hvers konar fundarhöld áttu sér t.d. stað í þínu þorpi eða bæ? Hver stóð fyrir þeim? Voru nokkur skemmtiatriði? Hvers konar? Hvenær fara kröfugöngur verkafólks að tíðkast á þessum stað? Hvernig voru þær litnar af þeim, er ekki tóku þátt í þeim? Segðu frá þeim breytingum, sem átt hafa sér stað á því tímabili, sem þú miðar frásögn þína við.
- Segðu frá því hvernig haldið var upp á lokadaginn ef um það var að ræða. Var yfirleitt frí frá vinnu meðal sjómanna þennan dag? Hvað gerði fólk sér til gamans? Hvers konar hátíðahöld áttu sér stað í þínu þorpi eða bæ? Hver stóð fyrir þeim? Var eitthvað sérstakt í mat og drykk? Hefur orðið breyting á eðli lokadagsins? Hafa t.d. sjómenn nokkurs staðar hætt að halda hann hátíðlegan?
- Var haldið upp á uppstigningardag? Hefur einhver breyting átt sér stað í helgihaldi dagsins á því tímabili, sem þú miðar frásögn þína við?
- Hvernig var haldið upp á hvítasunnuna á uppvaxtar- og fullorðinsheimili þínu Hvernig eyddu menn einkum þessum frídögum? Hvað var til matar og drykkjar? Átti sér stað einhver breyting í þessum efnum á því tímabili sem þú miðar frásögn þína við? Voru einhverjar útihátíðir um hvítasunnuna? Hverjar og hvar?
- Hvenær var byrjað að halda sjómannadaginn hátíðlegan í þínu þorpi eða bæ? Hvernig fóru þau hátíðahöld fram?
- Var haldið upp á 17. júní fyrir 1944? Var gefið frí frá vinnu þannan dag? Hvers konar hátíðahöld áttu sér þá stað í þínu þorpi eða bæ? T.d. íþróttamót? Hver stóð fyrir þeim? Hvernig hefur verið haldið upp á 17. Júní, eftir að hann var lýðveldishátíð?
- Var haldið upp á Jónsmessuna? Var t.d. eitthvað um útilegu- og útihátíðir á vegum æskulýðsfélaga? Hvaða hugmyndir eða trú tengdust Jónsmessunóttinni? T.d. varðandi steina, grös, dögg o.fl.?
- Hvernig var haldið upp á frídag verslunarmanna, ef um það var að ræða? Var verslunarfólk yfirleitt í fríi þennan dag? Hvað gerði það sér til dægrastyttingar? Áttu einhver hátíðahöld sér t.d. stað þínu þorpi eða bæ? Var nokkuð sértakt í mat og drykk á heimilinu þennan dag? Segðu frá þeim breytingum sem átt hafa sér stað í tilhaldi þennan dag á því tímabili sem þú miðar frásögn þína við.
- Var nokkurn tímann haldið upp á fyrsta vetrardag og þá hvernig?
- Hvernig var haldið upp á 1. desember (fullveldisdaginn)? Var frí frá vinnu og skóla þennan dag? Áttu hátíðahöldin sér stað í þínu þorpi eða bæ? Hver stóð fyrir þeim? Var nokkuð sértakt í mat og drykk á heimilinu þennan dag?
- Segðu frá þeim siðum, sem tengdust aðventunni (jólaföstunni) á uppvaxtar- og fullorðinsheimili þínu. Hvenær fara t.d. aðventukransar, -stjörnur, -stjakar og almanök (með jólamyndum og sælgæti) o.fl. að tíðkast?
- Segðu frá því hvernig jólaundirbúningnum var háttað á uppvaxtar- og fullorðinsheimili þínu? T.d. hreingerningum, bakstri, matargerð o.fl.
- Vissirðu til, að börn settu skóinn sinn út í glugga fyrir jólin? Hvenær, hversu oft? Hvað kom í skóinn?
- Hvers konar jólagjafir voru gefnar á uppvaxtar- og fullorðinsheimili þínu? Hvernig og hvenær voru þær afhentar? Fékk hver og einn marga jólapakka? Trúði því nokkur, að jólasveinn kæmi með gjafir?
- Sendi fólk jólakort? Til hverra einkum? En jólakveðju í útvarpi?
- Um hvers konar jólaskraut var að ræða? Hvenær fara t.d. jólatré að tíðkast á þínu heimili? Hvernig leit það út og hvernig var það skreytt? Hvenær manstu fyrst eftir grentré? Hversu lengi var jólaskrautið haft uppi? Hver á heimilinu setti skrautið upp og tók það niður?
- Hvað var venjulega borðað á Þorláksmessu, aðfangadagskvöld, jóladag og annan í jólum? Hvaða kökur og tertur voru oftast bakaðar? Hvað var drukkið með mat og kökum? Hvaða breytingar hafa orðið á tilhaldi í mat og drykk um jólin í þínu minni?
- Hvað höfðu börn og unglingar sér til dægrarstyttingar á jólum? Voru vissir leikir bannaðir vegna jólanna og þá hvaða daga? Hittust börn til leikja fremur á jólum en ella? Hvenær fara sérstakar jólaskemmtanir fyrir börn og unglinga að tíðkast? Hvað voru þær kallaðar? Hver stóð fyrir þeim? Segðu frá því hvernig þær fóru fram? Var þar jólatré? Hvernig? Kom jólasveinn? Hvernig leit hann út? Hvað hét hann? Var hann í nútíma mynd eða þekktist að jólasveinar kæmu í eldra gerfi? Hvað gaf jólasveinninn börnunum? Hvað var veitt í mat og drykk? Hvaða vísur voru sungnar við jólatréð? Var farið með einhverjar þeirra öðru vísi en nú tíðkast?
- Hvað gerði fullorðið fólk sér einkum til gamans á jólum? Voru fjölskylduboð almenn? Var ákveðin röð á þeim? Hvenær fara oðinberar skemmtanir og dansleikir að tíðkast um jóladagana? Hver stóð fyrir þeim? Hvar voru þeir haldnir? Hvaða dag eða daga? Hvaða veitingar voru á þessum skemmtunum?
- Segðu frá því hvernig haldið var upp á áramót á uppvaxtar- og fullorðinsárum þínum? Tíðkuðust t.d. árvissar áramótabrennur í því þorpi eða þeim bæ, sem þú miðar frásögn þína við? Hverjir stóðu yfirleitt fyrir þeim? Hvenær mun sá siður hafa byrjað? Klukkan hvað var kveikt í brennunni? Var dansað í kringum hana og sungið? Klæddu sumir sig í grímubúninga? Hvernig voru þeir helst? Voru áramótadansleikir á nýjársnótt? Hvenær manstu fyrst eftir þeim? Hverjir héldu þá? Segðu frá öðrum siðum sem tengdust áramótum, t.d. blysförum og ýmsum þjóðtrúarvenjum.
- Segðu frá því hvernig haldið var upp á þrettándann á þínu uppvaxtar- og fullorðinsheimili? Hvað gerði fólk sér einkum til skemmtunar á þrettándakvöld? Hvað var veitt í mat og drykk? Voru brennur stundum á þrettánda fremur en gamlárskvöld? Heyrðirðu þrettándann nokkurn tíma kallaðan öðru nafni?
- Skemmtanir
- Var sérstakt samkomuhús á staðnum? Lýstu því að utan og innan? Hvenær var það tekið í notkun og hver átti það?
- Segðu sem nákvæmast frá þeim skemmtunum sem haldnar voru í samkomuhúsinu eða annars staðar, t.d. leiksýningum, kvikmyndasýningum, söngskemmtunum, spilakvöldum, happadrætti, tombólum, bögglauppboðum, bingó, dansleikjum o.fl. Minnistu hvenær þessar skemmtanir byrjuðu fyrst og hverjir stóðu fyrir þeim? Lýstu eftir því sem kostur er hvernig þessar samkomur gengu fyrir sig.
- Hvernig voru skemmtanir auglýstar? Fór fólk langar leiðir til að sækja þær? Eru til nokkrar svaðilfarasögur úr þeim ferðum?
- Lýstu sem nákvæmast hvernig dansleikir fóru fram. Hvers konar skemmtiatriði var um að ræða? Hvaða dansar voru vinsælastir? Manstu eftir einhverjum sem kenndu öðrum að dansa? Hvernig var boðið upp? Segðu frá samskiptum kynjanna á dansleikjum og öðrum skemmtunum, vinarhótum eða handalögmálum og öðru, sem þú manst eftir frá þessum samkomum. Hvenær fór fólk að leyfa sér að dansa vangadans? Segðu einnig frá klæðnaði fólks, fótabúnaði og hárgreiðslu.
- Voru dansleikir algengir? Hversu oft í mánuði eða á ári voru þeir að jafnaði? En aðrar skemmtanir?
- Var áfengi leyft á dansleikjum? En öðrum skemmtunum? Hvaðan var það fengið? Hvernig komu menn því inn í húsið þótt bannað væri? Hvar var það annars geymt, meðan á skemmtun stóð? Skýrið ennfremur frá ýmsum venjum í sambandi við neyslu áfengis.
- Vara sjaldgæft að sjá áfengi á konum á samkomum? Hverjar riðu þar á vaðið? Hvernig var það litið af karlmönnum og öðrum konum? Geturðu nefnt dæmi?
- Hver spilaði undir á dansleikjum og á hvaða hljóðfæri? Var jafnvel dansað án hljóðfæra? Hvenær fara heilar hljómsveitir að spila fyrir dansi?
- Hvar voru skemmtanir haldnar áður en samkomuhúsið var byggt, ef heimildarmaður minnist þess? Hvar var t.d. dansað? Af hvaða tilefni fóru dansleikir fram utanúss? T.d. síldarböll. Lýstu slíku skemmtanahaldi eftir föngum.
D. Áhugamannafélög
- Skýrðu frá helstu félögum sem störfuðu í þorpinu eða kaupstaðnum sem þú miðar svar þitt við. T.d. stéttarfélögum, flokksfélögum, leikfélögum, ungmennafélögum, íþróttafélögum, bindindisfélögum, taflfélögum, kvenfélögum, lestrarfélögum, málfundafélögum, saumaklúbbum o.fl. Hvenær koma alþjóðafélög til sögunnar, t.d. frímúrarar, Oddfellow, Rotary, Lions, Kiwanis o.s.frv. Hverjir voru frumkvöðlar að stofnun þessara félaga?
- Skýrðu frá starfsemi þessara félaga og þá einkum því eða þeim, sem þú þekkir sérstaklega til. Hvenær voru þau virkust? Hverjir voru þá í forystu? Hvað tóku þau sér einkum fyrir hendur?
- Voru til handskrifuð blöð í þorpinu eða kaupstaðnum? Eru nokkur varðveitt eintök til af þeim?
E. Trúarlíf
- Hvar var messað, ef ekki var kirkja á staðnum? Hversu oft var messað Varð einhver breyting á messuhaldi með tilkomu útvarpsmessu? Hver helst?
- Fór fólk almennt til kirkju? Hversu oft á ári u.þ.b. og hvenær helst? Hvernig var það litið ef fólk kom ekki til kirkju?
- Tíðkaðist að konur sætu öðru megin og karlar hinu megin í kirkjunni? Hvoru megin sátu þá karlar og hvoru megin konur?
- Áttu vissar fjölskyldur forgang að ákveðnum bekkjum? Hvaða bekkjum helst?
- Var einhver virðingarmunur á því að sitja innst (næst kór) eða fremst (næst dyrum) í kirkjunni?
- Segðu frá starfsemi þeirra trúfélaga sem stóðu utan þjóðkirkjunnar, ef um það var að ræða á staðnum (t.d. hvítasunnuhreyfingu, aðventistum, hjálpræðishernum o.fl.) Hvernig fóru vakningarsamkomur fram, utan- og innanhúss? Hvernig voru slíkar hreyfingar litnar af þeim sem fyrir utan þær stóðu?
- Segið frá starfsemi farandprédikara, ef þeir þekktust, hvar þeir prédikuðu og samskiptum þeirra við fólk.
- Segið frá hvers konar áhrifum sem trúarlífið hafði (t.d. á samskipti pilta og stúlkna, afstöðu til skemmtana, áfengis, tóbaks o.fl.).
- Spariföt
- Segðu sem ítarlegast frá þeim klæðnaði sem fólk bjó sig í á hinum ýmsu hátíðum og skemmtunum sem hér að framan greinir og muninum á honum og hversdagsklæðnaði. Segðu jafnframt frá fót- og höfuðbúnaði.
E.t.v. er einfaldast fyrir heimildarmann að ganga út frá eigin fjölskyldu í þessum efnum.