Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
Lýsingu vantar

Sundlaugamenning á Íslandi

ÞMS
Spurningaskrá 2013-2
Hlaða öllum svörum niður í PDF

Kæri heimildarmaður.

Á Íslandi eigum við í sérstöku sambandi við heitt vatn, en sundlaugar landsins gegna stærra hlutverki í þjóðlífinu en gengur og gerist í grannríkjunum. Laugin og potturinn eru mikilvægir samkomustaðir, en hlutverk þeirra snýst um allt í senn: Lýðheilsu, lífsgæði, íþróttir, leik, afslöppun, skemmtun, hreinlæti, samræður og samneyti.

Tilgangurinn með þessari spurningaskrá er að safna almennum upplýsingum um sundlaugaferðir, sundkennslu, samskipti og hegðun á sundstöðum, líðan fólks og veru þess í sundlauginni og heita pottinum - eða með öðrum orðum um sundlaugamenningu á Íslandi.

Miðað við hve mikilvægar sundlaugarnar eru vantar mikið upp á þekkingu okkar á þeim. Sérstaklega skortir okkur skilning á sambandi sundsins við samfélag, sögu og hugmyndir okkar um líkamann. Nú óskum við eftir þinni aðstoð við að bæta úr þessu.

Vönduð svör við spurningaskránni verða sett í sérstakan „lukkupott“. Tíu svör verða dregin úr pottinum, en verðlaunin eru hálfsárskort í sundlaug að eigin vali. Til þess að komast í pottinn verða svörin að berast fyrir kl. 17 föstudaginn 29. nóvember 2013.

 

Leiðbeiningar

Nákvæmar leiðbeiningar um hvernig þú svarar spurningunum átt þú að hafa fengið í tölvupósti og vísast til þeirra hér. Þú getur svarað hverri spurningu fyrir sig, en þér er líka velkomið að skrifa svarið í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef þér finnst það betra. Öllum framlögum verður tekið fagnandi þótt svör fáist ekki við öllum atriðum sem spurt er út í. Ekkert er ómerkilegt í þessu samhengi og þetta er ekki keppni um besta pennann. Gott er að skýra svörin með dæmum. Frásagnir og fróðleikur mega gjarnan fá að fljóta með.

Hægt er að svara spurningaskránni í áföngum, t.d. einum kafla í einu, og halda áfram seinna. Nauðsynlegt er að vista textann við hverja spurningu.

Þeir sem það kjósa geta svaraðnafnlaust og verða svör þeirra þá varðveitt ópersónugreinanleg. Mikilvægt er þó að fá upplýsingar um kyn, aldur, starf og við hvaða staði og tímabil svörin eru miðuð.

Vinsamlegast hafðu samband við undirritaðan ef að einhverjar spurningar kynnu að vakna.

Með bestu kveðjum og gangi þér vel að svara
Ágúst Ólafur Georgsson
fagstjóri þjóðhátta
Þjóðminjasafni Íslands
Suðurgata 43
101 Reykjavík
Sími 530 2246
Netfang agust@thjodminjasafn.is

 

Persónuupplýsingar

Nafn, fæðingarár, sveitarfélag, starf, menntun/í hvaða námi, kyn, þjóðerni.

Við hvaða staði og tímabil eru svörin miðuð?

 

Þeir sem það kjósa geta svaraðnafnlaust og verða svör þeirra þá varðveitt ópersónugreinanleg. Mikilvægt er þó að fá upplýsingar um kyn, aldur, starf og við hvaða staði og tímabil svörin eru miðuð.

 

Almennar upplýsingar um sundlauganotkun þína

Segðu frá dæmigerðri heimsókn á sundstað og lýstu því hvað þú gerir á hverju svæði fyrir sig (anddyrinu, klefanum, sturtunni, sundlauginni, djúpu lauginni, barnalauginni, heitu pottunum, gufunni o.s.frv.).

 

Hvers vegna ferð þú í sund? Eftir hverju ert þú að sækjast?

 

Hvað ferð þú oft í sund að jafnaði? Hefur það verið breytilegt í gegnum tíðina? Hvaða laugar hefur þú mest sótt og hvers vegna?

 

Er eða hefur verið regla á því á hvaða tíma dagsins þú ferð í sund? Hvers vegna? Ferð þú að jafnaði ein(n) í sund eða með öðrum?

 

Sundkennsla

Á hvaða aldri byrjaðir þú að læra sund? Í hve mörg ár lærðir þú?

 

Var sundkennsla hluti af skólagöngu þinni eða fór hún fram utan skóla? Hvar var kennt og hve stóran hluta ársins?

 

Hvernig var sundkennslu háttað? Var kennt eftir aldurshópum eða kyni? Hvað finnst þér um sundkennsluna og hverjar voru áherslurnar?

 

Samskipti og hegðun

Hvaða óskráðar reglur eða viðmið gilda um samskipti og hegðun sundgesta? Getur þú nefnt dæmi um að brotið sé gegn þessum óskráðu reglum?

 

Hvaða munur er á þessum óskráðu reglum eftir svæðum (anddyrinu, klefanum, sturtunni, sundlauginni, djúpu lauginni, barnalauginni, heitu pottunum, gufunni o.s.frv.)?

 

Tala sundgestir um mismunandi hluti á ólíkum svæðum í lauginni? Um hvað?

 

Hvaða áhrif hefur það á líðan þína eða samskipti við aðra sundgesti hvað allir eru lítið klæddir? Hagar þú þér öðruvísi en þú myndir gera fullklædd(ur) úti á meðal fólks? Hvernig? Hvaða dæmi þekkir þú um að þetta hafi áhrif á líðan og hegðun annarra sundgesta?

 

Líkami og hreinlæti

Hafa ferðir í sundlaugina áhrif á það hvernig þú hugsar um líkamann? Hvernig þá?

 

Hefur þú skoðanir á líkamsumhirðu annarra sundgesta? Getur þú nefnt dæmi?

 

Hvað finnst þér um hreinlæti á sundstað?

 

Í sundlauginni

Hvað kannt þú best að meta við sundferðina? En síst?

 

Hefur þú komið þér upp föstum venjum í sambandi við heimsóknir þínar á sundstað? Hvaða venjum? Hvers vegna?

 

Hvernig líður þér þegar þú ert búin(n) í sundi (líkamlega, andlega)?

 

Með hvaða hætti hafa sjón, lykt, hljóð, bragð og snerting áhrif á líðan þína í sundi?

 

Finnur þú mun á því hvernig þér líður og hvernig þú hegðar þér á ólíkum svæðum eða í ólíkum tegundum lauga (t.d. í innilaug, útilaug eða heitri laug)? Hvernig þá?

 

Finnur þú mun á því hvernig þér líður í sundi og hvernig þú hegðar þér eftir árstíðum, veðri eða tíma dags? Hvernig þá?

 

Finnur þú mun á því hvernig þér líður í sundi og hvernig þú hegðar þér eftir því hve margir eða fáir eru í lauginni á sama tíma og þú? Hvernig þá?

 

Hvað í hönnun og umhverfi þeirrar sundlaugar sem þú sækir mest ert þú ánægð(ur) eða óánægð(ur) með?

 

Heiti potturinn

Hverju ert þú að sækjast eftir þegar þú ferð í heita pottinn? Er upplifunin breytileg eftir árstíðum, tíma sólarhringsins eða öðrum utanaðkomandi aðstæðum?

 

Hverjir eru það sem sækja heita pottinn? Er munur á aðsókn eftir kyni eða aldri?

 

Hvaða samræður fara fram í heita pottinum og hverjir taka þátt í þeim? Er eitthvað umræðuefni frekar rætt en annað? En sem þykir síður við hæfi að ræða?

 

Hafa aðstæður og umhverfið í heita pottinum áhrif á samræðurnar á einhvern hátt? Finnast þér samræður svipaðar í heita pottinum og annars staðar þar sem fólk kemur saman?

 

Hvernig veljast menn saman í potta (tilviljun, kunningsskapur, menntun)?

 

Sundgesturinn

Hvaða búnað tekur þú með þér á sundstað og í hvaða tilgangi?

 

Getur sundbúnaður eða aðrir þættir í fari sundgestsins gefið vísbendingar um stöðu eða persónuleika viðkomandi? Með hvaða hætti?

 

Tekur þú eftir mismunandi sundtísku eða tískusveiflum, t.d. eftir aldri sundgesta, sundstöðum eða tímabilum? Hvernig lýsir þetta sér?

 

Sundminningar og sögur úr sundi

Er einhver saga eða minningar úr sundi sem þú myndir vilja segja frá í lokin?

 

 

/