Spurt er um sumardvöl barna í sveit, m.a. um ástæður dvalarinnar og hvaða börn voru send í sveit. Auk þess er spurt um vinnuframlag barnanna, frístundir þeirra, aðbúnað á bæjunum, samskipti og viðhorf og út í „leikskóla“ á sveitabæjum.
Nóvember 2007.
Sumardvöl barna í sveit.
Spurningaskrá 109
Nóvember 2007
Leiðbeiningar
Þú ert beðin(n) um að segja frá þinni eigin reynslu en ekki er nauðsynlegt að svara
spurningunum í réttri röð og má því frásögnin vera í samfelldu máli. Allar upplýsingar
eru mikils virði jafnvel þótt svör fáist ekki við öllum atriðum.Tekið skal fram að
stafsetning og skrift skiptir okkur engu máli, efnið er aðalatriðið. Ágætt væri ef þú
svaraðir í tölvupósti en alls ekki skilyrði. Ef að þú vilt fremur svara á pappír getum við
sent þér bréfsefni og umslag sem má setja ófrímerkt í póst.
Með því að svara samþykkir þú um leið eftirfarandi yfirlýsingu sem
heimildamenn þjóðháttasafns Þjóðminjasafns Íslands gera að öllu jöfnu:
Ég afhendi hér með þjóðháttasafni Þjóðminjasafni Íslands meðfylgjandi skrif
til varðveislu. Ég lýsi því hér með yfir að mér er kunnugt um og veiti
samþykki mitt til þess að gögnin tilheyri þjóðháttasafni og að safnið nýti
þau í þágu minjavörslunnar í landinu og almennings samkvæmt lögum.
Þetta þýðir að þjóðháttasafni er heimilt að skrá gögnin í rafrænan
gagnagrunn og gera þau aðgengileg öðrum söfnum, ein sér eða í
gagnagrunni, um tölvunet eða með öðrum aðferðum sem síðar kunna að
tíðkast. Einnig að gögnin séu afrituð í þágu annarra safna og almennings.
Viljir þú spyrja um eitthvað er velkomið að hafa samband við þjóðháttasafn
Þjóðminjasafnsins í síma 530 2200 (skiptiborð). Netfang agust@thjodminjasafn.is.
Send í sveit
Á hvaða árum varst þú í sveit á sumrin? Hve gamall/gömul varstu? Hvert fórst þú og
hve oft? Varstu hjá venslafólki eða vandalausum?
Hve lengi var dvöl þín í hvert skipti (t.d. nokkrar vikur, allt sumarið)?
Segðu frá undirbúningi, brottför og kveðjum. Hafðir þú farið áður að heiman?
Lýstu fyrsta ferðalagi þínu í sveitina. Hve langan tíma tók það? Var farið í rútu eða
einkabíl? Fórstu einn/ein eða var hugsanlega einhver með þér ? Hver? Hvað geturðu
sagt um eftirvæntingu, kvíða eða söknuð?
Ástæður sumardvalar
Af hverju varst þú sendur/send í sveit? Sóttist þú eftir því eða var það að frumkvæði
foreldra þinna? Hefðir þú frekar viljað vera í þéttbýlinu? Hvers vegna?
Er þér kunnugt um hvers vegna önnur börn eða unglingar voru send í sveit? Lágu
hugsanlega efnahagslegar ástæður að baki, t.d. að létta á heimilinu eða að vinna
fyrir sér?
Var einhverjum vandkvæðum bundið að komast í sveit á sumrin? Hvaða máli skipti
skyldleiki eða kunningsskapur í þessu sambandi?
Sóttust bændur eftir sumarbörnum? Hvers vegna?
Kannast þú við að til væru neikvæð viðhorf gagnvart kaupstaðarlífi en að sama skapi
jákvæð gagnvart sveitalífi og að það hefði áhrif á hvort börn færu í sveit? Nefndu
dæmi.
Hvaða börn
Er þér kunnugt um frá hvers konar heimilum börnin komu? Voru börn send í sveit á
vegum stofnana og hjálparsamtaka eins og t.d. Mæðrastyrksnefndar? Hversu algengt
var þetta?
Voru einhverjir sem sáu um að skipuleggja slíka sumardvöl? Hverjir? Hvað með
ráðningarþjónustur eða auglýsingar?
Á hvaða aldri telur þú að sumardvalarbörn hafi yfirleitt verið?
Hvar og hvenær
Frá hvaða þéttbýlisstöðum voru börnin einkum? Í hvaða sýslur eða landshluta fóru
þau helst?
Á hvaða árum telur þú að byrjað hafi verið að senda börn í sveit? Hversu algengt var
þetta, einnig á síðari árum til dagsins í dag?
Hve algengt var að börn væru fleira en eitt sumar á sama bæ? Var skipt um bæi og
ef svo var hvers vegna?
Hvað réði því hve lengi og hve oft börn fóru í sveit? Kom fyrir að dvölin væri stytt
sökum vanlíðunar eða af öðrum ástæðum?
Vinnuframlag
Hvaða störf varstu látinn vinna? Voru sum störf aðeins ætluð stelpum og önnur
strákum? Hvaða?
Hve langur var vinnudagurinn, hvenær hófst hann og hvenær lauk honum?
Leist þú hugsanlega fremur á sumardvölina sem frí en vinnu? Hvað fannst þér þá um
að þurfa að vinna?
Var greitt fyrir dvöl þína eða var litið svo á að þú ynnir fyrir þér?
Voru þér greidd einhver laun? Hve mikil og hvernig (með einhverju öðru en peningum
t.d. lambi)? Tók kaupið mið af aldri eða hækkaði eftir ákveðinn tíma? Hvernig nýttirðu
kaupið?
Hvenær fóru börn almennt að vinna í þínu ungdæmi? Var einhver munur á
kaupstaðarbörnum og sveitabörnum hvað þetta snerti svo þér sé kunnugt um?
Var börnum misboðið með of miklu vinnuálagi svo þér sé kunnugt um? Nefndu dæmi.
Á hvaða stigi voru búskaparhættir meðan á dvöl þinni stóð? Var t.d. notað orf og ljár
við heyskapinn eða hestar? Hvað með tæknivæðinu og vélakost?
Frístundir
Fékkst þú eða önnur aðkomubörn að sofa lengur á morgnana en fullorðna fólkið? En
heimabörnin? Klukkan hvað fórst þú að sofa og hvenær á fætur?
Hvernig varðir þú frítíma þínum og hve mikill var hann? Hvaða úti- og innileiki var
farið í. Kom fyrir að fullorðnir tækju þátt? Hvar voru helstu leiksvæðin?
Hverjir voru helstu leikfélagar þínir? Var leikið sér við húsdýr, t.d. hunda?
Hvað geturðu sagt um útreiðartúra eða aðrar skemmtiferðir? Var t.d. farið í heimsókn
á aðra bæi? Hverjir fengu að koma með?
Var haldið upp afmæli sumarbarna? Hvernig? Hverjum var boðið?
Hvaða bækur, blöð eða tímarit voru til á bænum? Nefndu dæmi. Gafst þér eða öðrum
börnum tækifæri til að lesa og hvenær?
Voru kenndar þulur, kvæði og sagðar sögur? Hvaða? Hver sagði frá/kenndi og við
hvaða tækifæri?
Aðbúnaður og hreinlæti
Hvernig var húsnæðið í sveitinni (gott, slæmt, steinhús, timburhús, torfbær)? Lýsið
húsakynnum í stórum dráttum.
Varst þú í einn í herbergi eða með öðrum? Hverjum?
Sváfu fleiri en einn í hverju rúmi? Hverjir og hve margir? Var það algengt? Þekktist að
strákar og stelpur svæfu í sama rúmi?
Hvenær voru matar- og kaffitímar og hve langir? Hvað var helst á boðstólum? Nefnið
gjarnan einhverja rétti eða kaffibrauð ef unnt er. Hjálpaðir þú eða önnur börn til við
matargerðina eða frágang á eftir?
Segðu frá klæðnaði sem þú notaðir í sveitinni, einnig fóta- og höfuðbúnaði. Var hann
e.t.v. að einhverju leyti frábrugðinn þeim fötum sem þú notaðir í þéttbýlinu?
Þurftir þú að fata þig upp að einhverju leyti áður en þú fórst í sumardvölina eða var
það hugsanlega gert eftir á?
Var rennandi vatn, rafmagn, hiti eða ljósamótor þann tíma sem þú varst í sveit?
Hve oft var skipt um á rúmum meðan á dvölinni stóð? En nærföt og ytri föt? Hversu
oft í mánuði voru þrifin gólf og lagað til?
Var aðstaða til að fara í bað? Hvernig og hve oft var það gert? Ef ekki var aðstaða til
að fara í bað hve reglulega gastu þvegið þér um allan líkamann? Hve oft þvoðu menn
sér um andlit og hendur?
Hvernig var salernisaðstöðu háttað? Hvað fannst þér um að nota kamar, ef hann var
fyrir hendi? Kynntist þú því að notuð væru dagblöð í stað salernispappírs?
Samskipti og viðhorf
Hvernig var að koma í fyrsta skipti í sumardvöl? Var vel tekið á móti þér? Hvernig?
Fannstu mikið/lítið fyrir eiðraðleysi, óyndi eða heimþrá?
Hvernig líkaði þér dvölin?
Hvernig kom aðkomubörnum saman við heimilisfólkið? Nefnið bæði jákvæða og
neikvæða þætti. Mynduðust hugsanlega sterk tengsl sem héldust eftir að sumardvöl
lauk, í mörg ár eða jafnvel allt lífið? Hvernig lýstu þessi tengsl sér?
Við hverja hafðir þú mest samskipti meðan á dvölinni stóð? Tilgreinið gjarnan bæði
börn og fullorðna. Í hverju voru þau samskipti aðallega fólgin?
Kom fjölskylda þín í heimsókn meðan á dvöl þinni stóð? Hve löng var heimsóknin?
Fékkst þú eða önnur sumarbörn sendingar eða pakka að heiman? Hve oft og um
hvað var einkum að ræða?
Ef fjölskylda þín átti ættingja í sveit í hverju voru samskipti við hana aðallega fólgin
og hve mikil?
Kannast þú við að sumarbörn hafi verið beitt áminningum eða refsingum af einhverju
tagi? Geturðu nefnt dæmi? Við hvaða aðstæður var það gert og af hverjum?
Varðst þú eða einhver sem þú þekktir beitt(ur) harðræði eða jafnvel ofbeldi? Í hverju
var það fólgið og við hvaða aðstæður?
Hvað með stríðni eða áreitni, hverju nafni sem það nefnist?
“Leikskólar” á sveitabæjum
Á sumum sveitaheimilum voru reknir eins konar “leikskólar” á sumrin. Hefur þú
reynslu af að hafa verið í slíkum “skóla” eða einhver sem þú þekkir? Ef svo er,
greindu frá þeirri starfsemi sem þar fór fram og hvað einkum var boðið upp á. Hversu
mikið fengu börnin að vera innan um skepnur og búskapinn? Hve löng var dvölin?
Hvar og hvenær voru slíkir “leikskólar” starfræktir? Unnu einhverjir aðrir þar en
fjölskylda bóndans? Hverjir? Var eitthvað eftirlit með þessari starfsemi?
Hvernig líkaði þér vistin? Teljið gjarnan upp bæði jákvæða og neikvæða þætti.
Hver heldur þú að hafi verið aðalástæða þess að foreldrar kusu að senda börn sín í
“leikskóla”í sveit? Var einhver munur á frá hvaða þéttbýlisstöðum þessi börn og önnur
sumardvalarbörn komu?
Voru börn send í “leikskóla”í sveit á vegum stofnana eða hjálparsamtaka eins og t.d.
Mæðrastyrksnefndar? Hversu algengt var þetta?
Hvernig komst á samband við bændur eða rekstraraðila “leikskólanna”? Hvaða
skipulag var á flutningum barna úr þéttbýli í sveit?
Þekkirðu einhver dæmi um að sveitaskólar hafi verið leigðir undir “leikskóla” eða
sumarbúðir. Segðu frá þeirri starfsemi sem þarna fór fram. Í hvaða mæli gafst
börnunum kostur á að kynnast sveitalífinu? Hve löng var dvölin?
Hverjir stóðu fyrir slíkum rekstri skólahúsa að sumarlagi (bændur, sveitarfélög t.d.)?
Hvaða menntun hafði starfsfólkið og hvaðan kom það? Telur þú að það hafi verið
eitthvað eftirlit með þessari starfsemi? Á hvaða stöðum og tímabili var starfsemi sem
þessi í gangi?
Persónulegar upplýsingar um heimildarmann
Nafn og heimilisfang.
Fæðingardagur og ár.
Hvar ertu fædd(ur) og uppalin(n), hvar hefur þú einkum dvalist á fullorðinsárum og við
hvað hefur þú starfað?
Nöfn, fæðingarár, fæðingarstaðir og atvinna foreldra.
Forsíðumyndin er tekin á Hæli í Gnúpverjahreppi, Árnessýslu, um 1955. Ljósmynd Gísli Gestsson,
Þjóðminjasafn Íslands.