LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Lýsingu vantar

Barnið; fæðing og fyrsta ár

ÞMS
Spurningaskrá 1963-2
Hlaða öllum svörum niður í PDF

Þjóðháttaskráning Þjóðminjasafnsins X.

Barnið, fæðing og fyrsta ár:

Þessi spurningaskrá fjallar um barnið við fæðingu og á fyrsta ári. Er þar að vonum margs að minnast, ekki síst á sviði þjóðtrúar. Hér er hvergi spurt um atriði eða trú, sem ekki hefur þekkst einhvers staðar. Margt er þar fjarlægt nútímafólki en ekki hægt að ganga fram hjá því, þegar samin er spurningaskrá fyrir landið í heild. Vonandi leiða svörin líka ýmislegt í ljós, sem ekki er beinlínis vikið hér að í spurningum. Allur fróðleikur varðandi þetta efni er vel þeginn.
Þjóðháttaskráningin færir öllum vinum sínum þakkir og óskir um, að þeir lofi henni enn um sinn að njóta fyrirgreiðslu og vinsemdar.

I. Meðgöngutíminn
Segið frá því sem kona varð að varast um meðgöngutímann í mat og drykk, geðbrigðum, samskiptum við dýr og ýmsum athöfnum.
Þekktust aðferðir til að auka frjósemi, eða til að koma í veg fyrir getnað? Segið frá því.

II. Ljósmóðir

1. Hvað nefndust konur sem tóku á móti börnum, lærðar eða ólærðar (ljósmóðir, yfirsetukona, nærkona)? Sé um fleiri en eitt nafn að ræða - hvað var algengast?

2. Voru sambærileg nöfn notuð um karlmann, sem tók á móti börnum?

3. Nefndust börn sem sama ljósmóðir hafði tekið á móti, ljósbörn eða ljósubörn hennar?

4. Var orðið “ljósa” almennt notað af börnum og fullorðnum um konu þá sem hafði tekið á móti þeim?

5. Var algengt að ljósumæður tækju börn heim með sér til að annast þau? Hve langan tíma?

III. Fæðingin
1. Hvað var það nefnt, er kona tók léttasótt (að taka léttasótt, leggjast á sæng, leggjast á gólf eða annað)?

2. Átti fæðing að ganga betur með nýju tungli en gömlu?

3. Hvað var það nefnt er fæðing gekk illa (að koma hart niður t.d.)? En andstæðan (að koma létt niður t.d.)?

4. Þekktu gamlar ljósmæður nokkur ráð, sem nú eru niðurlögð til að greiða fyrir erfiðri fæðingu (lausnarsteinar t.d.)?

5. Hvernig voru lausnarsteinar notaðir?

6. Hvernig skilja menn orðið “blóðbönd” eða “að liggja í blóðböndum”? Þekkja menn nokkrar sagnir um það?

7. Var heillavænlegt fyrir barn að fæðast á hátíð eða helgum degi?

8. Var nokkur sérstök trú í sambandi við fæðingarstund barns?

9. Var nokkurt mark tekið á því gagnvart ævi barns, hvernig fæðing þess gekk?

10. Var talað um það að barn “væri í læknum”, meðan ekki var búið að skilja á milli?

11. Var talað um það að barn “lægi í grasinu” eða “gólaði í grasinu” er það var nýfætt?

12. Var nokkurt mark tekið á fyrsta gráti barns?

13. Var ljós borið yfir nýfætt barn? Í hvaða tilgangi?

14. Segið frá öðru sem varðar fæðingu barns.

IV. Fylgjan

1. Hvað nefndist fósturhimnan sem fylgdi barninu, að meira eða minna leyti, við fæðingu (sigurkufl t.d.)?

2. Hvað boðaði það fyrir barnið? Fór það ef til vill að einhverju leyti eftir því hvar “kuflinn” var á barninu, að hve miklu leyti hann huldi barnið og hvort barnið var piltur eða stúlka?

3. Hvað var gert við sigurkuflinn?

4. Hvað var gert við barnsfylgjuna (grafin við rekkjustokk móðurinnar, undir þröskuldi, í bæjardyrum eða annars staðar, sett í hlóðavikið, borið yfir hana ljós í kross, móðirin látin stíga yfir hann o.s.frv.)? Var sérstaklega að því gætt að ekkert dýr stigi yfir fylgjuna? Hver annaðist um þetta (ljósmóðirin, faðir barnsins t.d.)?

5. Var barnsfylgjan tengd trúnni á það að hver maður ætti sér fylgju, sem fylgdi honum til æviloka?

6. Hverju var annars trúað um fylgjur manna og tildrög þeirra?

V. Helgun og þvottur

1. Var signt yfir nýfædd börn? Hvernig?

2. Þekkjast sagnir um það að ljósmæður hafi þurrkað blóð fram af ljósmóðurskærunum og sett með því blóðkross á enni og brjóst barnsins?

3. Þekkjst nokkrir siðir í sambandi við laugatrog og laugavatn? Voru önnur nöfn notuð um ílátið og vatnið?

4. Var dúkur breiddur í trogið undir barnið? Nefndist hann nokkuð?

5. Var signt yfir trogið áður en barnið var lagt í það?

6. Var eitt eða annað í ævi manna miðað við laugatrogið? Var t.d. um það rætt að maður sem myndi eftir sér í laugatroginu yrði 100 ára?

7. Var almennt trúað að þeir sem mundu snemma eftir sér næðu háum aldri?

VI. Auðkenni

1. Var nokkur sérstök trú í sambandi við frumburði?

2. Var nokkur sérstök trú í sambandi við vansköpuð börn?

3. Boðuðu sveipir í hári eitthvað? Hvað voru þeir kallaðir?

4. Var nokkurt mark tekið á pétursspori í höku eða spékoppum í kinnum? Nefndust þau auðkenni eitthvað annað?

5. Boðuðu fæðingarblettir eitthvað? Nefndust þeir annað (músablettir t.d.)?

6. Var mark tekið á háu enni? Nefndist það eitthvað (höfðingsenni t.d.)?

7. Var mark tekið á hrukkum á enni og var eitthvert nafn á þeim (skáldahrukkur t.d.)?

8. Boðaði augnlitur eitthvað? Hvernig var því lýst (Gráeygur og grimmlyndur o.s.frv. t.d.)?

9. Þekktist orðið skáldaugu um blá augu?

10. Var mark tekið á því ef barn var sambrýnt? Hvernig?

11. Nefndist dæld (hola) í lærum umgbarna eitthvað?

12. Var nokkur trú varðandi barnahjal? Nefndist það eitthvað annað?

13. Voru önnur auðkenni á nýfæddu barni sem tekið var mark á, varðandi upplag þess og framtíð?

14. Var nokkur merkingarmunur á orðunum kornabarn og ungbarn?

VII. Reifar
1. Lýsið reifum, efni þeirra og gerð.

2. Hvernig var barn reifað? Hvað hafði það næst sér, undir reifunum?

3. Var sérstakt naflabindi notað?

4. Voru til sérstakir reifalindar? Lýsið þeim.

5. Hvernig var búið um höfuð ungbarna?

6. Hve oft á sólarhring var skipt á börnum? Voru þau lauguð jafnframt?

7. Með hverju voru þau þvegin (fjörusvampi t.d.)? Var fjörusvampur hirtur í þeim tilgangi og hvað var hann nefndur (njarðarvöttur t.d.?)

8. Voru börn signd í hvert sinn sem skipt var á þeim? Hvernig, höndin t.d. látin nema við andlit barnsins og brjóst? Hvað var þá sagt?

9. Höfðu konur almennt duft (skaf) til að bera á ungbörn? Hvernig var þess aflað og hvað nefndist það (barnamold, barnaaska, skaf t.d.?)

10. Hve gömul voru börnin er hætt var að reifa þau? Var orðið reifastrangi almennt notað um barn í reifum?

11. Hvenær lagðist niður að reifa börn?

12. Var barnið lagt í rúmið hjá móður sinni er búið var að reifa það í fyrsta sinn?

13. Segið frá öðru sem varðar reifa og föt ungbarna?

VIII. Næring

1. Þekkjast sagnir um það að sveinbörn hafi fengið fyrstu næringu gegnum eiruggabein úr fiski og þá í hvaða tilgangi?

2. Var fremur sjaldgæft að mæður hefðu börn sín á brjósti? Hvenær breyttist það?

3. Var kúamjólk yfirleitt ekki blönduð með vatni handa kornabörnum?

4. Vita menn dæmi þess að blábunur hafi verið mjólkaðar úr kúm til að næra með ungbörn?

5. Var önnur mjólk notuð handa ungbörnum (sauða-, geita- og kaplamjólk)?

6. Hvaða ílát var notað undir barnsmjólkina áður en barnspelar urðu algengir (askur, nói t.d.)?

7. Hvernig var barnspípan (fjöðurstafur, bein úr fuglsvæng t.d.)?

8. Var einkum sælst til að fá barnspípu úr fuglum sem höfðu fagra rödd (álftum t.d.)? Var forðast að hafa barnspípu úr ránfuglum eða sumum sjávarfuglum, t.d. súlum?

9. Hvað nefndist ræma sem pípan var vafin með (píputraf t.d.)?

10. Hvenær var almennt byrjað að nota barnspela og smíða horntúttur?

11. Var eitthvað annað en horn notað í stað túttu (svampur, melrætur, vorullartog t.d.)?

12. Voru börn vanin af því með sérstökum ráðum að nota pela?

13. Hvenær var byrjað að gefa börnum tyggjandi mat (átmat)?

14. Lýsið dúsu. Var hún kölluð nokkuð annað (táta t.d.)? Hvernig var matreitt í hana?

IX. Vaggan

1. Voru vöggur almennt notaðar handa börnum að liggja í?

2. Voru vöggur yfirleitt með völtum?

3. Nefndust þær eitthvað annað (rugga t.d.)?

4. Var vagan ekki borin inn í baðstofu eða um hana búið fyrr en barnið var fætt?

5. Hvenær var barnið lagt í vögguna (á fyrsta eða öðrum degi)?

6. Þekkjast sagnir um það að börn hafi átt að leggja í vöggu með aðfalli í fyrsta skipti?

7. Var signt yfir vögguna áður en barnið var lagt í hana? Var nokkuð lesið (haft yfir um leið)?

8. Hvernig var búið um barnið í vöggunni og hvað hétu plöggin sem lögð voru í hana?

9. Var orðið “bos” notað um sérstakt fat (plagg) I vöggu, t.d. lepp með ösku í eða var það notað um rúmið yfirleitt?

10. Kannast menn við orðatiltækið “að viðra úr bosinu” eða “að liggja í bosinu”?

11. Var nokkur hlutur lagður í barnsvöggu til að vernda barnið ef þurfti að skilja það eitt eftir inni (guðsorðabók, skæri t.d.)?

12. Sagði fólk eitthvað sérstakt ef því hraut blótsyrði yfir barni t.d.: “Guð blessi barnið”?

13. Var bannað að vagga tómri vöggu? Hvað lá við ef út af því var brugðið?

14. Signdu gestir yfir ungbarn í vöggu eða heilsuðu því með einhverjum hætti?

15. Segið frá öðru sem varðar vöggu og vöggubarn.

X. Tennur

1. Hvað nefndust tennur sem komnar voru í ljós á nýfæddum börnum (skáldagemlur t.d.)? Hvað boðuðu þær?

2. Var barni gefið eitthvað er fyrsta tönn þess kom í ljós? Hvað var það nefnt (tannfé t.d.)? Hvað felst í því?

3. Hver gaf tannfé (faðir t.d. eða sá sem fyrst sá tönnina)?

4. Var nokkurt mark tekið á því hvernig barn varðveitti tannfé sitt er það óx á legg?

5. Hvað var gert við barnstennur er þær losnuðu (settar í mold t.d.)?

6. Var eitthvað sagt er gengið var frá tönninni?

XI Skírn

1. Hvað var það kallað er barn var skírt nafni lifandi manns (“að skíra í höfuðið á” eða annað)? Var algengt að biðja manninn um nafnið?

2. Var talað um “að láta barn njóta nafns”? Hvað felst í því?

3. Hvað var það kallað ef barn var skírt nafni látins manns (skíra eða heita eftir t.d.)?

4. Var höfð ótrú á því að skíra eftir látnu barni eða manni sem hafði dáið í æsku?

5. Var því trúað að barn líktist þeim sem það var heitið eftir og hvað var það nefnt (að líkjast nafni t.d.)? Hvað var það nefnt ef þetta brást (að kafna undir nafni t.d.)?

6. Hvað var það kallað ef barn líktist í ætt sína (að því kippti í kynið t.d.)?

7. Hvað var það nefnt er ófeðrað barn líktist ákveðnum manni óskyldum í móðurætt (það sver sig í ættina t.d.)?

8. Var algengt að varpa hlutkesti um nöfn á óskírðu barni? Hvernig var það gert?

9. Hvað var það nefnt ef konu dreymdi látinn mann, einn frekar öðrum um meðgöngutímann (að hann vitjaði nafns t.d.)?

10. Var það yfirleitt tekið til greina og því trúað að barnið yrði gæfusnautt að öðrum kosti?

11. Létu foreldrar barn heita nöfnum sínum til að koma í veg fyrir að þeir eignuðust fleiri börn?

12. Var venja að gerfa barni nafn manns sem nýlátinn var í kirkjusókninni, er það fæddist? Var það þá skírt við líkkistu hans? Hvar, heima eða í kirkjunni?

13. Hver hélt barninu undir skírn (ljósmóðir t.d.)?

14. Var venjulega skírt í kirkju?

15. Nefndist úrfelli eða regn, er barn var flutt til skírnar, skírnarskúr? Þekkist nokkur trú varðandi skírnarskúr?

16. Var nokkur trú varðandi börn sem skírð voru milli pistils og guðspjalls í messu eða um skírnardag og skírnarstund?

17. Lýsið skírnarfötum (skírnarkjóll, skírnarhúfa t.d.).

18. Kannast menn við málsháttinn: “Það er ekki vandskírt fátækra barn”?

19. Hver skírði skemmri skírn, ef þörf krafði (ljósmóðirin t.d.)?

20. Var því trúað að veikt barn myndi öðlast bata við skírn?

21. Var tekið mark á því ef barn grét mikið við skírn?

22. Var höfð trú á skírnarvatni til lækninga? Hvernig?

23. Hvar var skírnarvatninu hellt niður (í baðstofuþekju yfir rúmi föður, skvett innan um baðstofuna, hellt í hreina (gróna) jörð t.d.)?

24. Voru börnum gefnar skírnargjafir? Hvað helst?

25. Var algengt að klippa lokk úr hári barns eftir skírnina og geyma? Hvað nefndist hann (skírnarhár t.d.)?

26. Hvað voru börn annars gömul er byrjað var að klippa hár þeirra og neglur?

27. Voru gestir við skírnina? Var þá gerður dagamunur í mat og drykk? Lýsið skírnarveislu.

28. Kannast menn við orðið skírnarpeli? Í hvað merkingu?

XI. Sængurkona

1. Hve lengi lá kona á sæng að jafnaði?

2. Vann hún nokkur verk á sænginni?

3. Hvað nefndist kona sem lá á sæng (sængurkona eða annað)?

4. Eru nokkur orðtök þekkt um sængurkonur (Það er sár sængurkonusulturinn t.d.)?

5. Var sjálfsagt að sængurkona færi í nýgerða skó er hún steig í fyrsta skipti af barnssænginni? Lá nokkuð við ef þetta var ekki gert?
6. Hver gerði skóna? Voru þeir kallaðir nokkuð?

7. Gerði konan heimilisfólkinu dagamun í mat er hún steig á fætur eftir barnsburð? Var glaðningurinn nefndur eitthvað (sængurbiti t.d.)?

XII. Sængurfærsla

1. Var algengt að færa konu sem lá á sæng gjafir og hvað var það kallað (að færa á sængina, no. sængurfærsla, sængurgjöf t.d.)?

2. Voru það eingöngu grannnkonur og vinkonur sem færðu á sængina?

3. Hvað var gefið (matur, fatnaður o.s.frv.)?

4. Tíðkast þessi siður enn þann dag í dag?

5. Hve margir dagar liðu frá fæðingu barns, þangað til hæfilegt þótti að færa á sængina?

XIII. Málshættir og vísur

Skrifið málshætti og vísur (barnagælur) um börn. Kannast menn m.a. við eftirtalda málshætti: Blessun fylgir barni hverju, Oft kemur björg með barni, Böl er ef barn dreymir, nema sveinbarn sé og sjálfur eigi, Daufur er barnlaus bær?

 

/