Nóvember, 1962
Þjóðháttaskráning Þjóðminjasafnsins VIII.
Fráfærur.
Inngangsorð.
Fráfærur er forn og merkilegur þáttur í búskap þjóðarinnar. Þær munu nú hvarvetna úr sögunni, og má þó vænta þess, að margir kunni enn á þeim góð skil. Að örfáum atriðum í þessari skrá hefur áður verið vikið í fyrri spurningaskrá (“Að koma mjólk í mat”). Geta heimildarmenn vísað til fyrra svars, ef um það er að ræða. Þjóðháttaskráningin vill, enn sem fyrr, þakka öllum aðstoðarmönnum sínum mikilsvert starf í hennar þágu og sendir þeim beztu kveðjur og óskir.
Heiti:
Heimili:
Fæðingardagur og fæðingarár:
Fæðingarstaður:
Nöfn og fæðingastaðir foreldra:
Við hvaða sveit eða hérað eru svörin einkum miðuð?
Stekkur.
1. a) Lýsið stekk, byggingu hans og gerð.
b) Hvernig var háttað afstöðu stekkjar til bæjar? Var ákveðin vegarlengd miðuð við stekkjarveg eða stekkjargötu?
c) Var stekkurinn einnig notaður sem rétt og þá t.d. með dilk eða dilkum?
d) Kom fyrir, að margir bæir væru um einn stekk?
e) Var tún ræktað umhverfis stekkinn? Hvað var það kallað, stekkatún, stekkjartún t.d.? Lifir þetta ennþá í örnefnum?
2. a) Hvað nefndist lambakró við stekk (stekkjarkró, stekkur, lambakró, lambabyrgi t.d.)?
b) Var aðeins lambakróin nefnd stekkur? Hvað nefndist þá réttin við stekkinn?
c) Var lambkróin notuð sem fjárhús á vetrum?
d) Hvernig var uppgerzlu hennar og dyraumbúningi háttað?
e) Var sérstakt gat á krónni til að setja lömbin inn um?
Hvað nefndist það?
Kvíar.
1. a) Lýsið fastakvíum, byggingu þeirra, efni og gerð. Var breidd þeirra t.d. miðuð við hæfilegt gangrúm fyrir mjaltakonu, er ær röðuðu sér að veggjum?
b) Var fastakvíum haldið við á sama stað ár eftir ár?
c) Hvernig var háttað afstöðu kvía til bæjar? Var miðað við kvíagötu líkt og t.d. stekkjargötu, er rætt var um stytta leið?
d) Voru kvíarnar hreinsaðar (mokaðar) með vissu millibili?
e) Var taðið notað til áburðar?
f) Voru tvennar kvíar á tvíbýlisjörðum?
g) Stóðu þær saman, eða var bil á milli þeirra?
h) Var kvíabólið ákveðinn blettur við kvíarnar eða var það kvíarnar og umhverfi þeirra?
i) Var almennt talað um að fara á bólið eða, að féð væri komið á bólið?
2. a) Lýsið færikvíum. Hvaða viður var notaður í þær, skógviður t.d.?
b) Útrýmdu færikvíar fastakvíum, eða tíðkaðist hvort tveggja í sömu sveit, þar til fráfærur lögðust niður?
c) Voru ræktuð upp tún með færikvíum?
d) Var grindatað (færigrindatað) notað til eldsneytis?
Náttahagar.
1. Voru sérstakar girðingar til að bæla kvífé í á nóttum? Hvað hétu þær, fjárbæli, nátthagi t.d.? Lýsið þeim.
Stekktíð.
1. a) Hvenær byrjaði stekktíð að jafnaði, og hve lengi stóð hún yfir?
b) Var hún kölluð nokkuð annað, stekkjartími t.d.?
c) Var fært frá öllum mylkum ám, er til náðist?
d) Hvað nefndist stekkjarvinna (so. að stía, stekkja, vera á stekknum o.s.frv.)?
e) Hvenær var lambféð rekið á stekkinn að kvöldi?
f) Hvernig var stíað? Var ánum hleypt á haga, er því var lokið?
g) Hvenær voru ærnar reknar inn til mjalta að morgni?
h) Var hver ær þá mjólkuð á báðum spenum eða aðeins öðrum?
i) Hvað voru stekkjarmjaltir nefndar (að hrifsa, mjólka frá, mjólka af taka frá, taka undir eða annað?
j) Þótti stekkjarmjólk kostminni en önnur mjólk?
k) Hvernig var hún notuð til matar?
l) Var staðið (setið) yfir stekkjarfé daglangt eða aðeins meðan mæðurnar voru að lemba sig (finna lömbin)?
2. a) Voru sauðarefni gelt á stekknum? Hvernig var að því unnið?
b) Voru lömbin mörkuð á stekknum? Voru lömb ekki mörkuð í kari?
c) Markaði bóndinn lömbin, ekki annar heimilismaður? Notaði hann vasahníf sinn til þess? Hvar hafði hann hnífinn milli þess, sem hann brá honum á eyrun, milli tannanna t.d.? Setti hann skoru í tré við hvert lamb, sem hann markaði?
d) Hvað kölluðust gróf eyrnamörk, soramark, særingamark t.d.? Var “hrein” mold borin í eyrnasárið, ef mikið blæddi?
e) var algengt að skrúðadraga lömb í eyrun? Hvernig, og í hvaða tilgangi? Var það nefnt nokkuð annað (að spottadraga t.d.)?
e) Var algengt að gefa smalanum eða börnunum stekkjarlamb?
g) Segið frá öðru, er varðar stekktíð og enn er ekki fram komið.
Fráfærur.
1. a) Hvað nefndist tíminn, sem tók við af stekktíð, fráfærur t.d.? Var orðið fráfærur miðað við ákveðna tímalengd? Var einnig miðað við fráfærudaginn eða fráfærnadaginn?
b) Hvað voru lömbin gömul, þegar þau voru færð frá?
c) Hvað nefndist síðborið lamb, sem ekki varð fært frá (síðgotungur, sumrungur t.d.)?
d) Voru til sérstök orð um lömb, sem týndu mæðrum sínum og þroskuðust lítt sumarlangt (undanflæmingur, undanvillingur, graskútur, köggull, kreista t.d.)? Var merkingarmunur á þeim?
e) Voru önnur orð notuð um lömb með vanþrifum (öfugsnáði t.d.)?
2. a) Hvernig var staðið að því að skilja lömb frá mæðrum á fráfærudaginn?
b) Voru lambahöft notuð um fráfærur, hve lengi og hvernig?
c) Lýsið lambahafti. Voru sömu höft notuð frá ári til árs?
d) Hvað felst í orðatiltækinu “að láta lömb hlaupa um stekk”? Var einnig sagt: “Ærnar hlaupa (um) stekkinn? Hvað felst í því?
e) Undir hvaða nafni gengu fráfærulömb almennt (hagalamb, graslamb, hagfærlingur, fjalllamb t.d.)? Hvort sögðu menn heldur fráfærulamb eða fráfærnalamb?
f) Voru dæmi þess að fráfærulömb væru byrgð í húsi fyrstu dagana eftir fráfærur og slegið handa þeim gras til fóðurs?
g) Voru lömbin rekin í hafti af stað í sumarhagann?
h) Voru dæmi þess að fráfærulömb væru flutt í kláfum eða laupum yfir stórár á leið í sumarhaga?
i) Var um það rætt að reka lömb “ekki kvik” í sumarhaga? Hvað felst í því?
j) Hvaða orðum var annars um það farið að róa (spekja) lömb um fráfærur (að hnekkja, afmæða, sparhalda eða annað)?
k) Hvað nefndist skilnaðarjarmur sauðfjár (óður t.d.)?
l) Var orðatiltækið “eins og jarmur á stekk” notað um mikinn klið eða hávaða? Var orðið stekkjarjarmur notað í sömu merkingu?
m) Var lýsisspónn (eða annað) borinn í hrygg á fráfærulömbum? Í hvaða tilgangi, til að drepa lús t.d.?
n) Voru vissir staðir í landareigninni, sem fráfærulömbum var haldið í,meðan verið var að venja þau undan mæðrunum, í giljum t.d.? Minna örnefni á það?
o) Voru ákveðnir staðir öðrum fremur, valdir til sumargötnu fyrir fráfærulömbin?
p) Var algengt að kaupa sumargöngu fyrir þau á fjarlægum stöðum? Var þá miðað við gamla reglu um greiðslu hagatolls, t.d. eitt lamb greitt fyrir hver tuttugu?
q) Voru lömin setin fyrstu dagana í sumarhaganum? Höfðu gæzlumenn þar byrgi til að skýla sér í? Hvað nefndust þau?
r) Hvaða ráðum var beitt við lömb, sem leituðu heim úr sumarhaga (leppur bundinn fyrir augu og reidd burtu t.d.)?
s) Hvað nefndust lömb, sem sóttu, hvað eftir annað, saman við kvífé (sugulömb, sníkjulömb t.d.), og hvernig var að þeim búið (kefld t.d.)?
t) Lýsið lambakefli, og hvernig frá því var gengið.
u) Hvað var sagt, er lamb þoldi ekki kefli (“lambið fellir löginn” t.d.)? Lýsið því.
v) Kom fyrir, að fjárlitlir bændur “færðu frá” með keflingu? Gengu lömbin þá sumarlangt með mæðrunum?
x) Voru lömbin látin ganga með keflunum til hausts?
y) Kom fyrir, að haustlömb væru sett í haft, er þau komu af fjalli? Hvað var það nefnt (að parraka t.d.)?
z) Segið frá öðru, er varðar fráfærulömb og enn hefur ekki á góma borið.
Hjásetan.
1. a) Hvað nefndist starfið við að halda kvífé á haga og smala því (hjáseta, að sitja yfir t.d.)?
b) Var það einkum starf barna og unglinga að sitja yfir kvífé?
c) Var nokkur föst, gömul venja um sumarkaup smalans, er hann var vandalaus húsbændum, sem kallað var?
d) Naut smalinn nokkurra sérréttinda í sambandi við dagleg matföng (smalafroða eða ærnyt í kvíum, stallbaugur í rjómatrogi, smalaostur o.s.frv.)? Getið þess sérstaklega úr hvað íláti hann drakk mjólk í kvíum. Var það fyrsta nytin, sem hann fékk? Spændi hann froðuna upp úr fötunni? Fékk smalinn einnig froðuna ofan af flóningarpottinum?
e) Fékk smalinn einn frídag á sumri, smalareiðarsunnudaginn t.d. Hvernig varði hann honum? Fékk smalinn jafnframt verðlaun fyrir vel unnið starf, t.d. nytina úr beztu kúnni þann dag?
f) Var smalanum ætlaður ákveðinn hestur til reiðar, þar sem honum varð viðkomið (á sléttlendi)?
g) Var smalaspor nefnt á hestum? Hvar?
h) Hafði smalinn ákveðið beizli og reiðver ásamt ístöðum (smalabeizli, smalaístöð)? Lýsið þessu.
i) Hafði smalinn sérstakan nestismal (smalamal)? Lýsið honum.
j) Hvað nefndist stafur smalans (smalaprik t.d.)? Var hann broddlaus og húnalaus?
k) Hafði smalinn nokkur aukastörf með hjásetunni?
l) Hvað gerði hann sér til skemmtunar í tómstundum?
m) Átti smalinn skýli til að hlífa sér í, er veður var vont? Hvað var það kallað?
n) Lýsið nesti, og getið þess sérstaklega, ef smalarakkanum var ætlað nesti, aukalega.
o) Fékk smalarakkinn mjólk að lepja við kvíarnar? Hve mikið, ærnyt, tvær kúskeljar fullar t.d.? Fékk hann einnig froðu til að sleikja?
p) Var hundsbolli (hundssteinn) við kvíarnar?
q) Var setið daglangt yfir kvífénu? Hve langt fram á sumar?
r) Voru ærnar byrgðar í kvíunum eða nátthaga um lágnættið framan af sumri? Hve margar vikur?
s) Hvenær voru þær þá reknar í haga að maorgni?
t) Hvenær var ánum smalað til mjalta að morgni? En að kvöldi?
u) Eftir hverju fór smalinn með heimrekstur (eyktarmörkum voð breidd á bæjarhús t.d.)?
v) Hvernig var svefntíma og svefnstað smalans hagað?
x) Var kvífé laðað að kvíum með kalli (“kví, kví” t.d.)?
y) Hvernig var háttað innrekstri í kvíar, þar sem þær voru tvær á tvíbýlisjörðum?
z) Muna menn vísur, orðtök eða málshætti, sem lúta að starfi smalans (Sér eignar smalamaður fé, þó hann eigi ekki, o.s.frv.)?
Kvífé.
a) Var kvífé auðkennt með einhverjum hætti (með háls- eða hornböndum, bikað í krúnu t.d.)? Lýsið því.
b) Var hálsband á sauðfé nefnt helsi?
c) Voru styggar ær hábundnar? Var hábundið með tvennum hætti? Hvernig? Úr hverju voru böndin unnin?
d) Var stygg ær tengd við spaka? Hvernig? Hvað var það nefnt (að bendla t.d.)?
f) Kom fyrir, að tálgað var af klaufum á kvífé til að koma í veg fyrir, að það rásaði úr heimahögum?
f) Var spakt fé (eirið) nefnt kvífast? Hvaða orð voru notuð um andstæðuna, stygga kind (fjallafála t.d.)?
g) Hvað nefndust kindur, sem sóttu í tún, öðrum fremur (meinhorn, meinári t.d.)?
h) Þurfti með einhverjum hætti að vernda kvífé gegn tófunni (með bjöllum, úldið hundskinn vafið um horn t.d.)?
i) Voru bjöllur notaðar til þess, að auðveldara væri að finna sauðfé í dimmviðri eða þoku?
j) Steyptu íslenzkir koparsmiðir sauðarbjöllur?
1. a) Var greint á milli júgurbólgu og undirflogs í kvífé? Hvaða munur var þar á?
b) Var undirflog nefnt annað (no. undirflug, undirtak, so. að taka undir, fljúga undir t.d.)?
c) Hvernig var reynt að lækna undirflog og júgurbólgu (hverfissteinsleðja, lýsi, botnfall úr keytukeraldi, smyrsli úr lyfjagrasi eða annað borið á júgrið)? Lýsið lækningasmyrslum og öðru, er þetta efni varðar (Sbr. annars: Þjóðtrú).
d) Greinið frá öðrum kvillum kvífjár (kvíahelti, kvíahósti o.s.frv.)
Mjaltir.
1. a) Lýsið ílátum, sem notuð voru við mjaltir í kvíum, og greinið frá nöfnum þeirra. Var mjólkin borin heim í sömu fötunum og mjólkað var í?
b) Hvað nefndust mjaltaföt, sem notuð voru í kvíum (kast, kvíakast, kvíahosur t.d.)? Lýsið þeim.
c) Hvernig stóð mjaltakonan að því að mjólka hverja á (staða og handtök)?
d) Var hver ær tví- eða þrímjólkuð í mál framan af sumri? Hvað nefndust þá mjaltirnar (fyrirmjölt, miðmjölt og eftirmjölt t.d.)?
e) Var sett merki á hverja á að loknum mjöltum eða milli mjalta? Hvernig? Í hvaða skyni var það gert, og hvað var það kallað (að bletta, penta eða annað)?
f) Hvað var það nefnt, ef gengið var nærri ám við mjaltir, þurrmjólkaðar, eða því sem næst (að tuttla, totta, naga, blóðnaga t.d.)?
g) Hvað nefndust fyrstu kvíamjaltir á hverju sumri (gleypumál t.d.)? Var matreitt úr þeirri málsmjólk með einhverjum sérstökum hætti?
h) Voru ær vinnuhjúa og barna mjólkaðar í sér ílát í kvíum og mjólkinni aldrei blandað saman við aðra mjólk?
i) Hvað var sá sérbúskapur kallaður (samlagsbú t.d.)?
j) Hvað var unnið úr þeirri mjólk (smjör, skyr, súr o.s.frv.), og hvað var gert við afurðirnar?
k) Gengu ílát, sem þessi sérmatur kom í, undir einhverjum ákveðnum nöfnum (samlagsfata t.d.)?
l) Hvað var það nefnt, er mjög dró úr nyt hjá kvífé sökum veðurs (nytin, dropinn dettur úr ánum t.d.)?
m) Hvenær var kvíamjöltum hætt að hausti?
n) Voru mörg dægur látin líða milli næstsíðustu og síðustu mjalta í kvíum?
o) Hvað var það kallað, er síðast var farið undir ærnar (að taka undir ærnar t.d.)?
p) Hvað nefndist síðasta málsmjólk í kvíum (sauðaþykkni t.d.)? Hvernig var sauðaþykkni matreitt?
q) Hve mikið smjör fékkst eftir hverja á til jafnaðar, sumarlangt?
r) Lýsið öðru, sem varðar meðferð sauðamjólkur, sauðaábrystum t.d.
Þjóðtrú.
1. a) Var nokkuð hirt um eyrnasnepla, sem skárust brott, þegar lömb voru mörkuð (grafnir í jörð t.d. eða stungið í veggjarholu)?
b) Var sama, hvaða litur var á lambinu, sem fyrst var markað?
c) Var gætt að sjávarfalli (hvernig stóð á sjó), þegar lömbin voru mörkuð, vegna blæðingar úr eyrum t.d.)?
d) Var því trúað, að eyrnamörk væru misjafnlega lánsöm?
e) Reyndu menn að taka upp nýtt mark til að öðlast fjárheill?
g) Vita menn dæmi þess, að lamb fæddist með marki, er síðan var upp tekið?
2. Voru hrútlömb gelt með aðfalli? Hvers vegna?
3. Máttu börn ekki kyssa lömb eða sauðfé yfirleitt? Hvers vegna?
4. Voru stekkja- og kvíakampar aðeins hlaðnir með aðfalli?
5. a) Hvaða ráð þekkti þjóðtrúin til að spekja kvífé (setja salt í eyru, grafa hrafntinnu í kvíadyr, leiða aðfengna á um jarðfastan stein o.s.frv.)?
b) Var froðukross settur á hverja á eftir mjaltir? Hvar og hvers vegna?
c) Var signt yfir ær að loknum mjöltum, eða á eftir hópnum, er honum var hleypt út úr kvíunum?
d) Var sérstök bælingaþula höfð yfir, er skilið var við kvífé að kvöldi, líkt og t.d., er skilið var við kýr í haga? Hvernig hljóðaði hún?
e) Var önnur þula höfð yfir, er fénu var hleypt út úr kvíunum? Hvernig var hún?
6. a) Hvað nefndust útbrot á nösum sauðfjár að sumri (álfabruni t.d.)?
b) Var reynt að lækna undirflog með töfrabrögðum (mjólkað gegnum kross í lykilskeggi, skærhús, kvistgat, mjólkað í glóð, logandi brennistein, tjörukross settur á malir o.s.frv.)?
c) Hvernig skýrði þjóðtrúin orsakir undirflogs (ærin snakksogin, fugl hafði flogið undir hana, o.s.frv.)? Voru nokkur ráð til að koma í veg fyrir það (grafa hrafntinnu í kvíadyrnar t.d.)?
7. a) Var veðurspá fólgin í háttum kvífjár, mismunandi nythæð eða öðru, er það snerti (regn, sólskin, stormur o.s.frv.)?
b) Hvað boðaði sauðfé í draumi?
8. Minnast menn annars, er varðar kvífé, eða sauðfé yfirleitt, í íslenzkri þjóðtrú?