Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
Lýsingu vantar

Fjallagrös

ÞMS
Spurningaskrá 1972-1
Hlaða öllum svörum niður í PDF

Þjóðháttaskráning Þjóðminjasafnsins.
25. Spurningaskrá. Fjallagrös.
Maí 1972.

Inngangur.

Í spurningaskrá þeirri, sem hér fer á eftir, er spurt um öflun fjallagrasa eða heiðagrasa (cetraria Islandica) og nytjar af þeim. Skammt er til þess að rekja, er þau voru þýðingarmikill þáttur í mataröflun margra íslenskra heimila, og enn í dag er notkun þeirra ekki með öllu niður fallin.

   Margvíslegir siðir hafa verið tengdir grasatekju, og skortir mikið á, að öllum fróðleik um þá hafi enn verið safnað í einn stað. Spurningaskrá um þetta efni er því tímabær, þótt heimildarmenn muni hafa þar misjafnlega mikið til mála að leggja, því notkun fjallagrasa hefur engan veginn verið hin sama í öllum landshlutum.

Tegundir fjallagrasa.
Var heitið fjallagrös notað í heild um mismunandi tegundir þeirra. Var annað nafn notað (heiðagrös t.d.)? Segið frá einstökum tegundum fjallagrasa, nöfnum þeirra, vaxtarstöðum og útbreiðslu. Var vel gætt að því að velja úr ákveðnar tegundir við grasatínslu, ef þess var völ? Var mismunandi tegundum ekki blandað saman við tínslu? Hvaða tegund fjallagrasa var í mestum metum?

Grasaland.
Hvað nefndist land eða staður til fjalls eða heiða, þar sem fjallagrös uxu? Eru örnefni leidd af fjallagrösum eða fjallagrasatekju? Hve langur tími var talinn að liði frá grasatínslu á ákveðnu svæði og þar til að hægt var að nýju að tína þar fullvaxin fjallagrös?

Grasatekja.
Hvað nefndust þau hlunnindi jarðar, að fjallagrös uxu í landi hennar (grasatekja eða annað)? Var fjallagrasatekja með einhverjum hætti metin jörð til hlunninda, t.d. í sambandi við kaup, sölu eða ábúð? Voru fjallagrös sótt til afrétta og var þá hverjum bónda, sem þar átti upprekstur, heimilt að tína þau að vild? Var mönnum veitt leyfi til grasatekju gegn gjaldi eða greiða í einhverri mynd?

Notagildi.
Var rætt um ákveðin notagildi fjallagrasa til matar og þá t.d. miðað við annan mat (kornmat t.d.)? Var eftir því farið, ef fjallagrös voru notuð í viðskiptum manna á milli? Var um nokkurt fast verðlag að ræða, miðað t.d. við landaura og varðlagskrár? Eftir hverju var farið með mál eða magn (grasatunna, grasakapall o.s.frv.)? Voru fjallagrös notuð til gjafa?

Grasafjall, að fara til grasa.
Hvað nefndist heimanför til grasatínslu (að fara til grasa, fara á grasafjall o.s.frv.)? Var þá á nokkurn hátt miðað við það í orðum, hvort farið var í nokkurra daga útilegu eða aðeins eins dags ferð? Var orðið grasaveður til í mæltu máli (gott, slæmt grasaveður)?

Fararbúnaður.
Lýsið fararbúnaði, er farið var til grasa, viðleguútbúnaði, tjaldi og nesti og öðru, er efnið varðar. Lýsið sérstaklega tínupokum, er hafðir voru til að tína grös í, og grasapokum, sem grös voru flutt í heim eða geymd í heima. Segið frá efni þeirra, stærð og annarri gerð.

Grasaferð.
Hvenær var að jafnaði farið til grasa (fyrir slátt, eftir slátt t.d.)? Lýsið á hvern hátt grasaferð var tengd öðrum heimilisönnum. Hve mergir af heimili fóru í grasaferð? Var það á einhvern hátt tengt aldri heimilismanna eða öðrum störfum á heimilinu? Nefndist fólk, sem að þessu starfaði, einhverju samheiti (grasafólk t.d.)? Fór fólk af mörgum bæjum saman í grasaferð? Var miðað við það að safna ákveðnu magni fjallagrasa? Hve miklum ársforða? Lýsið á hvern hátt förin var tengd veðri (dögg, vætu t.d.)? Hve marga daga var að jafnaði verið í grasaferð, ef farið var í útilegu? Var á einhvern hátt gerður dagamunur í mat er grasafólk kom heim?
   Lýsið grasaferðum, þar sem farið var að morgni til grasa og komið heim að kvöldi. Var sérstakur foringi (grasaforingi) fyrir hverjum hópi grasafólks?

Að tína grös.
Lýsið grasatínslu. Hvenær var byrjað að morgni? Var yfirleitt við það miðað, ef hægt var, að tína fjallagrös með náttdögg eða í rekju? Hvernig dreifði grasafólkið sér um grasalandið við tínsluna? Hvernig var staðið að því að tína? Hvernig var gengið frá tínupokanum (laus eða í bandi og þá hvernig bundinn)? Var tínupokinn dreginn um grasalandið við tínsluna? Hvernig vann fólk að þessu (hálfbogið, á hnjánum t.d.)? Losuðu allir úr tínupoka í sama grsapoka eða sekk? Hvað þótti hæfilegt magn af nýtíndum grösum í dagsverk eins manns, karls eða konu?

Frágangur og flutningur.
Hvernig var gengið frá grasapokum til heimflutnings? Minnist m.a. á hvernig torðið var í poka, hvernig gengið var frá opum og hvernig bundið var í klyfjar. Var nokkur áætlun um þyngd klyfja? Hvað nefndust grasasekkir bundnir í klyfjar? Var magn grasa miðað við heimfluttar klyfjar (grasakapall)? Lýsið flutningi heim, þar sem farið var gangandi í grasalandið.

Þurrkun, geymsla, hreinsun.
Lýsið þurrkun og geymslu fjallagrasa. Hvar og hvernig fór þurrkun fram? Hvenær og hvar var unnið að því að hreinsa fjallagrös að mosa eða öðru? Gerðist það við þurrkun eða jafnóðum og grösin voru tekin til matar? Hvernig var unnið að hreinsun? Nefndist þetta eittvhað sérstakt? Voru mismunandi aðferðir við hreinsun? Lýsið ílátum (pottum eða öðru), sem fjallagrös voru geymd í. Hvar voru þau geymd (skemmuloft, hjallur t.d.)? Hvernig var þeim komið fyrir í geymslu?

Grasajárn, grasabretti.
Hvað nefndust áhöld, sem notuð voru við söxun eða skurð fjallagrasa (grasajárn, grasastokkur, grasabretti t.d.)? Lýsið þeim, gerð þeirra og stærð. Teiknið grasajárn, ef tök eru á. Voru mismunandi aðferðir notaðar við að saxa eða skera grös t.d. miðað við gerð skurðjárns? Fór þetta e.t.v. fram við eldunarpottinn, jafnvel á hlemmi á pottinum sjálfum? Voru grös notuð ósöxuð eða óskorin í mat, t.d. slátur? Vita menn dæmi þess, að þurrkuð fjallagrös hafi verið möluð með korni í kornmyllu?

Fjallagrös til matar.
Lýsið eins nákvæmlega og unnt er, hvernig fjallagrös voru notuð til matar. Minnist m.a. eftirfarandi atriða:
a) Grasagrautur: Voru fjallagrös notuð við grautargerð með mismunandi korntegundum? Voru þau jafnan söxuð smátt út í grauta? Voru þau soðin lengi, áður en útákast (mjöl, korn) var sett út í pottinn? Var þetta gert í ákveðnum hlutföllum (grös móti mjöli)? Var grauturinn að jafnaði hnausþykkur (matarmikill)? Hvernig var hann gefinn eða borinn til matar (í súrhræru, skyrhræru t.d., heitur, kaldur, útálát o.s.frv.)? Var grasagrautur fremur bundinn við vissa árstíma eða vissa matmálstíma? Hvert var álit manna á grasagraut hvað við kom saðningu eða gæðum?
b) Fjallagrös í slátur: Lýsið hvernig fjallagrös voru notuð við sláturgerð til matar eða búdrýginda. Voru fjallagrös notuð jöfnum höndum í slátur, sem átti að geyma, eða var eytt eftir hendinni, eins og sagt er? Í hvaða hlutfalli voru fjallagrös notuð á móti mjöli í blóð? Voru fjallagrös notuð í lifrarpylsu? Voru fjallagrös notuð á annan hátt við sláturgerð?
c) Brauð: Voru fjallagrös notuð saman við mjöl við brauðgerð (pottbrauð, flatbrauð o.s.frv.)? Lýsið því. Var eitthvert ákveðið hlutfall milli mjöls og grasa við brauðgerð?
d) Að hleypa grös: Var algengt að hleypa fjallagrös ein sér til matar (grasahlaup)? Lýsið því. Hvernig var hlaupið gefið til matar? Var ekki hleypt nema til eins máls í senn?
e) Grasamjólk: Segið frá grasamjólk, suðu grasanna og öðru, er efnið varðar.
f) Grasavatn, grasate: Var seyði af fjallagrösum notað t.d. í kaffi í stað eða til drykkjar? Lýsið því.
g) Lýsið þætti fjallagrasa í nútíma matseld og breytingum, sem hafa orðið á meðferð þeirra í matargerð, ýmist af eigin reynslu eða fyrir áhrif matreiðslubóka.

Fjallagrös til lækninga.
Lýsið á hvern hátt fjallagrös voru notuð til lækninga. Voru ákveðin veikindi (kvef, hæsi o.s.frv.), er seyði af fjallagrösum var álitið eiga vel við? Lýsið tilbúningi þess. Voru fjallagrös notuð á annan hátt til lækninga (bakstur, smyrsli t.d.)? Voru fjallagrös notuð við lækningar dýra? Eru lækningar með fjallagrösum á einhvern hátt iðkaðar enn í dag? Var þetta áður fyrr e.t.v. fremur bundið við ákveðin heimili og ákveðna menn? Var eitthvað af lækningum með fjallagrösum eða grasavatni runnið frá gömlum lækningabókum?

Fjallagrös í máli og sögum.
Eu til málshættir, orðtök, vísur eða einstakar sagnir er lúta að fjallagrösum, grasaferðum eða notkun fjallagrasa í heimilishaldi yfirleitt? Segið frá því og öðru er varðar efnið og ekki er enn fram komið í spurn og svörum.