Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
Lýsingu vantar

Minningar úr héraðsskólum

ÞMS
Spurningaskrá 2017-1
Hlaða öllum svörum niður í PDF

Minningar úr héraðsskólum

Þjóðminjasafn Íslands

Spurningaskrá 115

Tilgangurinn með þessari spurningaskrá er að safna upplýsingum um daglegt líf í héraðsskólum á Íslandi og öðrum heimavistarskólum til sveita á unglingastigi. Söfnunin byggir eingöngu á frásögnum fyrrverandi nemenda og er því fyrst og fremst verið leita eftir minningum fólks.

 

Spurningaskráin er hluti af þjóðháttasöfnun Þjóðminjasafns Íslands sem hófst árið 1960. Hægt er að kynna sér afraksturinn á vefslóðinni sarpur.is. Nöfn heimildarmanna birtast ekki.

 

Héraðsskólar voru formlega stofnaðir 1929 og störfuðu áfram sem slíkir fram undir aldamótin 2000. Flestir aðrir sveitaskólar með heimavist tóku til starfa á síðari hluta 20. aldar. 


Myndin sýnir Héraðsskólann á Laugarvatni um 1920-1940 (Þjóðminjasafn Íslands).


Spurningaskrá 115, minningar úr héraðsskólum


Haldið í héraðsskóla

Í hvaða héraðsskóla varst þú og á hvaða árum? Hvers vegna varð þessi skóli fyrir valinu?

 

Segðu frá undirbúningi fyrir skólavistina, kveðjum og brottför að heiman.

 

Hvað tókst þú með þér í skólann (rúmfatnaður, kassettutæki, spil, gítar, bækur t.d.)?

 

Hvað er þér helst minnisstætt frá fyrstu ferð þinni í skólann? Upplifðir þú eftirvæntingu eða kvíða?

 

Hve langt var skólaárið? Hvenær byrjaði það og hvenær endaði það? Hvenær voru frí?

 

Segðu frá skólalokum ár hvert og útskrift. Varstu fegin(n) að komast í burtu eða upplifðir þú eftirsjá eftir samfélaginu í skólanum?

 

Tengsl við fjölskyldu og heimili

Lýstu samskiptum við fjölskyldu þína meðan á skólavist stóð. Hve mikil voru þau og á hvaða formi (símtöl t.d.)? Var eitthvað um heimsóknir að heiman eða heim?

 

Hvernig upplifðir þú aðskilnaðinn við heimili þitt og þína nánustu (heimþrá, söknuður t.d.)?

 

Húsakynni og rými

Hvernig fannst þér húsakynni skólans vera svona almennt? Hvað var jákvætt og hvað var neikvætt?

 

Lýstu skólastofunum þar sem þér var kennt í stórum dráttum (innanbúnaður t.d.).

 

Hve margir voru saman í herbergi á heimavist. Hvað réði því með hverjum maður lenti? Hve lengi voru nemendur saman í herbergi (eitt skólaár t.d.)?   

 

Segðu í aðalatriðum frá innanbúnaði í þínu herbergi. Hvernig var snyrtiaðstaðan t.d.?

 

Var ákveðin sæta- eða svæðaskipting í kennslustofum, matsal, heimavist eða annars staðar innan skólans? Eftir hverju fór það, ef svo var?

 

Hvernig hagnýttu nemendur sér sameiginleg rými (setustofu t.d.)?

 

Mötuneyti og þvottahús

Hvenær voru matar- og kaffitímar og hve langir?

 

Nefndu gjarnan hvað var á boðstólum, hvers konar réttir og kaffibrauð, frá ólíkum máltíðum dagsins. Var boðið upp á eitthvað til hátíðabrigða, hvaða daga og í hverju fólst þessi tilbreyting? Hvernig fannst þér maturinn (góður, einhæfur t.d.) ? Hvaða máli skipti hann (gleðigjafi, ávísun á samveru t.d.)?

 

Þurftu nemendur að vinna í mötuneyti eða borðsal, við ræstingar á skólahúsnæði eða önnur störf? Hversu oft og mikið?

 

Var þvottahús í skólanum? Hvað var þvegið af nemendum og hve oft í mánuði ef svo var?

 

Skóladagurinn

Hve marga daga í viku var kennt og hve langur var skóladagurinn? 

 

Segðu frá bóklegri kennslu í stórum dráttum (námsgreinar, kennsluaðferðir t.d.).

 

Hvaða verklegar greinar voru kenndar? Hvað er þér helst minnisstætt? Var verklega kennslan kynjabundin á einn eða annan hátt og hvernig lýsti það sér ef svo var?

 

Fenguð þið einhverja aðra verklega þjálfun? Hverja ef svo var? Hvernig hefur þessi verklega kennsla eða þjálfun nýst þér í lífinu?

 

Hvernig var leikfimi- og sundkennslu háttað (hvað var kennt, tæki t.d.). Var kennslan mismunandi eftir kynjum og hvernig lýsti það sér ef svo var?

 

Hvað var helst gert í frímínútum? Var t.d. fótbolta- og körfuboltavöllur? Voru frímínútur skipulagðar eða alveg frjálsar? Hve langar voru þær og hve oft á dag?

 

Segðu frá heimanámi (reglur, ein[n] eða með öðrum, aðstoð, tímalengd t.d.).

 

Hefðir

Hverjar voru helstu hefðir í skólanum að þínu mati (heiti, stund, staður, hvað var gert t.d.).

 

Manst þú eftir bröndurum eða sögum um skólann, próf, kennara og annað starfsfólk? Viltu segja frá þessu?

 

Segðu frá dularfullum fyrirbærum, þjóðtrú eða hjátrú, sem þekktist innan skólans (próf, húsakynni, yfirnáttúrulegar verur t.d.).

 

Félagslíf   

Í hverju fólst félagslíf í skólanum helst (viðburðir, skemmtanir, félög t.d.)? Hverjir skipulögðu félagslífið eða höfðu frumkvæði að því (nemendur, skólinn t.d.)? Hvernig var þátttakan (stelpur/strákar)?

 

Var hugsanlega litið á þátttöku nemenda sem félagslega þjálfun og því lögð áhersla á hana af hálfu skólans? Tóku kennarar þátt? Getur þú sagt frá þessu?

 

Hvaða íþróttir voru helst stundaðar? Voru nemendur hvattir til þátttöku? Voru haldnar keppnir innan skólans eða við aðra skóla?

 

Hvaða reglur giltu um neyslu áfengis og tóbaks? Var farið eftir þeim? Hvernig brást skólinn við brotum á þessum reglum? Þekktust sterkari efni og ef svo var hvaða?

 

Hvaða reglur, skrifaðar eða óskrifaðar, giltu um heimavistina (svefntími, heimsóknir, eftirlit t.d.)?

 

Samskipti

Hvað er þér helst minnisstætt við starfsfólk skólans og samskipti þín við það (kennarar, starfsfólk í mötuneyti t.d.)?

 

Vera á heimavistarskóla hefur í för með sér mikil samskipti við aðra nemendur. Hvaða áhrif telur þú að þetta hafi haft á líf þitt bæði þá og til langframa?

 

Urðu til sterk vinasambönd? Hve lengi héldust þau sambönd, jafnvel til dagsins í dag?

 

Kanntu að segja frá samskiptum kynjanna (vinátta, kærustupör, kynlíf t.d.)?

 

Í heimavistarskólum hefur stundum verið talað um einstaklinga sem vilja ráða yfir öðrum nemendum (foringjar). Var um eitthvað slíkt að ræða í þínum skóla og hvernig lýsti það sér, ef svo var?

 

Varst þú eða einhver sem þú vissir um fyrir einelti, niðurlægingu eða kynferðislegu áreiti? Vilt þú að segja frá þessu? Hvernig var tekið á slíkum málum, ef um þau var að ræða?

 

Hversu mikil tengsl eru á milli fyrrverandi skólafélaga? Er einhver vettvangur fyrir að hittast og hvernig hefur þátttakan verið?

 

 

 


 

/